Færsluflokkur: Ferðalög

Dularfullt mannshvarf

  Fyrir mánuði gagnrýndi ég - á þessum vettvangi - veitingastað Ikea í Garðabæ fyrir að bjóða ekki upp á lambakjöt.  Viðbrögð voru snöfurleg.  Lambakótelettur voru þegar í stað settar á matseðilinn.  Síðan hef ég ítrekað kvittað fyrir mig með heimsókn í Ikea.

  Í gær snæddi ég þar kótelettur utan matmálstíma.  Klukkan var að ganga þrjú.  Fámennt í salnum.  Á næsta borði sat aldraður maður.  Skömmu síðar bar að annan aldraðan mann.  Án þess að heilsa spurði hann hinn:

  - Hefur þú nokkuð séð hópinn minn?

  - Hvaða hóp? spurði hinn á móti.

  - Ég er með tuttugu manna hóp.  Við vorum að koma af Úlfarsfelli.  Ég leit af honum í smástund áðan hérna niðri.  Svo var hann bara horfinn.  Ég er búinn að leita að honum.  Finn hann ekki.

  Hinn kom ekki með neitt ráð.  Eftir að hafa tvístigið um hríð settist komumaður við borðið hjá honum og sagði:

  - Ég hinkra hérna.  Ég hélt að hópurinn ætlaði að fá sér bita.  Hann hlýtur þá að dúkka upp hér.

  Mennirnir þekktust greinilega.  Þeir spurðu frétta af sameiginlegum kunningjum.  Nokkru síðar var ég mettur.  Stóð upp og gekk á brott.  Hópurinn var ekki búinn að skila sér.  Á útleið skimaði ég eftir honum.  Án árangurs.  Ég hefði viljað benda honum á að hann væri týndur. 

kotilettur  

  


Óhugnanlegt dýraníð

  Umræða hefur kviknað um hryllilegt dýraníð á Íslandi.  Upphaf þess má rekja til Fésbókarfærslu Tinnu Bjargar Hilmarsdóttur.  Hún lýsir hræðilegri meðferð á fé.  Hún fór í réttir.  Varð hálf lömuð og full af sorg og reiði yfir því sem fyrir augu bar.  

  Tinna Björg er félagi í Aktivegan - samtökum um réttindi dýra til lífs og frelsis.  Full ástæða er til að lofa og fagna öllum sem láta sig velferð dýra varða.  Dýraníðingar þurfa sjaldnast að axla ábyrgð á gjörðum sínum.

  Tinna Björg segir féð hafa verið skelfingu lostið og verulega stressað.  Hún fullyrðir að kindur og lömb deyi iðulega vegna streitunnar sem smölun fylgir.  Sum slasist.  Fjölskyldur tvístrist.  Lamb tróðst undir.  Kindum var fleygt eins og tuskudúkkum.  Nokkrar kindur höltruðu.  Aðrar voru með blæðandi sár.  Ein með skaddað auga.  Sláturtrukkar biðu eftir þeim.  Þær sáu ekki fram á neitt annað en dauða eða þurfa að hírast í skítugu fjárhúsi í allan vetur.  

  Ég dreg ekki í efa neitt af þessu.  Ég hef ekki farið í göngur og réttir síðan á fyrri hluta áttunda áratugarins.  Þá var þetta allt öðru vísi.  Kindurnar fögnuðu okkur smölunum.  Þær hlakkaði til að komast í réttina.  Lögðu þegar í stað í átt að henni.  Þær komu óþreyttar á áfangastað.  Þær röltu léttar í spori niður fjallið á gönguhraða smalanna.  Það vorum við sem þurftum að klífa brattar fjallshlíðar.

  Í réttunum urðu fagnaðarfundir.  Kindurnar hittu æskufélaga sína og jörmuðu ákaft af fögnuði.  Lömbin hittu fjölda nýrra lamba.  Það var algjört ævintýri að kynnast nýju lömbunum.  Allir skemmtu sér hið besta.  Líka smalarnir sem sumir voru fullir og vildu slást.  Kindurnar hlógu að þeim.

  Að hausti eru kindurnar að mestu hættar að skipta sér af lömbum.  Lömbin hinsvegar sækja í návist móður.  Fyrst og fremst af vana.  Þau eru fyrir löngu síðan hætt á spena og þurfa ekkert á mömmu að halda.  Þetta skiptir þau engu máli.

 Ég hef aldrei séð blóðgað fé í réttum.  Hinsvegar hefur í réttum uppgötvast að horn er að vaxa inn í höfuð á kind eða lambi.  Líka að kind er í vandræðum vegna ullarreyfis.  Ein var með brunna snoppu eftir að hafa asnast upp á jökul og ekki fattað að hann endurvarpaði sólarljósi.  Henni þurfti að sinna og græða brunasár með Aloe Vera geli.  Aldrei dó fé vegna streitu.  Enda féð sultuslakt - þrátt fyrir hvað því þótti rosalega gaman.

  Ég vissi ekki dæmi þess að ekið væri með lömb beint úr rétt í sláturhús.  Venja var að fita lömbin í nokkra daga á káli og öðru góðgæti síðustu daga fyrir slátrun.  Það var þeim góð skemmtun að ferðast á vörubílspalli.  Flestum skepnum þykir það gaman; að vera kyrr á sama stað en samt á ferð.  Þau upplifa heillandi töfra.

  Sjaldan eða aldrei voru lömb leidd beint af vörubílspalli til slátrarans.  Algengara var að þau fengju að slaka á.  Jafnvel yfir nótt.  Þau voru ekkert óróleg eða kvíðin.  Frekar að þau væru spennt að vita hvaða næsta ævintýri biði þeirra.

  Er kólna tók í veðri urðu ærnar afskaplega þakklátar fyrir að komast í húsaskjól.  Þar var dekstrað við þær.  Heyi hlaðið á garða.  Stundum gómsætu mjöli blandað saman við.  Einkum síðvetrar.  Þá fengu þær líka síld.  Þvílíkt sælgæti.  Þvílík hamingja.

     


Gott að vita

   Tímareimin í bílnum mínum var komin á tíma.  Ég hringdi í nokkur bifreiðaverkstæði.  Spurði hvað skipti á tímareim kosti.  Heildarverð með öllu.  Verðin reyndust mismunandi.  En öll eitthvað á annað hundrað þúsund.  Af einhverri rælni álpaðist ég til að leita á náðir "gúgglsins".  Fann þar nokkrar jákvæðar umsagnir um Bifreiðaverkstæði Jóhanns í Hveragerði.  Þar á meðal að verðlagning sé hófleg.

  Næsta skref var að hringja þangað.  "Vinnan kostar 35 þúsund," var svarið sem ég fékk.  "Þú getur sjálfur komið með varahlutina sem til þarf ef þú ert með afslátt einhversstaðar."

  Ég var ekki svo vel settur.  Spurði hvort að ég gæti ekki keypt þá hjá honum.  Jú, ekkert mál.  "Þá verður heildarpakkinn um 70 þúsund."

  Ég var alsæll.  Brunaði austur fyrir fjall.  Þegar til kom reyndist vélin miklu stærri en venja er í bíl af mínu tagi.  Fyrir bragðið tók vinnan klukkutíma lengri tíma en tilboðið hljóðaði upp á.  

  Er ég borgaði reikninginn var þó slegið til og tilboðið látið standa.  Endanlegur heildarreikningur var 68 þúsund kall.  

  Tekið skal fram að ég hef engin tengsl við Bifreiðaverkstæði Jóhanns.  Vissi ekki af tilvist þess fyrr en "gúgglið" kynnti það fyrir mér.

  Af þessu má læra:  Nota tæknina og "gúggla".  Fyrir mismuninn á fyrstu tilboðum og því síðasta er hægt að kaupa hátt í 200 pylsur með öllu í Ikea.  Samt langar mig ekkert í pylsu.

 

 


Svindlað á tollinum

  Fyrir hátt í fjórum áratugum flutti Íslendingur aftur heim til Íslands eftir langdvöl í Svíþjóð.  Hann hafði keypt ýmis heimilistæki, fatnað,  sængurföt og fleira í Svíþjóð.  Hann var með kvittanir fyrir öllu.  Þær staðfestu að um gamlar notaðar vörur var að ræða.  Búslóð sem maðurinn sankaði að sér í áranna rás.  Þar með þurfti hvorki að greiða vörugjald né söluskatt af henni.

  Reyndar keypti hann sjónvarp rétt fyrir heimförina.  Bað búðarmanninn um að dagsetja kvittunina nokkur ár aftur í tímann.  Sá tók því vel og sótti brúsa undir afgreiðsluborðið.  Opnaði svo pappakassann með sjónvarpinu, úðaði ryki yfir sjónvarpið og sagði: "Þú segir tollinum að sjónvarpið hafi rykfallið uppi á háalofti hjá þér eftir stutta notkun.  Ég er alltaf að gera svona fyrir Íslendinga á heimleið."

  Maðurinn vandi sig á sánaböð í Svíþjóðardvölinni.  Sánaklefar á Íslandi kostuðu meira en tvöfalt á við samskonar klefa í Svíþjóð.  Maðurinn fjárfesti í glæsilegasta sánaklefa sem hann fann í Svíþjóð.  Skrúfaði bekkina lausa og notaði þá fyrir vörubretti undir búslóðina sína.  Búslóðin smekkfyllti sánaklefann.  Þar með var hann orðinn gámur en ekki sánaklefi sem fengi á sig hátt vörugjald, söluskatt og allskonar.  Á núvirði erum við að tala um gjöld upp á meira en hálfa milljón kr.  

  Þegar gámurinn var tollafgreiddur þurfti maðurinn að opna hann og sýna innihaldið.  Hann framvísaði kvittunum.  Tollverðir rótuðu dálítið í búslóðinni og sannreyndu að allt var eins og það átti að vera.  Er þeir gengu á braut bankaði einn utan í gáminn og sagði:  "Assgoti eru sænsku trégámarnir orðnir vandaðir."  

  Eigandinn svaraði:  "Já,  ég er mjög ánægður með hann.  Mér var sagt að búslóð sé miklu betur varin í trégámi en járngámi þegar siglt er um ólgusjó..  Þar að auki get ég smíðað sólpall eða eitthvað úr timbrinu.

------------------------------------------------------------------------

  Til gamans má geta að sánaklefi kallast baðstofa á færeysku.

    


mbl.is Ein flottasta sánan í eigu Íslendings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áríðandi upplýsingar fyrir sólarlandafara!

á ströndinnisöluborðkássurfluga í súpunni

 

 

  Margur sólarlandafarinn er varla fyrr mættur á svæðið en magakveisa herjar á hann.  Ástæðan er matareitrun.  Löngum hefur ferðalöngum verið kennt að forðast hrátt salat, grænmeti og annað æti sem er skolað upp úr kranavatni.  Vatnið er löðrandi í bakteríum sem íslenska magaflóran ræður ekki við.  

  Ástæða er til að hefja dvölina á því að slafra í sig jógúrt.  Hún inniheldur varnir gegn vondum bakteríum.

  Nú hefur spænska blaðið El Pais bætt inn í umræðuna fróðleik.  Það greinir frá rannsókn á mat og drykk hjá svokölluðum götusölum.  Bæði á götum úti og á strönd er krökkt af söluborðum og söluvögnum.  Í Barcelóna eru 7000 veitingagötusalar.  Rannsóknin leiðir í ljós að þarna er pottur mélbrotinn.  Sóðaskapurinn er yfirgengilegur.  Matur og drykkur fljóta í E-coli bakteríum.  Magnið er svo svakalegt að það er bein ávísun á matareitrun.  Meira að segja frambornir áfengir kokteilar eru 7200% yfir skaðlausum mörkum.  

  Götusalarnir starfa á svörtum markaði.  Þeir lúta ekki heilbrigðiseftirliti né öðrum kröfum sem gerðar eru til fastra veitingastaða innanhúss.  Þeir halda ekki bókhald og borga lítil sem engin gjöld.  Það er önnur saga.  Hitt skiptir öllu:  Til að lágmarka hættu á matareitrun á ströndinni og göngugötunni:  Ekki kaupa neitt matarkyns af götusölunum.

 

      


Sea Shepherd-liðar gripnir í Færeyjum

  Færeyska lögreglan brá við skjótt er á vegi hennar urðu Sea Shepherd-liðar.  Það gerðist þannig að aftan á stórum jeppabíl sást í límmiða með merki bandarísku hryðjuverkasamtakanna.  Lögreglan skellti blikkljósum og sírenu á bílinn og bjóst til að handtaka liðið.  Í bílnum reyndust vera öldruð hjón.  Reyndar var ekki sannreynt að þau væru hjón.  Enda aukaatriði.  Þeim var nokkuð brugðið.

  Lögreglan upplýsti gamla fólkið um nýleg og ströng færeysk lög.  Þau voru sett til að þrengja að möguleikum hryðjuverkasamtakanna á að hafa sig í frammi í Færeyjum.  Þar á meðal er ákvæði um að til að vera með einhverja starfsemi í Færeyjum þurfi að framvísa færeysku atvinnuleyfi.  Þetta nær yfir mótmælastöður,  blaðamannafundi,  afskipti af hvalveiðum og allskonar.

  Jafnframt hefur lögreglan heimild til að neita um heimsókn til Færeyja öllum sem hafa brotið af sér í Færeyjum.  Hvergi í heiminum hafa hryðjuverkasamtökin verið tækluð jafn röggsamlega og í Færeyjum.  

  Gamla fólkið svaraði því til að það væri algjörlega óvirkir félagar í SS.  Það kæmi ekki til greina af þess hálfu að skipta sér af neinu í Færeyjum.  Ferðinni væri heitið til Íslands.  Það væri einungis í smá útsýnisrúnti um Færeyjarnar á meðan beðið væri eftir því að Norræna héldi til Íslands.

ss jeppinn    


Ringulreið á Íslandi

  Það er óreiða í íslenska matvöru- og veitingahúsageiranum.  Koma Kaupfélags Garðahrepps inn á markaðinn í sumarbyrjun hefur sýnt og sannað að verðlagning á ýmsum vörum - þar á meðal matvöru - getur verið lægri en hún var fyrir þau tímamót.  

  Það dugir skammt að vísa til þess að Kaupfélagið starfi í mörgum löndum og geti gert magninnkaup.  Jú, vissulega er það rétt að hluta.  Á móti vegur að verulegur hluti af matvörum og drykk í búðinni er framleiddur hérlendis, einungis fyrir íslenskan markað.  Hún er með flata 14% álagningu.  Lífeyrissjóðir krefjast mun hærri álagningar hjá sínum stórmarkaðskeðjum.  Stjórnarmenn þurfa há laun og góða bónusa. 

tepoki  Á sama tíma og Íslendingar eru að kynnast áður óþekktu lágu verði í Kaupfélagi Garðahrepps berast skemmtilegar fréttir af hátt verðlögðum veitingum úti á landi.  Ómerkileg smá hveitibrauðsbolla er seld á 500 kall.  Stakur tepoki er seldur á 400 kall (án vatns og án þjónustu).  Rúnstykki með skinkusneið og osti á 1200 kall.  Ræfilsleg kleina á 980.  Hamborgari á 3000.  Plokkfiskur á 4500 kall.  Kjötsúpa á 4500 kall.

  Ferðaþjónustuokrarar undrast að útlendir túrhestar hiksti yfir verðlagningunni.  Þeir stytta ferðir og eru teknir upp á því að smyrja sér nesti.  Viðbrögðin eru að bæta við skál við hliðina á peningakassanum.  Skálin er kyrfilega merkt "TIPS".  Forsendur eru þær að uppistaðan af útlendum túrhestum í lausagöngu á Íslandi er vanur að borga þjórfé heimafyrir.  Þeir vita ekki að það er ekki vani á Íslandi.  Samt.  Það er reisn yfir því að ná þjórfé af túrhestunum ofan á 500 króna hveitibollu.    

brauðbolla tips a                  

   

  

     


Nýr flötur á okri í ferðaþjónustu

  Íslensk ferðaþjónusta er á miklu flugi um þessar mundir.  Enda háannatími ársins.  Hver sem betur getur reynir að toppa sig í okri á öllum sviðum.  Einn ómerkilegur Lipton tepoki er seldur á 400 kall á hóteli á Egilsstöðum.  Bara pokinn einn og sér.  Ekki með vatni eða í bolla.  Samskonar poki kostar um 20 kall út úr búð.  

  Á Húsavík er rúnstykki með skinku og osti selt á 1200 kall.  Erlendir ferðamenn eru í öngum sínum yfir íslenska okrinu.  Viðbrögðin eru fálmkennd.  Þeir reyna að sniðganga veitingahús sem frekast er unnt.  Kaupa þess í stað brauð og álegg í matvöruverslunum.  Út um holt og hæðir má sjá erlenda ferðamenn smyrja sér samlokur á milli þess sem þeir ganga örna sinna úti í grænni náttúrunni.  Það er gott fyrir gróðurinn.

  Sjálfsbjargarviðleitnin fór á nýtt stig í gær þegar níu bandarískir ferðamenn eltu uppi lamb,  stálu því og skáru á háls.  Brotaviljinn var einbeittur, eins og sést á því að þeir voru vopnaðir stórum hnífi,  sveðju,  til verksins.  Næsta víst er þetta hafi ekki verið fyrsta né síðasta lambið sem þeir stálu.  Mánaðargamalt lamb er ekki kjötbiti sem mettar níu Bandaríkjamenn.  Frekar að það æsi upp í þeim sultinn.  

  Refsing var ótrúlega mild.  Þeir voru látnir borga markaðsverð fyrir lambið og væga sekt fyrir eignarspjöll og þjófnað.  Þeir voru ekki kærðir fyrir dýraníð.  Né heldur fyrir að brjóta gróflega lög um sláturleyfi, þar sem gerðar eru strangar kröfur um eitt og annað.  Til að mynda hvernig lóga skuli dýrum og standa að hreinlæti.  Þess í stað voru þeir kvaddir með óskum um góða ferð.  Ekki fylgir sögunni hvort að þeir fengu að halda drápstólinu.

  Þessi viðbrögð verður að endurskoða í snatri áður en allt fer úr böndum.  Ferðamennirnir eru áreiðanlega búnir að hlæja sig máttlausa á samfélagsmiðlum yfir aulagangi íslensku lögreglunnar.  Jafnframt því sem þeir gæta sín á því að ræna lömbum úr augsýn annarra.  Þeir hafa verið orðnir kærulausir vegna þess hve auðvelt var að stela sér í matinn.

  Hugsanlega ætti að senda erlenda sauðaþjófa rakleiðis úr landi og gera ökutæki þeirra upptæk. Að minnsta kosti sekta þá svo rækilega að þeir láti sér það að kenningu verða og skammist sín.    

 


mbl.is Á að vera refsað fyrir dýraníð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bensínsvindlið

  Margir kaupa eldsneyti á bílinn sinn hjá Kaupfélagi Garðahrepps - heildverslun.  Bensínlítrinn þar er að minnsta kosti 11 kr. lægri en á næst ódýrustu bensínstöðvum.  Dælt á tóman 35 lítra tank er sparnaðurinn 385 kr.  Munar um minna.  Annað hefur vakið athygli margra:  Bensínið er ekki einungis ódýrast heldur miklu kröftugra og endingarbetra.  

  Fjöldinn hefur upplýst og skipst á reynslusögum á Fésbók, tísti og víðar.  Gamlar kraftlitlar druslur breytast í tryllitæki sem reykspóla af minnsta tilefni.  Rólegheitabílstjórar sem voru vanir að dóla á 80 kílómetra hraða á þjóðvegum eiga nú í basli með að halda hraðanum undir 100 km.  

  Einn sem átti erindi úr Reykjavík til Sauðárkróks var vanur að komast á einum tanki norður.  Það smellpassaði svo snyrtilega að hann renndi ætíð á síðasta lítranum upp að bensíndælu Ábæjar.  Þar keypti hann pylsu af Gunnari Braga.  Nú brá svo við að með bensín frá KG á tanknum var nóg eftir þegar hann nálgaðist Varmahlíð.  Hann beygði því til hægri og linnti ekki látum fyrr en við Glerártorg á Akureyri.  Samt gutlaði enn í tanknum.

  Hvernig má þetta vera?  KG kaupir bensínið frá Skeljungi.  

  Skýringin liggur í því að Skeljungur (eins og Neinn og Olís) þynnir sitt bensín með etanóli á stöðvunum.  Þetta er gert í kyrrþey.  Þetta er leyndarmál.  Hitt er annað mál að Costco blandar saman við sitt bensín efni frá Lubisol.  Þsð hreinsar og smyr vélina.     

 

     

   


Hjálpast að

  Ég var á Akureyri um helgina.  Þar er gott að vera.  Á leið minni suður ók ég framhjá lögreglubíl.  Hann var staðsettur í útskoti.  Mig grunaði að þar væri verið að fylgjast með aksturshraða - fremur en að lögreglumennirnir væru aðeins að hvíla sig í amstri dagsins.  Á móti mér kom bílastrolla á - að mér virtist - vafasömum hraða.  Ég fann til ábyrgðar.  Taldi mér skylt að vara bílalestina við.  Það gerði ég með því að blikka ljósum ótt og títt.  

  Skyndilega uppgötvaði ég að bíllinn sem fór fremstur var lögreglubíll.  Hafi ökumaður hans stefnt á hraðakstur er næsta víst að ljósablikk mitt kom að góðum notum.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.