Færsluflokkur: Bækur
23.10.2022 | 09:54
Flott plata
- Titill: Bláturnablús
- Flytjandi: Gillon
- Einkunn: ****
Gillon er listamannsnafn Gísla Þórs Ólafssonar. Hann er Skagfirðingur, búsettur á Sauðárkróki. Hann hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka og hljómplatna. Allt vænstu verk. Á nýjustu afurðinni, plötunni Bláturnablús, eru öll lögin og ljóðin frumsamin. Gillon syngur að venju og spilar á kassagítar og bassa. Hans hægri hönd er upptökustjórinn Sigfús Arnar Benediktsson. Hann spilar á trommur, rafgítar, gítarlele og ýmis hljómborð.
Söngstíll Gillons er "spes". Hann er í humátt eins og sitt lítið af Megasi, Bjartmari og Birni Jörundi. Stíllinn klæðir söngvana prýðilega. Ljóðin eru í frjálsu formi og súrrealísk. Sparlegu endarími bregður þó fyrir í einstaka ljóði.
Platan er frekar seintekin. Hún þarf nokkrar spilanir áður en fegurð laganna opinberast að fullu. Kannski spilaði inn í hjá mér að við fyrstu yfirferðir var athyglin á hugmyndaríku og skemmtilegu ljóðunum.
Útsetningar og hljóðfæraleikur eru snyrtileg og smekkleg. Enginn brjálaður hávaði og læti. Lögin flest róleg eða á hóflegum millihraða. Það er heldur poppaðra yfirbragð en á fyrri plötum Gillons. Til að mynda lýkur plötunni á "sing-along" tralli Gillons og þriggja kvenna. Gott niðurlag á flottri og skemmtilegri plötu.
Teikning Óla Þórs Ólafssonar á framhlið umslagsins er virkilega "töff".
Bækur | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.10.2022 | 00:02
Skemmtileg bók
- Titill: Glaðlega leikur skugginn í sólskininu
- Höfundur: Steinn Kárason
Sögusviðið er Skagafjörður á sjöunda áratugnum. Segir þar frá ungum dreng - 10 - 11 ára - á Sauðárkróki. Bakgrunnurinn er sjórinn, sjómennska og sveitin í þroskasögunni. Inn í hana blandast kaldastríðið, Kúbudeilan og Bítlarnir. Steinn kemur andrúmslofti þessara ára vel til skila.
Ég ætla að stór hluti sögunnar byggi á raunverulegri upplifun höfundar. Ég kannast við suma atburði sem sagt er frá. Ég var barn í Skagafirði á þessum tíma. Fyrir bragðið var sérlega gaman fyrir mig að rifja upp bernskubrekin. Bókin er þar fyrir utan líka skemmtileg og fróðleg fyrir fólk sem veit ekki einu sinni hvar Skagafjörður er. Mörg brosleg atvik eru dregin fram. En það skiptast á skin og skúrir. Ógeðfelldir atburðir henda sem og mannlegur breyskleiki í ýmsum myndum.
Þetta er stór og mikil bók. Hún spannar 238 blaðsíður. Káputeikning Hlífar Unu Bárudóttur er flott.
Steinn Kárason er þekktur fyrir fræðibækur, blaðagreinar, tónlist og dagskrárgerð í ljósvakamiðlum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.10.2021 | 19:15
Smásaga um mann sem týndi sjálfum sér
- Af hverju kemur þú svona seint heim? spurði konan ásakandi um leið og Raggi gekk inn um útidyrnar.
- Ég týndi mér, svaraði hann skömmustulega.
- Hvað meinar þú?
- Ég var að ganga niður Bankastræti þegar ég tók eftir því að ég var kominn fram úr mér. Ég reyndi að halda í við mig en það voru alltof margir ferðamenn sem flæktust fyrir. Að lokum missti ég sjónir af mér.
- Hvaða kjaftæði er þetta?
- Ég sver. Ég varð að ganga hús úr húsi í Austurstræti í leit að mér. Þetta var rosalega seinlegt. Sum húsin eru á meira en einni hæð. Ég var sannfærður um að ég væri þarna einhversstaðar. Ég var kominn alveg að Ingólfstorgi þegar ég fann mig á austurlenskum veitingastað. Ég lét mig heyra það óþvegið og dreif mig heim.
- Veistu, ég trúi þér. Mamma kom áðan í heimsókn og spurði hvar þú værir. Ég sagði henni að þú hefðir áreiðanlega týnt þér í miðbænum.
- Hvernig datt þér það í hug?
- Það var ekkert erfitt að giska á þetta. Þetta hefur endurtekið sig á hverju kvöldi í tólf ár.
Bækur | Breytt 17.10.2021 kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
8.5.2021 | 02:28
Smásaga um glaðvakandi mann
Jónsi er í kvöldheimsókn hjá Binna vini sínum. Þeir hafa ekki hist síðan þeir voru saman í skóla. Það eru meira en tvær vikur síðan. Þeir hafa því frá mörgu að segja og draga hvergi undan. Mikið er hlegið og tíminn er fljótur að líða. Fyrr en varir slær stofuklukkan tíu.
Ella, kona Binna, rekur nefið inn um stofugættina. Hún segir honum að drífa sig í háttinn.
"Róleg, kona," svarar hann. "Þú sérð að ég er með gest."
Það snöggfýkur í Ellu. Hún hleypur að Binna og sparkar í fótinn á honum. Hann rekur upp sársaukavein. Ella forðar sér úr stofunni.
Skömmu síðar er barið harkalega á dyr. Ella opnar dyrnar. Fyrir utan standa tveir lögregluþjónar gráir fyrir járnum. Annar er tröllvaxinn rumur. Hinn er nett dama. Hún spyr valdmannslega: "Hvar er pésinn sem vill ekki fara að sofa?"
Ella bendir á Binna. Löggurnar ganga að honum. Þær skella honum með látum í gólfið. Hann berst um á hæl og hnakka. En er ofurliði borinn. Löggurnar tæta utan af honum fötin. Svo mikill er atgangurinn að tölurnar slitna af skyrtunni hans og spýtast í allar áttir. Jónsi notar tækifærið og læðist óséður úr húsi.
Binni róast þegar hann er aðeins á nærbuxunum. Löggudaman kallar til Ellu: "Á hann náttföt?" Hún kannast ekki við það. En segist geta lánað honum náttkjól. Löggurnar troða honum í kjólinn. Troða í bókstaflegri merkingu. Hann er nefnilega of lítill. Í honum svipar Binna til lundabagga.
Binna er dröslað inn í rúm. Ella er komin undir sæng. Rumurinn spyr: "Eigum við ekki að sekta kvikindið?" Daman svarar: "Nei, ég veiti honum bara skriflega áminningu."
Hún dregur upp áminningablokk og fyllir út formið. Rumurinn spyr: "En má ég ekki rásskella hann?" Hún samþykkir það en tekur fram: "Aðeins eitt högg."
Hann lætur ekki segja sér það tvisvar. Hann hendir Binna á magann og slær hann kröftuglega á bossann svo smellur hátt í. Því næst snýr hann honum á bakið og skorðar þétt við Ellu. Hann breiðir sængina yfir þau. Alveg upp að höku. Hann hvíslar: "Góða nótt" og kyssir hjúin á ennið. Svo hverfur hann út í náttmyrkrið ásamt dömunni.
Bækur | Breytt 9.5.2021 kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.4.2021 | 01:24
Smásaga um fót
Bænastund er að hefjast. Bænahringurinn raðar sér í kringum stóra bænaborðið. Óvænt haltrar ókunnugur gestur inn á gólf. "Ég er með mislanga fætur," segir hann. "Getið þið beðið fyrir kraftaverki um að þeir verði jafn langir?"
"Ekki málið," svarar forstöðumaðurinn. "Leggstu á bakið hér ofan á borðið. Við græjum þetta."
Sá halti hlýðir. Forstöðumaðurinn leiðir bæn. Svo sprettur hann á fætur og grípur um fót gestsins, hristir hann kröftuglega og hrópar: "Í Jesú-nafni skipa ég þér fótur að lengjast!"
Þetta endurtekur hann nokkrum sinnum. Að lokum hrópar hann sigri hrósandi: "Ég fann fótinn lengjast! Þú ert heill, félagi."
Hann hjálpar gestinum að renna sér niður af borðinu. Þar fellur hann í gólfið en bröltir á fætur og fellur jafnharðan aftur í gólfið. Það fýkur í hann. Hann hrópar: "Helvítis fúskarar! Þið lengduð vitlausan fót!"
Forstöðumaðurinn reiðist líka. Hann hvæsir: "Það má ekki á milli sjá hvor fóturinn er vitlausari. Báðir snarvitlausir!"
Hann grípur um axlir gestsins og dregur hann að útidyrunum. Gesturinn er á fjórum fótum og spyrnir við. Hann minnir á kind í réttum sem þráast við að vera dregin í dilk.
Forstöðumaðurinn nær að henda honum út á hlað. Þar sparkar hann kröftulega í rassinn og hrópar: "Þakkirnar fyrir hjálp okkar eru ekkert nema vanþakklæti. Nú er munurinn á fótunum sá sami og þykkt gangstéttarhellu. Þú getur ólað hana á þig og gengið óhaltur."
Gesturinn fylgir ráðinu. Það reynist heillaráð.
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
18.1.2021 | 19:43
Glæsilegur pakki
Út er komin ljóðabókin "Staldraðu við". Hún inniheldur 156 kvæði; hvert öðru betra. Höfundur er Ólafur F. Magnússon. Þetta er hans önnur ljóðabók. Hin fyrri, "Ástkæra landið", kom út síðsumars í fyrra.
Ólafur yrkir á hefðbundinn hátt með stuðlum, höfuðstöfum og endarími. Ljóðin eru innhaldsrík og yrkisefnið fjölbreytt. Þau lýsa ást höfundar á náttúru Íslands, lífinu og trú á hið góða, vináttu og hamingjuna, svo fátt eitt sé nefnt. Mörg fjalla um nafngreinda einstaklinga, bæði lífs og liðna. Jákvæður andi svífur yfir bókinni - þó einnig sé minnt á dekkri hliðar tilverunnar. Töluvert er um uppbyggjandi heilræðisvísur.
Bókinni fylgir veglegur 12 laga geisladiskur. Þar af eru níu áður óútgefin. Upphafslagið er samnefnt bókinni, "Staldraðu við". Það er afar grípandi blús-smellur. Ef hann er spilaður að morgni þá sönglar hann í hausnum á manni það sem eftir lifir dags. Önnur lög eru ólík honum. Þau eru hátíðleg og bera keim af klassískri tónlist, þjóðlegum tónum og í sumum tilfellum sálmum. Lög Ólafs hafa frá upphafi verið góð og falleg og eru stöðugt betri.
Sama má segja um söng Ólafs. Hann hefur alltaf verið ágætur söngvari. Á síðustu árum hefur hann vaxið mjög sem söngvari. Hann syngur af miklu öryggi, yfirvegun, einlægni og innlifun. Annar söngvari á plö0tunni er Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir. Hún syngur líka á báðum fyrri diskum Ólafs. Hún er lærð í klassískum söng. Á plötunum syngur hún - blessunarlega - ekki í óperustíl. Hún hefur snotra söngrödd. Raddir þeirra Ólafs liggja mjög vel saman, hvort heldur sem þau syngja raddað saman eða skiptast á að syngja kafla og kafla.
Hægri hönd Ólafs í tónlistinni er Vilhjálmur Guðjónsson. Hann útsetur lögin - sum ásamt Gunnari Þórðarsyni. Hann spilar á öll hljóðfæri (um 20) ef frá er talinn gítarleikur Gunnars í sumum lögum. Einnig radda þeir félagarnir. Allt er þetta afgreitt snyrtilega af smekkvísi. Útsetningarnar klæða lögin afskaplega vel. Allt leggst á eitt með að ljóðabókin og platan eru glæsileggur pakki. Virkilega flottur pakki.
Bækur | Breytt 19.1.2021 kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.12.2020 | 03:02
Staldraðu við
Á dögunum kom út verkið Staldraðu við eftir Ólaf Friðrik Magnússon. Um er að ræða pakka með ljóðabók og hljómdiski. Hvorutveggja bókin og diskurinn eru gleðigjafar. Svo skemmtilega vill til að framarlega í bókinni rakst ég á flott kvæði sem heitir Jens Guð. Það er þannig:
Guðinn velur lögin vel
öðlingsmaður víst ég tel
að hann sé frá toppi í tá
tóna fagra greina má.
Höfðingi er hann í lund,
hýr og glaður hverja stund.
Vel af gæsku veitir hann
veit ég ei margan betri mann.
Gaman að þessu. Þegar ég hef oftar hlustað á diskinn og lesið ljóðabókina mun ég gera betri grein fyrir pakkanum.
Bækur | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.12.2020 | 17:21
Stórbrotin hrollvekja
- Titill: MARTRÖÐ Í MYKINESI - íslenska flugslysið í Færeyjum 1970
- Höfundar: Magnús Þór Hafsteinsson og Grækaris Djurhuus Magnussen
- Útefandi: Ugla
- Einkunn: *****
Eins og kemur fram í titlinum þá segir bókin frá hræðilegu slysi er íslensk flugvél brotlenti í Færeyjum fyrir hálfri öld. Hún lenti á lítilli einangraðri og fámennri klettaeyju, Mykinesi. Um borð voru þrjátíu og fjórir. Átta létust. Margir slösuðust illa.
Aðstæður voru hrikalegar; blindaþoka, hávaðarok og grenjandi rigning. Flak vélarinnar fannst ekki fyrr en mörgum klukkutímum síðar. Aðstæður við björgunaraðgerðir voru hinar verstu í alla staði. Að auki höfðu fæstir björgunarmanna reynslu af björgunarstörfum. Þeir unnu þrekvirki. Því miður hafa Íslendingar aldrei þakkað þeim af neinum sóma.
Bókin er afskaplega vel unnin. Ráðist hefur verið í gríðarmikla heimildarvinnu. Lýst er tilurð flugfélagsins og öllum aðdraganda flugferðarinnar til Færeyja. Við fáum að kynnast mörgum sem komu við sögu. Þar á meðal eru ný viðtöl við suma þeirra. Fjöldi ljósmynda lífgar frásögnina.
Forsaga slyssins og eftirmálar gera það sjálft mun áhrifaríkara. Öllu sem máli skiptir er lýst í smáatriðum. Þetta er hrollvekja. Lesandinn er staddur í martröð. Hann kemst ekki framhjá því að þetta gerðist í raunveruleika.
Bækur | Breytt 25.12.2020 kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.12.2020 | 22:31
Smásaga um búð
Það er rólegt í litlu hverfisbúðinni á horninu. Aðeins einn viðskiptavinur er þar innandyra. Það er öldruð kona. Hún kaupir eldspýtustokk. Hún stendur fyrir framan afgreiðsluborðið og telur peninga upp úr snjáðri peningabuddu. Það gengur brösuglega. Hún á erfitt með að greina á milli krónupenings, fimmkalls og tíkalls.
Afgreiðslumaðurinn leyfir henni að taka sér þann tíma sem þarf. Ekkert liggur á. Þau eru á svipuðum aldri og hafa átt í viðskiptum til áratuga.
Seint og síðarmeira tekst konunni að smala saman réttri upphæð. Er hún gengur út um dyrnar mætir hún ókunnugum manni. Hann er illa áttaður. Það er eins og hann viti ekki hvort hann er að koma eða fara. Hann gónir hikandi í allar áttir. Konan slær hann af öllu afli í andlitið með töskunni sinni. Svo heldur hún heim á leið. Það er eins og brái af karlinum. Hann þurfti á högginu að halda til að ná áttum. Samt er hann hikandi er hann læðist inn í búðina. Þar gengur hann ringlaður um og veit varla hvað hann er að gera.
Afgreiðslumaðurinn þreifar eftir hornaboltakylfu undir afgreiðsluborðinu. Hann gælir við þá hugmynd að lúberja komumann og ræna hann - ef svo vel vildi til að hann væri með verðmæti á sér. Með herkjum nær hann að stoppa sig og bryddar þess í stað upp á samræðum.
- Góðan dag. Get ég aðstoðað þig?
- Nei, ég veit það ekki.
- Hver veit það þá? Jólasveinninn kannski?
- Mér finnst eins og ég eigi ekki að vera hér.
- Það finnst mér líka. En af hverju ertu þá hérna?
- Ég var á leið í aðra smásögu en þessa og villtist af leið. Svo var ég allt í einu kominn í þessa sögu.
- Ég get reddað þér út úr þessari sögu ef þú vilt. Ég er höfundur hennar og ræð hvernig hún er.
- Ég vil gjarnan komast út úr þessari sögu. En hvernig kemst ég í réttu söguna?
- Það er þitt vandamál en ekki mitt. Hinsvegar skal ég gefa þér mandarínu í nesti. Um leið óska ég þér gleðilegra jóla, gott og farsælt komandi ár, þökkum liðið, fjölskyldan í Litla-Koti. Þar með ert þú úr sögunni.
Bækur | Breytt 20.12.2020 kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
11.12.2020 | 00:00
Hrikaleg bók
Haustið 1970 brotlenti íslensk flugvél í Færeyjum. Af 34 um borð létust átta. Aðstæður voru afar erfiðar. Nú er komin út stór og mikil bók um slysið. Hún heitir Martröð í Mykinesi. Undirtitill er Íslenska flugslysið í Færeyjum 1970. Höfundar eru Magnús Þór Hafsteinsson og Grækaris Djurhuus Magnussen.
Ég er nýkominn með bókina í hendur. Á eftir að lesa hana. En er byrjaður að glugga í hana. Hún er svakaleg. Ég geri betur grein fyrir henni þegar ég hef lesið hana. Það verður ekki gert á einum degi. Letur er frekar smátt og textinn spannar yfir á fimmta hundrað blaðsíðna.
Bækur | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)