Færsluflokkur: Lífstíll
25.10.2017 | 09:30
Verða Grænlendingar sviptir sjálfræði?
Staðan innan danska sambandsríkisins er misjöfn eftir löndum. Færeyingar eru á fullu við að skerpa á sjálfræði sínu. Þeir eru að semja nýja stjórnarskrá sem fjarlægir þá frá þeirri dönsku. Á sama tíma er rætt um að svipta Grænlendinga sjálfræði. Umræðan er brött, hávær og eibhliða. Danski Flokkur fólksins talar fyrir þessu sjónarmiði.
Talsmaður flokksins segir við altinget.dk í morgun að Danir verði að taka við stjórn á Grænlandi á ný. Reynslan sýni að Grænlendingar ráði ekki við verkefnið. Danir beri ábyrgð á ástandinu og verði að grípa í taumana. Í gær skrifaði fyrrverandi rektor grænlenska Lærða-háskóla grein á sömu nótum.
Ekki nóg með það. Í grein í danska dagblaðinu Politiken heldur sagnfræðingurinn Thorkild Kjærgaard sömu skoðun á lofti.
Mig grunar að þessi áhugi Dana á að taka á ný við öllum stjórnartaumum á Grænlandi tengist verðmætum málmum sem hafa verið að finnast þar að undanförnu.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.10.2017 | 06:31
Grófasta lygin
Ég laug ekki beinlínis heldur sagði ekki allan sannleikann. Eitthvað á þessa leið orðaði þingmaður það er hann reyndi að ljúga sig út úr áburði um að hafa stolið þakdúki, kantsteinum, fánum, kúlupenna og ýmsu öðru smálegu. Í aðdraganda kosninga sækir margur í þetta farið. Kannski ekki að stela kantsteinum heldur að segja ekki allan sannleikann. Við erum vitni að því ítrekað þessa dagana.
Grófasta lygin kemur úr annarri átt. Nefnilega Kópavogi. Í Hjallabrekku hefur löngum verið rekin matvöruverslun. Í glugga verslunarinnar blasir við merkingin "10-11 alltaf opin". Hið rétta er að búðin hefur verið harðlæst undanfarna daga. Þegar rýnt er inn um glugga - framhjá merkingunni "10-11 alltaf opin" - blasa við galtómar hillur.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 06:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
9.10.2017 | 17:16
Letingi? Það er pabba að kenna
Börn eru samsett úr erfðaefni foreldranna. Sumir eiginleikar erfast frá móðurætt. Aðrir frá föðurlegg. Þar fyrir utan móta foreldrar börnin í uppeldinu. Það vegur jafnvel þyngra en erfðirnar. Börn apa sumt eftir móður. Annað eftir föður. Þetta hefur verið rannasakað. Netsíðan Red Bull TV greinir frá niðurstöðunni:
Heiðarleika og hreinskilni læra börn af móður. Líka óöryggi, áhyggjur, gleymsku og fatasmekk.
Leti og óþolinmæði læra þau af föður. Einnig áræði, vonda mannasiði, reiðiköst og áhuga á íþróttum og bókmenntum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.10.2017 | 11:54
99 ára klippir 92ja ára
Frá því snemma á síðustu öld hefur Færeyingurinn Poul Olsen klippt hárið á vini sínum, Andrew Thomsen. Þeir bregða ekki út af vananum þrátt fyrir að Poul sé 99 ára. Enda engin ástæða til. Þrátt fyrir háan aldur hefur hann ekki (ennþá) klippt í eyra á vini sínum. Hinsvegar fór ég eitt sinn sem oftar í klippingu hjá ungum hárskera. Sá var við skál. Kannski þess vegna náði hann á furðulegan hátt að blóðga annað augnlokið á mér.
Poul og Andrew eru tengdir fjölskylduböndum. Poul er föðurbróðir eiginkonu Andrews. Poul er ekki hárskeri heldur smiður. Jafnframt er hann höfundur hnífsins sem er notaður við að slátra marsvínum.
Eins gott að Poul sé hrekklaus. Öfugt við mig sem ungan mann. Þá lét afi minn mig ætíð klippa sig. Ég lét hann safna skotti í hnakka. Hann vissi aldrei af því. En skottið vakti undrun margra.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.9.2017 | 18:21
Óhugnanlegar hryllingssögur
Ég var að lesa bókina "Martröð með myglusvepp". Rosaleg lesning. Höfundur er Skagfirðingurinn Steinn Kárason umhverfisfræðingur, rekstrarhagfræðingur, garðyrkjufræðingur, tónlistarmaður, rithöfundur og sitthvað fleira.
Fyrri hluti bókarinnar inniheldur átta reynslusögur fórnarlamba myglusvepps. Þær eru svo átakanlegar og sláandi að lesandinn er í "sjokki". Myglusveppurinn er lúmskur. Hann veldur hægt og bítandi miklum skaða á líkama og sál. Jafnvel til frambúðar. Hann slátrar fjárhag fórnarlambsins. Það þarf að farga húsgögnum, fatnaði og öðru sem sveppagró hafa borist í.
Eðlilega er lengsta og ítarlegasta reynslusagan saga höfundar. Hinar sögurnar eru styttri endurómar. En staðfesta og bæta við lýsingu Steins á hryllingnum.
Í seinni hluti bókarinnar er skaðvaldurinn skilgreindur betur. Góð ráð gefin ásamt margvíslegum fróðleik.
Ég hvet alla sem hafa minnsta grun um myglusvepp á heimilinu til að lesa bókina "Martröð um myglusvepp". Líka hvern sem er. Þetta er hryllingssögubók á pari við glæpasögur Arnalds Indriðasonar og Yrsu. Margt kemur á óvart og vekur til umhugsunar. Til að mynda að rafsegulbylgjur þráðlausra tækja hafi eflt og stökkbreytt sveppnum.
Lífstíll | Breytt 1.10.2017 kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.9.2017 | 10:02
Bretar segja fegursta áhangandann vera færeyskan
Bretar eru gríðarlega uppteknir af fótbolta. Færeyingar sömuleiðis. Breska dagblaðið Daily Mail hefur skoðað áhangendur bresku knattspyrnufélaganna. Niðurstaðan er sú að 25 ára færeysk stúlka, Katrína María, beri af öðrum í fegurð. Hún er grjóthörð í stuðningi við Manchester United.
Vissulega er stúlkan myndarleg. Í Færeyjum þykir hún samt ósköp venjuleg. Færeyskar konur eru almennt gullfallegar. Ekki síst í samanburði við breskar.
![]() |
United er komið til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.9.2017 | 18:24
Gróf níðskrif um Íslendinga í erlendum fjölmiðli
Síðustu daga hafa erlendir fjölmiðlar fjallað á neikvæðan hátt um Íslendinga. Þeir fara frjálslega með túlkun á falli ríkisstjórnarinnar. Gera sér mat úr því að barnaníðingar urðu henni til falls. IceHot1, Panamaskjölum og allskonar er blandað í fréttaflutninginn. Smári McCarthy er sakaður um að hafa kjaftað frá - auk þess að líkja yfirhylmingu breska Íhaldsflokksins yfir barnaníðingnum Sovile, innvígðum og innmúruðum; líkja henni við yfirhylmingu Sjálfstæðisflokksins yfir sínum innvígðu og innmúruðu barnaníðingum.
Víkur þá sögu að bandaríska netmiðlinum the Daily Stormer. Hann er málgagn þess anga bandarískra hægrisinna sem kalla sig "Hitt hægrið" (alt-right). Málgagnið er kannski best þekkt fyrir einarðan stuðning við ljúflinginn Dóna Trump.
Á föstudaginn birti málgagnið fyrirferðamikla grein um Íslendinga. Fyrirsögnin er: "Íslenskar konur eru saurugar hórur. Fimm hraðsoðnar staðreyndir sem þú þarft að vita."
Greinarhöfundur segist vera fastagestur á Íslandi. Hann vitnar af reynslu. Verra er að hans túlkun á lífsstíl Íslendinga er útlistuð á ruddalegan hátt af bjána - í bland við rangtúlkanir.
Greinin er svo sóðaleg að ég vil ekki þýða hana frekar. Hana má lesa HÉR
Hlálegt en satt: Netsíða Daily Stormer er hýst á Íslandi - að mig minnir í Garðabæ (frekar en Hafnarfirði) - til að komast framhjá bandarískum fjölmiðlalögum, meiðyrðalöggjöf og þess háttar.
Lífstíll | Breytt 29.9.2017 kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.9.2017 | 04:44
Óhugnanlegt dýraníð
Umræða hefur kviknað um hryllilegt dýraníð á Íslandi. Upphaf þess má rekja til Fésbókarfærslu Tinnu Bjargar Hilmarsdóttur. Hún lýsir hræðilegri meðferð á fé. Hún fór í réttir. Varð hálf lömuð og full af sorg og reiði yfir því sem fyrir augu bar.
Tinna Björg er félagi í Aktivegan - samtökum um réttindi dýra til lífs og frelsis. Full ástæða er til að lofa og fagna öllum sem láta sig velferð dýra varða. Dýraníðingar þurfa sjaldnast að axla ábyrgð á gjörðum sínum.
Tinna Björg segir féð hafa verið skelfingu lostið og verulega stressað. Hún fullyrðir að kindur og lömb deyi iðulega vegna streitunnar sem smölun fylgir. Sum slasist. Fjölskyldur tvístrist. Lamb tróðst undir. Kindum var fleygt eins og tuskudúkkum. Nokkrar kindur höltruðu. Aðrar voru með blæðandi sár. Ein með skaddað auga. Sláturtrukkar biðu eftir þeim. Þær sáu ekki fram á neitt annað en dauða eða þurfa að hírast í skítugu fjárhúsi í allan vetur.
Ég dreg ekki í efa neitt af þessu. Ég hef ekki farið í göngur og réttir síðan á fyrri hluta áttunda áratugarins. Þá var þetta allt öðru vísi. Kindurnar fögnuðu okkur smölunum. Þær hlakkaði til að komast í réttina. Lögðu þegar í stað í átt að henni. Þær komu óþreyttar á áfangastað. Þær röltu léttar í spori niður fjallið á gönguhraða smalanna. Það vorum við sem þurftum að klífa brattar fjallshlíðar.
Í réttunum urðu fagnaðarfundir. Kindurnar hittu æskufélaga sína og jörmuðu ákaft af fögnuði. Lömbin hittu fjölda nýrra lamba. Það var algjört ævintýri að kynnast nýju lömbunum. Allir skemmtu sér hið besta. Líka smalarnir sem sumir voru fullir og vildu slást. Kindurnar hlógu að þeim.
Að hausti eru kindurnar að mestu hættar að skipta sér af lömbum. Lömbin hinsvegar sækja í návist móður. Fyrst og fremst af vana. Þau eru fyrir löngu síðan hætt á spena og þurfa ekkert á mömmu að halda. Þetta skiptir þau engu máli.
Ég hef aldrei séð blóðgað fé í réttum. Hinsvegar hefur í réttum uppgötvast að horn er að vaxa inn í höfuð á kind eða lambi. Líka að kind er í vandræðum vegna ullarreyfis. Ein var með brunna snoppu eftir að hafa asnast upp á jökul og ekki fattað að hann endurvarpaði sólarljósi. Henni þurfti að sinna og græða brunasár með Aloe Vera geli. Aldrei dó fé vegna streitu. Enda féð sultuslakt - þrátt fyrir hvað því þótti rosalega gaman.
Ég vissi ekki dæmi þess að ekið væri með lömb beint úr rétt í sláturhús. Venja var að fita lömbin í nokkra daga á káli og öðru góðgæti síðustu daga fyrir slátrun. Það var þeim góð skemmtun að ferðast á vörubílspalli. Flestum skepnum þykir það gaman; að vera kyrr á sama stað en samt á ferð. Þau upplifa heillandi töfra.
Sjaldan eða aldrei voru lömb leidd beint af vörubílspalli til slátrarans. Algengara var að þau fengju að slaka á. Jafnvel yfir nótt. Þau voru ekkert óróleg eða kvíðin. Frekar að þau væru spennt að vita hvaða næsta ævintýri biði þeirra.
Er kólna tók í veðri urðu ærnar afskaplega þakklátar fyrir að komast í húsaskjól. Þar var dekstrað við þær. Heyi hlaðið á garða. Stundum gómsætu mjöli blandað saman við. Einkum síðvetrar. Þá fengu þær líka síld. Þvílíkt sælgæti. Þvílík hamingja.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
13.9.2017 | 02:29
Skeljungi stýrt frá Færeyjum
Skeljungur er um margt einkennilega rekið fyrirtæki. Starfsmannavelta er hröð. Eigendaskipti tíð. Eitt árið fer það í þrot. Annað árið fá eigendur hundruð milljóna króna í sinn vasa. Til skamms tíma kom Pálmi Haraldsson, kenndur við Fons, höndum yfir það. Í skjóli nætur hirti hann af öllum veggjum glæsilegt og verðmætt málverkasafn.
1. október næstkomandi tekur nýr forstjóri, Hendrik Egholm, við taumum. Athyglisvert er að hann er búsettur í Færeyjum og ekkert fararsnið á honum. Enda hefur hann nóg á sinni könnu þar, sem framkvæmdarstjóri dótturfélags Skeljungs í Færeyjum, P/F Magn.
Ráðning Færeyingsins er hrópandi vantraustsyfirlýsing á fjóra núverandi framkvæmdastjóra Skeljungs. Þeir eru niðurlægðir sem óhæfir í forstjórastól. Fráfarandi forstjóri, Valgeir M. Baldursson, var framkvæmdastjóri fjármálasviðs þegar hann var ráðinn forstjóri.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 03:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.9.2017 | 11:45
Heilinn þroskast hægar en áður var talið
Margt ungmennið telur sig vita allt betur en aðrir. Eða þá að það telur sig vera kjána. Bjána sem aldrei rætist neitt úr. Vonlaust eintak. Tilfellið er að ungt fólk er óþroskað. Óttalega óþroskað. Þess vegna fær það ekki að taka bílpróf fyrr en 17 ára í stað 13 - 14 ára (um leið og það nær niður á kúplingu og bremsu). Af sömu ástæðu fær það ekki að ganga í hjónaband og kjósa til Alþingis fyrr en 18 ára (auðveldara að keyra bíl en vera í hjónabandi og kjósa).
Lengi var kenningin sú að heilinn væri ekki fullþroskaður fyrr en á 18 ára. Nýgiftu fólki með kosningarétt er þó ekki treyst til þess að kaupa áfengi fyrr en tveimur árum síðar.
Nú þarf að endurskoða þetta allt saman. Með nýjustu tækni til að skoða virkni heilans hefur komið í ljós að heilinn er ekki fullþroskaður fyrr en á fertugs aldri. Um eða upp úr þrítugs afmælinu.
Þetta birtist á ýmsan hátt. Til að mynda snarfellur glæpahneigð upp úr 25 ára aldri. Það vekur upp spurnar um hvort ástæða sé til að hafa það til hliðsjónar í sakamálum. Nú þegar eru börn ósakhæf að mestu.
Annað sem breytist á þessum aldri er að athyglisgáfa eflist sem og rökhugsun og skammtímaminni. Jafnframt dregur úr kæruleysi, áhættusækni og hvatvísi. Fólk hættir að taka hluti eins oft og mikið inn á sig og komast í uppnám.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)