Færsluflokkur: Lífstíll
22.12.2018 | 04:09
Gleðileg jól!
Heims um ból
halda menn jól;
heiðingjar, kristnir og Tjallar.
Uppi á stól
stendur í kjól
stuttklipptur prestur og trallar.
20.12.2018 | 04:06
Veitingaumsögn
- Staður: Sægreifinn
- Staðsetning: Geirsgata 8 í Reykjavík
- Réttur: Kæst skata
- Verð: 2350 kr.
- Einkunn: ****
Sægreifinn er skemmtilega hrár veitingastaður með sterkan persónuleika (karakter). Hann er í senn "heimilislegur" og heillandi. Andi stofnandans, Kjartans Halldórssonar, svífur yfir og allt um kring. Hann var bráðskemmtilegur og magnaður náungi sem gustaði af. Féll frá 2015. Í hans tíð var ánægjuleg ábót við góða máltíð að ræða sjávarútvegsmál við hann. Alltaf var stutt í húmorinn. Hann sá broslegu hliðarnar í bland við annað.
Eitt af sérkennum Sægreifans hefur verið og er að bjóða upp á kæsta skötu og siginn fisk. Skata er svipuð frá einum veitingastað til annars. Hjá Sægreifanum er hún frekar mild. Með á disknum eru saltfisksbitar, kartöflur, hamsar og tvær rúgbrauðssneiðar með smjöri. Í eftirrétt er hrísgrjónagrautur með rjóma og kanil, kenndur við Steingrím Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra.
Einn af mörgum kostum Sægreifans er hófleg verðlagning. Enginn veitingastaður á höfuðborgarsvæðinu býður upp á hagstæðara verð á skötumáltíð í ár.
Ég geri tvær athugasemdir við skötu Sægreifans: Annarsvegar er skammturinn alltof ríflegur. Það er ekki möguleiki að torga nema helmingi hans. Þrátt fyrir að troða í sig löngu eftir að maður er orðinn saddur. Hinsvegar sakna ég þess að fá ekki rófubita með. Í sælli minningu á ég kæsta skötu á Sægreifanum með rófubita.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 04:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.12.2018 | 06:23
Veitingaumsögn
- Veitingastaður: Rakang
- Staðsetning: Hraunbær 102A í Reykjavík
- Réttur: Tælenskt hlaðborð
- Verð: 2000 / 2800 kr.
- Einkunn: ****
Rakang er tælenskur veitingastaður, staðsettur í sama húsnæði og áður hýsti veitingastaðinn Blástein. Hann rak Ásgeir heitinn Hannes Eiríksson. Þetta er rúmgóður staður sem skiptist upp í nokkra sali. Á góðum helgardegi var boðið upp á dansleiki.
Fyrir ókunnuga er erfitt að finna staðinn. Hraunbær 102 teygir sig yfir nokkur hús í grennd við Orku bensínsölu. Til að finna 102a þarf að keyra niður fyrir eitt húsið.
Asísk hlaðborð eru hvert öðru lík. Enda eru þau iðulega blanda af tælenskum mat, víetnömskum og kínverskum. Hlaðborðið á Rakang samanstendur af kjúklingabitum í sósu, þunnt skornu nautakjöti í sósu, djúpsteiktum svínakjötstrimlum, djúpsteiktum fiski, djúpsteiktum vængjum og tveimur núðluréttum með grænmeti. Meðlæti eru hvít hrísgrjón, græn karrýsósa, rauð karrýsósa og súrsæt sósa.
Maturinn er bragðmikill og góður. Á borðum eru flöskur til að skerpa enn frekar á bragði. Þær innihalda soyja sósu, sterka chilli sósu og sterka mayones sósu.
Enginn laukur er í matnum, ólíkt því sem algengt er í asískum mat. Þeim mun meira er af grænmeti á borð við gulrætur, papriku og blómkáli.
Í hádegi er hlaðborðið á 2000 kr. Á kvöldin er það 2800 kall. Innifalið er kaffi og gosdrykkir.
Ljósmyndirnar njóta sín betur ef smellt er á þær.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.12.2018 | 00:03
Stam
Í síðustu viku var ég í viðtali á Útvarpi Sögu, hjá Pétri Gunnlaugssyni. Nokkru síðar hringdi í mig kunningi. Hann var þá búinn að hlusta á spjallið í tvígang og hafði gaman af. Hinsvegar sagðist hann taka eftir því að stundum komi eins og hik á mig í miðri setningu, líkt og ég finni ekki rétta orðið.
Ég upplýsti hann um að ég stami. Af og til neita talfærin að koma strax frá sér tilteknum orðum. Á barnsaldri reyndi ég samt að koma orðinu frá mér. Þá hjakkaði ég á upphafi orðsins, eins og spólandi bíll. Með aldrinum lærðist mér að heppilegri viðbrögð væru að þagna uns ég skynja að orðið sé laust. Tekur aldrei lengri tíma en örfáar sekúndur.
Þetta hefur aldrei truflað mig. Ég hugsa aldrei um þetta og tek yfirleitt ekki eftir þessu.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 01:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
25.11.2018 | 00:15
Kinnasleikir
Lengi er von á einum. Nú hefur Óli kinnasleikir bæst við í skrautlega flóru íslenskra jólasveina. Störfum hlaðin kynferðisbrotadeild ríkiskirkjunnar rannsakaði málið: Komst hægt og bítandi að niðurstöðu; um að háttsemi jólasveinsins falli undir eitt af mörgum fjölskrúðugum kynferðislegum áreitum og ofbeldi kirkjunnar þjóna. Kinnasleikir vill frekar telja þetta til almennra þrifa. Svona sé algengt. Einkum meðal katta.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (46)
8.11.2018 | 00:09
Fóstureyðingar í Færeyjum
Um þessar mundir eru fóstureyðingar fyrirferðamiklar í umræðunni hér - eða þungunarrof eins og fyrirbærið er einnig kallað. Ástæða umræðunnar er sú að verið er að breyta lögum; rýmka og lengja heimild til verknaðarins fram að 23. viku meðgöngu.
Forvitnilegt er að bera saman á milli landa fjölda fóstureyðinga á ári. Færeyingar skera sig rækilega frá öðrum norrænum löndum. Í fyrra voru 19 fóstureyðingar þar.
Berum saman hve margar fóstureyðingar eru á móti hverjum 1000 börnum sem fæðast. Listinn er þannig:
Grænland 1030
Svíþjóð 325
Danmörk 264
Ísland 253
Noregur 224
Finnland 177
Færeyjar 29
Þessi samanburður undirstrikar að Færeyjar eru mesta velsældarríki heims. Annar listi sem styður það er hversu mörg börn hver kona eignast að meðaltali:
Finnland 1,5
Noregur 1,6
Ísland 1,7
Danmörk 1,75
Svíþjóð 1,8
Grænland 2,0
Færeyjar 2,5
Lífstíll | Breytt 9.11.2018 kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
24.10.2018 | 07:05
Hugljúf jólasaga
- Viltu styðja við stigann, Tóti minn? Hann á það til að renna út á stétt.
- Ekkert mál. Tóti greip þéttingsfast um stigann.
- Ertu ekki með lykil að útidyrunum?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.10.2018 | 05:48
Færeyska velferðarríkið blómstrar
Færeyjar eru mesta velferðarríki heims. Færeyingar mælast hamingjusamasta þjóð heims. Atvinnuþátttaka kvenna er hvergi meiri í Evrópu, 82%. Þar af flestar í hlutastarfi. Þær vilja vera fjárhagslega sjálfsstæðar. Til samanburðar er atvinnuþátttaka Dana, karla og kvenna, 75%.
Færeyskar konur eru þær frjósömustu í Evrópu. Færeysk kona eignast 2,5 börn. Íslensk kona eignast 1,7 barn.
Til áratuga voru Færeyingar um 48 þúsund. Í ársbyrjun urðu þeir 50 þúsund. Á Ólavsvöku 29. júlí urðu þeir 51 þúsund. Ætla má að í eða um næstu áramót verði þeir 52 þúsund.
Aldrei áður hafa jafn fáir Færeyingar flutt frá Færeyjum og nú. Aldrei áður hafa jafn margir brottfluttir Færeyingar flutt aftur til Færeyja. Ástæðan er sú að hvergi er betra að búa.
Framan af öldinni heimsóttu 40 - 80 þúsund erlendir ferðamenn Færeyjar á ári. 2015 og 2016 brá svo við að sitthvort sumarið stóðu 500 Sea Shepherd-liðar misheppnaða vakt í Færeyjum. Reyndu - án árangurs - að afstýra hvalveiðum. Þess í stað auglýstu þeir í ógáti Færeyjar sem ævintýralega fagrar eyjar og óvenju gott og kærleiksríkt samfélag.
Áróður SS-liða gegn færeyskum hvalveiðum snérist í andhverfu. Færeyjar urðu spennandi. Í fyrra komu 160.000 ferðamenn til Færeyja. Miðað við bókanir næstu ára má ætla að erlendir ferðamenn í Færeyjum verði 200 þúsund 1920.
Vandamálið er að gistirými í Færeyjum svarar ekki eftirspurn. Í Færeyjum er ekki til neitt sem heitir eignaskattur. Þess vegna er algengt að Færeyingar eigi 2 - 3 hús til að lána vinum og vandamönnum í heimsókn. 38,9% gistinátta í fyrra voru í Airb&b. Í skoðanakönnun Gallup upplýstu gestir að ekki hafi verið um aðra gistimöguleika að ræða. Allt uppbókað.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
10.10.2018 | 04:55
Ennþá fleiri gullmolar úr "Ekki misskilja mig vitlaust!"
"Þrír skór á verði tveggja." Útvarpsauglýsing frá íþróttavöruversluninni Under Armour vorið 2018.
"Komið þið sæl - ég verð því miður að afboða forföll á sambandsþingið - óska ykkur góðs gengis. Kv. Vigdís." Vigdís Hauksdóttir.
"Það er hver höndin upp á móti annarri við að hjálpa hinni." Þórarinn Kristjánsson frá Hólum í Geiradal að lýsa hjálpsemi sveitunga sinna.
"Hann var frændi minn til fjölda ára, flutti svo háaldraður til Reykjavíkur og lést þar á besta aldri." Langi-Sveinn (Sveinn Sveinsson) vörubílstjóri á Selfossi.
"Ég er í vandræðum með að fá föt á stelpuna því hún er svo ermalöng." Ína frá Víðidalsá í Steingrímsfirði (Þorsteinsína Guðrún Gestsdóttir) að kaupa peysu á dóttur sína.
"Þetta voru ekki góð mistök hjá Herði." Bjarnólfur Lárusson í knattspyrnulýsingu á Stöð 2.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 05:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.9.2018 | 08:11
Bruðlsinnar leiðréttir
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, hefur varpað ljósi á einn anga bruðls með fé skattborgara. Hann var sendur til Grænlands við tíunda mann á fund Norðurlandaráðs. Þar voru samþykktar eldri ályktanir. Snúnara hefði verið að samþykkja þær rafrænt. Óvisst er að allir kunni á tölvu.
Guðmundi var stefnt til Nuuk tveimur dögum fyrir ráðstefnuna. Þar dvaldi hann í góðu yfirlæti á dýrasta hóteli sem hann hefur kynnst; 144 þúsund kall fyrir vikudvöl. Rösklega 20 þúsund kall nóttin.
Bruðlsinnar vísa til þess að einungis sé flogið til Nuuk frá Íslandi einu sinni í viku. Þess vegna hafi íslenskir ráðstefnugestir neyðst til að væflast í reiðuleysi í einhverja daga umfram ráðstefnudaga.
Vandamálið með dýra hótelgistingu sé að einungis eitt hótel finnist í Nuuk.
Hið rétta er að flogið er til og frá Nuuk og Reykjavík þrisvar í viku. Að auki er ágætt úrval af gistingu í Nuuk. Ekki allt 5 stjörnu glæsihótel; en alveg flott gistiheimili á borð við Greenland Escape Acommodation. Nóttin þar er á 11 þúsund kall.
Skoða má úrvalið HÉR.
Góðu fréttirnar - sem allir eru sammála um - eru að ráðstefnugestir fengu í hendur bækling prentaðan á glanspappír með litmyndum. Þar sparaðist póstburðargjald.
Lífstíll | Breytt 22.9.2018 kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)