Færsluflokkur: Lífstíll
29.1.2018 | 00:15
Ósvífinn þjófnaður H&M
Færeyskir fatahönnuðir eru bestir í heimi. Enda togast frægar fyrirsætur, fegurðardrottningar, tónlistarfólk og fleiri á um færeyska fatahönnun.
Fyrir tveimur árum kynnti færeyski fatahönnuðurinn Sonja Davidsen til sögunnar glæsilegan og smart kvennærfatnað. Hún kynnir hann undir merkinu OW Intimates. Heimsfræg módel hafa sést spranga um í honum. Þ.á.m. Kylie Jenner.
Nú hefur fatakeðjan H&M stolið hönnuninni með húð og hári. Sonju er eðlilega illa brugðið. Þetta er svo ósvífið. Hún veit ekki hvernig best er að snúa sér í málinu. Fatahönnun er ekki varin í lögum um höfundarrétt. Eitthvað hlýtur samt að vera hægt að gera þegar stuldurinn er svona algjör. Þetta er spurning um höfundarheiður og peninga.
Á skjáskotinu hér fyrir neðan má sjá til vinstri auglýsingu frá Sonju og til hægri auglýsingu frá H&M. Steluþjófahyski.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.1.2018 | 05:28
Sápuóperan endalausa
Þessa dagana auglýsir Skeljungur grimmt eftir starfsfólki: Sölumönnum í Reykjavík og einnig umboðsmanni á Austurlandi. Þetta er athyglisvert. Ekki síst í ljósi þess að fyrir jól sagði fyrirtækið upp 29 manns (um það bil þriðjungur starfsliðs). Sennilega eru hinir brottræku enn á launaskrá en var gert að yfirgefa vinnustaðinn samdægurs.
Hröð starfsmannavelta og óreiða einkenna reksturinn. Líka tíð eigendaskipti. Nýir eigendur hafa komið, ryksugað fyrirtækið innanfrá og farið. Hver á fætur öðrum. Einn hirti meira að segja - í skjóli nætur - öll málverk ofan af veggjum.
Nýr forstjóri tók til starfa í vetrarbyrjun. Hann er búsettur í Færeyjum og fjarstýrir Skeljungi þaðan. Hans fyrsta verk í forstjórastóli var að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu á undirverði og selja þau daginn eftir á fullu verði. Mismunur/hagnaður skilaði honum yfir 80 milljónum króna í vasa á þessum eina degi.
Lífeyrissjóðirnir eru alltaf reiðubúnir að kaupa hlutabréfin á hæsta verði. Jafnvel á yfirverði - eins og eftir að fyrirtækið sendi út falsfrétt um að það væri að yfirtaka verslunarkeðjuna 10-11. Það var bara plat til að snuða lífeyrissjóði.
Þetta er sápuóperan endalausa.
Lífstíll | Breytt 19.1.2018 kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
10.1.2018 | 06:05
Verðlag
Á Aktu-Taktu í Garðabæ var seld samloka á 1599 kr. Á milli brauðsneiðanna var smávegis kál, lítil ostsneið og sósa. Þetta var kallað vegan (án dýraafurða). Osturinn var að vísu úr kúamjólk. Í sósunni voru einhverjar dýraafurðir líka. Sennilega eggjarauða og eitthvað svoleiðis.
Vissulega var samlokan ekki upp á marga fiska. Ég set stærra spurningamerki við það að einhver sé reiðubúinn til að borga 1599 kr. fyrir samloku. Að vísu...já, Garðabæ.
Til samanburðar: Í Manchester á Englandi bjóða matvöruverslanir - nánast allar - upp á svokallað "3ja rétta tilboð" (3 meals deal). Það samanstendur af samlokuhorni, langloku eða vefju að eigin vali (áleggið er ekki skorið við nögl - ólíkt íslenska stílnum) + drykk að eigin vali + snakkpoka að eigin vali (kartöfluflögur, popkorn eða eitthvað álíka).
Þessi pakki kostar 3 pund sem jafngildir 429 ísl. kr. Ég valdi mér oftast samlokuhorn með beikoni og eggjum (um það bil tvöfaldur skammtur á við íslenskt samlokuhorn), ásamt hálfum lítra af ávaxtaþykkni (smoothies) og bara eitthvað snakk.
Á Íslandi kostar samlokuhorn um 600 kall. Kvartlítri af smoothies kostar um 300 kall. Þannig að hálfu lítri er á um 600 kall. Ætli snakkpoki á Íslandi sé ekki á um 300 kall eða meir.
Þetta þýðir að íslenskur 3ja rétta pakki er að minnsta kosti þrisvar sinnum dýrari en pakkinn í Manchester.
Í Manchester selja veitingahús enskan morgunverð. Að sjálfsögðu. Hann samanstendur oftast af tveimur saugagest pylsum (veit ekki hvað þær heita á íslensku), tveimur vænum beikonsneiðum (hvor um sig rösklega tvöföld að stærð í samanburði við íslenskar. Og með aðeina örlítilli fiturönd), grilluðum tómat, bökuðum baunum, ýmist einu eða tveimur spældum eggjum, tveimur hasskökum (hash browns = djúpsteiktri kartöflustöppu mótaðri í teygðum þríhyrning), ristuðum brauðsneiðum með smjöri; ýmist einum stórum pönnusteiktum sveppi eða mörgum litlum.
Enski morgunverðurinn kostar frá 3,75 pundum (537 ísl. kr.). Þetta er saðsöm máltíð. Maður er pakksaddur fram eftir degi. Nokkrir veitingastaðir á Íslandi selja enskan morgunverð - á 2000 kall.
4ra dósa kippa af 5% 440 ml dósum kostar 4 pund (572 ísl kr. = 143 kr.dósin). Ódýrasta bjórdósin á Íslandi kostar 249 kall (Euroshopper 4,6%).
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
6.12.2017 | 08:15
Maður ársins
Jafnan er beðið með spenningi eftir vali bandaríska fréttablaðsins Time á manni ársins. Niðurstaðan er stundum umdeild. Jafnvel mjög svo. Til að mynda þegar Hitler var útnefndur maður ársins 1938. Líka þegar Richard Nixon var maður ársins 1971 og aftur 1972.
Ástæðan fyrir gagnrýni á valið er sú að það snýst ekki um merkasta mann ársins - öfugt við val annarra fjölmiðla á manni ársins. Time horfir til þess manns sem sett hefur sterkastan svip á árið. Skiptir þar engu hvort að það hefur verið til góðs eða tjóns.
Í ár stendur valið á milli eftirfarandi:
- Colin Kaepernick (bandarískur fótboltakall)
- Dóni Trump
- Jeff Bezos (forstjóri Amazon)
- Kim Jong-un (leiðtogi N-Kóreu)
- #meetoo átakið
- Mohamed bin Salam (krúnprins Saudi-Arabíu)
- Patty Jenkins (leikstjóri "Wonder Woman")
- The Dreamers (samtök innflytjenda í Bandaríkjunum)
- Xi Jinping (forseti Kína)
Mér segir svo hugur að valið standi í raun aðeins á milli #metoo og þjóðarleiðtoga Bandaríkjanna, Kína og Norður-Kóreu.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.11.2017 | 09:18
Nauðsynlegt að vita
Af og til hafa heyrst raddir um að ekki sé allt í lagi með vinnubrögð hjá Sorpu. Fyrr á árinu gengu manna á milli á Fésbók fullyrðingar um að bækur sem færu þangað skiluðu sér ekki í Góða hirðinn. Þær væru urðaðar. Ástæðan væri sú að nóg af bókum væru í nytjamarkaðnum. Einhverjir sögðu að þetta gerðist endrum og sinnum. Öðrum sárnaði. Einkum bókaunnendum. Einnig hafa heyrst sögur af fleiri hlutum sem virðast ekki skila sér úr Sorpu til búðarinnar.
Útvarpsmaðurinn snjalli, Óli Palli, lýsir nýlegum samskiptum sínum við Sorpu. Frásögnin á erindi til flestra:
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.11.2017 | 07:59
Illmenni
Varasamt er að lesa spádóma út úr dægurlagatextum. Einkum og sér í lagi spádóma um framtíðina. Bandaríski fjöldamorðinginn Charles Manson féll í þessa gryfju. Hann las skilaboð út úr textum Bítlanna. Reyndar er pínulítið ónákvæmt að kalla Manson fjöldamorðingja. Hann drap enga. Hinsvegar hvatti hann áhangendur sína til að myrða tiltekna einstaklinga.
Út úr Bítlalögunum "Blackbird" og "Helter Skelter" las kallinn spádóm um að blökkumenn væru að taka yfir í Bandaríkjunum. Ofsahræðsla greip hann. Viðbrögðin urðu þau að grípa til forvarna. Hrinda af stað uppreisn gegn blökkumönnum. Til þess þyrfti að drepa hvítt fólk og varpa sökinni á blökkumenn.
Áhangendur Mansons meðtóku boðskap hans gagnrýnislaust. Þeir hófust þegar handa. Drápu fólk og skrifuðu - með blóði fórnarlambanna - rasísk skilaboð á veggi. Skilaboð sem hljómuðu eins og skrifuð af blökkumönnum. Áður en yfir lauk lágu 9 manns í valnum.
Samhliða þessu tók Manson-klíkan að safna vopnum og fela út í eyðimörk. Stríðið var að skella á.
Spádómarnir sem Manson fór eftir rættust ekki. Það eina sem gerðist var að klíkunni var stungið í fangelsi.
Hið rétta er að Paul var með meiningar í "Blackbird"; hvatningarorð til bandarísku mannréttindahreyfingarinnar sem stóið sem hæst þarna á sjöunda áratugnum.
Charles Manson var tónlistarmaður. Ekkert merkilegur. Þó voru the Beach Boys búnir að taka upp á sína arma lag eftir hann og gefa út á plötu - áður en upp um illan hug hans komst.
![]() |
Charles Manson er látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.11.2017 | 09:24
Nauðsynlegt að vita um hænur
- Ef allar hænur heims eru taldar saman þá eru þær yfir 25 milljarðar.
- Ef öllum hænum heims er skipt jafnt á meðal manna þá gerir það 3,5 á hvern.
- Gainesville í Georgíu í Bandaríkjum Norður-Ameríku er alifuglahöfuðborg heims. Þar er bannað með lögum að nota hnífapör við át á djúpsteiktum kjúklingi. Hann er og skal vera fingramatur.
- Hæna verpir að meðaltali 255 eggjum á ári.
- Rannsókn leiddi í ljós að hæna getur léttilega þekkt yfir 100 andlit.
- Lagið "Fugladansinn" - einnig þekkt sem "Hænsnadansinn" - var samið af Swisslendingnum Weren Thomas um 1960.
- 1980 náði "Fugladansinn" vinsældum í Hollandi.
- 1981 var lagið einkennislag fyrir Októberfest í Oklahoma undir heitinu "Hænsnadansinn".
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.11.2017 | 07:33
Fésbókin er ólíkindatól - kemur skemmtilega á óvart
Herskari hakkara er í fullri vinnu hjá Fésbók. Hún gengur út á að þróa bókina stöðugt lengra í þá átt að notandinn verði fíkill. Verði háður henni. Verði eins og uppvakningur sem gerir sér ekki grein fyrir ósjálfráðri hegðun sinni.
Þetta er gert með allskonar "fítusum", hljóðum, lit, leikjum og ýmsum fleiri möguleikum, svo sem "læk-takka" og tilfinningatáknum. Með þessu er hrært í efnaboðum heilans. Ástæða er til að vera á varðbergi. Vera meðvitaður um þetta og verjast. Til að mynda með því að stýra því sjálfur hvað löngum tíma er eytt í bókina á dag eða á viku. Láta hana ekki teyma sig á asnaeyrum fram og til baka allan sólarhringinn.
Þess eru mörg dæmi að fólk vakni upp á nóttunni til að kíkja á Fésbók. Einnig að það fresti því að fara í háttinn. Svo og að matast sé fyrir framan skjáinn.
Fésbókin hefur skemmtilegar hliðar. Margar. Hún getur til að mynda komið glettilega á óvart. Flestir hafa einhver hundruð Fb-vina og upp í 5000 (hámark). Notandinn fær ekki að sjá innlegg þeirra í réttri tímaröð. Þess í stað eru þau skömmtuð eftir kúnstarinnar reglum. Þær ráðast meðal annars af því hjá hverjum þú hefur "lækað" oftast og skrifað flestar athugasemdir hjá. Bókin safnar stöðugt upplýsingum um þig. Greinir og kortleggur.
Póstarnir sem bókin sýnir manni fyrst falla hlutfallslega betur og betur að þínum smekk. Áhugamálum, viðhorfum til stjórnmála og allskonar. Sýnilegasti Fb-vinahópurinn þróast í fjölmennan já-hóp.
Vegna þess að manni eru ekki sýnd innlegg í réttri tímaröð getur útkoman orðið skondin og ruglingsleg. Oftast kíki ég á Fb á morgnana fyrir vinnu og aftur að kvöldi eftir vinnu. Á morgnana blasa iðulega við kveðjur með ósk um góða nótt og ljúfar drauma. Á kvöldin blasa við kveðjur þar sem boðið er góðan og blessaðan dag. Síðasta mánudag birtist mér innlegg með textanum: "Jibbý! það er kominn föstudagur!"
Ég sá að þessari hressilegu upphrópun var póstað á föstudeginum. Fb sá hinsvegar ekki ástæðu til að skila henni til mín fyrr en eftir helgi.
![]() |
Fyrrverandi lykilstarfsmaður hjólar í Facebook |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2017 | 13:26
Með 639 nagla í maganum
Mataræði fólks er allavega. Sumir eru matvandir. Setja sér strangar reglur um það hvað má láta inn fyrir varirnar. Sneiða hjá kjöti. Sneiða hjá öllum dýraafurðum. Sumir snæða einungis hráfæði sem hefur ekki verið hitað yfir 40 gráðum. Sumir sneiða hjá sykri og hveiti. Aðrir lifa á sætindum og deyja. Enn aðrir borða allt sem á borð er borið. Jafnvel skordýr.
Fáir borða nagla. Hvorki stálnagla né járngaura. Nema 48 ára Indverji. Honum var illt í maganum og fór til læknis. Við gegnumlýsingu sást fjöldi nagla í maga og þörmum. Er hann var skorinn upp með hraði reyndust naglarnir vera 639. Flestir 5 - 6 cm langir.
Maðurinn hafði verið blóðlítill. Hann kannaðist ráðið um að taka inn járn við því. Naglar virtust hentugri en annað járn. Það var auðvelt að kyngja þeim með vatni. Til tilbreytingar át hann dálítið af járnauðugri mold af og til.
Þetta virtist virka vel. Þangað til að honum varð illt í mallakútnum.
Eigandi litlu byggingarvöruverslunarinnar í hverfinu óttast að kallinn hætti að kaupa nagla af sér. Það var einmitt hann sem fræddi kauða um nauðsyn þess að taka inn járn við blóðleysi.
.
Lífstíll | Breytt 5.11.2017 kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.11.2017 | 07:42
Óstundvísir eru í góðum málum
Það er eins og sumt fólk kunni ekki á klukku. Það mætir alltaf of seint. Stundvísum til ama. Þeir sem bölva óstundvísi mest og ákafast telja hana vera vondan löst.
Nú hefur þetta verið rannsakað. Niðurstaðan er sú að óstundvísir séu farsælli í lífinu og lifi lengur. Þeir eru bjartsýnni og afslappaðri. Eiga auðveldara með að hugsa út fyrir boxið og sjá hlutina í stærra samhengi. Eru ævintýragjarnari og eiga fleiri áhugamál. 5 mínútur til eða frá skipta engu máli. Þeir þurfa ekki langtímaplan til að bóka flug, hótelgistingu, rútu eða lest. Taka bara næsta flug. Ef það er uppbókað þá hlýtur að vera laust sæti í þarnæsta flugi. Ekki málið. Engin ástæða til að "gúgla" veitingahús á væntanlegum áfangastað. Því síður að bóka borð. Eðlilegra er að skima aðeins í kringum sig kominn á staðinn. Láta ókunnugt veitingahús koma sér á óvart. Skyndibiti í næstu sölulúgu kemur líka til greina. Þannig hlutir skipta litlu máli. Peningar líka.
Önnur rannsókn hefur leitt í ljós að sölumenn sem skora hæst í bjartsýnimælingu selja 88% meira en svartsýnir. Samanburður á A fólki (ákaft, óþolinmótt) og B fólki (afslappað, skapandi hugsun, óstundvísi) sýnir ólíkt tímaskyn. A fólk upplifir mínútu sem 58 sek. B fólkið upplifir hana sem 77 sek. A fólk er mun líklegra til að fá kransæða- og hjartasjúkdóma.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)