Færsluflokkur: Lífstíll

Fólk kann ekki handaþvott

  Bandaríska landbúnaðarráðuneytið stóð á dögunum fyrir vandaðri rannsókn á handaþvotti.  Fylgst var leynilega með 393 manns matreiða kalkúnaborgara og salat.  97% kokkanna fengu falleinkunn. Af helstu klúðrum var að þvo aðeins fremsta hluta fingra en ekki á milli þeirra.  Annað algengt klúður var að þvo ekki hendur eftir að hafa fiktað í nefi eða öðrum andlitshlutum né eftir að hafa hóstað eða hnerrað í lófa.  Þriðja algenga klúðrið var að skola puttana aðeins lauslega í alltof stutta stund.  Fjórða klúðrið er að sniðganga þumalinn.  Vegna sóðaskapar starfsmanna á veitingastöðum fá margir illt í magann eftir heimsókn þangað.

  Svona á að þvo hendur:

  - Fyrst skal bleyta hendurnar rækilega í vatni og nugga þær fram og til baka.  Klúður er að byrja á því að sápa þær.  Sápan dreifist aldrei nógu vel þannig.

  - Nugga sápu og vatni vel yfir báðar hendur.  Gæta sérlega vel að því að þvo á milli fingra.   

  -  Stóra málið er að gleyma ekki að sápa og þvo þumalinn. 

þvottur

 

 


Færeyskur húmor

  Færeyingar eru góðir húmoristar.  Þeir eiga auðvelt með að koma auga á eitthvað spaugilegt.  Þegar þeim dettur í hug eitthvað sprell þá framkvæma þeir það þrátt fyrir að stundum kalli það á mikla vinnu og fyrirhöfn.  Dæmi:

  Rétt utan við höfuðborgina,  Þórshöfn,  er risastór saltgeymsla eyjanna niður við sjó.  Þegar ekið er til eða frá Þórshöfn þá liggur þjóðvegurinn ofan við saltgeymsluna.  Þak hennar blasir við vegfarendum.  Einn mánudagsmorgun blasti við þeim að einhver eða einhverjir höfðu málað snyrtilega og fagmannlega stórum stöfum á þakið orðið PIPAR. 

  Þétt austur af Þórshöfn er Nólsey.  Hún tilheyrir sveitarfélaginu Þórshöfn.  Hún skýlir höfninni í Þórshöfn fyrir veðri og vindum.  Íbúar eru hátt í 300.  Margir þeirra vinna í Þórshöfn. 

  Í Færeyjum hefur til átta ára verið rekinn sumarskóli í kvikmyndagerð.  Í ár er hann starfræktur í Nólsey.  Af því tilefni brugðu tveir vinir á leik og settu í gær upp risastórt skilti á eyjunni með orðinu NÓLLYWOOD.  Framkvæmdin tók marga daga og var dýr.  En vinirnir segja að þetta sprell eigi að endast í mörg ár.

  Eins og glöggt má sjá á myndinni hér fyrir neðan þá er skiltið afrit af frægasta skilti í Los Angeles í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Neðst til vinstri á myndinni sést hús.  Af því má ráða hver stærð skiltisins er. 

Nólsoy

 

hollywood-sign


Verstu lönd fyrir konur

 

  548 sérfræðingar á snærum Thomson Reuters Foundation hafa tekið saman lista yfir verstu lönd heims fyrir konur að búa á.  Ekki kemur á óvart að Indland sé allra landa verst.  2016 voru 40 þúsund nauðganir kærðar þar.  Þrátt fyrir að lítið komi út úr kærunum.  Kærðar nauðganir eru aðeins lítið brot af ástandinu.  Hátt hlutfall nauðgana eru hópnauðganir.  Hátt hlutfall nauðgana er gegn barnungum stelpum.  Ennfremur er algengt að fórnarlömb séu myrt í kjölfar nauðgunar.  

  Verst er staða svokallaðra stéttlausra stelpna á Indlandi.  Nánast er almennt viðhorf að þær séu réttlausar með öllu.  Þær eiga á hættu að vera lamdar eða nauðgað á ný á lögreglustöð ef þær kæra nauðgun.  Allra síst geta þær búist við að kæra leiði til refsingar.    

  Þetta eru 10 verstu lönd fyrir konur:

1.  Indland

2.  Afganistan

3.  Sýrland

4.  Sómalía

5.  Sádi-Arabía

6.  Pakistan

7.  Kongó - Kinsasa

8.  Jemen

9.  Nígería

10. Bandaríkin

  Eflaust er óverulegur stigsmunur á milli allra efstu löndunum.  Sláandi er að af 193 löndum Sameinuðu þjóðanna sé Sádi-Arabía í flokki með 5 verstu löndum fyrir konur.  Þökk sé Bretum sem beittu sér af hörku fyrir því að skipa Sáda yfir mannréttindaráð samtakanna. 

   


Dularfullt hvarf Færeyinga

  Tveir ungir Færeyingar hurfu á dularfullan hátt í Kaupmannahöfn á þriðjudaginn.  Lögreglan hefur síðan leitað þeirra.  Án árangurs.  

  Færeyingarnir áttu bókað flugfar til Færeyja.  Þeir skiluðu sér hinsvegar ekki í innritun.  Það síðasta sem vitað er um þá er að annar ræddi við vin sinn í síma nokkru fyrir flugtak.  Hann sagði þá vera á leið út á Kastrup flugvöll.  

  Annar drengjanna ætlaði að flytja aftur til Færeyja.  Hinn ætlaði aðeins að kíkja í heimsókn.

  Frá því að hvarf þeirra uppgötvaðist hefur verið slökkt á símum þeirra.  Jafnframt hafa þeir ekki farið inn á netið.

  Uppfært kl. 15.50:  Mennirnir eru fundnir.  Þeir eru í Malmö í Svíþjóð.  Málið er þó ennþá dularfullt.  Af hverju mættu þeir ekki í innritun á Kastrup?  Af hverju stungu þeir af til Malmö?  Af hverju hefur verið slökkt á símum þeirra?  Af hverju létu þeir ekki áhyggjufulla ættingja ekki vita af sér dögum saman?

Færeyingarnir


Brjóstagjöf gegn matvendni

  Því lengur sem börn eru á brjósti þeim mun síður verða þau matvönd.  Þeim mun lystugri verða þau í grænmeti.  Ástæðan er sú að bragðið á brjóstamjólk sveiflast til eftir mataræði móðurinnar.  Brjóstmylkingurinn venst því að matur sé fjölbreyttur.  Þegar mataræði sex ára barna er skoðað kemur í ljós að börn alin á brjóstamjólk sækja í tvöfalt fjölbreyttara fæði en börn alin á vatnsblandaðri þurrmjólk.  Jafnframt eru brjóstmylkingarnir viljugri til að prófa framandi grænmeti.  

matur


Íslenska leiðin

  Maður sem við köllum A var fyrirtækjaráðgjafi Glitnis.  Hann gaf fátækum vinum olíufyrirtækið Skeljung.  Þetta var sakleysisleg sumargjöf.  Hún olli þó því að A var rekinn með skömm frá Glitni.  Eðlilega var hann þá ráðinn forstjóri Skeljungs.  Um leið réði hann þar til starfa nokkra vini úr bankanum.  Þeirra í stað rak hann nokkra reynslubolta.  Hinsvegar er hjásvæfa hans ennþá í vinnu hjá Skeljungi.  Það er önnur saga og rómantískari.

  Skeljungur keypti Shell í Færeyjum.  Nokkru síðar var starfsmaður færeyska Shell ráðinn forstjóri Skeljungs.  Síðan er fyrirtækinu stýrt frá Færeyjum.  Þetta þótti einkennilegt.  Hefðin var sú að framkvæmdastjóri tæki við forstjórastóli. 

  Fyrsta verk færeyska forstjórans var að kaupa hlutabréf í Skeljungi á undirverði og selja daginn eftir á yfirverði.  Lífeyrissjóðir toguðust á um að kaupa á yfirverðinu.  Kauði fékk í vasann á einum degi 80 milljónir eða eitthvað.  Þetta er ólíkt Færeyingum sem öllu jafna eru ekki að eltast við peninga. 

  Persóna A var óvænt orðin meðeigandi Skeljungs.  Hann (kk) og vinirnir seldu sinn hlut í Skeljungi á 830 milljónir á kjaft. 

  Þetta er einfalda útgáfan á því hvernig menn verða auðmenn á Íslandi.

magn

 

 


Undarlegir flugfarþegar

  Sumt fólk hagar sér einkennilega í flugvél og á flugvöllum.  Íslendingar eiga frægasta flugdólg heims.  Annar íslenskur flugdólgur var settur í flugbann nokkrum árum áður.  Hann lét svo ófriðlega í flugvél yfir Bandaríkjunum að henni var lent á næsta flugvelli og kauða hent þar út. Hann var tannlæknir í Garðabæ.  Misþyrmdi hrottalega vændiskonu sem vann í hóruhúsi systur hans á Túngötu.

  Ekki þarf alltaf Íslending til.  Í fyrradag trylltist erlendur gestur í flugstöðinni í Sandgerði.  Hann beit lögregluþjón í fótinn.

  Á East Midlands flugstöðinni í Bretlandi undrast starfsfólk hluti sem flugfarþegar gleyma.  Meðal þeirra er stór súrefniskútur á hjólum ásamt súrefnisgrímu.  Einnig má nefna tanngóm,  stórt eldhúshnífasett og stór poki fullur af notuðum nærbuxum.  Svo ekki sé minnst á fartölvu,  síma og dýran hring.

flugdólgur


Harðfisksúpa víðar en á Íslandi

  Harðfisksúpa Baldurs Garðarssonar hefur vakið verðskuldaða athygli.  Ekki síst eftir að hún sigraði með glæsibrag í hugmyndasamkeppninni Þjóðlegir réttir á okkar veg.  Atti harðfisksúpan þar kappi við 106 aðra rétti. 

  Svo skemmtilega vill til að harðfisksúpa er elduð víðar.  Heimsþekktur og margrómaður færeyskur sjávarréttakokkur,  Birgir Enni,  hefur til margra ára lagað harðfisksúpu.  Ég hef gætt mér á henni.  Hún er góð. 

birgir enni

 

súpa


Klæddu frambjóðendur sig rétt?

  Litir hafa sterk áhrif á fólk.  Til að mynda framkallar rauður litur hungurtilfinningu.  Á síðustu öld bannaði matvælaeftirlit í Danmörku litarefni í cola-drykkjum.  Þeir urðu þá gráir.  Líktust steypu.  Salan hrundi.  Bannið var snarlega afturkallað.

  Þegar frambjóðendur stjórnmálaflokka koma fram í sjónvarpi skiptir klæðnaður miklu máli.  Ímynd vegur þyngra en málefni.  Þetta hefur verið rannsakað til áratuga í útlöndum með einróma niðurstöðu.  Árangurríkasti klæðnaður karlkyns frambjóðanda í sjónvarpi er jakkaföt og hálsbindi.  Köflótt bómullarskyrta og prjónavesti eru vonlaust dæmi.  Heppilegasti litur á jakka er dökkblár/svartblár.  Sá litur kallar fram tilfinningu fyrir trúverðugleika,  ábyrgð og góðri dómgreind.  Nánast allir karlkyns frambjóðendur í kosningasjónvarpi sjónvarpsstöðva í ár fóru eftir þessu.

  Heppilegasti litur á skyrtu er hvítur ljósblár;  nánast hvítur með bláum blæ. Eða alveg hvítur.  Flestir kunnu það.  Færri kunnu að velja sér bindi.  Dagur B.  var ekki með bindi.  Ekki heldur Þorvaldur í Alþýðufylkingunni.  Bindisleysi Þorvaldar og Dags virkar vel á kjósendur Alþýðufylkingarinnar.  En skilar engu umfram það.  Í tilfelli Dags kostar það Samfylkinguna 8. borgarfulltrúann.  Pottþétt.

  Flestir aðrir frambjóðendur klikkuðu á hálsbindinu.  Heppilegasti litur á hálsbindi er rauður.  Rautt hálsbindi kallar fram tilfinningu fyrir ástríðu og áræði.  Frambjóðandi Framsóknarflokksins var með grænt bindi.  Það var ekki alrangt.  Litur Framsóknarflokksins er grænn.  En svona "lókal" skilar ekki sæti í borgarstjórn.

  Í útlandinu kunna menn þetta.            

matttrump 


Bullað um rykmaura

  Ný rannsókn leiðir í ljós að svefnbæli simpansa eru snyrtilegri en rúm mannfólks.  Munar miklu þar um.  Þetta hefur vakið undrun og umtal.  Við hverju bjóst fólk?  Að simpansar væru sóðar?  Það eru fordómar.  Simpansar eru snyrtipinnar.  Þess vegna meðal annars skipta þeir ört um svefnbæli.

  Í umræðunni hérlendis hefur mörgum orðið tíðrætt um að rúm fólks séu löðrandi í rykmaurum og rykmauraskít.  Þetta er bull hvað varðar íslensk rúm.  Einhverra hluta vegna er bullið lífseigara og útbreiddara en niðurstöður rannsókna sem sýna annað.  Þær sýna að rykmaurar þrífast ekki á Íslandi.  Hita- og rakastig kemur í veg fyrir það.

  Jú,  það hafa fundist rykmaurar á Íslandi.  Örfáir.  Allir rígfullorðnir.  Engin ungviði.  Það undirstrikar að einu rykmaurarnir á Íslandi séu nýinnfluttir frá útlöndum.  Flækingar sem slæðast með ferðalöngum.  Verða ekki langlífir og ná ekki að fjölga sér.

  Hitt er annað mál að ástæðulaust er að amast við rykmaurum.  Þetta eru tvær vinalegar og ástríkar tegundir.  Önnur er undirlögð kynlífsfíkn á háu stigi.  Báðar tegundir éta dauðar húðfrumur.  Gott að einhver geri það.  

rykmaur    

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband