Færsluflokkur: Samgöngur

Klúður sem verður að rannsaka

  Það er auðvelt að vera vitur eftirá.  Það hef ég sjálfur sannreynt.  Í mörgum tilfellum er einnig auðvelt að vera vitur í tæka tíð.  Vera forsjáll og hafa vaðið fyrir neðan sig.  Einkennilegt verður að teljast að gatnagerðamenn Reykjavíkur helluleggi við Hverfisgötu viðkvæmar og brothættar gangstéttarhellur sem molna þegar í stað eins og hrökkbrauð við notkun.

  Spurningar vakna:  Hefur enginn rænu á að kanna aðstæður áður en gengið er til verka?  Leyndi seljandi í útboði kaupanda hvert burðarþol gangstéttarhellunnar er?  Eða laug hann?  Það er ekki sjálfgefið að hellur sem eiga að þola þunga barnavagna beri rútur jafn léttilega.  Eða fór ekki fram útboð?  Var um klíkuskap að ræða?  

  Hugsanleg afsökun er að rútur eigi ekki erindi upp á gangstéttir.  Málið er að fyrir lá að rútur fara stöðugt upp á stéttina við Hótel Skugga.  Auðvelt er að sporna gegn því með auðskildu skilti sem bannar rútum að laumast upp á stétt.  Ef það er ekki virt er rútufyrirtækið sektað umsvifalaust og látið borga allan kostnað við skemmdir.  

  Eðlilegast er samt að leggja gangstéttir með þokkalegu burðarþoli.  Annað er vítavert og kallar á rannsókn þegar í stað.  Svona vinnubrögð mega ekki endurtaka sig.  Borgarsjóður hefur ekki efni á því.  

.  


mbl.is Hellur brotna undan flugrútum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er flugmaðurinn sem talar

  Þegar skroppið var til Amsterdam á dögunum þá flaug ég með flugfélaginu Wow.  Það geri ég alltaf þegar því er við komið.  Fyrstu árin voru flugfreyjur Wow uppistandarar.  Þær reittu af sér vel heppnaða brandara við öll tækifæri sem gafst.  Eðlilega gekk það ekki til lengdar.  Það er ekki hægt að semja endalausa brandara um björgunarbúnað flugvélarinnar,  útgönguleiðir og svo framvegis.  Því síður er boðlegt að endurtaka sömu brandarana oft þar sem fjöldi farþega ferðast aftur og aftur með Wow.

  Ennþá er létt yfir áhöfn Wow þó að brandarar séu aflagðir.  Ein athugasemd flugmannsins kitlaði hláturtaugar farþega á leið frá Amsterdam.  Hún kom svo óvænt í lok þurrar upptalningarþulu.  Þið kannist við talanda flugmanns í hátalarakerfi.  Röddin er lágvær, blæbrigðalaus og mónótónísk:  "Það er flugmaðurinn sem talar.  Við fljúgum í 30 þúsund feta hæð... Innan skamms verður boðið upp á söluvarning.  Upplýsingar um hann er að finna í bæklingi í sætisvasanum fyrir framan ykkur.  Í boði eru heitir og kaldir réttir,  drykkir og úrval af sælgæti. Mér finnst Nóa kropp best!"  

wow      


mbl.is Verið er að skoða töskur mannsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert skal halda 2016?

  Breska dagblaðið Daily Mail hefur tekið saman lista yfir heitustu staðina til að heimsækja 2016.  Heitustu í merkingunni girnilegustu,  ætla ég.  Listinn spannar tíu staði.  Hver um sig er kynntur með fögrum orðum.  Sannfærandi rök eru færð fyrir veru þeirra á listanum.   Það er ekki gert upp á milli áfangastaða í uppröðun í sæti.   

  Að sjálfsögðu trónir Ísland á listanum.  Fyrirsögnin er Iceland´s Warm Front (Íslands heita framhlið).  Landinu er lýst sem afar framandi undri.  Þar megi finna staði sem gefi þá upplifun að maður sé staddur á tunglinu.   Höfuðborgin,  Reykjavík,  sé umkringd töfrandi fossum,  jöklum,  eldfjöllum og norðurljósum.  

