Færsluflokkur: Lífstíll
8.11.2018 | 00:09
Fóstureyðingar í Færeyjum
Um þessar mundir eru fóstureyðingar fyrirferðamiklar í umræðunni hér - eða þungunarrof eins og fyrirbærið er einnig kallað. Ástæða umræðunnar er sú að verið er að breyta lögum; rýmka og lengja heimild til verknaðarins fram að 23. viku meðgöngu.
Forvitnilegt er að bera saman á milli landa fjölda fóstureyðinga á ári. Færeyingar skera sig rækilega frá öðrum norrænum löndum. Í fyrra voru 19 fóstureyðingar þar.
Berum saman hve margar fóstureyðingar eru á móti hverjum 1000 börnum sem fæðast. Listinn er þannig:
Grænland 1030
Svíþjóð 325
Danmörk 264
Ísland 253
Noregur 224
Finnland 177
Færeyjar 29
Þessi samanburður undirstrikar að Færeyjar eru mesta velsældarríki heims. Annar listi sem styður það er hversu mörg börn hver kona eignast að meðaltali:
Finnland 1,5
Noregur 1,6
Ísland 1,7
Danmörk 1,75
Svíþjóð 1,8
Grænland 2,0
Færeyjar 2,5
Lífstíll | Breytt 9.11.2018 kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
24.10.2018 | 07:05
Hugljúf jólasaga
- Viltu styðja við stigann, Tóti minn? Hann á það til að renna út á stétt.
- Ekkert mál. Tóti greip þéttingsfast um stigann.
- Ertu ekki með lykil að útidyrunum?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.10.2018 | 05:48
Færeyska velferðarríkið blómstrar
Færeyjar eru mesta velferðarríki heims. Færeyingar mælast hamingjusamasta þjóð heims. Atvinnuþátttaka kvenna er hvergi meiri í Evrópu, 82%. Þar af flestar í hlutastarfi. Þær vilja vera fjárhagslega sjálfsstæðar. Til samanburðar er atvinnuþátttaka Dana, karla og kvenna, 75%.
Færeyskar konur eru þær frjósömustu í Evrópu. Færeysk kona eignast 2,5 börn. Íslensk kona eignast 1,7 barn.
Til áratuga voru Færeyingar um 48 þúsund. Í ársbyrjun urðu þeir 50 þúsund. Á Ólavsvöku 29. júlí urðu þeir 51 þúsund. Ætla má að í eða um næstu áramót verði þeir 52 þúsund.
Aldrei áður hafa jafn fáir Færeyingar flutt frá Færeyjum og nú. Aldrei áður hafa jafn margir brottfluttir Færeyingar flutt aftur til Færeyja. Ástæðan er sú að hvergi er betra að búa.
Framan af öldinni heimsóttu 40 - 80 þúsund erlendir ferðamenn Færeyjar á ári. 2015 og 2016 brá svo við að sitthvort sumarið stóðu 500 Sea Shepherd-liðar misheppnaða vakt í Færeyjum. Reyndu - án árangurs - að afstýra hvalveiðum. Þess í stað auglýstu þeir í ógáti Færeyjar sem ævintýralega fagrar eyjar og óvenju gott og kærleiksríkt samfélag.
Áróður SS-liða gegn færeyskum hvalveiðum snérist í andhverfu. Færeyjar urðu spennandi. Í fyrra komu 160.000 ferðamenn til Færeyja. Miðað við bókanir næstu ára má ætla að erlendir ferðamenn í Færeyjum verði 200 þúsund 1920.
Vandamálið er að gistirými í Færeyjum svarar ekki eftirspurn. Í Færeyjum er ekki til neitt sem heitir eignaskattur. Þess vegna er algengt að Færeyingar eigi 2 - 3 hús til að lána vinum og vandamönnum í heimsókn. 38,9% gistinátta í fyrra voru í Airb&b. Í skoðanakönnun Gallup upplýstu gestir að ekki hafi verið um aðra gistimöguleika að ræða. Allt uppbókað.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
10.10.2018 | 04:55
Ennþá fleiri gullmolar úr "Ekki misskilja mig vitlaust!"
"Þrír skór á verði tveggja." Útvarpsauglýsing frá íþróttavöruversluninni Under Armour vorið 2018.
"Komið þið sæl - ég verð því miður að afboða forföll á sambandsþingið - óska ykkur góðs gengis. Kv. Vigdís." Vigdís Hauksdóttir.
"Það er hver höndin upp á móti annarri við að hjálpa hinni." Þórarinn Kristjánsson frá Hólum í Geiradal að lýsa hjálpsemi sveitunga sinna.
"Hann var frændi minn til fjölda ára, flutti svo háaldraður til Reykjavíkur og lést þar á besta aldri." Langi-Sveinn (Sveinn Sveinsson) vörubílstjóri á Selfossi.
"Ég er í vandræðum með að fá föt á stelpuna því hún er svo ermalöng." Ína frá Víðidalsá í Steingrímsfirði (Þorsteinsína Guðrún Gestsdóttir) að kaupa peysu á dóttur sína.
"Þetta voru ekki góð mistök hjá Herði." Bjarnólfur Lárusson í knattspyrnulýsingu á Stöð 2.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 05:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.9.2018 | 08:11
Bruðlsinnar leiðréttir
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, hefur varpað ljósi á einn anga bruðls með fé skattborgara. Hann var sendur til Grænlands við tíunda mann á fund Norðurlandaráðs. Þar voru samþykktar eldri ályktanir. Snúnara hefði verið að samþykkja þær rafrænt. Óvisst er að allir kunni á tölvu.
Guðmundi var stefnt til Nuuk tveimur dögum fyrir ráðstefnuna. Þar dvaldi hann í góðu yfirlæti á dýrasta hóteli sem hann hefur kynnst; 144 þúsund kall fyrir vikudvöl. Rösklega 20 þúsund kall nóttin.
Bruðlsinnar vísa til þess að einungis sé flogið til Nuuk frá Íslandi einu sinni í viku. Þess vegna hafi íslenskir ráðstefnugestir neyðst til að væflast í reiðuleysi í einhverja daga umfram ráðstefnudaga.
Vandamálið með dýra hótelgistingu sé að einungis eitt hótel finnist í Nuuk.
Hið rétta er að flogið er til og frá Nuuk og Reykjavík þrisvar í viku. Að auki er ágætt úrval af gistingu í Nuuk. Ekki allt 5 stjörnu glæsihótel; en alveg flott gistiheimili á borð við Greenland Escape Acommodation. Nóttin þar er á 11 þúsund kall.
Skoða má úrvalið HÉR.
Góðu fréttirnar - sem allir eru sammála um - eru að ráðstefnugestir fengu í hendur bækling prentaðan á glanspappír með litmyndum. Þar sparaðist póstburðargjald.
Lífstíll | Breytt 22.9.2018 kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.9.2018 | 02:11
Fékk sér sushi og missti hönd
Suður-kóreskur gutti slapp í sushi á dögunum. Skipti engum togum að í kjölfarið mynduðust stórar blöðrur á annarri hendi hans. Þær voru fylltar blóði. Læknar stungu á blöðrurnar og hleyptu blóðinu úr þeim. Þá bættust við stór opin sár. Þeim fjölgaði jafnt og þétt upp höndina án þess að hægt væri að stöðva sýkinguna. Neyðarráðstöfun var að fjarlægja höndina af til að bjarga öðrum hluta líkamans.
Hrár fiskur er varasamur. Hrái fiskurinn í sushi inniheldur iðulega bakteríur og orma. Það gerir heilsuhraustum ekki mein að ráði. Í mesta lagi smávægileg magaóþægindi í einn eða tvo daga. Verra er þegar um heilsulitla er að ræða. Eins og í þessu tilfelli. Maðurinn er með léleg nýru og sykursýki 2. Þar að auki er hann á áttræðisaldri og hlustar á Bee Gees.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
3.9.2018 | 23:48
Veitingaumsögn
- Veitingastaður: PHO Vietnam Restaurant, Suðurlandsbraut 6, Reykjavík
- Réttir: Grísakótelettur og lambakótelettur
- Verð: 1890 - 3990 kr.
- Einkunn: **** (af 5)
Móðir mín á erfitt með gang eftir að hún fékk heilablóðfall. Vinstri hluti líkamans lamaðist. Öllum til undrunar - ekki síst læknum - hefur henni tekist að endurheimta dálítinn mátt í vinstri fót. Nægilegan til að notast við göngugrind. Henni tekst jafnvel að staulast afar hægt um án grindarinnar.
Þetta er formáli að því hvers vegna ég fór með hana á PHO Vietnam Restaurant. Hún er búsett á Akureyri en brá sér í dagsferð til borgarinnar. Henni þykir gaman að kynnast framandi mat. Ég ók með hana eftir Suðurlandsbraut og skimaði eftir spennandi veitingastað með auðveldu aðgengi fyrir fatlaða. Vietnam Restaurant virtist vera heppilegt dæmi. Ég ók upp á gangstétt og alveg að útidyrahurðinni. Þar hjálpaði ég mömmu út úr bílnum og sagði henni að ég yrði eldsnöggur að finna bílastæði.
Mamma var ekki fyrr komin út úr bílnum en ungur brosmildur þjónn staðarins spratt út á hlað, studdi hana inn og kom henni í sæti. Aðdáunarverð þjónusta. Þetta var á háannatíma á staðnum; í hádegi.
PHO Vietnam Restaurant er fínn og veislulegur staður.
Ég fékk mér grillaðar grísakótelettur. Mamma pantaði sér grillaðar lambakótelettur. Meðlæti voru hvít hrísgrjón, ferskt salat og afar mild súrsæt sósa í sérskál. Á borðum var sterk chili-sósa í flösku. Við forðumst hana eins og heitan eld. Þóttumst ekki sjá hana.
Réttirnir litu alveg eins út. Þess vegna er undrunarefni að minn réttur kostaði 1890 kr. en lambakóteletturnar 3990 kr. Vissulega er lambakjöt eilítið dýrara hráefni. Samt. Verðmunurinn er ekki svona mikill.
Kóteletturnar litu ekki út eins og hefðbundnar kótelettur. Engin fituarða var á þeim. Fyrir bragðið voru þær dálítið þurrar. Vegna þessa grunar mig að þær hafi verið foreldaðar. Sem er í góðu lagi. Ég var hinn ánægðasti með þær. Mömmu þóttu sínar aðeins of þurrar. Að auki fannst henni þær skorta íslenska lambakjötsbragðið; taldi fullvíst að um víetnamskt lamb væri að ræða. Ég hef efasemdir um að veitingastaður á Íslandi sé að flytja til Íslands lambakjöt yfir hálfan hnöttinn. Nema það sé skýringin á verðmuninum.
Kóteletturnar, þrjár á mann, voru matarmiklar. Hvorugu okkar tókst að klára af disknum.
Að máltíð lokinni sagði ég mömmu að hinkra við á meðan ég sækti bílinn. Er ég lagði aftur upp á stétt sá ég hvar brosandi þjónn studdi mömmu út. Annar en sá sem studdi hana inn. Til fyrirmyndar.
Lífstíll | Breytt 5.9.2018 kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.8.2018 | 04:48
Minningarorð um Kristínu Guðmundsdóttur
Í dag er til moldar borin ástkær skólasystir, Kristín Guðmundsdóttir í Grindavík. Við vorum samferða í Héraðsskólanum á Laugarvatni á fyrri hluta áttunda áratugarins.
Allir strákarnir í skólanum nema einn voru skotnir í Stínu. Ekki aðeins vegna þess að hún var gullfalleg. Líka vegna hennar geislandi persónuleika. Hún var glaðvær, jákvæð, hlý og afskaplega skemmtileg.
Nemendum á Laugarvatni var mismunað gróflega eftir kynjum. Drengjaheimavistir og stúlknaheimavistir. Stranglega var bannað að flakka þar á milli. Slík ósvífni kostaði brottrekstur úr skólanum.
Stína bjó á heimavist sem hét Hlíð. Nauðsyn braut lög. Reglur viku fyrir ljúfum eftirmiðdögum um helgar. Fátt var skemmtilegra en að heimsækja Stínu og vinkonur hennar síðdegis um helgar. Bara að spjalla saman, vel að merkja. Ekkert annað. Það var góð skemmtun. Þarna varð til sterk lífstíðarvinátta.
Fyrir nokkrum árum tókum við skólasystkini frá Laugarvatni upp á því að hittast af og til. Meiriháttar gaman. Skugga bar á síðasta endurfund er Stína var fjarri vegna baráttu við krabbamein. Hennar er nú sárt saknað. Ein skemmtilegasta og indælasta manneskja sem ég hef kynnst. Ég er þakklátur fyrir frábær kynni.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.7.2018 | 21:43
Rokkhljómsveit er eitt æðsta form vináttu
Flestar rokkhljómsveitir eru stofnaðar af vinahópi. Bestu vinir með sama músíksmekk, sömu viðhorf til flestra hluta og sama húmor taka vinskapinn á hærra stig með því að stofna hljómsveit.
Þegar hljómsveitin nær flugi taka hljómleikaferðir við. Langar hljómleikaferðir. Vinirnir sitja uppi með hvern annan dag eftir dag, mánuð eftir mánuð. Jafnvel árum saman. Iðulega undir miklu álagi. Áreitið er úr öllum áttum: Svefnröskun vegna flakks á milli tímabelta; flugþreyta, hossast í rútu tímum saman...
Er gítarleikarinn Gunni Þórðar stofnaði Hljóma - eina merkustu hljómsveit íslensku tónlistarsenunnar - þá réð hann besta vin sinn, Rúna Júl, á bassagítar. Rúnar hafði fram að því aldrei snert hljóðfæri. Vinirnir leystu það snöfurlega: Gunni kenndi Rúna á bassagítar - með glæsilegum árangri.
Bresku Bítlarnir eru gott dæmi um djúpa vináttu. Forsprakkinn, John Lennon, og Paul McCartney urðu fóstbræður um leið og þeir hittust 16 ára. Þeir vörðu öllum stundum saman alla daga til fjölda ára. Þeir sömdu saman lög á hverjum degi og stússuðu við að útsetja þau og hljóðrita. Sólógítarleikari Bítlanna, George Harrison, var náinn vinur Pauls og skólabróðir. Í áranna rás varð hann reyndar meiri vinur Johns.
Hvað um það. Frá fyrstu ljósmyndum af Bítlunum á sjötta áratugnum og myndböndum fram til 1968 þá eru þeir alltaf brosandi, hlæjandi og hamingjusamir. Vinskapur þeirra var afar sterkur. Þegar hljómsveitin tók frí þá fóru þeir saman í fríið. Hvort heldur sem var til Indlands eða Bahama.
Þessi hugleiðing er sprottin af hljómleikum Guns ´n´ Roses í Laugardal í vikunni. Liðsmenn hljómsveitarinnar eru ítrekað sakaðir um að stússa í hljómleikahaldi einungis vegna peninganna. Ég hafna því ekki alfarið að liðsmenn hljómsveitarinnar kunni vel að meta að vera næst tekjuhæsta hljómleikahljómsveit rokksögunnar (á eftir the Rolling Stones). Bendi þó á að á rösklega þriggja áratuga löngum ferli hefur hljómsveitin selt vel á annað hundrað milljón plötur. Liðsmenn hljómsveitarinnar eru auðmenn. Ég veit ekki til að neinn þeirra hafi dýrt áhugamál. Ja, ef frá er talið að framan af ferli voru allir liðsmenn stórtækir harðlínudópistar og drykkjuboltar.
Hljómleikaferð Gunsara lauk hérlendis eftir að hafa varað frá 2016. Hljómleikarnir stóðu í hálfan fjórða tíma. Það er tvöfaldur tími hefðbundinna rokkhljómleika. Áheyrendur skynjuðu glöggt að hljómsveitin naut sín í botn. Liðsmenn hennar hefðu komist léttilega frá því að spila aðeins í tvo tíma. En þeir voru í stuði og vildu skemmta sér í góðra vina hópi.
Lífstíll | Breytt 28.7.2018 kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.7.2018 | 04:00
Sló Drake heimsmet Bítlanna?
Í fréttum hefur verið sagt frá því að Drake hafi slegið met Bítlanna. Met sem fólst í því að vorið 1964 áttu Bítlarnir fimm lög í fimm efstu sætum bandaríska vinsældalistans. Hið rétta er að Drake hefur ekki slegið það met. Hann hefur aldrei átt fimm lög í fimm efstu sætum bandaríska vinsældalistans.
Metið sem hann sló og rataði í fréttir er að í síðustu viku átti hann sjö lög í tíu efstu sætum bandaríska vinsældalistans. Þar af voru "aðeins" þrjú í fimm efstu sætunum. Öll drepleiðinleg. Efstu sætin - til að mynda fimm efstu - hafa mun meira vægi en neðri sæti. Á bak við efstu sætin liggur miklu meiri plötusala, miklu meiri útvarpsspilun og svo framvegis.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 07:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)