Færsluflokkur: Útvarp

Hvað ef John og Paul hefðu aldrei kynnst?

  1956 var litla enska hafnarborgin Liverpool "slömm".  Margir Englendingar neituðu að viðurkenna Liverpool sem hluta af Englandi.  Þetta ár bankaði 14 ára gutti,  Paul McCartney, hjá 16 ára bæjarvillingnum John Lennon.  Bauð sig fram sem gítarleikara, söngvara og lagahöfund í hljómsveit Johns,  The Querrymen.  Þarna varð til öflugasta tvíeyki sögunnar. Frábært söngvapar,  hugmyndaríkir flytjendur og djarfir tilraunakenndir útsetjarar sem toguðu og teygðu tónlist lengra og víðar en áður þekktist.

  The Querrymen breyttust í The Beatles.  Á íslensku alltaf kallaðir Bítlarnir.  Bítlarnir frá Liverpool rúlluðu heimsbyggðinni upp eins og strimlagardínu.  Allt í einu urðu Liverpool og England ráðandi forysta í dægurlagamarkaði heimsins. 

  Pabbi Johns,  Freddie Lennon,  var söngvari,  söngvaskáld og banjoleikari.  Mamma Johns var líka banjoleikari og píanóleikari.  John ólst ekki upp hjá þeim en erfði frá þeim tónlistarhæfileika.  Þegar plötufyrirtækið EMI gerði útgáfusamnning við Bítlana var það munnhörpuleikur Johns sem heillaði upptökustjórann,  George Martin, umfram annað. 

  Pabbi Pauls lagði hart að honum að fara í markvisst tónlistarnám.  Rökin voru:  "Annars endar þú eins og ég;  að spila sem láglaunamaður á pöbbum."  En Paul valdi að læra sjálfur að spila á gítar og píanó. 

  Foreldrar George Harrison eru sagðir hafa verið góðir söngvarar.  Mamma hans er skráð meðhöfundur "Piggies" á Hvíta albúminu.

  Ringó Starr ólst upp á tónlistarheimili.  Þar var allt fullt af hljóðfærum af öllu tagi.  Hann hélt sig við trommur en getur gutlað á píanó og gítar.

  Synir allra Bítlanna hafa haslað sér völl sem tónlistarmenn.  Zak Starkey,  sonur trommuleikarans Ringos,  hefur vegnað vel sem trommuleikari The Who og Oasis.  Eldri sonur Johns,  Julian,  kom bratt inn á markað 1984 með laufléttu alltof ofunnu reggí-lagi um pabba sinn,  "Too Late for goodbyes".  Þetta var á skjön við vinnubrögð Johns sem gengu út á hráleika.  Síðan hefur hvorki gengið né rekið hjá Julian - fremur en hjá öðrum sonum Bítlanna að Zak undanskildum.  Vegna frægðar Bítlanna hafa synir þeirra forskot á aðra í tónlistarheimi.  Þrátt fyrir að þeir séu alveg frambærilegir tónlistarmenn þá vantar upp á að tónlist þeirra að heilli nógu marga til að skila lögum þeirra og plötum inn á vinsældalista. 

  Niðurstaðan er sú að ef John og Paul hefðu ekki kynnst þá hefðu þeir ekki náð árangri út fyrir Liverpool-slömmið.  Lykillinn að yfirburðum þeirra á tónlistarsviðinu lá í samstarfi þeirra.  Hvernig þeir mögnuðu upp hæfileika hvors annars.

  John var spurður út í samanburð á Bítlunum og The Rolling Stones.  Hann svarði eitthvað á þá leið að Rollingarnir væru betri tæknilega.  Þeir væru skólaðir.  Bítlarnir væru amatörar.  Sjálflærðir leikmenn.  En spjöruðu sig.  Svo bætti hann við:  Þegar heildarútgáfa á flutningi á Bítlalögum er borin saman við flutning annarra þá hallar ekki á Bítlana.


Samband Johns og Pauls

 

  John Lennon og Paul McCartney voru fóstbræður.  Þeir kynntust á unglingsárum á sjötta áratugnum og urðu samloka.  Vörðu öllum frítímum saman við að semja lög og hlusta á rokkmúsík.  John gerði út hljómsveitina Querrymen.  Hún er ennþá starfandi.  Reyndar án Johns.  John var stofnandi hljómsveitarinnar og forsprakki;  söngvari, gítarleikari og söngvahöfundur.

  Paul segir að á þessum tíma hafi allir unglingar í Liverpool vitað af John. Hann var fyrirferðamikill ofurtöffari. Svalasti gaurinn í Liverpool, að sögn Pauls.  Liverpool er hafnarbær.  Íbúar á sjötta áratugnum kannski 200 eða 300 þúsund eða þar í grennd.  John var kjaftfor og reif stólpakjaft við alla,  slóst á börum eins og enginn væri morgundagurinn,  þambaði sterk vín, reykti og svaf hjá stelpum.   Hann var dáldið geggjaður.  Eins og mamma hans. 

  Paul sá í hendi sér að frami sinn í Liverpool væri fólginn í því að vingast við John.  Hann bankaði upp hjá John.  Kynnti sig og spilaði fyrir hann nokkur lög til að sanna hæfileika í hljóðfæraleik og söng.  Jafnframt sagðist Paul vera lagahöfundur. 

 John angaði eins og bruggverksmiðja þegar þeir hittust.  Koníak gutlaði í honum.  Eftir að Paul spilaði og söng fyrir John hugsaði hann eitthvað á þessa leið:  Ég get auðveldlega orðið aðal rokkstjarnan í Liverpool.  En með Paul mér við hlið get ég sigrað heiminn.  Ég verð að gefa eftir forystuhlutverkið.  Deila því með Paul.  Við getum sigrað heiminn saman. Þetta varð niðurstaðan.  Þetta var langsótt niðurstaða á þessum tíma.  Varðandi heimsfrægð.  Liverpool var útkjálki og þótti "slömm". 

  John var um margt afar erfiður í umgengni.  Hann tók skapofsaköst.  Hann var "bully";  árásagjarn til orðs og æðis.  Hann lamdi fyrri konu sína. Hann lamdi Paul og fleiri í hljómsveitinni Querrymen.  

  Paul var og er mjög stjórnsamur og ofvirkur.  Í Bítlunum sýndi hann George og Ringo ofríki.  En forðaðist árekstra við John.  Þegar John gekk fram af honum með gríðarlegri eiturlyfjaneyslu og flaut í sýrumóki við hljóðritun á laginu "She said, she said" 1966 þá ofbauð Paul.  Hann stormaði út úr hljóðverinu, tók ekki þátt í hljóðritun lagsins og lét ekki ná á sér.  George Harrison spilar bassalínu lagsins.  Í bókinni góðu "Beatlesongs" er Paul ranglega skráður bassaleikarinn.  Lagið hljómar í dag ósköp venjulegt.  1969 var þetta brengluð sýra. 

  Annað dæmi er lagið "Come together" á Abbey Road plötunni.  Síðustu hljóðversplötu Bítlanna.  Framan af ferli Bítlanna sungu Paul og John flest lög saman.  Að mörgu leyti var það einkenni Bítlanna og gaf hljómsveitinni forskot á aðrar hljómsveitir.  Undir lok ferils Bítlanna dró mjög úr dúettsöngnum.  Meira varð um þríröddun þeirra Pauls, Johns og Georges.  Líka sólósöngs þeirra hvers fyrir sig.  Paul saknaði tvíröddunarinnar.  Þeir John,  Paul og George voru allir afar flinkir í að radda og sniðgengu iðulega viðurkennda tónfræði.  

  Er John kynnti til sögunnar "Come Together" bað Paul um að fá að radda lagið með honum.  Paul sárnaði mjög er John svaraði:  "Ég græja það sjálfur."  Sem hann reyndar gerði ekki.  Paul laumaðist í skjóli nætur til að radda með í laginu.  John heyrði ekki þá útfærslu fyrr en platan kom út.          


Af hverju túra Paul og Ringo ekki saman?

  Paul McCartney og Ringo Starr eru einu eftirlifandi Bítlarnir.  Þeir eru mjög góðir vinir.  Á hljómleikum gera báðir út á gömlu Bítlalögin.  Paul á það til að fá Ringo sem gest á hljómleika sína.  Þá trommar kappinn í nokkrum Bítlalögum.  

  Af hverju túra þeir aldrei saman?  Væri það ekki stórkostleg upplifun fyrir Bítlaaðdáendur?  Jú,  vissulega.  Hængur er á.  Illilega myndi halla á Ringo.  Hann er frábær trommari,  orðheppinn og bráðfyndinn.  Hinsvegar hefur hann ekki úr mörgum frumsömdum lögum að moða.  Því síður mörgum bitastæðum.  Þar fyrir utan er hann ekki góður söngvari.  Öfugt við Paul sem er einn besti og fjölhæfasti söngvari rokksögunnar.  Þeir John Lennon voru ótrúlaga frábærir söngvarar - og Paul er ennþá.   Paul hefur úr að velja frumsömdum lögum sem eru mörg hver bestu lög rokksögunnar.  Á hljómleikum stekkur Paul á milli þess að spila á píanó,  orgel, gítar, bassa og allskonar.  Meira að segja ukulele.  Frábær trommuleikur Ringos býður ekki upp á sömu fjölbreytni.   

  Bæði Paul og Ringo átta sig á því að tilraun til að endurskapa anga af Bítladæmi sé dæmt til að mistakast.  Það var ekki einu sinni hægt á meðan George Harrison var á lífi.  Eins og Geroge sagði:  "Bítlarnir verða ekki aftur til á meðan John er dáinn."  Ég set spurngamerki við "á meðan".   

      


Blessun

  Ég er alltaf kallaður Jens Guð.  Þess vegna er ég í símaskránni skráður Jens Guð - að frumkvæði símaskráarinnar.  Eða hvort að þetta heitir 1819 eða 1919 í dag?  Í morgun hringdi í mig barnung stúlka.  Kannski 5, 6 ára.  Hún sagðist heita Emilía og eiga heima í Keflavík.  Hún spurði hvort ég væri Jens Guð.  Ég játaði því.  Hún spurði hvort ég væri til í að blessa hana.  Ég svaraði:  "Alveg sjálfsagt.  Strax eftir þetta símtal skal ég blessa þig."  Hún þakkaði fyrir og þar með lauk símtalinu.  Ég stóð við minn hluta samkomulagsins.  Sendi henni að auki í huganum sálm með þýsku pönkdrottningunni Nínu Hagen.  Hún er mér töluvert uppteknari af trúmálum. 

 


Hressilegt rokk

nýríki nonni

 

 

 

 

 

Titill:  För

Flytjandi:  Nýríki Nonni

Einkunn:  ****  (af 5)

  2016 spratt fram á sjónarsvið afar sprækt pönkrokkstríó,  Nýríki Nonni.  Liðsmenn voru og eru:  Guðlaugur Hjaltason (gítar og söngur), Logi Már Einarsson (bassi) og Óskar Þorvaldsson (trommur).  Það sem sker tríóið frá öðrum nýstofnuðum pönkböndum er að liðsmenn eru ekki unglingar að stíga sín fyrstu skref í hljómsveit heldur virðulegir miðaldra menn sem búa að góðri færni á hljóðfæri. 

  Á nýútkominni plötu tríósins,  För,   slæðist snyrtilegt hljómborð með.  Ég veit ekki hver afgreiðir það. Gulli liggur undir grun.

  Óvænt hefst plata pönktríósins á rólegu lagi,  titillaginu För.  Þau eru fleiri rólegu lögin á plötunni.  Inn á milli eru svo hressilegu pönklögin.  Gulli er höfundur laga og texta.  Hann er fagmaður á báðum sviðum.  Textarnir lúta að mestu undir hefðbundið form stuðla, hljóðstafa og ríms.  Þeir eru ádeilutextar.  Stinga á kýlum. 

  Fyrir minn smekk eru pönklögin skemmtilegust.  Í heild er platan skemmtilega fjölbreitt.  Já, og fyrst og síðast bráðskemmtileg. 


Fésbókarsíða færeyskrar hljómsveitar hökkuð - sennilega af Sea Shepherd

  Í fyrravor hélt færeyska hljómsveitin Týr í hljómleikaferð um Bandaríkin og Kanada.  Þá brá svo við að hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd fóru í harða herferð gegn Tý.  Hvöttu fólk til að sniðganga hljómleikana.  Jafnframt boðuðu þau mótmælastöðu fyrir utan hljómleikastaðina.  

  Er það ekki lágkúra að fjölmenn samtök ofsæki fjögurra manna rokkhljómsveit fyrir að vera færeysk?;  komi frá 52 þúsund manna þjóð sem veiðir marsvín.

  Herferð SS gegn hljómleikaferð Týs varð samtökunum til mikillar háðungar.  Hljómleikarnir voru hvarvetna vel sóttir.  Hvergi mættu fleiri en 10 í mótmælastöðu.  Þeir einu sem mættu í mótmælastöðuna voru forsprakki SS,  Paul Watson, og aðrir starfsmenn SS. 

  Nú er hljómsveitin Týr á ný í hljómleikaferð um Bandaríkin.  Ekki heyrist múkk frá SS.  Hinsvegar var Fésbókarsíða Týs hökkuð í spað.  Hún gegnir eðlilega stóru hlutverki í hljómleikaferðinni.  Hakkarinn eða hakkararnir náðu að yfirtaka síðuna.  Honum/þeim tókst að henda öllum liðsmönnum Týs út af síðunni og blokka þá.  Eftir margra daga vesen hefur stjórnendum Fésbókar tekist að koma Fésbókarsíðunni aftur í hendur liðsmanna Týs.    

 


Vinsælustu Bítlalögin í dag

  Ég veit ekki hvað gerðist.  Síðasta bloggfærsla mín hvarf.  Ég var í miðju kafi að svara athugasemdum við hana og ýtti á "enter".  Í stað þess að svar mitt birtist þá hvarf bloggfærslan.  Hún var áfram inni á stjórnborði hjá mér.  En þó að ég ýtti á "birta" þá birtist hún ekki.  Samt kom upp texti um að hún væri birt.

  Í færslunni var listi yfir mest spiluðu lög Bítlanna á Spotify.  Hann er áhugaverður.  Hann speglar að einhverju leyti hvaða Bítlalög höfða sterkast til yngra fólks í dag.  Fólks sem meðtók ekki lög og plötur Bítlanna í rauntíma 1963 - 1969.  Þess vegna endurbirti ég listann hér:

1.  Here Comes the Sun

2.  Hey Jude

3.  Come Together

4.  Let it Be

5.  Twist and Shout

6.  Help

7.  Blackbird

8.  While my Guitar Gentle Weeps

9.  In My Life

10. Yesterday

 

  Einhverra hluta vegna er Oh Darling ekki mikið spilað á Spotify.  Samt flottur blús.  Þessi úkraínska krúttbomba staðfestir hinsvegar að ungt fólk út um allan heim hlustar á Bítlalög.  Það fylgir sögunni að hún hafi á þessum aldri ekki kunnað orð í ensku.  Hún er 17 ára í dag og dútlar við að syngja leiðinleg júrivisjon-lög.

 


Vinsælustu klassísku rokklögin

  Fyrir þremur árum sofnaði ég á Fésbók tónlistarhópinn "Classic Rock".  Þar birti ég myndbönd með sívinsælustu slögurum rokksögunnar. Reyndar með þeim skekkjumörkum að ekki séu fleiri en 3 myndbönd með sama flytjanda.  Notendur síðunnar eru á annað þúsund ("lækarar" + fylgjendur).  Áhugavert er að sjá hvaða myndbönd eru mest spiluð á síðunni.  Ég hefði ekki giskað rétt á röðina.  Þannig raðast þau:  Að vísu er teljarinn óvirkur nú til nokkurra vikna.  En kemur - að ég held - ekki að sök. 

1.  Stealers Wheel - Stuck in the middle with you  (588 spilanir)

2.  Týr - Ormurin langi (419 spilanir)

3.  Steely Dan - Reelin in the year (322 spilanir)

4.  Deep Purple - Smoke on the water (238 spilanir) 

5.  Fleetwood Mac - Black magic woman (192 spilanir)

6.  Tom Robinson Band - 2-4-6-8 Motorway (186 spilanir)

7.  Tracy Chapman - Give me one reason (177 spilanir)

8.  Bob Marley - Stir it up (166 spilanir)

9.  Sykurmolarnir - Motorcycle mama (162 spilanir)

10. Creedence Clearwaer Revival - I put a spell on you (160 spilanir)

11-12. Janis Joplin - Move over (148 spilanir)

11-12. Shocking Blue - Venus (148 spilanir)

13. Jethro Tull - Aqualung (145 spilanir)

14. Bob Dylan - Subterreanean homesick blues (138 spilanir)

15. Bruce Springsteen - Glory Days  (134 spilanir)


Dularfull bilun

  Ég ók í rólegheitum á mínum þrettán ára gamla bíl.  Eðlilega er hann orðinn dálítið lúinn,  blessaður.  Ég kem að rauðu ljósi.  Í útvarpinu - Rás 1 - hljómaði ljúfur og djassaður píanóleikur.  Skyndilega er eins og bensíngjöfin sé stigin í botn.  Það hvín í vélinni.  Ég var ekki með fót á bensíngjöfinni.  Ég leit á hana.  Hún var uppi.  Þetta hafði því ekkert með hana að gera.

  Ég ákvað að bruna að verkstæði sem er þaulvant að gera við bílinn.  Í sama mund breytist hljóðið.  Þá átta ég mig á því að hljóðið kom úr útvarpinu.  Kontrabassi hafði bæst við píanóleikinn.  Hófst með langdregnum tóni sem hljómaði glettilega líkt vélarhljóði bílsins. 

  Þegar lagið var afkynnt kom í ljós að þarna var á ferð bassasnillingurinn, Íslands- og Færeyjavinurinn Niels-Henning heitinn Örsted Pedersen.

  Ég finn ekki lagið á youtube.  Sem gerir ekkert til.  Det var en lördag aften er skemmtilegra.

 

 

           


Af hverju reyndi Paul að koma John og Yoko saman á ný?

  John Lennon og Yoko Ono urðu samloka nánast frá fyrsta degi sem þau hittust.  Þau voru yfirgengilega upptekin af og háð hvort öðru.  Þau límdust saman.  Endalok Bítlanna 1969 má að mörgu leyti rekja til þess - þó að fleira hafi komið til.

  Nokkrum árum síðar dofnaði sambandið.  John var erfiður í sambúð.  Hann tók skapofsaköst og neytti eiturlyfja í óhófi.  (Er hægt að dópa í hófi?).  Að auki urðu þau ósamstíga í kynlífi er á leið.  Kynhvöt Yokoar dalaði bratt.  En ekki Johns.  Sennilega spilaði aldur inn í dæmið.  Hún var 7 árum eldri.

  Spennan og pirringurinn á heimilinu leiddi til uppgjörs.  Yoko rak John að heiman.  Sendi hann til Los Angelis ásamt 22ja ára stúlku,  May Pang, sem var í vinnu hjá þeim hjónum.  John hafði aldrei ferðast einn.  Hann var alltaf ringlaður á flugstöðvum.  Sjóndepurð átti þátt í því. Hann var háður ferðafélaga.

  Yoko gaf May ekki fyrirmæli um að verða ástkona Johns.  Hún hefur þó viðurkennt fúslega að dæmið hafi verið reiknað þannig.  Sem varð raunin.

  Verra var að John missti sig algjörlega.  Hann datt í það.  Svo rækilega að hann var blindfullur í 18 mánuði samfleytt.  Hann ákvað meira að segja að drekka sig til dauða.  Fór í keppni við Ringo,  Keith Moon (trommara The Who) og Harry Nilson um það hver yrði fyrstur til að drekka sig til dauða.  Keith og Harry unnu keppnina.  Ýmsu var bætt inn í uppskriftina til að auka sigurlíkur.  Meðal annars að henda sér út úr bíl á ferð.

  Að því kom að fjölmiðlar birtu ljósmynd af John langdrukknum og blindfullum til vandræða á skemmtistað.  Hann var með dömubindi límt á ennið.

  Er Paul McCartney sá myndina fékk hann sting í hjartað.  Þekkjandi sinn nánasta fósturbróður sá hann óhamingjusaman, örvinglaðan,  ringlaðan og týndan mann.  Fram til þessa höfðu þeir átt í harðvítugum málaferlum vegna uppgjörs Bítlanna.  Að auki hafði John sent frá sér níðsöng um Paul,  How do you sleep?, og sent honum hatursfulla pósta.    

  Það næsta sem gerðist hefur farið hljótt.  Ástæðan:  Enginn spurði Paul, John og Yoko um það.  Engum datt þessi óvænta atburðarrás í hug.  Paul heimsótti í snatri Yoko.  Vinskapur þeirra hafði aldrei verið mikill.  Eiginlega ekki vinskapur.  En þarna ræddust þau við í marga klukkutíma.  Spjallið varði langt fram á nótt.  Paul bar undir hana alla hugsanlega möguleika á að hún sættist við John og tæki við honum aftur.  Yoko var erfið og setti fram ýmis skilyrði sem John yrði að fallast á.

  Því næst heimsótti Paul blindfullan og dópaðan John og fór með honum yfir kröfur Yokoar. John þurfti umhugsun en féllst að endingu með semingi á kröfur hennar.  Betur er þekkt að Elton John hélt í framhaldi af þessari atburðarrás hljómleika í Bandaríkjunum og bauð Yoko að hitta sig baksviðs.  Þar var þá John.  Þau féllust í faðma og tóku saman á ný.  Eignuðust soninn Sean Lennon.  John lagði tónlist á hilluna í nokkur ár.  Kom svo aftur til leiks sem léttpoppari 1980 - að því er virtist hamingjusamur.  Þá var hann myrtur.  

  Eftir stendur spurningin:  Hvers vegna var Paul mikið í mun að sætta John og Yoko?  Svar:  Í fyrsta lagi saknaði hann fóstbróður síns sárlega.  Í öðru lagi þráði hann að þeir næðu að endurnýja vinskapinn.  Ekki endilega að endurreisa Bítlana heldur að ná sáttum.  Sem tókst.  Þeir skildu í góðum vinskap áður en yfir lauk.  Paul hefur sagt að það hafi hjálpað sér mikið í sorginni sem fylgdi morðinu.

  Til gamans má geta að fyrir nokkrum árum hittust Yoko og May Pang óvænt á Hilton Hóteli í Reykjavík.  Þær þóttust ekki vita af hvor annarri.  Heilsuðust ekki einu sinni.  Einhver ólund í gangi.  Eins og gengur.

bítlabræður og frúrMay Pang

 lennon


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband