Færsluflokkur: Lífstíll

Karllægt bloggsamfélag

  Þegar ég byrjaði að blogga á Moggabloggi - sennilega um 2008 - voru kvenbloggarar áberandi í efstu sætum yfir vinsælustu blogg.  Þetta voru Jenný Anna,  Jóna Á. Gísladóttir,  Áslaug Ósk,  Ragnhildur Sverrisdóttir,  Gurrí Haralds,  Helga Guðrún Eiríksdóttir,  Ásthildur Cesil,  Salvör Gissurardóttir,  Rannveig Höskuldsdóttir,  Halla Rut,  Heiða B.,  Heiða Þórðar,  Birgitta Jónsdóttir,  Kolbrún Baldursdóttir,  Katrín Snæhólm,  Kristín Björg Þorsteinsdóttir,  Vilborg Traustadóttir,  Hjóla-Hrönn, Sóley Tómasdóttir,  Anna Kristjánsdóttir og margar fleiri sem ég vona að móðgist ekki þó að ég muni ekki eftir í augnablikinu.  

  Nokkru síðar hurfu þessir frábæru kvenbloggarar nánast eins og dögg fyrir sólu af Moggablogginu á sama tíma.  Þeir/þær færðu sig yfir á Fésbók eða á aðrar bloggsíður.  Eftir sátum við karlpungarnir á Moggablogginu.  Nú er svo komið að Moggabloggið er nánast einskorðað við okkar einsleita karlaheim.  Það er miður.  Spurning vaknar um hvað veldur kúvendingunni.  

  Rétt er að halda til haga að Ásthildur Cesil,  Kolbrún Baldursdóttir, Salvör Gissurardóttir og Hjóla-Hrönn eiga það til að henda inn bloggfærslu hér endrum og eins.  Þær fá jafnan góðar viðtökur.  það er alltaf fagnaðarefni.  Eftir stendur að í dag er Moggabloggið karlasamkunda. Öfugt við Fésbók,  twitter og alla þá aðra samfélagsmiðla sem skarta sjónarmiðum beggja/allra kynja í þokkalega jöfnum hlutföllum.         

moggablogg


Húðflúr heimska fólksins

  Fyrir tveimur árum eða svo var hugur í mörgum stjórnmálamanninum í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Þeir vildu taka húðflúr föstum tökum.  Banna öll húðflúr önnur en þjóðleg og þjóðholl.  Banna í leiðinni "piercings" (ég veit ekki hvert íslenska orðið er yfir það þegar húð er götuð og hringar eða annað glingur þrætt í).  Lengst var gengið í Arkansans.  Þar var lagt fram frumvarp til laga.  Það fékk góðar móttökur til að byrja með en tók einhverjum breytingum.  Ég veit ekki hvernig það endaði.

  Húðflúralögga er jafn geggjað fyrirbæri og mannanafna- og hundanafnanefnd ríkisins.  Húðflúr heimska fólksins eru ekkert nema góð skemmtun.  Ekki aðeins vegna þess að þau eru iðulega illa teiknuð.  Líka vegna þess að stafsetning er sjaldan rétt.  Þessi ætlaði að flagga ágætri fullyrðingu,  "Þekking er vald".  Í stað orðsins "knowledge"  er orðskrípi sem bendir til þess að þekkingu höfundarins á réttritun sé ábótavant.  

húðflúr heimska fólksins - þekking

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Elvis Presley er í uppáhaldi hjá heimska fólkinu eins og öðrum.  Munurinn er sá að í fyrrnefnda hópnum teikna menn sjálfir andlit rokkstjörnunnar.  Taka verður viljann fyrir verkið.  Málið er að gera fremur en geta.  Húðflúr heimska fólksins - presley

 

 

 

 

 

 

 

 

  Mér vitanlega hefur engum dottið í hug að láta húðflúra andlit Presleys á sitt andlit.  En heimska fólkið lætur húðflúra önnur andlit á andlitið á sér.  Þaðan er komið orðið tvíhöfði.  húðflúr heimska fólksins - andlit á andliti

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Ein af þeim gryfjum sem heimska fólkið fellur í - aftur og aftur - er að merkja sig dægurflugu.  Tískufyrirbæri sem eru öllum gleymd daginn eftir.  Hver man í dag eftir Gangnam Style eða Harlem Shake?  Twitter-krossinn verður jafn gleymdur og tröllum gefinn á morgun og Ircið. húðflúr heimska fólksins - dægurflugur 

 

 

 

 

 

 

     Flísalagningamann langar í húðflúr.  Hann er allan daginn að leggja svartar og hvítar flísar á baðgólf,  eldhúsgólf og önnur gólf.  Hvernig húðflúr sér hann fyrir sér?  húðflúr heimska fólksins - flísalagningamaður

 

 

 

 

 

 

 

 

  Auglýsing fyrir Helga í Góu. húðflúr heimska fólksins - taco bells


mbl.is „Þetta er ekki nógu mikið rannsakað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Fölsk" netárás á færeyska fréttasíðu og útafkeyrsla hryðjuverkamanna

  Átök á milli bandarísku hryðjuverkasamtakanna Sea Shepherd og Færeyinga fara harðnandi.  Hryðjuverkamennirnir beita öllum ráðum - flestum klaufalegum - til að hindra hvalveiðar Færeyinga.   Um helgina varð færeysk netsíða, portal.fo, fyrir árás. Hún var skotin niður og yfirtekin af SS-liðum er þóttust vera á vegum hóps aðgerðarsinna í netheimum sem kalla sig Anonymous.  

  Ég veit fátt um þann félagsskap.  Hinsvegar spratt fram hópur Færeyinga sem er mér fróðari um Anonymous.  Hann benti á sitthvað sem passaði ekki við að þarna væri Anonymous á ferð.  Þar á meðal orðfæri ólík því sem fólk þekkir frá Anonymous en einkennir málflutning SS og áróðursmyndefni þeirra.  Að auki búa liðsmenn Anonymous yfir mun meiri tölvufærni en þessir skemmdarverkamenn.

  Nú hafa Anonymous staðfest að hafa hvergi komið nærri.  Þau samtök taki frekar afstöðu með Færeyingum en SS, án þess að taka þátt í deilum þeirra.

  Hér er myndband sem tölvuþrjótar SS póstuðu undir fölsku nafni inn á færeyskan netmiðil.

  Þegar SS-liðar óku um færeyskar götur í fyrra vakti athygli hvað þeim gekk illa að halda sig á vegi.  Þeir góndu eftir hvölum.  Þess vegna óku þeir út af.  

  Sagan endurtekur sig í ár.  Þeir eru staðnir að því að keyra út af.  Sem er afar óvenjulegt í Færeyjum.  Þar keyrir enginn út af.  Nema SS-aularnir.

  Löggan hefur nú gefið SS-liðum fyrirmæli um að horfa á götuna en ekki skima eftir hval þegar þeir eru úti að aka.

ss í útafkeyrslusea_shepherdbill_uti_i_skur_i 


Hryðjuverkamenn aðhlátursefni í Færeyjum

  Í júní komu liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Sea Shepherd til Færeyja.  Þeir komu á tveimur stórum skipum,  Birgittu Bardot og Sam Simoni.  Meðferðis voru nokkrir litlir spíttbátar (uppblásnar gúmmítuðrur með mótor).  Erindið er að hindra hvalveiðar Færeyinga í sumar.  Það hefur algjörlega misheppnast.

  Fyrsta hvalvaða sumarsins var veidd síðla nætur fyrir framan trýnið á hrjótandi hryðjuverkamönnum.  Þeir áttu að standa næturvakt.  Í tíðindaleysi fyrri parts nætur kallaði draumalandið á þá og hafði betur.  Ekkert hafði borið til tíðinda á þeim hálfa mánuði sem var liðinn frá komu SS til eyjanna.  Kæruleysi var komið í mannskapinn.

  Nú í vikubyrjun varð vart annarrar hvalvöðu.  Þá tóku SS-liðar við sér.  Mættu á svæðið á Sam Simoni,  hentu út spíttbáti og ætluðu að bruna af stað og fæla vöðuna.  Í sömu svifum handtók lögreglan þá tvo SS-liða sem í tuðrunni voru.  Tuðran var gerð upptæk og fólkinu stungið í varðhald.  Þá greip um sig ofsahræðsla hjá þeim sem eftir voru á Sam Simoni.  Af ótta við að skipið yrði einnig gert upptækt var í angist sett á fullt stím alla leið til Hjaltlandseyja.  Þar hefur skipið síðan verið í felum.  

  SS-liðar halda fram öðru.  Þeir segja að skyndilegur flótti Sam Simonar - á sama augnabliki og spíttbátur var gerður upptækur og SS-liðar færðir í járn - eigi sér augljósa og einfalda skýringu:  Skipstjórinn hafi einmitt á þessu andartaki fengið þá snjöllu hugmynd að sækja vistir til Hjaltlandseyja;  fremur en fylgjast með einhverju sem skipti engu máli.  Eins og til að mynda hvaladrápi.

  Hitt skipið,  Birgitta Bardot,  dólaði úti fyrir færeyskum fjörðum.  Í fyrradag urðu skipsverjar varir við stóra hvalvöðu.  Í viðleitni til að kvikmynda hana og ljósmynda í návígi tókst ekki betur til en svo að vaðan lagði á flótta - beinustu leið upp í fjöru.  Færeyingar brugðust við skjótt,  ræstu sína mótorbáta og lokuðu marsvínunum (grind) leið úr fjörunni.  Náðist þar að slátra hátt í 200 hvölum.  Þökk sé aulahætti skipverja á Birgittu Bardot.  

  Í leiðinni voru fimm SS-liðar handteknir.  Samtals hafa sjö SS-liðar verið sektaðir um hálfa milljón ísl. kr. hver og margvíslegur búnaður haldlagður. 

  Þegar konan sem fyrst var handtekin var færð fyrir dómara sór hún af sér öll tengsl við Sea Shepherd.  Hún sagðist aldrei hafa heyrt á það fyrirbæri minnst.  Hún væri aðeins óbreyttur ferðamaður á eigin vegum.  

  Klæðnaður hennar var merktur SS í bak og fyrir.  Hún er formlega skráð sem skipverji á Sam Simoni.  Fjöldi ljósmynda af henni er á heimasíðu SS.  Hún hélt að saksóknari og dómari myndu ekki fatta þetta.

  SS-liðar eru úr tengslum við raunveruleikann.  Þeir lifa í fantasíuheimi.  Lítið þarf til að ímyndunaraflið fari á flug.  Þannig komu nokkrir þeirra auga á hnísu að leik á haffletinum.  Skyndilega hvarf hún og sást ekki meir.  SS-liðarnir sturluðust.  Í örvæntingu hóuðu þeir í lögregluna og báðu um að dýralæknir yrði sendur á vettvang.  Hnísan væri áreiðanlega slösuð.  Hún hafi verið að biðja um hjálp á haffletinum en örmagnast.  Þess vegna sæist ekkert til hennar lengur.   

  Í annað sinn varð á vegi SS-liða olíubrák á sjónum.  Töldu þeir að um skemmdarverk væri að ræða.  Óprúttnir aðilar væru að menga sjóinn til að drepa allt lífríki í honum.  Löggan mætti á svæðið.  Bletturinn reyndist innihalda innan við desílítra af olíu.  Það þótti ekki vera nægilegt magn til að hefja rannsókn á málinu.

  Ennþá taugaveiklaðri urðu SS-liðar er á vegi þeirra varð stór hvítur blettur á sjónum upp í fjöru.  Töldu þeir fullvíst að þarna væri um gríðarmikið magn af eitri að ræða.  Löggan kannaði málið.  Í ljós kom að þetta var mjólkurblandað affallsvatn frá mjólkurbúi.  

  Margt fleira mætti upp telja sem valdið hefur SS-liðum óþarfa ofsakvíðakasti.  Það þarf fátt til.  Þeir höfðu meira að segja samband við lögregluna út af einni stakri bauju á hafi úti.  Óttuðust að hún væri staðsetningarmerki fyrir eitthvað varhugavert sem lónaði undir henni.  Kannski sprengju eða annað sem gæti valdið skipum SS tjóni.  Löggan sinnti ekki því útkalli.  

ss liði hanldlagður  

    


Hryðjuverkamenn snúnir niður í Færeyjum og handjárnaðir

susan larsen

 

 

 

 

 

 

 

   Bandarísku hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd komu til Færeyja með látum 14. júní.  Ætlunin er að standa vakt og hindra hvalveiðar Færeyinga fram á haust.  Allt hefur gengið á afturfótunum hjá SS-liðum síðan.  En þeir bera sig vel á heimasíðu SS.  Láta eins og dvölin í Færeyjum sé sigurganga.

  Raunveruleikinn er annar.  SS-liðar eru aðhlátursefni í Færeyjum.  Aftur og aftur.  Bara tvö dæmi af mörgum:  SS-liðar boðuðu til blaðamannafundar með þéttri dagskrá:  Fyrirlestrum, setið fyrir svörum og bæklingum dreift.  Í fyrra mættu fulltrúar 15 stærstu fjölmiðla heims á samskonar blaðamannafund.  Í ár mætti aðeins ein manneskja.  Það var myndatökumaður frá færeyska sjónvarpinu,  Kringvarpinu.  Honum var boðið að leggja spurningar fyrir fulltrúa SS.  Hann afþakkaði.  Sagðist ekkert hafa við þá að tala.  

  Nokkru síðar varð vart við litla hvalvöðu við Sandey.  Þetta var snemma morguns.  SS-liðar voru þar á vakt í bíl.  En þeir sváfu.  Hvalirnir voru veiddir fyrir framan nefið á þeim.  Þegar SS-liðar loks vöknuðu var í fjörunni aðeins það sem ekki var hirt af marsvínunum (grindinni).  Síðan tala Færeyingar um Sleep Shepherd.  

  Í morgun varð vart við aðra vöðu.  Að þessu sinni í Kalsoyarfirði í norðri.  SS-liðar voru vakandi að þessu sinni og hugðust fæla vöðuna.  Þeir voru snarlega snúnir niður á asnaeyrunum, handjárnaðir og fjarlægðir af vettvangi.  Um er að ræða Súsönnu, fertuga bandaríska konu, og þrítugan drengstaula. Hvort um sig er sektað um hálfa milljón ísl. króna.  Þar með reynir í fyrsta skipti á ný færeysk lög.  Þau kveða á um að hver sá sem reynir að fæla hvalvöðu skuli sæta sekt að þessari upphæð.  Sama sektarupphæð liggur við því að koma auga á hvalvöðu og láta ekki vita af henni.

  Nýju lögin eru umdeild í Færeyjum.  Sumir óttast að þau muni gera SS-liða að píslarvættum,  ofsóttum fórnarlömbum harkalegra laga.  Forvitnilegt verður að fylgjast með framhaldinu.  Vegabréf eru tekin af SS-liðunum sem voru handteknir.  Sömuleiðis var hald lagt á dót þeirra,  svo sem myndavélar og bátdruslu.  Aularnir eru fastir í Færeyjum uns sektin verður greidd.  

  Af hvalvöðunni er það að frétta að hún samanstóð af ungum og smávöxnum marsvínum (grind).  Þarna er töluvert dýpi.  Dýrin náðu að kafa undir færeysku bátana og sleppa. Það hendir og kemur framkomu SS-liða ekkert við. Þeir hreykja sér engu að síður af því að hafa bjargað kvikindunum frá því að lenda á matardiskum Færeyinga. Næstum allt sem þú lest á heimasíðum SS-hryðjuverkasamtakanna er lygi.  

ss liði handtekinn 

 


Fésbókin sannar sig

  Samfélagsmiðillinn Fésbók er öflugt eftirlitskerfi.  Ekki síst hérlendis  Yfir 8 af hverjum 10 Íslendingum eru skráðir notendur.  Þar af heimsækja margir hana daglega.  Jafnvel oft á dag.  Þegar mynd af stolnum bíl,  tjaldvagni eða öðru er sett inn á Fésbók og óskað eftir aðstoð við leit að gripnum líður ekki má löngu uns myndinni hefur verið dreift/deilt mörg þúsund sinnum.  Þá er stutt í að hluturinn finnist,  sem og þjófurinn.  

  Þetta sannreyndi ég nokkrum vikum eftir að ég skráði mig fyrst inn á Fésbók.  Það eru nokkur ár síðan.  Þá kom ég seint heim úr vinnu og kíkti á "bókina".  Sá að verið var að deila mynd af stolnum bíl.  Ég deildi myndinni.  Hálftíma síðar fékk ég póst frá fésbókarvini.  Hann hafði ákveðið að kíkja á síðuna mína.  Sá myndina af bílnum;  fór út á hlað,  skimaði yfir bílastæðin, kom auga á bílinn og hafði samband við eigandann.  Sá kom með hraði í leigubíl og endurheimti bílinn.  Aðeins örfáum klukkutímum eftir að honum var stolið. 

  Þess eru dæmi að menn hafi fundið sjálfan sig á Fésbók.

.


mbl.is Fann þjófana með hjálp Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar með allt niðrum sig

strokkur 

  Fyrirséður vaxandi straumur erlendra ferðamanna til Íslands afhjúpar ýmis einkenni Íslendinga.  Til að mynda fyrirhyggjuleysi og gullgrafaraæði.  Ýmsir hafa síðustu ár bent á sáran skort á salernum við helstu áfangastaði ferðamanna.  En þeir sem málið heyrir undir góna út í loftið sljóum augum og aðhafast ekki neitt.  Á sama tíma fjölgar erlendum ferðamönnum.  Þeim fjölgar um mörg prósent í hverjum einasta mánuði.

  Tölurnar eru stórar.  Í fyrra kom ein milljón erlendra ferðamanna til Íslands.  Í ár eru þeir 200.000 fleiri.  Á næsta ári verða þeir um 1,5 millj.

  Túrhestarnir koma hingað með fulla vasa fjár.  Þeir moka seðlunum í sparibauka allra sem koma nálægt ferðaþjónustu.  Hátt hlutfall af fjármagninu hefur viðkomu í ríkissjóði.  Við erum að tala um milljarða.  Enginn hefur rænu á að taka af skarið og láta eitthvað af gróðanum renna í að koma til móts við spurn eftir salernum.  Peningurinn er notaður til að standa straum af nýjum ráðherrabílum og tíðum utanlandsferðum embættismanna. Aðstoðarmönnum ráðherra fjölgar jafn hratt og túrhestum.  Einnig nýjum nefndum,  starfshópum og ráðgjafateymi um allt annað en salernisaðstöðu.  

  Túrhestunum er nauðugur einn kostur að ganga sinna erinda úti um allar koppagrundir. Hvorki kirkjugarðar né aðrir grænir blettir sleppa undan áganginum.  Hvergi er hægt að víkja út af gönguleið án þess að vaða skarn upp að hnjám.

  Víða má í fjarlægð líta snjó í fjallshlíðum.  Þegar nær er komið er engan snjó að sjá. Aðeins klósettpappír.

  Viðbrögð Íslendinga eru þau ein að yppa öxlum í forundran og saka túrhestana um sóðaskap.  

  Góðu fréttirnar eru þær að hraukarnir sem túrhestarnir skilja eftir sig er fyrirtaks áburður.  Eigendur skrautblómagarða gætu gert sér eitthvað gott úr því.   

1tourists   


mbl.is „Míga og skíta“ glottandi við Gullfoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2. hluti - Hvað verður um ungt fólk sem hlustar á þungarokk á unglingsárum?

 
  Barátta bandarísku Verndarsamtaka foreldra,  PMRC,  gegn þungarokki á níunda áratugnum gekk út á að þungarokkið stæði fyrir ofbeldi, sado-masókisma, djöfladýrkun,  klám og sjálfsmorð.  Þessi afstaða byggði ekki á öðru en tilgátum.  Röngum tilgátum.  Hún var ekki studd neinum rannsóknum.  Þess í stað var vísað á örfá plötuumslög og afmörkuð dæmi án samanburðar við þá sem hlusta á aðra músíkstíla.

  Seinni tíma rannsóknir hafa leitt í ljós að Verndarsamtök foreldra fóru villu vegar. 

  Reyndar þarf engar rannsóknir til.  Hérlendis höfum við langa reynslu af þungarokkshátíðinni Eistnaflugi í Neskaupstaði.  Um og yfir 2000 gestir hafa aldrei sýnt af sér annað en góða hegðun.  Þar er ekkert ofbeldi.  Engir þjófnaðir.  Engar nauðganir.  

  Til samanburðar höfum við skallapoppshátíðir á borð við Þjóðhátíð í Eyjum um verslunarmannahelgina.  Þar er aldrei spurt um það hvort að einhverri manneskju hafi verið nauðgað eða hvort einhver hafi verið laminn.  Þar er aðeins spurt um fjölda nauðgana og barsmíða.

  Stærsta árleg þungarokkshátíð í Evrópu,  Wacken í Þýskalandi, telur 80 þúsund gesti.  Þar hafa aldrei komið upp vandamál.  Engar nauðganir.  Engar barsmíðar.  Enginn þjófnaður.

  Nú hefur verið birt í tímaritinu Self and Identidy niðurstaða rannsóknar á þungarokkurum.  Niðurstaðan passar við allar aðrar alvöru kannanir.  Hún staðfestir að ungir þungarokkarar eru almennt hamingjusamari en jafnaldrar sem hlusta á aðra músík.  Þeir eru heiðarlegri og í betra andlegu jafnvægi.  Gáfaðri og með meiri félagslega færni. Þungarokkarar spjara sig betur í lífinu en þeir sem hlusta á aðra músíkstíla.    

  Rannsóknin nær aftur til ársins 1980 (hálfan fjórða áratug).  Þá voru þungarokkarar að hlusta á Iron Maiden og Metallica.  

  Á síðasta ári voru þungarokkarar virkustu notendur Spotify.  Á síðasta ári toppaði rokkmúsík aðra músíkstíla í plötusölu í Bandaríkjunum.

  Heimska fólkið stillir á FM957 og Léttbylgjuna.   

http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP37654


Bíll og sími eiga ekki samleið

 

bíll og sími a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Það er bannað að tala í "ófrjálsan" síma og stjórna bíl á sama tíma.  Við brot á lögum þar um liggur sekt.  Sennilega fimm eða tíu þúsund kall.  Samt fer næstum því enginn eftir þessu.  Enda hafa rannsóknir í útlöndum leitt í ljós að það er enginn munur á einbeitingu ökumanns hvort heldur sem hann talar í handfrjálsan síma eða heldur á honum við eyrað.  

  Þar fyrir utan er refsilaust að tala í talstöð og stjórna bíl á sama tíma.  Næsta víst er að það truflar einbeitingu ökumanns jafn mikið og þegar blaðrað er tóma vitleysu í síma.

  Sömuleiðis er refsilaust að senda sms eða djöflast í snjallsíma og aka bíl á sama tíma.  Engu að síður má ætla að það trufli einbeitingu við akstur miklu meira en kjaftæði í síma. Ef ekki verður tekið snöfurlega á þessu og fólk láti þegar í stað af glannaskapnum verður þess ekki langt að bíða að óhapp verði í umferðinni.

bíll og sími bbíll og sími cbíll og sími dbíll og sími hbíll og sími ibíll og sími g   


mbl.is „Sé bíl koma fljúgandi á móti mér“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbjóðslegt ofbeldi

 

  Í áranna rás hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðu um bardagaíþrótt sem háð er undir merki UFC.  UFC er skammstöfun fyrir Ultimate Fighting Championship.  Það er fjölbragðaglíma sem lýtur ströngum reglum.  

  Í árdaga (á síðustu öld) voru glímurnar iðulega assgoti "brútal" og blóðugar.  Þær eru settlegri í dag.  Engu að síður má sjá á Fésbók upphrópanir og yfirlýsingar um að þessar glímur séu viðbjóðslegt ofbeldi.

  Strákar tuskast.  Það er í þeirra eðli.  Þannig er það líka hjá öðrum í dýraríkinu.  Ung karldýr takast á.  Frá því að ég man fyrst eftir mér þá voru áflog algeng - nánast dagleg góð skemmtun.  Fram eftir barnaskólaaldri og eitthvað fram á unglingsár.  Strákar tuskuðust.  Reyndu sig.  Sjaldan raunverulega í illu.  Oftast í góðu þó að fantabrögð slæddust með.  Eins og gengur.

  Í mörgum íþróttagreinum eru átök hörð.  Menn meiðast og slasast.  Fjöldamargir enda sinn feril í boltaleikjum sem illa farnir öryrkjar og vesalingar.  Allt í klessu:  Liðir ónýtir, hausinn í klessu (eftir að hafa ítrekað skallað bolta),  sinar slitnar,  tær maukaðar og svo framvegis.   

  Það hefur verið virkilega gaman að fylgjast með ferli Gunnars Nelsons.  Það er gaman að vera stoltur af framgöngu hans í UFC.  Hann er skemmtilega "öðruvísi".  Kemur inn í hringinn undir pollrólegum reggítakti hljómsveitarinnar Hjálma.  Kominn inn í hringinn sest hann á hækjur sér og bíður eftir að leikar hefjist.  Þegar flautað er til leiks er hann hinsvegar eldsnöggur í hreyfingum.  En jafnframt yfirvegaður.  Reiknar andstæðinginn út í snatri.  Svo lætur hann til skarar skríða.  Hraðinn er slíkur að það þarf að skoða árásina í "slow motion" til sjá hvernig hún gengur fyrir sig.  

  Í gólfinu er hann á heimavelli.  Og áfram rólegur og yfirvegaður.  Þegar hann stendur uppi sem sigurvegari þá hleypur hann ekki um búrið eins og aðrir sigurvegarar veifandi upp höndum sigurvegarans.  Hann röltir rólegur um og setur hendur á mjaðmir.  

  Það er meiriháttar góð skemmtun að fylgjast með bardagakappanum Gunnari Nelson.  Í bardaganum í nótt var keppinauturinn töluvert hærri,  með lengri arma og með góða ferilsskrá sem snöggur rotari.  Spörk langra fótleggja hans urðu aðeins fálm í átt að snöggri  undankomu Gunnars.  Gaurinn átti ekki möguleika.  Gunnar lék sér að honum eins köttur að mús. Veðbankar spáðu öðru.  En við vissum betur.

 


mbl.is Gunnar sigraði á þremur mínútum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband