Færsluflokkur: Ferðalög
8.1.2018 | 08:55
Íslendingar mættu taka sér Manchester til fyrirmyndar
Nýkominn heim frá Manchester bloggaði ég á þessum vettvangi um blómlegt tónlistarlíf þar í borg. Um það má lesa hér fyrir neðan. Heimamenn gera sér grein fyrir þessu. Og gera sér mat úr því. Veggir stigagangs gistiheimilis er hýsti mig eru skreyttir stórum ljósmyndum af heimsþekktum poppstjörnum frá Manchester.
Ég álpaðist inn í plötubúð, Fopp. Ég hef víðar séð plötubúðir undir þessu nafni. Nema að þarna í miðborg Manchester blasa við á miðju gólfi tveir veglegir plöturekkar. Þeir eru pakkaðir af plötum með Manchester-tónlist. Einungis Manchester-tónlist. Við hlið rekkanna eru jafnframt staflar af bókum um Manchester-poppara, sem og stórar veggmyndir af þeim.
Þetta er til fyrirmyndar. Ég hef löngum gagnrýnt sinnuleysi Íslendinga gagnvart heimsfrægð íslenskra tónlistarmanna. Ef vel væri að verki staðið væri flugstöðin í Sandgerði undirlögð risastórum veggmyndum af Björk, Sigur Rós, Of Monsters and Men, Kaleo, Emilíönu Torríni, Hilmari Erni Hilmarssyni og svo framvegis. Götur og torg væru jafnframt kennd við þessar sömu poppstjörnur. Framsóknarflokkurinn hefur viðrað hugmynd um að reisa styttu af Björk fyrir utan Hörpu. Gott innlegg í umræðuna - þó ég setji spurnarmerki við styttur bæjarins (sem enginn nennir að horfa á).
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.1.2018 | 09:50
Frægir í Manchester
Fyrr á þessari öld vandi ég mig á að fagna jólum og áramótum í útlöndum. Einhver verður að gera það. Þetta hentar mér vel. Einkum að taka frí frá snjó og frosti. Líka að komast að því hvernig útlendingar fagna vetrarsólstöðum og nýju ári. Að þessu sinni varð Manchester á Englandi fyrir valinu. Notaleg borg. Hlýtt alla daga á þessum árstíma. Smá rigning á næstum því hverjum degi. Samt ekki svo að þurft hafi að spenna upp regnhlíf.
Ég veit ekkert um boltaleiki. Öfugt við Manchesterbúa. Ég komst ekki hjá því að heyra í útvarpinu þeirra eitthvað um velgengi í boltabrölti. Hitt veit ég að Manchester er stórveldi á heimsmælikvarða í tónlist. Eiga það sameiginlegt með Íslendingum. Okkar 340 þúsund manna þjóð státar af ótrúlega mörgum heimsfrægum tónlistarnöfnum. Hæst bera Björk, Sigur Rós, Of Monsters and Men og Kaleo. Fleiri Íslendingar hafa náð góðri stöðu á heimsmarkaði - en á afmarkaðri markaði og teljast því ekki beinlínis heimsfrægir. Sólstafir hafa tröllriðið vinsældalistum í Finnlandi og Þýskalandi. Skálmöld er þekkt í evrópsku þungarokkssenunni. Jóhann Jóhannsson er þekktur í kvikmyndatónlist. Líka Hilmar Örn Hilmarsson og fleiri. Til viðbótar eru með ágæta stöðu á í tilteknum löndum nöfn eins og Emilíana Torrini, FM Belfast, Múm, Steed lord...
Ánægjulegur árangur íslenskra tónlistarmanna á heimsmarkaði hefur vakið undrun heimspressunnar. Hefur sömuleiðis skilað drjúgum skerf í ábatasaman ferðamannaiðnað hérlendis. Takk fyrir það. Hátt í 600 þúsund milljónir á síðasta ári.
Til samanburðar hefur Manchester mun sterkari stöðu í tónlist. Líka þó að miðað sé við höfðatölu. Íbúar Manchester eru rösklega 540 þúsund. 59% fleiri en Íslendingar. Heimsfræg tónlistarnöfn Manchester eru um margir tugir. Þar af mörg af þeim stærstu. Í fljótu bragði man ég eftir þessum Manchester-guttum:
Ferðalög | Breytt 9.1.2018 kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.12.2017 | 07:44
Íslenskar vörur ódýrari í útlendum búðum
Íslensk skip hafa löngum siglt til Færeyja. Erindið er iðulega fyrst og fremst að kaupa þar olíu og vistir. Þannig sparast peningur. Olían er töluvert ódýrari í Færeyjum en á Íslandi. Meira að segja íslenska landhelgisgæslan siglir út fyrir íslenska landhelgi til að kaupa olíu í Færeyjum.
Vöruverð er hæst á Íslandi. Svo einkennilegt sem það er þá eru vörur framleiddar á Íslandi oft seldar á lægra verði í verslunum erlendis en á Íslandi. Það á við um íslenskt lambakjöt. Líka íslenskt lýsi. Hér fyrir neðan er ljósmynd sem Ásmundur Valur Sveinsson tók í Frakklandi. Hún sýnir íslenskt skyr, eitt kíló, í þarlendri verslun. Verðið er 3,39 evrur (417 ísl kr.).
Hátt vöruverð á Íslandi er stundum réttlætt með því að Ísland sé fámenn eyja. Þess vegna sé flutningskostnaður hár og markaðurinn örsmár. Gott og vel. Færeyjar eru líka eyjar. Færeyski markaðurinn er aðeins 1/7 af þeim íslenska. Samt spara Íslendingar með því að gera innkaup í Færeyjum.
Hvernig má það vera að skyr framleitt á Íslandi sé ódýrara í búð í Frakklandi en á Íslandi - þrátt fyrir háan flutningskostnað? Er Mjólkursamsalan að okra á Íslendingum í krafti einokunar? Eða niðurgreiðir ríkissjóður skyr ofan í Frakka?
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 07:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.12.2017 | 08:37
Styttur af Björk
Hérlendis vantar fleiri styttur af körlum. Undan því hefur verið kvartað áratugum saman. Einnig hefur verið brugðist vel við því af og til. Enda enginn skortur á uppástungum. Kröfur eru háværar um styttu af Gvendi Jaka (helst tvær til að túlka tungur tvær), steraboltanum Jóni Páli, Hemma Gunn og svo framvegis.
"Styttur bæjarins sem enginn nennir að horfa á," söng Spilverk þjóðanna á sínum tíma.
Nú er komið annað hljóð í strokkinn. Í menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur er komin fram tillaga um styttu af konu. Einkum er sjónum beint að styttu af Björk. Hugmyndin er frumleg og djörf. En ekki alveg út í hött.
Enginn Íslendingur hefur borið hróður Íslands víðar og betur en Björk. Án hennar væri ferðamannaiðnaðurinn ekki stærsta tekjulind Íslands. Spurning hvernig henni sjálfri lýst á uppátækið. Upplagt er að reisa eina styttu af henni við Hörpu. Aðra við Leifsstöð. Í leiðinni má breyta nafni flugstöðvarinnar. Að kenna hana við Leif the Lucky (Lukku-Láka) er hallærislegt. Í Liverpool er flugstöðin kennd við John Lennon. Í Varsjá er flugstöðin kennd við Chopin. Flustöðin í Sandgerði ætti að vera kennd við Björk.
![]() |
Vill reisa styttu af Björk við Hörpu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
14.11.2017 | 08:55
Flugbílar að detta inn á markað
Lengst af hafa bílar þróast hægt og breyst lítið í áranna rás. Það er að segja grunngerðin er alltaf sú sama. Þessa dagana er hinsvegar sitthvað að gerast. Sjálfvirkni eykst hröðum skrefum. Í gær var viðtal í útvarpinu við ökumann vörubíls. Hann varð fyrir því að bíll svínaði gróflega á honum á Sæbraut. Skynjarar vörubílsins tóku samstundis við sér: Bíllinn snarhemlaði á punktinum, flautaði og blikkaði ljósum. Forðuðu þar með árekstri.
Sífellt heyrast fréttir af sjálfkeyrandi bílum. Þeir eru að hellast yfir markaðinn. Nú hefur leigubílafyrirtækið Uber tilkynnt um komu flugbíla. Fyrirtækið hefur þróað uppskriftina í samvinnu við geimferðastofnunina Nasa. Það setur flugbílana í umferð 2020. Pældu í því. Eftir aðeins 3 ár. Við lifum á spennandi tímum.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.9.2017 | 23:26
Dularfullt mannshvarf
Fyrir mánuði gagnrýndi ég - á þessum vettvangi - veitingastað Ikea í Garðabæ fyrir að bjóða ekki upp á lambakjöt. Viðbrögð voru snöfurleg. Lambakótelettur voru þegar í stað settar á matseðilinn. Síðan hef ég ítrekað kvittað fyrir mig með heimsókn í Ikea.
Í gær snæddi ég þar kótelettur utan matmálstíma. Klukkan var að ganga þrjú. Fámennt í salnum. Á næsta borði sat aldraður maður. Skömmu síðar bar að annan aldraðan mann. Án þess að heilsa spurði hann hinn:
- Hefur þú nokkuð séð hópinn minn?
- Hvaða hóp? spurði hinn á móti.
- Ég er með tuttugu manna hóp. Við vorum að koma af Úlfarsfelli. Ég leit af honum í smástund áðan hérna niðri. Svo var hann bara horfinn. Ég er búinn að leita að honum. Finn hann ekki.
Hinn kom ekki með neitt ráð. Eftir að hafa tvístigið um hríð settist komumaður við borðið hjá honum og sagði:
- Ég hinkra hérna. Ég hélt að hópurinn ætlaði að fá sér bita. Hann hlýtur þá að dúkka upp hér.
Mennirnir þekktust greinilega. Þeir spurðu frétta af sameiginlegum kunningjum. Nokkru síðar var ég mettur. Stóð upp og gekk á brott. Hópurinn var ekki búinn að skila sér. Á útleið skimaði ég eftir honum. Án árangurs. Ég hefði viljað benda honum á að hann væri týndur.
Ferðalög | Breytt 28.9.2017 kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.9.2017 | 04:44
Óhugnanlegt dýraníð
Umræða hefur kviknað um hryllilegt dýraníð á Íslandi. Upphaf þess má rekja til Fésbókarfærslu Tinnu Bjargar Hilmarsdóttur. Hún lýsir hræðilegri meðferð á fé. Hún fór í réttir. Varð hálf lömuð og full af sorg og reiði yfir því sem fyrir augu bar.
Tinna Björg er félagi í Aktivegan - samtökum um réttindi dýra til lífs og frelsis. Full ástæða er til að lofa og fagna öllum sem láta sig velferð dýra varða. Dýraníðingar þurfa sjaldnast að axla ábyrgð á gjörðum sínum.
Tinna Björg segir féð hafa verið skelfingu lostið og verulega stressað. Hún fullyrðir að kindur og lömb deyi iðulega vegna streitunnar sem smölun fylgir. Sum slasist. Fjölskyldur tvístrist. Lamb tróðst undir. Kindum var fleygt eins og tuskudúkkum. Nokkrar kindur höltruðu. Aðrar voru með blæðandi sár. Ein með skaddað auga. Sláturtrukkar biðu eftir þeim. Þær sáu ekki fram á neitt annað en dauða eða þurfa að hírast í skítugu fjárhúsi í allan vetur.
Ég dreg ekki í efa neitt af þessu. Ég hef ekki farið í göngur og réttir síðan á fyrri hluta áttunda áratugarins. Þá var þetta allt öðru vísi. Kindurnar fögnuðu okkur smölunum. Þær hlakkaði til að komast í réttina. Lögðu þegar í stað í átt að henni. Þær komu óþreyttar á áfangastað. Þær röltu léttar í spori niður fjallið á gönguhraða smalanna. Það vorum við sem þurftum að klífa brattar fjallshlíðar.
Í réttunum urðu fagnaðarfundir. Kindurnar hittu æskufélaga sína og jörmuðu ákaft af fögnuði. Lömbin hittu fjölda nýrra lamba. Það var algjört ævintýri að kynnast nýju lömbunum. Allir skemmtu sér hið besta. Líka smalarnir sem sumir voru fullir og vildu slást. Kindurnar hlógu að þeim.
Að hausti eru kindurnar að mestu hættar að skipta sér af lömbum. Lömbin hinsvegar sækja í návist móður. Fyrst og fremst af vana. Þau eru fyrir löngu síðan hætt á spena og þurfa ekkert á mömmu að halda. Þetta skiptir þau engu máli.
Ég hef aldrei séð blóðgað fé í réttum. Hinsvegar hefur í réttum uppgötvast að horn er að vaxa inn í höfuð á kind eða lambi. Líka að kind er í vandræðum vegna ullarreyfis. Ein var með brunna snoppu eftir að hafa asnast upp á jökul og ekki fattað að hann endurvarpaði sólarljósi. Henni þurfti að sinna og græða brunasár með Aloe Vera geli. Aldrei dó fé vegna streitu. Enda féð sultuslakt - þrátt fyrir hvað því þótti rosalega gaman.
Ég vissi ekki dæmi þess að ekið væri með lömb beint úr rétt í sláturhús. Venja var að fita lömbin í nokkra daga á káli og öðru góðgæti síðustu daga fyrir slátrun. Það var þeim góð skemmtun að ferðast á vörubílspalli. Flestum skepnum þykir það gaman; að vera kyrr á sama stað en samt á ferð. Þau upplifa heillandi töfra.
Sjaldan eða aldrei voru lömb leidd beint af vörubílspalli til slátrarans. Algengara var að þau fengju að slaka á. Jafnvel yfir nótt. Þau voru ekkert óróleg eða kvíðin. Frekar að þau væru spennt að vita hvaða næsta ævintýri biði þeirra.
Er kólna tók í veðri urðu ærnar afskaplega þakklátar fyrir að komast í húsaskjól. Þar var dekstrað við þær. Heyi hlaðið á garða. Stundum gómsætu mjöli blandað saman við. Einkum síðvetrar. Þá fengu þær líka síld. Þvílíkt sælgæti. Þvílík hamingja.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
7.9.2017 | 09:28
Gott að vita
Tímareimin í bílnum mínum var komin á tíma. Ég hringdi í nokkur bifreiðaverkstæði. Spurði hvað skipti á tímareim kosti. Heildarverð með öllu. Verðin reyndust mismunandi. En öll eitthvað á annað hundrað þúsund. Af einhverri rælni álpaðist ég til að leita á náðir "gúgglsins". Fann þar nokkrar jákvæðar umsagnir um Bifreiðaverkstæði Jóhanns í Hveragerði. Þar á meðal að verðlagning sé hófleg.
Næsta skref var að hringja þangað. "Vinnan kostar 35 þúsund," var svarið sem ég fékk. "Þú getur sjálfur komið með varahlutina sem til þarf ef þú ert með afslátt einhversstaðar."
Ég var ekki svo vel settur. Spurði hvort að ég gæti ekki keypt þá hjá honum. Jú, ekkert mál. "Þá verður heildarpakkinn um 70 þúsund."
Ég var alsæll. Brunaði austur fyrir fjall. Þegar til kom reyndist vélin miklu stærri en venja er í bíl af mínu tagi. Fyrir bragðið tók vinnan klukkutíma lengri tíma en tilboðið hljóðaði upp á.
Er ég borgaði reikninginn var þó slegið til og tilboðið látið standa. Endanlegur heildarreikningur var 68 þúsund kall.
Tekið skal fram að ég hef engin tengsl við Bifreiðaverkstæði Jóhanns. Vissi ekki af tilvist þess fyrr en "gúgglið" kynnti það fyrir mér.
Af þessu má læra: Nota tæknina og "gúggla". Fyrir mismuninn á fyrstu tilboðum og því síðasta er hægt að kaupa hátt í 200 pylsur með öllu í Ikea. Samt langar mig ekkert í pylsu.
Ferðalög | Breytt 9.9.2017 kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
27.8.2017 | 15:44
Svindlað á tollinum
Fyrir hátt í fjórum áratugum flutti Íslendingur aftur heim til Íslands eftir langdvöl í Svíþjóð. Hann hafði keypt ýmis heimilistæki, fatnað, sængurföt og fleira í Svíþjóð. Hann var með kvittanir fyrir öllu. Þær staðfestu að um gamlar notaðar vörur var að ræða. Búslóð sem maðurinn sankaði að sér í áranna rás. Þar með þurfti hvorki að greiða vörugjald né söluskatt af henni.
Reyndar keypti hann sjónvarp rétt fyrir heimförina. Bað búðarmanninn um að dagsetja kvittunina nokkur ár aftur í tímann. Sá tók því vel og sótti brúsa undir afgreiðsluborðið. Opnaði svo pappakassann með sjónvarpinu, úðaði ryki yfir sjónvarpið og sagði: "Þú segir tollinum að sjónvarpið hafi rykfallið uppi á háalofti hjá þér eftir stutta notkun. Ég er alltaf að gera svona fyrir Íslendinga á heimleið."
Maðurinn vandi sig á sánaböð í Svíþjóðardvölinni. Sánaklefar á Íslandi kostuðu meira en tvöfalt á við samskonar klefa í Svíþjóð. Maðurinn fjárfesti í glæsilegasta sánaklefa sem hann fann í Svíþjóð. Skrúfaði bekkina lausa og notaði þá fyrir vörubretti undir búslóðina sína. Búslóðin smekkfyllti sánaklefann. Þar með var hann orðinn gámur en ekki sánaklefi sem fengi á sig hátt vörugjald, söluskatt og allskonar. Á núvirði erum við að tala um gjöld upp á meira en hálfa milljón kr.
Þegar gámurinn var tollafgreiddur þurfti maðurinn að opna hann og sýna innihaldið. Hann framvísaði kvittunum. Tollverðir rótuðu dálítið í búslóðinni og sannreyndu að allt var eins og það átti að vera. Er þeir gengu á braut bankaði einn utan í gáminn og sagði: "Assgoti eru sænsku trégámarnir orðnir vandaðir."
Eigandinn svaraði: "Já, ég er mjög ánægður með hann. Mér var sagt að búslóð sé miklu betur varin í trégámi en járngámi þegar siglt er um ólgusjó.. Þar að auki get ég smíðað sólpall eða eitthvað úr timbrinu."
------------------------------------------------------------------------
Til gamans má geta að sánaklefi kallast baðstofa á færeysku.
![]() |
Ein flottasta sánan í eigu Íslendings |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt 28.8.2017 kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2017 | 10:39
Áríðandi upplýsingar fyrir sólarlandafara!
Margur sólarlandafarinn er varla fyrr mættur á svæðið en magakveisa herjar á hann. Ástæðan er matareitrun. Löngum hefur ferðalöngum verið kennt að forðast hrátt salat, grænmeti og annað æti sem er skolað upp úr kranavatni. Vatnið er löðrandi í bakteríum sem íslenska magaflóran ræður ekki við.
Ástæða er til að hefja dvölina á því að slafra í sig jógúrt. Hún inniheldur varnir gegn vondum bakteríum.
Nú hefur spænska blaðið El Pais bætt inn í umræðuna fróðleik. Það greinir frá rannsókn á mat og drykk hjá svokölluðum götusölum. Bæði á götum úti og á strönd er krökkt af söluborðum og söluvögnum. Í Barcelóna eru 7000 veitingagötusalar. Rannsóknin leiðir í ljós að þarna er pottur mélbrotinn. Sóðaskapurinn er yfirgengilegur. Matur og drykkur fljóta í E-coli bakteríum. Magnið er svo svakalegt að það er bein ávísun á matareitrun. Meira að segja frambornir áfengir kokteilar eru 7200% yfir skaðlausum mörkum.
Götusalarnir starfa á svörtum markaði. Þeir lúta ekki heilbrigðiseftirliti né öðrum kröfum sem gerðar eru til fastra veitingastaða innanhúss. Þeir halda ekki bókhald og borga lítil sem engin gjöld. Það er önnur saga. Hitt skiptir öllu: Til að lágmarka hættu á matareitrun á ströndinni og göngugötunni: Ekki kaupa neitt matarkyns af götusölunum.
Ferðalög | Breytt 25.8.2017 kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)