Færsluflokkur: Lífstíll

Rússar þenja brjóst og sperra stél

  Það er eins og Rússar verði sperrtari með hverjum deginum sem líður.  Pútín og hans lið kemst upp með allt.  Sama hvort er að bjarga sýrlenskum stjórnvöldum undan innrásarhótunum Obama eða bjarga Snowden undan Obama.  Eða dæma gagnrýnendur Pútíns í þrælkunarbúðir.  Eða halda Olympíu-leika og láta rússneska herinn umkringja úkraínskar herstöðvar og afvopna þær.  

  Rembingurinn í Rússum og og sjálfsupphafning þeirra er farin að taka á sig ýmsar myndir.  Þar á meðal eru þeir farnir framleiða fólksbíla í rembingslegri yfirstærð. 

russneskur_folksbill_a.jpg russneskur_folksbill.jpg   Til að taka af allan vafa þá hefur ekkert verið átt við þessar ljósmyndir.  Bíllinn er þetta stór. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Hinsvegar birtist sperringur Rússa líka í samsettum brúðkaupsmyndum.  Hér þykist brúðguminn jafnhatta fólksbíl með brúðurina innanborðs:

rússn brúðk.m B samsett - heldur á bíl 

  Líka frekar undarlega samsett mynd af brúðhjónum sem eru sett inn sem dekk undir bíl: 

russn_bru_k_m_c_-_samsett_-_bill_-_dekk.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

  Sumir Rússar monta sig af dráttarvélinni sinni.  Í rússneskum sveitum er dráttarvélin stöðutákn.  Metingurinn gengur út á að hafa stór dekk undir vélinni og góðan heyvagn aftan í henni.  Takið eftir að við hlið annars framhjólsins er öðru og stærra dekki stillt upp til að dráttarvélin sýnist vera vörpulegri.  Jafnframt er myndin tekin frá sjónarhóli þar sem þak á nálægu húsi virðist vera þak á heyvagninum og húsi traktorsins.     russn_bru_k_m_a_-_traktor_1229595.jpg


mbl.is „Þetta er stríðsyfirlýsing“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lulla frænka og Sophia Loren

  Lulla frænka var ekki alltaf fyrirsjáanleg.  Hvorki í orðum né gjörðum.  Hún átti þrjú systkini á Norðurlandi.  Sjálf bjó hún í Reykjavík.  Hún var dugleg að heimsækja systkini sín og frændfólk.  Dvaldi þá dögum saman hjá hverjum og einum.  Það var alltaf mjög gaman þegar Lulla var í heimsókn.  Hún skipti sér meira af okkur börnunum en flest annað fullorðið fólk.  Spjallaði mikið við okkur alveg frá því að við lærðum að tala.  Hún söng fyrir okkur í ítölskum óperustíl og jóðlaði heilu ósköpin.  Hún kenndi okkur að húlla.  Það var einhverskonar dans með stórri gjörð um mittið.  

 

  Lulla sagðist vera ein örfárra Íslendinga sem kynni að jóðla og kynni tökin á húlla.  Gat sér til um að hún væri flinkasti húlla-dansari Íslands.  Kannski var það rétt hjá henni.  Við höfðum engan samanburð.  Nema,  jú,  við krakkarnir gáfum henni lítið eftir þegar á reyndi.  Kannski er húlla-hæfileikinn ættgengur.

  Lulla taldi sig vera tvífara þekktrar ítalskrar leikkonu,  Sophiu Loren.  Henni dauðbrá, að sögn,  stundum þegar hún leit í spegil.  Í speglinum blasti við andlit Sophiu Loren.  Hana grunaði sterklega að þegar hún væri á gangi niðri í bæ þá héldi fólk að þar færi Sophia Loren.  

  Lulla vissi ekki til að þær Sophia Loren væru skyldar.  Engu að síður taldi hún augljóst að um æðar sér rynni suðrænt blóð.  Hún gat ekki staðsett hvort hún væri af ítölskum,  frönskum eða spænskum ættum.  Það kom til greina að eiga ættir að rekja til allra þessara landa.  Með orðum Lullu:  "Sennilega er ég komin af einhverju fínu fólki í þessum löndum."  Vísbendingarnar sem hún hafði fyrir sér voru meðal annars þær að þegar hún hélt á bolla þá lyftist litli putti ósjálfrátt út í loftið.  Einnig skar hún skorpuna af smurbrauðsneiðum og leifði skorpunni.  Hvorutveggja einkennandi fyrir kónga og annað fyrirfólk í suðrænum löndum, að sögn Lullu.

  Lulla var svarthærð með svartar augabrúnir og stór augu.  Með einbeittum vilja mátti merkja að eitthvað væri svipað með andlitsdráttum þeirra Sophiu Loren.  En þær voru ekki tvífarar.  Það var lítil hætta á að fólk ruglaði þeim saman. 

sophia_loren.jpg   Á æskuheimili mínu,  sveitabæ í útjaðri Hóla í Hjaltadal,  var oft fjölmennt á sumrin.  Einkum í sumarfrísmánuðinum júní.  Þá komu ættingjar og vinir foreldra minna í heimsókn.  Flestir stoppuðu í marga daga eða vikur.  Foreldrum mínum og okkur krökkunum þótti þetta rosalega gaman.  Þegar best lét voru hátt í 30 næturgestir til viðbótar við 9 heimilisfasta.  Þá var slegið upp tjaldi úti á hlaðvarpanum.  Jafnframt man ég eftir tilfellum þar sem við nokkrir krakkar sváfum úti í hlöðu.  Það var mikið ævintýri og góð skemmtun.  

  Lulla var eitt sinn í heimsókn þegar gestum fjölgaði.  Einhverra hluta vegna var hún ósátt við það.  Hugsanlega fannst henni þrengt að svefnstað sínum.  Mér dettur það í hug vegna þess að hún tók upp á því að vaka fram á nótt eftir að aðrir voru lagstir til hvílu.  Hún sat þá alein í eldhúsinu,  drakk svart kaffi og keðjureykti.  

  Snemma nætur renndi nýr bíll í hlað.  Lulla spratt til dyra.  Úti fyrir stóð vinafólk okkar,  langt að komið.  Daginn eftir tilkynnti Lulla okkur að hún hafi verið snögg að snúa þessu fólki við.  Hún hafi sagt þeim að það væri ekki smuga á næturgistingu fyrir þau.  Það væri þvílíkt stappað að fjöldi manns svæfi á eldhúsgólfinu og sjálf þyrfti hún að sofa í baðkarinu.  

  Hvorutveggja var ósatt.  Það svaf enginn í eldhúsinu og því síður í baðkarinu.  Næturgestir voru ekkert það margir í þetta skiptið þó að þeir væru margir.  Það var alveg pláss fyrir fleiri.  Foreldrum mínum þótti miður að Lulla hefði vísað vinafólkinu á brott.  Fannst samt fyndið að Lulla skyldi skrökva þessu með baðkarið.  Lullu þótti ekkert fyndið við það.  Hún sagði alvörugefin:  "Þetta var það eina sem mér datt í hug.  Og það hreif.  Fólkið snéri við í dyrunum og fór.  Ég fór að sofa og hef sjaldan sofið betur."   

--------------------------------

Meira af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1358050/


Lærum af dæminu með Hildi

  Nú er lag að læra af dæminu um Hildi Lillendahl.  Láta eitthvað gott koma út úr því dapurlega dæmi.  Skerum upp herör gegn dulnefnum.  Þau bjóða ekki upp á annað en óábyrgar yfirlýsingar, hótanir,  heitingar og óábyrga umræðu.  Gerum þá kröfu til netmiðla að notendur skrifi undir fullu nafni.  Þannig er notendum gert að standa við orð sín án þess að felast á bakvið dulnefni.  

  Netmiðlar þurfa að taka ábyrgð á því sem fær að standa í umræðudálkum þeirra.  Ég er ekki að kalla eftir neinni ríkisrekinni netlöggu.  Netmiðlarnir sjálfir verða að sýna ábyrgð með því að eyða "kommentum" sem fela í sér hótanir um nauðganir,  dráp og annað ofbeldi.

  Þeir sem verða fyrir netníði þurfa að bregðast snöggt við og kæra umsvifalaust allar hótanir og annað níð.  Ekki bíða eftir því að þetta líði hjá og fyrnist á tveimur árum.  Dómstólar þurfa að taka á netníði af festu.  Líðum ekki netníð.  Við eigum alveg að ráða við það að ræða ágreiningsmál án hatursumræðu.  Erum við ekki nógu félagslega þroskuð til þess?  Öll dýrin í netheimum eiga að vera vinir. 


mbl.is Vildi drepa Svein Andra með hamri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgát skal höfð i nærveru netsins

  Netið er varasamt.  Ekki síst spjallþræðir,  svo og athugasemdakerfi fréttamiðla.  Fyrir það fyrsta tjáir fólk sig öðruvísi á lyklaborði en þegar staðið er fyrir framan þann sem orðum er beint að.  Eða verið er að fjalla um.  Bremsurnar eru ekki þær sömu og þegar horft er framan í manneskjuna.  Í annan stað tjáir fólk sig öðruvísi á netinu undir dulnefni en réttu nafni.  Það er eins og losni um hömlur og fólk leyfir sér meiri ókurteisi og ruddaskap þegar það er falið á bakvið dulnefni.  Í þriðja lagi kemur iðulega illa út að blanda þessum tveimur atriðum - lyklaborði og dulnefni - saman við ölvun.  Það þarf ekki netið til að fullt fólk segi sitthvað annað en þegar það er edrú. 

  Stemmning í athugasemdakerfum og spjallþráðum hefur mikið að segja.  Ég þekki ekki barnaland.is og bland.is.  Mér er sagt að umræðan á barnaland.is hafi verið svakaleg á köflum.  Þar hafi notendur síðunnar keppst við að toppa hvern annan með slúðri um frægt fólk og niðrandi ummælum um það.  Það ku hafa eitthvað dregið úr þessu eftir að nafni síðunnar var breytt í bland.is.  Ég kíkti núna inn á bland.is og sé að allir skrifa þar undir dulnefni.  Umræðan er eftir því. 

  Stundum má sjá í athugasemdakerfi fréttamiðla hvernig umræða þróast.  Fyrstu "komment" eru kannski kurteisleg.  Svo mætir einhver yfirlýsingaglaður á svæðið.  Þá spólast aðrir upp.  Áður en líður á löngu eru menn komnir í kapp við að toppa hvern annan.  Þetta á einkum við um það þegar verið er að fjalla um ofbeldismenn,  nauðgara,  barnaníðinga og aðra slíka.  Þá er stutt í yfirlýsingar á borð við:  "Hnakkaskot og málið er dautt."   Eða lýsingar á því hvernig gaman væri að pynta viðkomandi og láta hann deyja hægum sársaukafullum dauðdaga.  

  Annað mál er að sumt sem hljómar ruddalegt í skrifuðum texta er ekki illa meint.  Það er sett fram í kaldhæðni eða á að vera í léttum dúr.  Málið er að án þess að sjá svipbrigði þess sem skrifar og eða þekkja hann er auðvelt að meðtaka textann á annan hátt.  Netið er svo ungur samskiptavettvangur að við höfum ekki ennþá náð að höndla það almennilega.  

  Fyrir daga netsins skrifaði fólk lesendabréf eða pistil í dagblöð.  Fólk vandaði sig.  Tók marga daga í að skrifa vandað bréf.  Lét ættingja og vini lesa það yfir áður en það var sent til dagblaðs.  Á þeim árum komu út mörg dagblöð:  Morgunblaðið,  Vísir,  Tíminn,  Þjóðviljinn,  Dagblaðið,  Alþýðublaðið og Dagur.  Þessi dagblöð birtu ekki hvaða lesendabréf eða pistil sem var.  Ósæmilegu efni var hafnað eða farið fram á að texta væri breytt.  Það sem birtist á prenti hafði farið í gegnum síu.  Núna hinsvegar getur fólk ýtt á "enter" um leið og það hefur lokið við að slá texta á lyklaborðið.  Á næstu sek. er textinn orðinn opinber á netinu.     

     


mbl.is Fullur kærasti á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sífellt bætist í hóp þeirra sem ætla að vera drukknir á páskunum

  Það er langt síðan ég tók staðfasta ákvörðun um að reyna að stefna á að verða drukkinn á páskunum.  Það hentar svo vel á þessari skemmtilegu alþjóðlegu frjósemishátíð.  Frjósemistáknin;  súkkulaðikanínur,  litlir gulir hænuungar og Nóaegg smellpassa við páskabjórinn.  Mér er kunnugt um að fleiri en ég ætli að verða drukknir á páskunum.  Þar á meðal Jesús. 


mbl.is Jesús drukkinn á páskunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegir ástarinnar eru (ó)rekjanlegir

bilasalinn.jpgbayford_fruin.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Stundum er því haldið fram að engir sölumenn komist með tærnar þar sem bílasölumenn á góðu flugi eru með hælana.  Enda nauðsynlegt.  Svo oft þarf að selja bílhræ sem engin heilvita manneskja svo mikið sem lítur á.  En snjöllu sölumönnunum tekst að selja hverja einustu bíldruslu.

  Víkur þá sögu að breskum hjónum á fimmtugsaldri,  herra og frú Bayford,  2ja barna foreldrum.  Þau unnu 148 milljónir sterlingspunda (x 188 ísl. kr.) í Lottó.  Í fjölmiðlum sögðust hjónin vera staðráðin í því að láta aurinn ekki breyta sér og fjölskyldulífi þeirra á neinn hátt.  Þau leyfðu sér samt að kaupa eitt og annað smálegt án þess að fara á eyðslufyllerí.  Þar á meðal fór frúin á bílasölu.  Bílasalinn gaf sér góðan tíma í að kynna fyrir kellu þá kosti sem voru í boði.  Það var engin ástæða til að rasa um ráð fram þegar velja á heppilegasta bíla sem eiga að endast í marga mánuði.  Áður en yfir lauk hafði salinn selt frúnni 5 Audi bíla:  Sitthvorn bílinn handa foreldrum hennar,  einn handa bróðir hennar,  annan handa mágkonu hennar og einn handa frúnni sjálfri.

  Herra Bayford skipti sér ekkert af þessu og kom hvergi nærri.  Hann hefur engan huga á bílum.  Er ekki einu sinni með bílpróf.   

  Um það leyti sem frú Bayford staðgreiddi bílana var hún komin upp í rúm til bílasalans.  Það var ekki aftur snúið.  Hún skildi í snatri við herra Bayford.  Bílasalinn flutti inn til hennar.  Hann sagði þegar í stað upp í vinnunni og hvílir sig.  

bayford.jpg


mbl.is „Fólk gleymir að rækta ástina“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjúklingur er grænmeti

kjuklingaborgari.jpg

  Sú var tíð að börn og unglingar ólust við það að sjá grunnhráefnið í mat verða til fyrir framan sig.  Lamb fæddist að vori,  óx úr grasi og var slátrað að hausti.  Skrokkurinn var sagaður í lærissneiðar,  sviðakjamma,  síðubita o.s.frv.  Blóð og lifur urðu sláturkeppir.  Kálfur fæddist og breyttist skömmu síðar í kálfasteik og kálfabjúgu.  Þannig mætti áfram telja.  Svona er hringrás lífsins og matarkeðjunnar.

  Í dag kemst margt fólk á fullorðinsár án þess að hafa hugmynd um það hvernig maturinn verður til.  Dýravinir hvetja fólk til að hætta að drepa dýr og kaupa frekar kjöt í kjötborði stórverslana. 

  Aðrir gera sér ekki grein fyrir því hvað er dýraafurð og hvað er kjöt.  Það færist í vöxt að fólk haldi að ekkert sé kjöt nema rautt kjöt.  Öfgafullar grænmetisætur lifa á kjúklingasalati um leið og þær sniðganga egg á þeirri forsendu að egg sé dýraafurð. 

  Í dag var áróðursriti kvótakónganna dreift í öll hús í boði hamborgarasjoppu.  Þar gat - í bland - að líta matseðil sjoppunnar.  Í innrömmuðum texta voru taldir upp nokkrir valmöguleikar,  vik frá uppskriftinni.  Meðal annars að hægt væri að fá kjúklingabringu í staðinn fyrir kjöt.  

  Þennan útbreidda misskilning; að kjúklingur sé grænmeti, má rekja til lýsinga á illri meðferð á verksmiðjukjúklingum.  Aðbúnaður er svo vondur og meðferðin á þeim svo vond að þeir eru viti sínu fjær,  skelfingu lostnir,  sljóir og ein taugahrúga.  Skilja hvorki upp né niður.  Uppfullir af fúkkalyfjum og með dritbrunna fætur,  reittir og tættir.  Þeir ná ekki heilli hugsun.  Að því leyti eru þeir grænmeti í merkingunni að hausinn sé ónýtur.         


Sýslumaður flytur lík á herðum sér

  Á vegi mínum í dag varð eintak af Morgunblaðinu frá því fyrr í vikunni.  Frétt vakti athygli mína.  Ég mátti ekki vera að því að lesa fréttina.  En sá að hún snérist um leyfi sýslumannsins á Siglufirði til að flytja lík á herðum sér.  Af því að ég gaf mér ekki tíma til að lesa fréttina þá veit ég ekki hvort að hann fékk leyfi til að flytja lík á herðunum.  Fyrirsögnin var:  "Leyfi til líkflutnings á herðum sýslumanns á Siglufirði". 

  Ég vona að hann hafi fengið þetta leyfi fyrst að það er honum kappsmál.  

-----------------------------------

  Svo gott sem allt fólk talar í nútíð er það mælir.  Nema nánast bara ein manneskja.  Hún segist tala í fortíð.  Það er aðdáunarverð kúnst sem fæstir leika eftir (nema örfáir eftir að hafa snætt görótta sveppi).  Orðrétt hélt hún þessu fram sem skrifað er við myndina.   

vigdis-or_rett_1228816.jpg

  Þar fyrir utan:  Flestum nægir að líta til baka án þess að vera líta til baka.  

  Þessi spakmælta kona er sú hin sama og snéri nafnorðinu auðlind lipurlega upp í hæsta stigs lýsingarorð.  Sagði Ísland vera auðlindasta land í heimi.

  Þar áður hélt hún því fram að Róm hafi ekki verið byggð á einni nóttu.   Sem er áreiðanlega rétt.  Það er óhagkvæmt að byggja borg í myrkri nætur.  

  Fyrir daga rafmagns hefði verið hagkvæmara að byggja Róm að degi til.    

   


Smásaga af fjárfesti

okeypis.jpg

  Ding-dong,  gellur dyrabjallan.  Húsfrúin gengur til dyra.  Útifyrir stendur hvíthærður maður með sakleysislegan hvolpasvip.  Hann býður góðan dag og kynnir sig sem Hrapp Úlfsson,  fjárfesti og auðmann. 

  - Ég átti leið hér hjá og fann ilm af signum fiski.  Ég fékk vatn í munninn.  Ef þú ert að elda nóg þá þigg ég örlítinn bita.
   Frúin kallar á bóndann.  Spyr hvort að þau séu ekki með nóg af mat.  Hér sé kominn gestur.
  Sem betur fer er nóg af mat því gesturinn tekur hraustlega til matar síns.  Hann segist græða á demantakaupum frá Færeyjum.  Hann kaupi þaðan einnig kol,  silfur og Nígeríubréf. 
  Um það leyti sem matartíma lýkur sprettur Hrappur á fætur.  Hann segir að svona góðum gestgjöfum verði að launa vel.  Hann vill leyfa þeim að græða með sér.  Hann komi aftur á morgun og útskýri dæmið.
  Daginn eftir mætir Hrappur í hádegismat.  Líka næstu daga.  Hann er kominn í fast hádegisfæði til um leið og hann útskýrir hægt og bítandi fyrir hjónunum hvernig þau geti með hans hjálp orðið auðmenn.  Í leiðinni stingur hann upp á hvað þau eigi að hafa í matinn daginn eftir.  Í mánaðanna rás þróast hádegisverðurinn í fjölrétta hlaðborð með forréttum,  stórsteikum með rauðvínssósum og desertum.  Hrappur mælir með vínum sem passa réttunum og vindlum til að púa eftir matinn.  Þetta er maður sem veit um hvað hann talar.
  Hrappur býður hjónunum að láta sig fá 14 milljónir kr. og hann láti þau fá 100 milljónir eftir nokkrar vikur. 
  Hjónin eiga ekki 14 milljónir.
  - Ekki vandamálið,  segir Hrappur glaður í bragði.  Það eru bankar út um allt.  Bara rölta í einn þeirra og fá 14 millur gegn veði í húsinu.
  Hjónin fagna þessu heillaráði.  Að ósk Hrapps afhenda þau honum milljónirnar í seðlum. 
  -  Stílaðu kvittunina á nafn okkar beggja,  biður frúin um.  Við erum orðin það fullorðin að annað okkar getur hrokkið upp af hvenær sem er.
  Nei,  Hrappur upplýsir að í þessu dæmi séu engar kvittanir.  Allt sé á svörtu vegna gjaldeyrishafta.  Þegar hann borgi þeim 100 millur þá sé heldur engin kvittun skrifuð.  Peningurinn fari óskiptur í þeirra vasa svart og sykurlaust.  
  Þetta eru góðar fréttir.  Hjónin faðma Hrapp og lofa að minnast hans í kvöldbænum sínum.
  Nokkrum dögum síðar er dóttir hjónanna í heimsókn þegar Hrappur mætir til hádegisverðar.  Að fyrirmælum Hrapps hafa hjónin hvorki sagt henni né öðrum frá gróðabrallinu.  Það er leyndarmál.  Enda ekki alveg löglegt.  Eða eins og Hrappur útskýrði það:  "Meira á gráu svæði.  Ef einhver græðir þá græða allir þegar upp er staðið.  Það er ekki eins og þið hendið 100 milljónum út um gluggann.  Þið kaupið nýjan bíl.  Þá græðir bílasalinn.  Þið kaupið ný húsgögn.  Þá græðir húsgagnaverslunin.  Það græða allir."
  Dóttir hjónanna undrast að sjá Hrapp í heimsókn.  
  - Hvað ert þú að gera hér?  Margdæmdur svindlari.
  - Ekki margdæmdur,  leiðrétti Hrappur.  Bara einstaka sinnum.  Ég hef aldrei setið í fangelsi.  Þetta var misskilningur.
  - Þú náðir að semja um náðun á þeirri forsendu að þér myndi líða illa í fangelsi og börn þín yrðu óróleg,  heldur dóttirin áfram.
  Hrappi leiðist þessi umræða.  Hann setur punkt fyrir aftan hana með því koma til móts við dótturina:
  - Ég skal vera alveg hreinskilinn með það að stundum mátti standa öðruvísi að málum.  Ég lærði af þeim mistökum sem voru gerð og er betri maður fyrir vikið.  Það gera allir mistök einhvern tíma á ævinni.  Það á ekki að velta mönnum upp úr tjöru og fiðri það sem eftir er.
  Hjónin taka undir þessi orð.  Öll vopn eru slegin úr hendi dótturinnar.  Hún kveður en varar foreldra sína um leið við að láta Hrapp plata sig.  Foreldrarnir glotta inni í sér.  Það kemur annað hljóð í strokkinn þegar dóttirin erfir 100 milljónir.
 
  Að nokkrum vikum liðnum gætir óþolinmæði hjá hjónunum.  
  - Hvenær koma 100 milljónirnar
  - Þær eru alveg að detta inn,  fullyrðir Hrappur.  Reyndar verða þetta fleiri en 100 millur.  Mér reiknast til að þetta verði nær 120 millum.  Vonandi getið þið gert eitthvað skemmtilegt fyrir þessar 20 viðbótarmillur.  Kannski skroppið í heimsreisu á lúxussnekkju. 
  Gömlu hjónin fagna,  faðma Hrapp og skammast sín fyrir að hafa rekið á eftir 100 millunum..
  
  Daginn eftir kemur Hrappur með nánari upplýsingar á stöðunni.  Hjónin þurfa að láta hann fá 30 millur til að koma peningnum til Íslands.  Viku síðar afhendi hann þeim tösku með 150 millum í seðlum.  
  Hjónin eiga ekki 30 millur.
  - Ekki málið,  segir Hrappur glaðbeittur.  Þið seljið kofann á 50 millur.  Endurgreiðið 14 millu lánið með smávægilegum vöxtum.  Látið mig fá 30 millur.  5 - 6 millur standa út af sem þið getið gert eitthvað skemmtilegt við.  Viku síðar sitjið þið uppi með 150 millur í tösku.
  Þetta er gott ráð.  Hjónin fagna með því að opna kampavínsflösku og faðma Hrapp.  
  
  Tíminn líður.  Mánuðir verða ár.  Engar milljónir skila sér.  Eftir að húsið var selt  fóru hjónin á vergang.  Þau ráða ekki við uppsprengdan leigumarkaðinn.  Þeim til happs varð að Hrappur fann á haugunum bílhræ sem alveg er hægt að sofa í.  Bílhræið seldi hann þeim á gangverði.  Reyndar rúmlega það vegna þess að hjónin sleppa við að borga tryggingar af bílnum.  Hann er óskráður.  Þau sleppa líka við að borga bifreiðagjald.  Bíllinn er ógangfær.  Þar með sparast heilmikill bensínkostnaður.  Til að hafa í sig og á sækja hjónin úthlutun hjá Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands.  Hrappur mætir ætíð stundvíslega í hádegismat.  Hádegisverðurinn er ekki sama veislumáltíð og áður.   
  Skyr og brauðsneiðar eru ráðandi.  Það er engin eldunaraðstaða í bílhræinu.  En það eru gleðidagar inn á milli.  Í eitt skipti rétti Hrappur gömlu hjónunum umslag með 50 þúsund krónum og sagði að meira væri á leiðinni.  Jafnvel strax á næsta ári.  Þau föðmuðu hann í bak og fyrir.  Þeim munaði virkilega mikið um þennan 50 þús. kall.  Um kvöldið báðu þau guð um að blessa Hrapp.  Hann bjargaði því að loks gátu þau leyst út meðölin sín.  Meðölin voru fljót að slá á gigtina,  kvíðaköstin,  hjartsláttartruflanir og bakverkina.  Það var dæmalaust happ að eiga Hrapp að,  þennan öðling.   
_keypis_kaffi_a_a_eins_125_kr.jpg      
---------------------------------------------------------
Fleiri smásögur og leikrit: 
 - Ofbeldi
- Hvalkjöt
    
  - Bílasaga
 - Barátta góðs og ills
- Skóbúð
- Rómantísk helgarferð
- Álfar
.
- Bóndi og hestur
.
.
 - Gömul hjón
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1098829/
.
 - Hnefaleikakeppni aldarinnar:
.
 - Peysuklúbburinn
.
 - Vinalegur náungi:
.
 - Gamall einbúi
.
- Saga af systrum
.
 - Jólasaga
.
- Á rjúpnaveiðum:
.
- Ólétta nunnan:
.
- Gullfiskur:
.
- Flugvélamódel:
.
- Miðaldra maður:
.
- Leyndarmál stráks:
.
- Matarboð í sveitinni:

Skemmtilegur bókardómur

gata,austurey,eivor

  Á tónlistarsíðunni Tónskrattanum skrifar Bubbi skemmtilega gagnrýni um bókina  Gata, Austurey, Færeyjar, Eivör og færeysk tónlist.  Hann gefur henni hálfa fjórðu stjörnu í einkunn.  Meðal þess sem segir í dómnum er:   

  "Þetta er ekki ævisaga í þeim skilningi þó tiplað sé á ýmsu úr ævi Eivarar, enda fáránlegt að að skrifa ævisögu svo ungrar manneskju og algjör óþarfi, nema hún heiti Janis Joplin eða Jimi Hendrix. Þessi bók fjallar um færeyskt tónlistarlíf og þar er tónlistarferill Eivarar sennilega hryggjarstykkið og því er hún að sjálfsögðu aðalnúmerið hér. Inn á milli er síðan fléttaður skemmtilegur fróðleikur um Færeyjar og færeyskt þjóðlíf. 

  Annars finnst mér bókin lipurlega skrifuð og læsileg og flæði gott. Það er vitnað í samstarfsfólk Eivarar og fjölskyldu sem öll bera henni vel söguna... Sagt frá öllum hennar helstu afrekum hérlendis sem erlendis. Stíllinn er síðan brotinn upp af og til með fróðleiksmolum um Færeyjar og aðra færeyska tónlistarmenn, íslenska tónlistarmenn af færeyskum ættum osfrv. Jafnvel fá mataruppskriftir að fljóta með og sýnishorn af málverkum stúlkunnar. Jens nær að feta þröngt einstígið á milli þess að skrifa nördabók og skemmtirit.
.
  Í lok bókarinnar eru síðan ítarlegar upplýsingar um allar plötur hennar og allt það efni sem hún hefur komið út með henni. Mikill fengur af því fyrir aðdáendur. Hún hefur víða komið við og sett mark sitt á margan viðburðinn og er ekkert að fara að hætta því."'
.
  Dóminn í heild má lesa með því að smella á þessa slóð:  http://bubbij.123.is/blog/record/692732/ 
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband