Færsluflokkur: Ferðalög

Undarlegir flugfarþegar

  Sumt fólk hagar sér einkennilega í flugvél og á flugvöllum.  Íslendingar eiga frægasta flugdólg heims.  Annar íslenskur flugdólgur var settur í flugbann nokkrum árum áður.  Hann lét svo ófriðlega í flugvél yfir Bandaríkjunum að henni var lent á næsta flugvelli og kauða hent þar út. Hann var tannlæknir í Garðabæ.  Misþyrmdi hrottalega vændiskonu sem vann í hóruhúsi systur hans á Túngötu.

  Ekki þarf alltaf Íslending til.  Í fyrradag trylltist erlendur gestur í flugstöðinni í Sandgerði.  Hann beit lögregluþjón í fótinn.

  Á East Midlands flugstöðinni í Bretlandi undrast starfsfólk hluti sem flugfarþegar gleyma.  Meðal þeirra er stór súrefniskútur á hjólum ásamt súrefnisgrímu.  Einnig má nefna tanngóm,  stórt eldhúshnífasett og stór poki fullur af notuðum nærbuxum.  Svo ekki sé minnst á fartölvu,  síma og dýran hring.

flugdólgur


Bestu og verstu bílstjórarnir

  Breskt tryggingafélag,  1st Central,  hefur tekið saman lista yfir bestu og verstu bílstjórana,  reiknað út eftir starfi þeirra.  Niðurstaðan kemur á óvart,  svo ekki sé meira sagt.  Og þó.  Sem menntaður grafískur hönnuður og skrautskriftarkennari hefði ég að óreyndu getað giskað á að myndlistamenn og hverskonar skreytingafólk væru öruggustu bílstjórarnir.  Sömuleiðis mátti gefa sér að kóksniffandi verðbréfaguttar væru stórhættulegir í umferðinni,  rétt eins og í vinnunni.   

Bestu bílstjórarnir

1.  Myndlistamenn/skreytingafólk

2.  Landbúnaðarfólk

3.  Fólk í byggingariðnaði

4.  Vélvirkjar

5.  Vörubílstjórar

Verstu bílstjórarnir

1.  Verðbréfasalar/fjármálaráðgjafar

2.  Læknar

3.  Lyfsalar

4.  Tannlæknar

5.  Lögfræðingar 


Reykvískur skemmtistaður flytur til Benidorm

 

  Um árabil var Ob-la-di Ob-la-da einn áhugaverðasti skemmtistaður landsins.  Hann var staðsettur á Frakkastíg.  Alltaf troðfullt út úr dyrum.  Iðulega komust færri inn en vildu.  Sérstaða staðarins var að þar spiluðu þekktir tónlistarmenn lög úr smiðju Bítlanna.  Einungis Bítlalög.  Ekkert nema Bítlalög.  Sjaldnast í upprunalegum útsetningum.  Samt stundum í bland.  

  Bassaleikarinn Tómas heitinn Tómasson hélt utan um dagskrána.  Hann var jafnframt fasti punkturinn í hljómsveitunum sem komu fram,  hvort sem þær kölluðust Bítladrengirnir blíðu eða eitthvað annað.  Meðal annarra sem skipuðu húshljómsveitina ýmist fast eða lauslega voru gítarleikararnir Magnús R. Einarsson,  Eðvarð Lárusson,  Gunnar Þórðarson;  trommuleikarinn Ásgeir Óskarsson;  söngvararnir Andrea Gylfadóttir,  Egill Ólafsson og Kormákur.  

  Að degi til um helgar spilaði Andrea Jónsdóttir vel valin Bítlalög af hljómplötum.  Alltaf var rosalega gaman að kíkja á Ob-la-di.  Útlendir Bítlaaðdáendur sóttu staðinn.  Þar á meðal Mike Mills úr bandarísku hljómsveitinni R.E.M.  Hann tróð upp með húshljómsveitinni.  Mig rámar í að Yoko Ono hafi kíkt inn.  Líka gítarleikari Pauls McCartneys.  

  Svo kom reiðarslagið.  Lóðareigendur reiknuðu út að arðvænlegt yrði að farga húsinu og reisa í staðinn stórt hótel.  Ob-la-di var hent út.  Um nokkra hríð stóð til að Ob-la-di myndi flytja upp í Ármúla 5 í húsnæði sem þá hýsti frábæran skemmtistað,  Classic Rock.

  Leikar fóru þannig að kínverskt veitingahús keypti Classic Rock.  Þá var ekki um annað að ræða en kanna möguleika á Spáni.  Í morgun skrifaði eigandi Ob-la-di,  Davíð Steingrímsson, undir húsaleigusamning í Benidorm.  Innan nokkurra vikna opnar Ob-la-di á ný.  Að þessu sinni í Benidorm.  

  Ob-la-di er ekki fyrsti íslenski skemmtistaðurinn sem flytur búferlum til útlanda.  Fyrir nokkrum árum flutti heimsfrægur skemmtistaður,  Sirkus,  frá Klapparstíg til Þórshafnar í Færeyjum.

Davíð Steingríms & co      

    


Ísland í ensku pressunni

 

  Á fyrri hluta níunda áratugarins vissi almenningur í heiminum ekkert um Ísland.  Erlendir ferðamenn voru sjaldgæf sjón á Íslandi.  50-60 þúsund á ári og sáust bara yfir hásumrið.

  Svo slógu Sykurmolarnir og Björk í gegn.

  Á þessu ári verða erlendir ferðamenn á Íslandi hátt í 3 milljónir.  Ísland er í tísku.  Íslenskar poppstjörnur hljóma í útvarpstækjum um allan heim.  Íslenskar kvikmyndir njóta vinsælda á heimsmakaði.  Íslenskar bækur mokseljast í útlöndum.

  Ég skrapp til Manchester á Englandi um jólin.  Fyrsta götublaðið sem ég keypti var Daily Express.  Þar gargaði á mig blaðagrein sem spannaði vel á aðra blaðsíðu.  Fyrirsögnin var:  "Iceland is totally chilled" (Ísland er alsvalt).  Greinin var skreytt ljósmyndum af Goðafossi í klakaböndum, norðurljósum,  Akureyri og Hótel KEA.  

  Greinarhöfundur segir frá heimsókn sinni til Akueyrar og nágrennis - yfir sig hamingjusamur með ævintýralega upplifun.  Greinin er á við milljóna króna auglýsingu.

  Næst varð mér á að glugga í fríblaðið Loud and Quiet.  Það er hliðstæða við íslenska tímaritið Grapevine.  Þar glennti sig grein um Iceland Airwaves. Hrósi hlaðið á íslensk tónlistarnöfn:  Þar á meðal Ólaf Arnalds, Reykjavíkurdætur, Ham, Kríu, Aron Can, Godchilla og Rökkva. 

  Í stórmarkaði heyrði ég lag með Gus Gus.  Í útvarpinu hljómaði um hálftímalöng dagskrá með John Grant.  Ég heyrði ekki upphaf dagskrárinnar en það sem ég heyrði var án kynningar.  

  Á heimleið frá Manchester gluggaði ég í bækling EasyJets í sætisvasa.  Þar var grein undir fyrirsögnini "Icelanders break balls, not bread".  Hún sagði frá Þorra og íslenskum þorramat.  Á öðrum stað í bæklingnum er næstum því heilsíðugrein undir fyrirsögninni "4 places for free yoga in Reykjavik".

go_afoss.jpg


Verðlag

vegan_samloka_aktu_taktu_a_1599_kr.jpg

  Á Aktu-Taktu í Garðabæ var seld samloka á 1599 kr.  Á milli brauðsneiðanna var smávegis kál,  lítil ostsneið og sósa.  Þetta var kallað vegan (án dýraafurða).  Osturinn var að vísu úr kúamjólk.  Í sósunni voru einhverjar dýraafurðir líka.  Sennilega eggjarauða og eitthvað svoleiðis.

  Vissulega var samlokan ekki upp á marga fiska.  Ég set stærra spurningamerki við það að einhver sé reiðubúinn til að borga 1599 kr. fyrir samloku.  Að vísu...já, Garðabæ.

  Til samanburðar:  Í Manchester á Englandi bjóða matvöruverslanir - nánast allar - upp á svokallað "3ja rétta tilboð" (3 meals deal).  Það samanstendur af samlokuhorni, langloku eða vefju að eigin vali (áleggið er ekki skorið við nögl - ólíkt íslenska stílnum) + drykk að eigin vali + snakkpoka að eigin vali (kartöfluflögur, popkorn eða eitthvað álíka).

  Þessi pakki kostar 3 pund sem jafngildir 429 ísl. kr.  Ég valdi mér oftast samlokuhorn með beikoni og eggjum (um það bil tvöfaldur skammtur á við íslenskt samlokuhorn), ásamt hálfum lítra af ávaxtaþykkni (smoothies) og bara eitthvað snakk.

  Á Íslandi kostar samlokuhorn um 600 kall.  Kvartlítri af smoothies kostar um 300 kall.  Þannig að hálfu lítri er á um 600 kall.  Ætli snakkpoki á Íslandi sé ekki á um 300 kall eða meir. 

  Þetta þýðir að íslenskur 3ja rétta pakki er að minnsta kosti þrisvar sinnum dýrari en pakkinn í Manchester. 

  Í Manchester selja veitingahús enskan morgunverð.  Að sjálfsögðu.  Hann samanstendur oftast af tveimur saugagest pylsum (veit ekki hvað þær heita á íslensku), tveimur vænum beikonsneiðum (hvor um sig rösklega tvöföld að stærð í samanburði við íslenskar. Og með aðeina örlítilli fiturönd), grilluðum tómat,  bökuðum baunum, ýmist einu eða tveimur spældum eggjum, tveimur hasskökum (hash browns = djúpsteiktri kartöflustöppu mótaðri í teygðum þríhyrning),  ristuðum brauðsneiðum með smjöri;  ýmist einum stórum pönnusteiktum sveppi eða mörgum litlum.

  Enski morgunverðurinn kostar frá 3,75 pundum (537 ísl. kr.).  Þetta er saðsöm máltíð.  Maður er pakksaddur fram eftir degi.  Nokkrir veitingastaðir á Íslandi selja enskan morgunverð - á 2000 kall. 

  4ra dósa kippa af 5% 440 ml dósum kostar 4 pund (572 ísl kr. = 143 kr.dósin).  Ódýrasta bjórdósin á Íslandi kostar 249 kall (Euroshopper 4,6%).  

 samlokur_e.jpgsmoothie.jpgsnakk.jpgfull-english-breakfast035.jpg

 

 


Íslendingar mættu taka sér Manchester til fyrirmyndar

  Nýkominn heim frá Manchester bloggaði ég á þessum vettvangi um blómlegt tónlistarlíf þar í borg.  Um það má lesa hér fyrir neðan.  Heimamenn gera sér grein fyrir þessu.  Og gera sér mat úr því.  Veggir stigagangs gistiheimilis er hýsti mig eru skreyttir stórum ljósmyndum af heimsþekktum poppstjörnum frá Manchester. 

  Ég álpaðist inn í plötubúð, Fopp.  Ég hef víðar séð plötubúðir undir þessu nafni.  Nema að þarna í miðborg Manchester blasa við á miðju gólfi tveir veglegir plöturekkar.  Þeir eru pakkaðir af plötum með Manchester-tónlist.  Einungis Manchester-tónlist.  Við hlið rekkanna eru jafnframt staflar af bókum um Manchester-poppara, sem og stórar veggmyndir af þeim. 

  Þetta er til fyrirmyndar.  Ég hef löngum gagnrýnt sinnuleysi Íslendinga gagnvart heimsfrægð íslenskra tónlistarmanna.  Ef vel væri að verki staðið væri flugstöðin í Sandgerði undirlögð risastórum veggmyndum af Björk, Sigur Rós, Of Monsters and Men, Kaleo,  Emilíönu Torríni,  Hilmari Erni Hilmarssyni og svo framvegis.  Götur og torg væru jafnframt kennd við þessar sömu poppstjörnur.  Framsóknarflokkurinn hefur viðrað hugmynd um að reisa styttu af Björk fyrir utan Hörpu.  Gott innlegg í umræðuna - þó ég setji spurnarmerki við styttur bæjarins (sem enginn nennir að horfa á).  


Frægir í Manchester

  Fyrr á þessari öld vandi ég mig á að fagna jólum og áramótum í útlöndum.  Einhver verður að gera það.  Þetta hentar mér vel.  Einkum að taka frí frá snjó og frosti.  Líka að komast að því hvernig útlendingar fagna vetrarsólstöðum og nýju ári.  Að þessu sinni varð Manchester á Englandi fyrir valinu.  Notaleg borg.  Hlýtt alla daga á þessum árstíma.  Smá rigning á næstum því hverjum degi.  Samt ekki svo að þurft hafi að spenna upp regnhlíf.

  Ég veit ekkert um boltaleiki.  Öfugt við Manchesterbúa.  Ég komst ekki hjá því að heyra í útvarpinu þeirra eitthvað um velgengi í boltabrölti.  Hitt veit ég að Manchester er stórveldi á heimsmælikvarða í tónlist.  Eiga það sameiginlegt með Íslendingum.  Okkar 340 þúsund manna þjóð státar af ótrúlega mörgum heimsfrægum tónlistarnöfnum.  Hæst bera Björk, Sigur Rós, Of Monsters and Men og Kaleo.  Fleiri Íslendingar hafa náð góðri stöðu á heimsmarkaði - en á afmarkaðri markaði og teljast því ekki beinlínis heimsfrægir.  Sólstafir hafa tröllriðið vinsældalistum í Finnlandi og Þýskalandi.  Skálmöld er þekkt í evrópsku þungarokkssenunni.  Jóhann Jóhannsson er þekktur í kvikmyndatónlist.  Líka Hilmar Örn Hilmarsson og fleiri.  Til viðbótar eru með ágæta stöðu á í tilteknum löndum nöfn eins og Emilíana Torrini,  FM Belfast, Múm, Steed lord...

  Ánægjulegur árangur íslenskra tónlistarmanna á heimsmarkaði hefur vakið undrun heimspressunnar. Hefur sömuleiðis skilað drjúgum skerf í ábatasaman ferðamannaiðnað hérlendis.  Takk fyrir það.  Hátt í 600 þúsund milljónir á síðasta ári.

  Til samanburðar hefur Manchester mun sterkari stöðu í tónlist.  Líka þó að miðað sé við höfðatölu.  Íbúar Manchester eru rösklega 540 þúsund.  59% fleiri en Íslendingar.  Heimsfræg tónlistarnöfn Manchester eru um margir tugir.  Þar af mörg af þeim stærstu.  Í fljótu bragði man ég eftir þessum Manchester-guttum:  

    Oasis, Noel Gallaghers High Flying Birds, The Smiths, Morrissey, Joy Division, New Order, Buzzcocks, The Stone Roses, The Fall, 10cc, Godley & Creme, The Verve, Elbow, Doves, The Hollies, The Charlatans, M People, Simply Red, The 1975, Take That, Everything Everything, Bee Gees, The Outfield, Happy Mondays, Ren Harvieu, Inspiral Carpets, James, The Chemical Brothers, The Courteeners, Hermans Hermits og Davy Jones söngvari Monkees.


Íslenskar vörur ódýrari í útlendum búðum

  Íslensk skip hafa löngum siglt til Færeyja.  Erindið er iðulega fyrst og fremst að kaupa þar olíu og vistir.  Þannig sparast peningur.  Olían er töluvert ódýrari í Færeyjum en á Íslandi.  Meira að segja íslenska landhelgisgæslan siglir út fyrir íslenska landhelgi til að kaupa olíu í Færeyjum.  

  Vöruverð er hæst á Íslandi.  Svo einkennilegt sem það er þá eru vörur framleiddar á Íslandi oft seldar á lægra verði í verslunum erlendis en á Íslandi.  Það á við um íslenskt lambakjöt.  Líka íslenskt lýsi.  Hér fyrir neðan er ljósmynd sem Ásmundur Valur Sveinsson tók í Frakklandi.  Hún sýnir íslenskt skyr, eitt kíló, í þarlendri verslun.  Verðið er 3,39 evrur (417 ísl kr.).

  Hátt vöruverð á Íslandi er stundum réttlætt með því að Ísland sé fámenn eyja.  Þess vegna sé flutningskostnaður hár og markaðurinn örsmár.  Gott og vel.  Færeyjar eru líka eyjar.  Færeyski markaðurinn er aðeins 1/7 af þeim íslenska.  Samt spara Íslendingar með því að gera innkaup í Færeyjum.

  Hvernig má það vera að skyr framleitt á Íslandi sé ódýrara í búð í Frakklandi en á Íslandi - þrátt fyrir háan flutningskostnað?  Er Mjólkursamsalan að okra á Íslendingum í krafti einokunar?  Eða niðurgreiðir ríkissjóður skyr ofan í Frakka?   

isl_skyr_i_frakklandi.jpg


Styttur af Björk

  Hérlendis vantar fleiri styttur af körlum.  Undan því hefur verið kvartað áratugum saman.  Einnig hefur verið brugðist vel við því af og til.  Enda enginn skortur á uppástungum.  Kröfur eru háværar um styttu af Gvendi Jaka (helst tvær til að túlka tungur tvær),  steraboltanum Jóni Páli,  Hemma Gunn og svo framvegis. 

  "Styttur bæjarins sem enginn nennir að horfa á," söng Spilverk þjóðanna á sínum tíma.

  Nú er komið annað hljóð í strokkinn.  Í menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur er komin fram tillaga um styttu af konu.  Einkum er sjónum beint að styttu af Björk.  Hugmyndin er frumleg og djörf.  En ekki alveg út í hött.

  Enginn Íslendingur hefur borið hróður Íslands víðar og betur en Björk.  Án hennar væri ferðamannaiðnaðurinn ekki stærsta tekjulind Íslands.  Spurning hvernig henni sjálfri lýst á uppátækið.  Upplagt er að reisa eina styttu af henni við Hörpu.  Aðra við Leifsstöð.  Í leiðinni má breyta nafni flugstöðvarinnar.  Að kenna hana við Leif the Lucky (Lukku-Láka) er hallærislegt.  Í Liverpool er flugstöðin kennd við John Lennon.  Í Varsjá er flugstöðin kennd við Chopin.  Flustöðin í Sandgerði ætti að vera kennd við Björk.

 


mbl.is Vill reisa styttu af Björk við Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugbílar að detta inn á markað

  Lengst af hafa bílar þróast hægt og breyst lítið í áranna rás.  Það er að segja grunngerðin er alltaf sú sama.  Þessa dagana er hinsvegar sitthvað að gerast.  Sjálfvirkni eykst hröðum skrefum.  Í gær var viðtal í útvarpinu við ökumann vörubíls.  Hann varð fyrir því að bíll svínaði gróflega á honum á Sæbraut.  Skynjarar vörubílsins tóku samstundis við sér: Bíllinn snarhemlaði á punktinum, flautaði og blikkaði ljósum.  Forðuðu þar með árekstri.

  Sífellt heyrast fréttir af sjálfkeyrandi bílum.  Þeir eru að hellast yfir markaðinn.  Nú hefur leigubílafyrirtækið Uber tilkynnt um komu flugbíla.  Fyrirtækið hefur þróað uppskriftina í samvinnu við geimferðastofnunina Nasa.  Það setur flugbílana í umferð 2020.  Pældu í því.  Eftir aðeins 3 ár.  Við lifum á spennandi tímum.

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband