Færsluflokkur: Samgöngur

Flugbílar að detta inn á markað

  Lengst af hafa bílar þróast hægt og breyst lítið í áranna rás.  Það er að segja grunngerðin er alltaf sú sama.  Þessa dagana er hinsvegar sitthvað að gerast.  Sjálfvirkni eykst hröðum skrefum.  Í gær var viðtal í útvarpinu við ökumann vörubíls.  Hann varð fyrir því að bíll svínaði gróflega á honum á Sæbraut.  Skynjarar vörubílsins tóku samstundis við sér: Bíllinn snarhemlaði á punktinum, flautaði og blikkaði ljósum.  Forðuðu þar með árekstri.

  Sífellt heyrast fréttir af sjálfkeyrandi bílum.  Þeir eru að hellast yfir markaðinn.  Nú hefur leigubílafyrirtækið Uber tilkynnt um komu flugbíla.  Fyrirtækið hefur þróað uppskriftina í samvinnu við geimferðastofnunina Nasa.  Það setur flugbílana í umferð 2020.  Pældu í því.  Eftir aðeins 3 ár.  Við lifum á spennandi tímum.

   


Hjálpast að

  Ég var á Akureyri um helgina.  Þar er gott að vera.  Á leið minni suður ók ég framhjá lögreglubíl.  Hann var staðsettur í útskoti.  Mig grunaði að þar væri verið að fylgjast með aksturshraða - fremur en að lögreglumennirnir væru aðeins að hvíla sig í amstri dagsins.  Á móti mér kom bílastrolla á - að mér virtist - vafasömum hraða.  Ég fann til ábyrgðar.  Taldi mér skylt að vara bílalestina við.  Það gerði ég með því að blikka ljósum ótt og títt.  

  Skyndilega uppgötvaði ég að bíllinn sem fór fremstur var lögreglubíll.  Hafi ökumaður hans stefnt á hraðakstur er næsta víst að ljósablikk mitt kom að góðum notum.  


Dularfulla bílhvarfið

  Þjófnaður á bíl er sjaldgæfur í Færeyjum.  Samt eru bílar þar iðulega ólæstir.  Jafnvel með lykilinn í svissinum.  Þess vegna vakti mikla athygli núna um helgina þegar færeyska lögreglan auglýsti eftir stolnum bíl.  Þann eina sinnar tegundar í eyjunum,  glæsilegan Suzuki S-Cross.  

  Lögreglan og almenningur hjálpuðust að við leit að bílnum.  Gerð var dauðaleit að honum.  Hún bar árangur.  Bíllinn fannst seint og síðar meir.  Hann var á bílasölu sem hann hafði verið á í meira en viku.  Samkvæmt yfirlýsingu frá lögreglunni leiddi rannsókn í ljós að bílnum hafði aldrei verið stolið.  Um yfirsjón var að ræða.  

stolni bíllinn


Hversu hættulegir eru "skutlarar"?

 

 

  Á Fésbókinni eru svokallaðir "skutlarar" með nokkrar síður.  Sú vinsælasta er með tugi þúsunda félaga.  "Skutlarar" eru einskonar leigubílstjórar á svörtum markaði.  Þeir eru ekki með leigubílstjóraleyfi.  Þeir eru hver sem er;  reiðubúnir að skutla fólki eins og leigubílar.  Gefa sig út fyrir að vera ódýrari en leigubílar (af því að þeir borga engin opinber gjöld né fyrir félagaskráningu á leigubílastöð).

  Leigubílstjórar fara ófögrum orðum um "skutlara".  Halda því fram að þeir séu dópsalar.  Séu meira að segja dópaðir undir stýri.  Séu ekki með ökuleyfi.  Séu þar með ótryggðir.  Vísað er á raunverulegt dæmi um slíkt.  Séu dæmdir kynferðisbrotamenn.  Hafi með í för handrukkara sem innheimti í raun mun hærri upphæð en venjulegir leigubílar.  

  Ég veit ekkert um "skutlara" umfram þessa umræðu.  Ætli þeir séu svona hættulegir?  

tanngómur í goggi fugls


8 ára á rúntinum með geit

  Landslag Nýja-Sjálands ku vera fagurt á að líta og um margt líkt íslensku landslagi.  Sömuleiðis þykir mörgum gaman að skoða fjölbreytt úrval villtra dýra.  Fleira getur borið fyrir augu á Nýja-Sjálandi.  

  Maður nokkur ók í sakleysi sínu eftir þjóðvegi í Whitianga.  Á vegi hans varð Ford Falcon bifreið.  Eitthvað var ekki eins og það átti að vera.  Við nánari skoðun greindi hann að barnungur drengur sat undir stýri.  Þrír jafnaldrar voru farþegar ásamt geit.

  Maðurinn gaf krakkanum merki um að stöðva bílinn.  Báðir óku út í kant og stoppuðu.  Hann upplýsti drenginn um að þetta væri óásættanlegt.  Hann hefði ekki aldur til að aka bíl.  Þá brölti út um afturdyr fullorðinn maður,  úfinn og einkennilegur.  Hann sagði þetta vera í góðu lagi.  Strákurinn hefði gott af því að æfa sig í að keyra bíl.  Eftir 10 ár gæti hann fengið vinnu við að aka bíl.  Þá væri eins gott að hafa æft sig.  

  Ekki fylgir sögunni frekari framvinda.  Líkast til hefur náðst samkomulag um að kallinn tæki við akstrinum.

new-zealand-car-3-new-zealand-car-2new-zealand-car-4   


Wow til fyrirmyndar í vandræðalegri stöðu

  Í gærmorgun bloggaði ég á þessum vettvangi um ferðalag frá Brixton á Englandi til Íslands.  Ég dró ekkert undan.  Það gekk á ýmsu.  Ferð sem átti að taka rösklega tvo klukkutíma teygðist upp í næstum því sautján klukkutíma pakka.  

  Flug með Wow átti að hefjast klukkan 10.45 fyrir tveimur dögum.  Brottför frestaðist ítrekað.  Um hádegisbil var farþegum tilkynnt að þetta gengi ekki lengur.  Það væri óásættanlegt að bíða og hanga stöðugt á flugvellinum í Brixton.  Farþegum var boðið í glæsilegt hádegisverðarhlaðborð á Brixton hóteli.  Það var alvöru veisla.  Á hlaðborðinu var tekið tillit til grænmetisjórtrara (vegan), fólks með glúten-óþol og örvhentra.

  Í eftirrétt voru allskonar ljúffengar ostatertur og súkkulaðiterta.  Fátt gerðist fram að kvöldmat.  Þá var röðin komin að öðru og ennþá flottara hlaðborði.  Síðan fékk hver einstaklingur inneignarmiða upp á 11 sterlingspund (1500 ísl. kr.) í flugstöðinni í Brixton.

  Eflaust var þetta allt samkvæmt baktryggingum Wow.  Allt til fyrirmyndar.  Flugmaður Wow í Brixton olli vandræðunum. Ættingjar hans tóku hann úr umferð.  Kannski vegna ölvunar hans.  Kannski vegna ölvunar þeirra.  Kannski vegna alvarlegra vandamáls.  Sjálfsagt að sýna því skilning og umburðarlyndi.

  Aðrir starfsmenn Wow stóðu sig með prýði í hvívetna.  Allan tímann spruttu þeir óvænt upp undan borðum og út úr ósýnilegum skápum.  Stóðu skyndilega við hliðina á manni og upplýstu um stöðu mála hverju sinni.  Þeir kölluðu ekki yfir hópinn heldur fóru eins og jó-jó á milli allra 200 farþega.  Gengu samviskusamlega úr skugga um að hver og einn væri vel upplýstur um gang mála.  Til viðbótar vorum við mötuð á sms-skilaboðum og tölvupósti.

  Dæmi um vinnubrögðin:  Þegar rútur mættu á flugvöllinn til að ferja okkur yfir á Bristol-hótel þá höfðu nokkrir farþegar - miðaldra karlar - fært sig frá biðskýli og aftur inn á flugstöðina.  Erindi þeirra var að kaupa sér bjórglas (eða kaffibolla) til að stytta stundir.  Ég spurði rútubílstjóra hvort að ég ætti ekki að skottast inn til þeirra og láta vita að rúturnar væru komnar.  "Nei," var svarið.  "Far þú inn í rútu.  Við sjáum um alla hina.  Við förum ekki fyrr en allir hafa skilað sér.  Í versta falli látum við kalla eftir vanskilagemsum í hátalarakerfi flugstöðvarinnar."  

  Mínútu síðar sá ég bílstjórann koma út úr flugstöðinni með kallana sem laumuðust í drykkina.

  Ég gef starfsfólki Wow hæstu einkunn fyrir aðdáunarverða frammistöðu í óvæntri og erfiðri stöðu.  Ég ferðast árlega mörgum sinnum með flugvél bæði innan lands og utan.  Ófyrirsjáanleg vandamál koma af og til upp.  Stundum með óþægindum og aukakostnaði.  Á móti vegur að frávikin krydda tilveruna,  brjóta upp hversdaginn.  Eru ævintýri út af fyrir sig.  Viðbrögð starfsfólks flugfélaganna skipta miklu - mjög miklu - um það hvernig maður metur atburðarrásina í lok dags.  Í framangreindu máli skiluðu jákvæð, fagleg og, já, fullkomin viðbrögð starfsfólks Wow alsáttum farþega - þrátt fyrir næstum því sólarhringslanga röskun á flugi.            

    


Aðgát skal höfð

  Á morgun spillist færð og skyggni.  Hlýindakafla síðastliðinna daga er þar með að baki.  Við tekur fljúgandi hálka, él, hvassviðri og allskonar.  Einkum á vestari hluta landsins.  Þar með töldu höfuðborgarsvæðinu.  Þá er betra að leggja bílnum.  Eða fara afar varlega í umferðinni.  Annars endar ökuferðin svona:

klaufaakstur aklaufaakstur bklaufaakstur cklaufaakstur dklaufaakstur e   


mbl.is Snjór og hálka taka við af hlýindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hneyksli ársins

  Á dögunum fór allt á hliðina í Færeyjum.  Samfélagsmiðlarnir loguðu:  Fésbók,  bloggsíður og athugasemdakerfi netmiðla fylltust af fordæmingum og undrun á ósvífni sem á sér enga hliðstæðu í Færeyjum.  Umfjöllun um hneykslið var forsíðufrétt, uppsláttur í eina dagblaði Færeyja,  Sósíalnum.  Opnugrein gerði hneykslinu skil í vandaðri fréttaskýringu.

  Grandvar maður sem má ekki vamm sitt vita,  Gunnar Hjelm,  lagði í stæði fyrir fatlaða.  Hann er ófatlaður.  Hann vinnur á sjúkraflutningabíl og hefur hreina sakaskrá.

  Hann brá sér í bíó. Að því loknu lagði hann bíl í svartamyrkri og snjóföl í bílastæði.  Hann varð þess ekki var að á malbikinu var stæðið merkt fötluðum.  Ljósmynd af bíl hans í stæðinu komst í umferð á samfélagsmiðlum.  Þetta var nýtt og óvænt.  Annað eins brot hefur aldrei áður komið upp í Færeyjum.  Viðbrögðin voru eftir því.  Svona gera Færeyingar ekki.  Aldrei.  Og mega aldrei gera.

  Gunnari Hjelm var eðlilega illa brugðið. Fyrir það fyrsta að uppgötva að stæðið væri ætlað fötluðum.  Í öðru lagi vegna heiftarlegra viðbragða almennings.  Hann var hrakyrtur,  borinn út,  hæddur og smánaður.  Hann er eðlilega miður sín.  Sem og allir hans ættingjar og vinir.  Skömmin nær yfir stórfjölskylduna til fjórða ættliðar.

  Svona óskammfeilinn glæpur verður ekki aftur framinn í Færeyjum næstu ár.  Svo mikið er víst.  

i_stae_i_fyrir_fatla_ailla lagt við gleraugnabúð 

 


Alltaf reikna með því að farangur skemmist og verði viðskila

  Allir sem ferðast með flugvél verða að gera ráð fyrir því að farangur fylgi ekki með í för.  Hann getur átt það til að ferðast til annarra áfangastaða.  Jafnvel rúntað út um allan heim.  Farangur hegðar sér svo undarlega.  Þetta er ekki eitthvað sem gerist örsjaldan.  Þetta gerist oft.  Ég hef tvívegis lent í þessu.  Í bæði skiptin innanlands.  Í annað skiptið varð farangurinn eftir í Reykjavík þegar ég fór til Seyðisfjarðar að kenna skrautskrift.  Hann kom með flugi til Egilsstaða daginn eftir.  Í millitíðinni varð ég að kaupa námskeiðsvörur í bókabúð í Fellabæ og taka bíl á leigu til að sækja farangurinn þegar hann skilaði sér.  

  Ég sat uppi með útgjöld vegna þessa óbætt.  Ekkert að því.  Það kryddar tilveruna.  

  Í hitt skiptið fór ég til Akureyrar. Farangurinn kom með næstu flugvél á eftir einhverjum klukkutímum síðar.  Það var bara gaman að bíða í kaffiteríunni á Akureyrarflugvelli á meðan.  Þar voru nýbakaðar pönnukökur á boðstólum.

  Eitt sinn heimsóttu mig hjón frá Svíþjóð.  Farangurinn týndist.  Ég man ekki hvort að hann skilaði sér einhvertíma.  Að minnsta kosti ekki næstu daga.  Hjónin neyddust til að fata sig upp á Íslandi.  Þeim ofbauð fataverð á Íslandi.  Kannski fóru þau í vitlausar búðir í Kringlunni.    

  Vegna þess hversu svona óhöpp eru algeng er nauðsynlegt að taka með í handfarangri helstu nauðsynjavörur.  

  Ennþá algengara er að farangur verði fyrir hnjaski.  Það er góð skemmtun að fylgjast með hleðsluguttum ferma og afferma.  

        


mbl.is Töskunum mokað út fyrir flugtak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörmulegir bílar

Citro-n-C3-Pluriel

 

 

 

 

 

 

 

 

  Það er ekki öllum lagið að hanna bíl svo vel fari.  Að mörgu þarf að hyggja.  Hætta er á að eitthvað gleymist.  Enginn getur séð fyrir öllu.  Þannig var það 2003 með franska bílinn Citroën C3 PLURIEL.  Hann var svo sportlegur að hægt var að taka toppinn af í heilu lagi.  Hinsvegar var ekkert geymslurými í bílnum fyrir toppinn.  Þess vegna þurfti að geyma toppinn inni í stofu.  Verra var að rigning og snjór gera ekki alltaf boð á undan sér.  Fáir treystu sér til að fara í langt ferðalag á topplausum sportbílnum.  

Fiat-Multipla

 

 

 

 

 

 

 

 

  1998 kom á markað Fiat MULTIPLA.  Öll áhersla var lögð á að bíllinn væri sem rúmbestur að innan.  Það tókst að því marki að sitjandi inni í honum leið fólki eins og það væri í mun stærri bíl.  Gallinn var sá að þetta kom illilega niður á útlitinu.  Bíllinn var hörmulega kauðalegur, klesstur og ljótur.  Eins og alltof stóru húsi væri hnoðað ofan á smábíl.  Sem var raunin.  

Subaru-SVX

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 1991 birtist Subaru SVX með undarlegar hliðarrúður.  Það var líkt og gluggarnir væru tvöfaldir;  að minni aukagluggum hefði verið bætt utan á þær.  Ekki aðeins á hurðarrúðunni heldur einnig á aftari hliðarrúðunni.  Áhorfendur þurftu ekki að vera ölvaðir til að finnast þeir vera að sjá tvöfalt.  

Yugo-GV-1985

 

 

 

 

 

 

 

 

  Í Júgóslavíu var fyrir fall járntjaldsins framleiddur bíllinn Yugo GV.  Útlitið var allt í lagi.  Öfugt við flest annað.  Eitthvað bilaði í hvert sinn sem hann var settur í gang.  Vélin var kraftlítil og bilanagjörn.  Tímareimin slitnaði langt fyrir aldur fram.  Rafmagnsþræðir bráðnuðu ásamt fleiru.  Lykt af brunnu plasti eða öðru einkenndu bílinn,  sem og allskonar hlutir sem losnuðu:  Hurðahúnar, ljós, takkar og stangir.

DeLorean-DMC-12

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Á Norður-Írlandi var á níunda áratugnum framleiddur nýtískulegur Delorean DMC-12.  Mestu munaði að dyrnar opnuðust upp.  Það var framúrstefnulegt.  En kostaði vandræði í þröngum bílastæðum og inni í bílskúr.  Og bara út um allt.  Aðeins hávaxnir og handsterkir gátu lokað dyrunum.  Ofan á bættist að vélin var alltof veik fyrir þennan þunga stálhlunk.  Bíllinn var ekki hraðbrautarfær vegna kraftleysis.  Til að bæta gráu ofan á svart var hann verðlagður alltof hátt.            


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.