Færsluflokkur: Lífstíll
8.6.2018 | 00:24
Íslenska leiðin
Maður sem við köllum A var fyrirtækjaráðgjafi Glitnis. Hann gaf fátækum vinum olíufyrirtækið Skeljung. Þetta var sakleysisleg sumargjöf. Hún olli þó því að A var rekinn með skömm frá Glitni. Eðlilega var hann þá ráðinn forstjóri Skeljungs. Um leið réði hann þar til starfa nokkra vini úr bankanum. Þeirra í stað rak hann nokkra reynslubolta. Hinsvegar er hjásvæfa hans ennþá í vinnu hjá Skeljungi. Það er önnur saga og rómantískari.
Skeljungur keypti Shell í Færeyjum. Nokkru síðar var starfsmaður færeyska Shell ráðinn forstjóri Skeljungs. Síðan er fyrirtækinu stýrt frá Færeyjum. Þetta þótti einkennilegt. Hefðin var sú að framkvæmdastjóri tæki við forstjórastóli.
Fyrsta verk færeyska forstjórans var að kaupa hlutabréf í Skeljungi á undirverði og selja daginn eftir á yfirverði. Lífeyrissjóðir toguðust á um að kaupa á yfirverðinu. Kauði fékk í vasann á einum degi 80 milljónir eða eitthvað. Þetta er ólíkt Færeyingum sem öllu jafna eru ekki að eltast við peninga.
Persóna A var óvænt orðin meðeigandi Skeljungs. Hann (kk) og vinirnir seldu sinn hlut í Skeljungi á 830 milljónir á kjaft.
Þetta er einfalda útgáfan á því hvernig menn verða auðmenn á Íslandi.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.6.2018 | 00:04
Undarlegir flugfarþegar
Sumt fólk hagar sér einkennilega í flugvél og á flugvöllum. Íslendingar eiga frægasta flugdólg heims. Annar íslenskur flugdólgur var settur í flugbann nokkrum árum áður. Hann lét svo ófriðlega í flugvél yfir Bandaríkjunum að henni var lent á næsta flugvelli og kauða hent þar út. Hann var tannlæknir í Garðabæ. Misþyrmdi hrottalega vændiskonu sem vann í hóruhúsi systur hans á Túngötu.
Ekki þarf alltaf Íslending til. Í fyrradag trylltist erlendur gestur í flugstöðinni í Sandgerði. Hann beit lögregluþjón í fótinn.
Á East Midlands flugstöðinni í Bretlandi undrast starfsfólk hluti sem flugfarþegar gleyma. Meðal þeirra er stór súrefniskútur á hjólum ásamt súrefnisgrímu. Einnig má nefna tanngóm, stórt eldhúshnífasett og stór poki fullur af notuðum nærbuxum. Svo ekki sé minnst á fartölvu, síma og dýran hring.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
30.5.2018 | 05:14
Harðfisksúpa víðar en á Íslandi
Harðfisksúpa Baldurs Garðarssonar hefur vakið verðskuldaða athygli. Ekki síst eftir að hún sigraði með glæsibrag í hugmyndasamkeppninni Þjóðlegir réttir á okkar veg. Atti harðfisksúpan þar kappi við 106 aðra rétti.
Svo skemmtilega vill til að harðfisksúpa er elduð víðar. Heimsþekktur og margrómaður færeyskur sjávarréttakokkur, Birgir Enni, hefur til margra ára lagað harðfisksúpu. Ég hef gætt mér á henni. Hún er góð.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.5.2018 | 05:51
Klæddu frambjóðendur sig rétt?
Litir hafa sterk áhrif á fólk. Til að mynda framkallar rauður litur hungurtilfinningu. Á síðustu öld bannaði matvælaeftirlit í Danmörku litarefni í cola-drykkjum. Þeir urðu þá gráir. Líktust steypu. Salan hrundi. Bannið var snarlega afturkallað.
Þegar frambjóðendur stjórnmálaflokka koma fram í sjónvarpi skiptir klæðnaður miklu máli. Ímynd vegur þyngra en málefni. Þetta hefur verið rannsakað til áratuga í útlöndum með einróma niðurstöðu. Árangurríkasti klæðnaður karlkyns frambjóðanda í sjónvarpi er jakkaföt og hálsbindi. Köflótt bómullarskyrta og prjónavesti eru vonlaust dæmi. Heppilegasti litur á jakka er dökkblár/svartblár. Sá litur kallar fram tilfinningu fyrir trúverðugleika, ábyrgð og góðri dómgreind. Nánast allir karlkyns frambjóðendur í kosningasjónvarpi sjónvarpsstöðva í ár fóru eftir þessu.
Heppilegasti litur á skyrtu er hvítur ljósblár; nánast hvítur með bláum blæ. Eða alveg hvítur. Flestir kunnu það. Færri kunnu að velja sér bindi. Dagur B. var ekki með bindi. Ekki heldur Þorvaldur í Alþýðufylkingunni. Bindisleysi Þorvaldar og Dags virkar vel á kjósendur Alþýðufylkingarinnar. En skilar engu umfram það. Í tilfelli Dags kostar það Samfylkinguna 8. borgarfulltrúann. Pottþétt.
Flestir aðrir frambjóðendur klikkuðu á hálsbindinu. Heppilegasti litur á hálsbindi er rauður. Rautt hálsbindi kallar fram tilfinningu fyrir ástríðu og áræði. Frambjóðandi Framsóknarflokksins var með grænt bindi. Það var ekki alrangt. Litur Framsóknarflokksins er grænn. En svona "lókal" skilar ekki sæti í borgarstjórn.
Í útlandinu kunna menn þetta.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2018 | 21:10
Bullað um rykmaura
Ný rannsókn leiðir í ljós að svefnbæli simpansa eru snyrtilegri en rúm mannfólks. Munar miklu þar um. Þetta hefur vakið undrun og umtal. Við hverju bjóst fólk? Að simpansar væru sóðar? Það eru fordómar. Simpansar eru snyrtipinnar. Þess vegna meðal annars skipta þeir ört um svefnbæli.
Í umræðunni hérlendis hefur mörgum orðið tíðrætt um að rúm fólks séu löðrandi í rykmaurum og rykmauraskít. Þetta er bull hvað varðar íslensk rúm. Einhverra hluta vegna er bullið lífseigara og útbreiddara en niðurstöður rannsókna sem sýna annað. Þær sýna að rykmaurar þrífast ekki á Íslandi. Hita- og rakastig kemur í veg fyrir það.
Jú, það hafa fundist rykmaurar á Íslandi. Örfáir. Allir rígfullorðnir. Engin ungviði. Það undirstrikar að einu rykmaurarnir á Íslandi séu nýinnfluttir frá útlöndum. Flækingar sem slæðast með ferðalöngum. Verða ekki langlífir og ná ekki að fjölga sér.
Hitt er annað mál að ástæðulaust er að amast við rykmaurum. Þetta eru tvær vinalegar og ástríkar tegundir. Önnur er undirlögð kynlífsfíkn á háu stigi. Báðar tegundir éta dauðar húðfrumur. Gott að einhver geri það.
Lífstíll | Breytt 18.5.2018 kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.5.2018 | 00:12
Ekki skipta um röð!
Hver kannast ekki við að vera dálítið á hraðferð, skreppa í stórmarkað, kaupa eitthvað smotterí og koma að langri biðröð við alla afgreiðslukassa? Þá þarf í skyndingu að vega og meta stöðuna. Innkaupakerrur sumra í röð eru sneisafullar af óþörfu drasli. Í annarri en lengri röð eru hinsvegar flestir með fátt annað en brýnustu nauðsynjar; mjólk, brauð og smávegir af nammi frá Nóa Síríus.
Þarna þarf að velja á milli. Þetta hefur verið rannsakað á vísindalegan hátt af viðskiptafræðideild Harvard háskóla. Í rannsókninni voru einnig skoðaðar biðraðir á flugstöðvum og í pósthúsum.
Niðurstaðan er sú að fólk velur rétta biðröð í fyrstu atrennu. Sá sem fær bakþanka og færir sig yfir í aðra röð endar á því að vera afgreiddir seinna en sá sem er næstur á eftir honum í röðinni sem hann yfirgefur.
-----------------------------
Fróðleiksmoli: Hvert sem bresku Bítlarnir fóru - eftir að þeir slógu í gegn - mynduðust langar biðraðir eftir að sjá þá og kaupa miða. Eftirspurn var miklu meiri en framboð. Fjöldi manns slasaðist í biðröðunum vegna troðnings og æsings í Bandaríkjunum. Hámarkið var hljómleikaferð til Ástralíu. Biðraðir töldu kvartmilljón manns (250.000) og þær teygðu sig yfir 15 kílómetra.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.4.2018 | 06:37
Færeyski fánadagurinn
Í dag er færeyski fánadagurinn, 25. apríl. Hann er haldinn hátíðlegur um allar Færeyjar. Eða reyndar "bara" 16 af 18 eyjunum sem eru í heilsárs byggð. Önnur eyðieyjan, Litla Dimon, er nánast bara sker. Hin, Koltur, er líka lítil en hýsti lengst af tvær fjölskyldur sem elduðu grátt silfur saman. Líf þeirra og orka snérist um að bregða fæti fyrir hvor aðra. Svo hlálega vildi til að enginn mundi né kunni skil á því hvað olli illindunum.
Þó að enginn sé skráður til heimilis á Kolti síðustu ár þá er einhver búskapur þar á sumrin.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 06:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.4.2018 | 02:13
Bestu og verstu bílstjórarnir
Breskt tryggingafélag, 1st Central, hefur tekið saman lista yfir bestu og verstu bílstjórana, reiknað út eftir starfi þeirra. Niðurstaðan kemur á óvart, svo ekki sé meira sagt. Og þó. Sem menntaður grafískur hönnuður og skrautskriftarkennari hefði ég að óreyndu getað giskað á að myndlistamenn og hverskonar skreytingafólk væru öruggustu bílstjórarnir. Sömuleiðis mátti gefa sér að kóksniffandi verðbréfaguttar væru stórhættulegir í umferðinni, rétt eins og í vinnunni.
Bestu bílstjórarnir
1. Myndlistamenn/skreytingafólk
2. Landbúnaðarfólk
3. Fólk í byggingariðnaði
4. Vélvirkjar
5. Vörubílstjórar
Verstu bílstjórarnir
1. Verðbréfasalar/fjármálaráðgjafar
2. Læknar
3. Lyfsalar
4. Tannlæknar
5. Lögfræðingar
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 02:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
19.4.2018 | 04:23
Enn eitt færeyska lagið slær í gegn
Frá 2002 hefur fjöldi færeyskra tónlistarmanna notið vinsælda á Íslandi. Þar af hafa margir komið lögum sínum hátt á vinsældalista Rásar 2. Í fljótu bragði man ég eftir þessum:
Hljómsveitin TÝR
Eivör
Brandur Enni
Hljómsveitin MAKREL
Högni Lisberg
Jógvan
Boys in a Band
Eflaust er ég að gleyma einhverjum. Núna hefur enn eitt færeyska lagið stokkið upp á vinsældalista Rásar 2. Það heitir "Silvurlín". Flytjandi er Marius Ziska. Hann er Íslendingum að góðu kunnur. Hefur margoft spilað hérlendis. Jafnframt flutti hann ásamt Svavari Knúti lagið "Þokan" 2013. Það fór ofarlega á vinsældalista Rásar 2. Rétt eins og lagið "You and I" sem Kristina Bærendsen söng með Páli Rózinkrans í fyrra.
"Silfurlín" er í 12. sæti vinsældalistans þessa vikuna. Sjá HÉR
Uppfært 22.4.2018: "Silfurlín" stökk úr 12. sæti upp í 4. í gær.
Lífstíll | Breytt 22.4.2018 kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.4.2018 | 00:04
Drekkur þú of mikið vatn?
Vatn er gott og hollt. Einhver besti drykkur sem til er. Við Íslendingar erum svo lánssamir að eiga nóg af góðu drykkjarvatni úr krana. Fæstir jarðarbúa eru svo heppnir. Þeim mun einkennilegra er að Íslendingar skuli þamba daglega litað sykurleðjuvatn í sama mæli og Bandaríkjamenn.
Samkvæmt prófessor í Árhúsum í Danmörku (www.samvirke.dk) er of mikil vatnsdrykkja jafn varasöm og of lítil vatnsdrykkja. Of mikil vatnsdrykkja getur sett svo mikið álag á nýrun að hún valdi vatnseitrun. Þig svimar, færð krampa, verður máttlaus og í versta tilfelli deyrð. Sjaldgæft en gerist þó árlega.
Þumalputtareglan er sú að drekka ekki meira vatn en sem nemur 1/30 af líkamsþyngd. 60 kílóa manneskju hentar að drekka 2 lítra af vökva á dag. 90 kg manneskju hentar að drekka 3 lítra. Við útreikninginn er brýnt að taka með í reikninginn allan vökva. Ekki aðeins vatn. Líka vökvarík fyrirbæri á borð við súpur, te, agúrkur, tómata og jarðarber.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)