  Mælt er með því að ferðamenn tjaldi úti í íslenskri náttúru.  Þeir skuli þó einnig gefa sér góðan tíma til að ræða við innfædda.  Viðhorf Íslendinga til lífsins og tilverunnar séu "ja,  öðruvísi" (well,  different).  

  Vísað er á tilboðsferð til Íslands með Easy Jet.  Flug og vikudvöl á 3ja stjörnu Bed & Breakfast kosti rösklega 77 þúsund kall (412 pund).  Það er assgoti girnilegur pakki.  Geta Wow og Icelandair ekki boðið betur?

  Daily Mail klikkar á að nefna goshverina,  álfabyggðir og Bláa lónið.  Alveg á sama hátt og í annars ágætu myndbandi,  Inspired by Iceland,  vantar sárlega álfa og norðurljós.   

  Hinir staðirnir sem Daily Mail mæla með eru:  Noregur,  Þýskaland,  Bali,  Sri Lanka,  Ibiza,  Perú,  Verona,  Mozambik og Bequia.  Enginn jafn spennandi og Ísland.  

 


Fólskuleg árás


moskítófluga

 

 

 

 

 

 

 

 

  Sólin skein samviskusamlega upp á hvern dag í Alicante.  Það var hlýtt og notalegt. Það var ljúft að sitja úti á gangstétt með einn til tvo kalda á kantinum.  Njóta sólarinnar og hugsa til Íslands.  Sjá fyrir sér íslenska snjóskafla,  hrímaðar bílrúður og frostbarða Íslendinga.  

  Ég sat aldrei á sjálfri gangstéttinni heldur á stól.  Síðdegis þrengdust kostir.  Verslunum og veitingastöðum var lokað hverjum á fætur öðrum í tvo til þrjá klukkutíma í senn.  Sumum klukkan eitt.  Öðrum klukkan tvö.  Þá voru Spánverjar að taka sinn reglubundna síðdegislúr.  Svokallaðan "síesta".  Mér varð að orði:

  Spánverjar spígspora um götur

og spjalla um allt það besta

sem á dagana hefur drifið

og dorma svo í síesta.  

  Rannsóknir hafa sýnt að síðdegislúrinn sé hollur.  Í honum hleður líkaminn batteríin svo munar um minna. Þetta vissu íslenskir bændur fyrr á tíð.

  Fyrstu nóttina í Alicante varð ég fyrir fólskulegri árás.  Ég varð þó ekki var við neitt fyrr en að morgni.  Þá sá ég að moskítóflugur höfðu bitið mig.  Fyrst voru bitsárin varla sýnileg.  En þeim fylgdi kláði.  Á næstu dögum urðu þau sýnilegri:  Dökknuðu, stækkuðu, urðu dökkrauð og upphleypt.  Kláðinn jókst og bitsárum fjölgaði á hverri nóttu.  

 Moskítóflugan er lúmsk.  Hún felur sig.  Bíður eftir ljósaskiptum og því að fórnarlambið sofni.  Þá fer hún á stjá.  Í svefnrofanum má heyra lágvært suð frá henni á flugi.  Hún notar deyfiefni til að fórnarlambið verði einskis vart er hún sýgur úr því blóð.  

  Til að alhæfa ekki í óhófi þá er rétt að taka fram að karlflugan áreitir enga.  Einungis kvenflugan.

  Á heimleið var ég alsettur bitförum.  Húðin líktist yfirborði pizzu.  Það neyðarlega er að ég rek litla heildsölu og sel apótekum öfluga bitvörn í nettu úðaspreyi,  Aloe Up Insect Repellent.  Ég hafði enga rænu á að grípa hana með mér til Spánar.  Í apótekum í Alicante fann ég "roll on" sem átti að gera sama gagn.  Það gerði ekkert gagn.  Nema síður sé.  Sólvarnarkrem í þarlendum apótekum eru sömuleiðis algjört drasl.

  Ég ráðlegg væntanlegum Alicante-förum að grípa með sér frá Íslandi góðar sólarvörur og bitvörn.  Ekkert endilega Aloe Up,  Banana Boat eða Fruit of the Earth.  Eða jú.    

bitvörn

         


Ævintýri í Suðurhöfum

  Fyrir jól var veðurspá kaldranaleg.  Vetrarhörkur voru boðaðar;  hörkufrost á fróni.  Viðbrögð mín voru þau að flýja suður um höf.  Veðurspá fyrir Alicante á Spáni var notaleg,  16-20°.  Í þann mund er ég hélt upp á flugvöll ræddi ég við systir mína,  búsetta á Spáni.  Hún benti mér á að hitatalan segi aðeins hálfa sögu.  Vegna loftraka sé kaldara en ætla megi.  16-20° hiti í Alicante bjóði ekki upp á stuttbuxur og hlýrabol.

  Ég skellti þegar á mig hnausþykkri prjónahúfu,  vafði trefli um háls,  tróð mér í lopapeysu,  föðurland og fóðraða leðurhanska.  Kuldaúlpa með loðfóðraðri hettu tryggði að ekki myndi slá að mér.

  Á flugvellinum í Alicante var ég best dúðaður af öllum.  Enginn var léttklæddur.  Enda gustur úti.  Verra var að enginn talaði ensku.  Hinsvegar hefur fólkið þarna náð tökum á spænsku.  Sérlega var aðdáunarvert að heyra hvað ung börn tala góða og fumlausa spænsku.  Það kom mér ekki að gagni.  Ég kann ekki spænsku.

  Vandræðalaust fann ég strætó sem samkvæmt korti átti leið að hlaðvarpa gistiheimilis míns.  Þegar á reyndi stoppaði hann fjarri áfangastað.  Allir farþegar yfirgáfu vagninn möglunarlaust.  Nema ég. Bílstjórinn talaði ekki ensku fremur en aðrir.  Hann brá sér í hlutverk ágæts látbragðsleikara þegar ég kvartaði undan því að vagninn væri ekki kominn á áfangastað.  Um leið ýtti hann lauslega við mér til að koma mér út úr vagninum.  Það gekk treglega framan af.  Svo var eins og skepnan skildi.  Ljóst var að vagninn færi ekki lengra.  Kannski var þetta síðasti vagn leiðarinnar.  Klukkan nálgaðist miðnætti.

  Ég skimaði þegar í stað eftir stóru hóteli.  Þar er yfirleitt hægt að finna leigubíl.  Sem gekk eftir.  Leigubíllinn kostaði 700 ísl. kr.  Ég hefði alveg eins getað tekið leigubíl frá flugstöðinni.  Strætóinn kostaði 540 ísl. kr.    

  Innritunarborð gistiheimilis míns lokar á miðnætti.  Ég rétt slapp inn í tæka tíð. Fyrsta fólkið sem ég hitti á gistiheimilinu var ungt íslenskt par,  Ásthildur og kólumbískur Íslendingur.  Einu Íslendingarnir sem ég hitti á Alicante.  

  Meira á morgun.  


Varúð! Ekki kaupa falsaða flugmiða!

  Það er ósköp einfalt og auðvelt að kaupa á netinu flugmiða til útlanda með Wow eða Icelandair.  Og líka til baka ef að sá gállinn er á manni.  Hitt er verra: Þegar farið er út fyrir þægindarammann.  Miði keyptur á netinu af útlendu flugfélagi.  Ekki er alltaf allt sem sýnist.  Í útlöndum felur vont fólk sig innanum gott fólk.  Það beitir brögðum til að féfletta saklausa flugfarþega.  

 14 manna hópur Færeyinga lenti í svikahröppum.  Hópurinn var á leið til Rúmeníu.  Hafði keypt flugmiða á netinu.  Fyrst var flogið frá Færeyjum til Kaupmannahafnar.  Við innritun í tengiflug frá Kaupmannahöfn kom babb í bátinn.  Bókað og þegar borgað flug til Rúmeníu kom ekki fram í tölvubúnaði á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn.  

  Færeyski hópurinn var með kvittanir fyrir kaupum á flugmiðunum.  Þetta virtist allt vera samkvæmt bókinni.  Nema að kaupin á flugmiðunum skiluðu sér ekki inn í innritunarkerfið á Kastrup.  

  Sérfræðingar á tölvusviði Kastrup voru kvaddur til.  Í ljós kom að Færeyingarnir höfðu lent í klóm á glæpamönnum.  Sennilega rúmenskum.  Færeyingarnir höfðu keypt og borgað flugmiða frá netsíðu sem var horfin.  

  Verðið hjá platsíðunni var aðeins þriðjungur af verði alvöru ferðaskrifstofu,  rösklega 35 þúsund kall á kjaft.  Það eru góð kaup.  En ekki farsæl þegar upp er staðið.  Nú voru góð ráð dýr.  Það var ekki um annað að ræða en kaupa nýjan miða á 120 þúsund kall. 

  Góðu fréttirnar eru að af þessu má læra:  Ekki kaupa utanlandsferð af öðrum en vel þekktum flugfélögum og ferðaskrifstofum. Fólk er alltaf að læra.  Það er leikur að læra.

 


Mamman kjaftstopp

  Ég gerði mér erindi í verslunina Ikea í Garðabæ.  Við inngang blasir við hringhurð sem snérist stöðugt.  Ég nálgaðist hana ásamt konu með ungbarn og á að giska fimm ára stelpuskotti.  Stelpan var á undan okkur og virtist ætla að stökkva inn um dyragættina.  Í sama mund hrópaði mamman:  "Passaðu þig!"  Stelpan stoppaði og hrópaði krúttlega fullorðinslega til baka - auðheyranlega alvarlega misboðið:  "Ertu með svona lítið álit á mér?  Heldur þú virkilega að ég kunni ekki að passa mig?" 

-------------------------------------


Færeyingar finna olíu

  Í fyrra dró færeyska olíuleitarfélagið Föroya Petroleum sig út úr samfloti í olíuleit í íslenskri landhelgi,  á Drekasvæðinu.  Ástæðan var sú að forráðamenn félagsins höfðu öðlast yfirgripsmikla þekkingu á olíuleit.  Þeir voru og eru sannfærðir um að fullreynt sé að enga olía verði að finna á Drekasvæðinu.  Uppskriftin er eitthvað á þá leið að borað sé á 9 líklegustu stöðum.  Ef engin olía finnst þá sýnir sagan að frekari leit sé árangurslaus.

  Gott ef Kínverjar eru samt ekki ennþá að bora og leita á Drekasvæðinu.

  Föroya Petroleum hefur að undanförnu borað níundu holuna við Færeyjar.  Í dag fannst olía.  31 milljón tunna í mesta lagi.  Það þykir ekki mikið,  að mér skilst.  En staðfestir að olíu sé að finna við Færeyjar.  


Bíll og sími eiga ekki samleið

 

bíll og sími a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Það er bannað að tala í "ófrjálsan" síma og stjórna bíl á sama tíma.  Við brot á lögum þar um liggur sekt.  Sennilega fimm eða tíu þúsund kall.  Samt fer næstum því enginn eftir þessu.  Enda hafa rannsóknir í útlöndum leitt í ljós að það er enginn munur á einbeitingu ökumanns hvort heldur sem hann talar í handfrjálsan síma eða heldur á honum við eyrað.  

  Þar fyrir utan er refsilaust að tala í talstöð og stjórna bíl á sama tíma.  Næsta víst er að það truflar einbeitingu ökumanns jafn mikið og þegar blaðrað er tóma vitleysu í síma.

  Sömuleiðis er refsilaust að senda sms eða djöflast í snjallsíma og aka bíl á sama tíma.  Engu að síður má ætla að það trufli einbeitingu við akstur miklu meira en kjaftæði í síma. Ef ekki verður tekið snöfurlega á þessu og fólk láti þegar í stað af glannaskapnum verður þess ekki langt að bíða að óhapp verði í umferðinni.

bíll og sími bbíll og sími cbíll og sími dbíll og sími hbíll og sími ibíll og sími g   


mbl.is „Sé bíl koma fljúgandi á móti mér“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýri í Skerjafirði

bike cave innréttingar

 

 

 

 

 

 

 

 

  Þegar ekið er eftir Suðurgötu í átt að Reykjavíkurflugvelli er ástæða til að beygja ekki inn Þorragötu heldur halda áfram sem leið liggur að Einarsnesi.  Sama skal gera þegar ekið er eftir Njarðargötu.  Nema í því tilfelli er best að beygja til hægri við Þorragötu og til vinstri þegar komið er að Suðurgötu.

  Við Einarsnes stendur ævintýralegasta veitingahús landsins,  Bike Cave.  Nafnið eitt og sér (hjólahellir) staðfestir að þetta er ekki hefðbundið veitingahús.  Samt er það afskaplega "kósý" og heimilislegt í aðra röndina.  En líka "töff" og "öðruvísi" í hina röndina.

bike cave vespurbike cave fyrir utan 

 

 

 

 

 

 

 

  Þegar komið er að húsinu vekur athygli að fyrir utan er fjöldi mótorhjóla.  Aðallega svokallaðar vespur.  Þegar inn er komið blasa við allskonar hlutir sem tengjast viðgerðum á hjólum.  Á gafli hússins er stór rennihurð.  Stærstu mótorhjól komast lipurlega inn í hús.

  Veitingahúsið Bike Cave er nefnilega einnig hjólaverkstæði.  Verkstæði þar sem hjólatöffarinn gerir sjálfur við hjólið sitt með bestu græjum (lyfta,  hjólastandur, dekkjavél,  jafnvægistillingarvél,  stærsta og fullkomnasta verkfærakista...) og varahlutum og getur notið aðstoðar fagmanns á staðnum.  Reynslan hefur kennt að gestum þykir sömuleiðis gaman að hlaupa undir bagga.  Í Bike Cave eru allir ein stór fjölskylda.  

bike cave mótorhjól  

 

 

 

 

 

 

 

  Ástæðan fyrir vespunum fyrir utan Bike Cave er sú að veitingahúsið er líka reiðhjóla- og vespuleiga.  Staðurinn er í göngufæri frá Reykjavíkurflugvelli.  Það er bráðsniðugt fyrir ferðamenn utan af landi - eða útlendinga - að hefja Reykjavíkurdvöl á því að fá vespu hjá Bike Cave.  Þaðan í frá er leigubílakostnaður úr sögunni en auðvelt að skottast út um allt á litlu vespunni.  

   Margt fleira er í boði í Bike Cave.  Til að fátt eitt sé nefnt má tiltaka að þar er þvottavél og þurrkari. Svokallað "laundromat".  Viðskiptavinurinn hendir í þvottavél,  sest síðan niður með kaffibolla og gluggar í dagblöð og hjólatímarit sem liggja frammi.  Eða fer í internet í tölvu staðarins.

  Risastór flatskjár er á vegg.  Hann nýtur vinsælda meðal gesta þegar íþróttaviðburðir eru í beinni útsendingu.

bike cave píanó

 

 

 

 

 

 

 

 

  Í einu horni staðarins er "svið" (ekki upphækkað),  "diskókúla" og hljóðkerfi með hljóðnema - og píanó í grennd.  Þarna troða upp trúbadorar og hver sem er.  Upplagt fyrir nýliða (leikmenn) til að spreyta sig fyrir framan áheyrendur;  vini og kunningja.   

bike cave kjötsúpa

 

 

 

 

 

 

 

 

  Þar fyrir utan:  Þetta er veitingahús.  Eitt ódýrasta og besta veitingahús landsins.  Dæmi:  Ljúffeng kjötsúpa kostar 995 kr.  Til samanburðar kostar kjötsúpudiskurinn 1200 kr. í kaffiteríu Perlunnar, 1490 kr. í Café Adesso,  1590 kr. í Kænunni og 1790 kr. í Matstofunni Höfðabakka.

 Matseðil Bike Cave má sjá með því að smella HÉR  bike cave sukkulaðikaka

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband