Færsluflokkur: Mannréttindi

Verstu lönd fyrir konur

 

  548 sérfræðingar á snærum Thomson Reuters Foundation hafa tekið saman lista yfir verstu lönd heims fyrir konur að búa á.  Ekki kemur á óvart að Indland sé allra landa verst.  2016 voru 40 þúsund nauðganir kærðar þar.  Þrátt fyrir að lítið komi út úr kærunum.  Kærðar nauðganir eru aðeins lítið brot af ástandinu.  Hátt hlutfall nauðgana eru hópnauðganir.  Hátt hlutfall nauðgana er gegn barnungum stelpum.  Ennfremur er algengt að fórnarlömb séu myrt í kjölfar nauðgunar.  

  Verst er staða svokallaðra stéttlausra stelpna á Indlandi.  Nánast er almennt viðhorf að þær séu réttlausar með öllu.  Þær eiga á hættu að vera lamdar eða nauðgað á ný á lögreglustöð ef þær kæra nauðgun.  Allra síst geta þær búist við að kæra leiði til refsingar.    

  Þetta eru 10 verstu lönd fyrir konur:

1.  Indland

2.  Afganistan

3.  Sýrland

4.  Sómalía

5.  Sádi-Arabía

6.  Pakistan

7.  Kongó - Kinsasa

8.  Jemen

9.  Nígería

10. Bandaríkin

  Eflaust er óverulegur stigsmunur á milli allra efstu löndunum.  Sláandi er að af 193 löndum Sameinuðu þjóðanna sé Sádi-Arabía í flokki með 5 verstu löndum fyrir konur.  Þökk sé Bretum sem beittu sér af hörku fyrir því að skipa Sáda yfir mannréttindaráð samtakanna. 

   


Dularfullt hvarf Færeyinga

  Tveir ungir Færeyingar hurfu á dularfullan hátt í Kaupmannahöfn á þriðjudaginn.  Lögreglan hefur síðan leitað þeirra.  Án árangurs.  

  Færeyingarnir áttu bókað flugfar til Færeyja.  Þeir skiluðu sér hinsvegar ekki í innritun.  Það síðasta sem vitað er um þá er að annar ræddi við vin sinn í síma nokkru fyrir flugtak.  Hann sagði þá vera á leið út á Kastrup flugvöll.  

  Annar drengjanna ætlaði að flytja aftur til Færeyja.  Hinn ætlaði aðeins að kíkja í heimsókn.

  Frá því að hvarf þeirra uppgötvaðist hefur verið slökkt á símum þeirra.  Jafnframt hafa þeir ekki farið inn á netið.

  Uppfært kl. 15.50:  Mennirnir eru fundnir.  Þeir eru í Malmö í Svíþjóð.  Málið er þó ennþá dularfullt.  Af hverju mættu þeir ekki í innritun á Kastrup?  Af hverju stungu þeir af til Malmö?  Af hverju hefur verið slökkt á símum þeirra?  Af hverju létu þeir ekki áhyggjufulla ættingja ekki vita af sér dögum saman?

Færeyingarnir


Hryðjuverkasamtök í herferð gegn rokkhljómsveit

  Bandarísku hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd eru Íslendingum að vondu kunn.  Kvikindin sökktu tveimur íslenskum bátum á síðustu öld.  Á undanförnum árum höfum við fylgst með klaufalegri baráttu þeirra gegn marsvínaveiðum Færeyinga 2015 og 2016.  500 SS-liðar stóðu sumarlangt sólarhringsvakt í færeyskum fjörðum.  

  Þegar Færeyingar ráku marsvínavöður upp í fjöru reyndu SS-liðar af spaugilegri vankunnáttu - og ranghugmyndum um hegðun hvala - að fæla vöðuna til baka.  Það skipti reyndar litlu máli því að færeyska lögreglan kippti þeim jafnóðum úr umferð.  Snéri þá niður, handjárnaði og flaug með þá á brott í þyrlu.  Gerðu jafnframt báta þeirra og verkfæri upptæk;  myndbandsupptökuvélar,  tölvur, ljósmyndavélar o.þ.h.  Sektuðu að auki einstaklingana um tugi þúsunda kr. svo undan sveið.  

  Brölt SS í Færeyjum misheppnaðist algjörlega.  Varð þeim til háðungar, athlægis og að fjárhagslegu stórtjóni.  Færeyingar uppskáru hinsvegar verulega góða landkynningu.  Hún skilaði sér í túristasprengju sem færeysk ferðaþjónusta var ekki búin undir.  Gistirými hafa ekki annað eftirspurn síðan.  

  Eftir hrakfarirnar hafa hnípnir SS-liðar setið á bak við stein, sleikt sárin og safnað kjarki til að leita hefnda.  Stundin er runnin upp.

  Forsagan er sú að fyrir nokkrum árum náði færeyska hljómsveitin Týr 1. sæti norður-ameríska CMJ vinsældalistans.  Hann mælir plötuspilun í öllum útvarpsstöðvum framhaldsskóla í Bandaríkjunum og Kanada.  Hérlendis er CMJ jafnan kallaður "bandaríski háskólaútvarpslistinn".  Það vakti gríðarmikla athygli langt út fyrir útvarpsstöðvarnar að færeysk þungarokkshljómsveit væri sú mest spilaða í þeim.  

  Færeyska hljómsveitin nýtur enn vinsælda í Norður-Ameríku.  Í maí heldur hún 22 hljómleika í Bandaríkjunum og Kanada.  Allt frá New York til Toronto.

  SS hafa hrint úr vör herferð í netheimum gegn hljómleikaferðinni.  Forystusauðurinn,  Paul Watson,  skilgreinir hljómsveitina Tý sem hneisu í rokkdeildinni.  Hún lofsyngi morð á hvölum.  Forsprakkinn Heri Joensen, söngvari, gítarleikari og söngvahöfundur, hafi að auki sjálfur myrt yfir 100 hvali.  

  SS hafa virkjað öll sín bestu sambönd og samfélagsmiðla gegn hljómleikaferð Týs.  "Stöðvum Tý!  Stöðvum hvaladráp!" hrópar Paul Watson og krefst sniðgöngu.  Forvitnilegt verður að fylgjast með framvindunni.  Skipta hvalveiðar norður-ameríska þungarokksunnendur miklu máli?  Kannski spurning um það hvað umræðan verður hávær og nær inn á stærstu fjölmiðla vestan hafs.  

  


Óhlýðinn Færeyingur

 

  Færeyingar eru löghlýðnasta þjóð í heiminum. Engu að síður eru til undantekningar.  Rétt eins og í öllu og allsstaðar.  Svo bar til í síðustu viku að 22ja ára Færeyingur var handtekinn í Nuuk,  höfuðborg Grænlands, og færður á lögreglustöðina.  Hann er grunaður um íkveikju.  Ekki gott.  Lögreglan sagði honum að hann yrði í varðhaldi á meðan málið væri rannsakað.  Þess vegna mætti hann ekki yfirgefa fangelsið.   Nokkru síðar var kallað á hann í kaffi.  Engin viðbrögð.  Við athugun kom í ljós að hann hafði óhlýðnast fyrirmælum.  Hafði yfirgefið lögreglustöðina.  

  Í fyrradag var hann handtekinn á ný og færður aftur í varðhald.  Til að fyrirbyggja að tungumálaörðugleikar eða óskýr fyrirmæli spili inn í var hann núna spurður að því hvort að honum sé ljóst að hann megi ekki yfirgefa stöðina.  Hann játaði því og er þarna enn í dag.

     


Íslandsvinur hannar neyðarhjálpardróna

  Á fyrri hluta aldarinnar var breski olympíuskylmingameistarinn og rokksöngvarinn Bruce Dickinson með annan fótinn á Íslandi.  Hann var flugmaður hjá Iceland Express og söng - og syngur enn - með þungarokkshljómsveitinni Iron Maiden.

  Heimsathygli vakti um árið þegar Iron Maiden var aðalnúmer á Hróarskeldurokkhátíðinni í Danmörku.  Aðdáendur Iron Maiden frá Ameríku og víðar tóku framhaldsflug frá Keflavík.  Andlitið datt af þeim við flugtak þegar flugmaðurinn kynnti sig í hátalarakerfi:  Bruce Dickinson.   

  Brúsi er um margt ólíkur rokkstjörnuímyndinni.  Hann hefur aldrei notað vímuefni.  Þess í stað lærði hann sagnfræði; hefur skrifað sagnfræðibækur.  Söngtextar hans bera merki áhuga hans á sögunni.  A sviði er hann engu að síður rokkstjarnan sem gefur allt í botn.  Hann segist vera rosalega ofvirkur.  Sú er ástæðan fyrir því að hann sniðgengur vímuefni - vitandi að annað hvort er í ökkla eða eyra.  Aldrei neitt þar á milli.

  Að undanförnu hefur Brúsi unnið að hönnun neyðarhjálpardróna;  flygildis sem getur borið hjálpargögn til fólks á hamfarasvæðum þar sem öðrum leiðum verður illa við komið.  Uppskrift hans gengur út á að koma hjálpargögnum til 50 manns á einu bretti.  Þar á meðal vatni, mat og sjúkravörum.  

  Útgangspunkturinn og sérstaða í hönnun Brúsa er að flygildið sé kolefnafrítt.  Jafnframt svo ódýrt í innkaupum og ódýrt í rekstri að hjálparsveitum muni ekki um að bæta því í búnað sinn.  

  Brúsi er 60 ára og hefur selt yfir 100 milljónir platna. 

   


Nýræð í 14 mánaða fengelsi

  Í Þýskalandi er bannað að afneita helför gyðinga á fyrri hluta síðustu aldar.  Því er haldið fram að sex milljónir gyðinga hafi verið myrtir af nasistum.  Sumir telja töluna vera ónákvæma.  Hvað sem til er í því þá liggur í Þýskalandi allt að fimm ára fangelsisrefsing við því að þvertaka fyrir morðin.  Slíkt er skilgreint sem hvatning til kynþáttahaturs. 

  Öldruð þýsk nasistafrú,  Ursula Haverbeck,  lætur það ekki á sig fá.  Í fyrra var hún dæmd til 8 mánaða fangelsunar er hún reyndi að sannfæra borgarstjórann í Detmold um að það væri haugalygi að í Auschawitz hafi verið starfrækt útrýmingarstöð.  Sú gamla forhertist.  Hún reyndi að sannfæra dómara, saksóknara og alla sem heyra vildu að allt tal um útrýmingarbúðir væri viðurstyggileg lygi og áróður.  Var henni þá gerð aukarefsing.  Nú er hún 89 ára á leið á bak við lás og slá í 14 mánuði.  Hún lýkur afplánun 2019 og heldur þá upp á 91 árs afmælið.

thysk_nasistakona.jpg 

 


Illmenni

  Varasamt er að lesa spádóma út úr dægurlagatextum.  Einkum og sér í lagi spádóma um framtíðina.  Bandaríski fjöldamorðinginn Charles Manson féll í þessa gryfju.  Hann las skilaboð út úr textum Bítlanna.  Reyndar er pínulítið ónákvæmt að kalla Manson fjöldamorðingja.  Hann drap enga.  Hinsvegar hvatti hann áhangendur sína til að myrða tiltekna einstaklinga.

  Út úr Bítlalögunum "Blackbird" og "Helter Skelter" las kallinn spádóm um að blökkumenn væru að taka yfir í Bandaríkjunum.  Ofsahræðsla greip hann.  Viðbrögðin urðu þau að grípa til forvarna.  Hrinda af stað uppreisn gegn blökkumönnum.  Til þess þyrfti að drepa hvítt fólk og varpa sökinni á blökkumenn. 

  Áhangendur Mansons meðtóku boðskap hans gagnrýnislaust.  Þeir hófust þegar handa.  Drápu fólk og skrifuðu - með blóði fórnarlambanna - rasísk skilaboð á veggi.  Skilaboð sem hljómuðu eins og skrifuð af blökkumönnum.  Áður en yfir lauk lágu 9 manns í valnum. 

  Samhliða þessu tók Manson-klíkan að safna vopnum og fela út í eyðimörk.  Stríðið var að skella á.

  Spádómarnir sem Manson fór eftir rættust ekki.  Það eina sem gerðist var að klíkunni var stungið í fangelsi.

  Hið rétta er að Paul var með meiningar í "Blackbird";  hvatningarorð til bandarísku mannréttindahreyfingarinnar sem stóið sem hæst þarna á sjöunda áratugnum.

  Charles Manson var tónlistarmaður.  Ekkert merkilegur.  Þó voru the Beach Boys búnir að taka upp á sína arma lag eftir hann og gefa út á plötu - áður en upp um illan hug hans komst. 

 


mbl.is Charles Manson er látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagsmiðlarnir loga til góðs

  Samfélagsmiðlarnir virka í baráttu gegn kynferðisofbeldi.  Hvort heldur sem er Fésbók, Twitter, blogg eða annað.  Undir millumerkinu #höfumhátt hefur hulu verið svipt af alræmdum barnaníðingum og klappstýrum þeirra.  Þöggunartilburðir hafa verið brotnir á bak aftur.  Skömminni verið skilað til glæpamannanna.  Lögum um uppreist æru verður breytt.

  Herferð undir millumerkinu #metoo / #églíka hefur farið eins og eldur í sinu út um allan heim.  Kveikjan að henni hófst með ásökum á hendur Harvey Winstein,  þekkts kvikmyndaframleiðanda.  Hann var sakaður um kynferðisofbeldi,  meðal annars nauðganir.  Á örfáum vikum hafa yfir 40 konur stigið fram og sagt frá áreitni hans.  Feril hans er lokið.  Hann er útskúfaður sem það ógeð sem hann er.

  Í kjölfar hafa þúsundir kvenna - þekktra sem óþekktra - vitnað um áreitni sem þær hafa orðið fyrir.  Þær burðast ekki lengur einar með "leyndarmálið".  Það á að segja frá.  Skömmin er ofbeldismannsins.

  Verstu innlegg í umræðuna er þegar karlar segja:  "Menn eru hættir að þora að daðra við kvenfólk af ótta við að vera sakaðir um áreitni."   Menn þurfa að vera virkilega heimskir og illa áttaðir til að skynja ekki mun á daðri og kynferðislegri áreitni.

  Annað innlegg í umræðuna er skrýtið.  Það er að ýmsir karlar finna hvöt hjá sér til að tilkynna að þeir hafi aldrei orðið fyrir kynferðislegri áreitni.  Það liggur í loftinu að þá langi til að skrifa það á ennið á sér.  


mbl.is Weinstein varð brjálaður við höfnunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhugnanlegt dýraníð

  Umræða hefur kviknað um hryllilegt dýraníð á Íslandi.  Upphaf þess má rekja til Fésbókarfærslu Tinnu Bjargar Hilmarsdóttur.  Hún lýsir hræðilegri meðferð á fé.  Hún fór í réttir.  Varð hálf lömuð og full af sorg og reiði yfir því sem fyrir augu bar.  

  Tinna Björg er félagi í Aktivegan - samtökum um réttindi dýra til lífs og frelsis.  Full ástæða er til að lofa og fagna öllum sem láta sig velferð dýra varða.  Dýraníðingar þurfa sjaldnast að axla ábyrgð á gjörðum sínum.

  Tinna Björg segir féð hafa verið skelfingu lostið og verulega stressað.  Hún fullyrðir að kindur og lömb deyi iðulega vegna streitunnar sem smölun fylgir.  Sum slasist.  Fjölskyldur tvístrist.  Lamb tróðst undir.  Kindum var fleygt eins og tuskudúkkum.  Nokkrar kindur höltruðu.  Aðrar voru með blæðandi sár.  Ein með skaddað auga.  Sláturtrukkar biðu eftir þeim.  Þær sáu ekki fram á neitt annað en dauða eða þurfa að hírast í skítugu fjárhúsi í allan vetur.  

  Ég dreg ekki í efa neitt af þessu.  Ég hef ekki farið í göngur og réttir síðan á fyrri hluta áttunda áratugarins.  Þá var þetta allt öðru vísi.  Kindurnar fögnuðu okkur smölunum.  Þær hlakkaði til að komast í réttina.  Lögðu þegar í stað í átt að henni.  Þær komu óþreyttar á áfangastað.  Þær röltu léttar í spori niður fjallið á gönguhraða smalanna.  Það vorum við sem þurftum að klífa brattar fjallshlíðar.

  Í réttunum urðu fagnaðarfundir.  Kindurnar hittu æskufélaga sína og jörmuðu ákaft af fögnuði.  Lömbin hittu fjölda nýrra lamba.  Það var algjört ævintýri að kynnast nýju lömbunum.  Allir skemmtu sér hið besta.  Líka smalarnir sem sumir voru fullir og vildu slást.  Kindurnar hlógu að þeim.

  Að hausti eru kindurnar að mestu hættar að skipta sér af lömbum.  Lömbin hinsvegar sækja í návist móður.  Fyrst og fremst af vana.  Þau eru fyrir löngu síðan hætt á spena og þurfa ekkert á mömmu að halda.  Þetta skiptir þau engu máli.

 Ég hef aldrei séð blóðgað fé í réttum.  Hinsvegar hefur í réttum uppgötvast að horn er að vaxa inn í höfuð á kind eða lambi.  Líka að kind er í vandræðum vegna ullarreyfis.  Ein var með brunna snoppu eftir að hafa asnast upp á jökul og ekki fattað að hann endurvarpaði sólarljósi.  Henni þurfti að sinna og græða brunasár með Aloe Vera geli.  Aldrei dó fé vegna streitu.  Enda féð sultuslakt - þrátt fyrir hvað því þótti rosalega gaman.

  Ég vissi ekki dæmi þess að ekið væri með lömb beint úr rétt í sláturhús.  Venja var að fita lömbin í nokkra daga á káli og öðru góðgæti síðustu daga fyrir slátrun.  Það var þeim góð skemmtun að ferðast á vörubílspalli.  Flestum skepnum þykir það gaman; að vera kyrr á sama stað en samt á ferð.  Þau upplifa heillandi töfra.

  Sjaldan eða aldrei voru lömb leidd beint af vörubílspalli til slátrarans.  Algengara var að þau fengju að slaka á.  Jafnvel yfir nótt.  Þau voru ekkert óróleg eða kvíðin.  Frekar að þau væru spennt að vita hvaða næsta ævintýri biði þeirra.

  Er kólna tók í veðri urðu ærnar afskaplega þakklátar fyrir að komast í húsaskjól.  Þar var dekstrað við þær.  Heyi hlaðið á garða.  Stundum gómsætu mjöli blandað saman við.  Einkum síðvetrar.  Þá fengu þær líka síld.  Þvílíkt sælgæti.  Þvílík hamingja.

     


Hvað nú? Kosningar?

  Það er saga til næsta bæjar að barnaníðingar og stuðningsmenn þeirra felli ríkisstjórn.  Eðlilega gekk framvinda mála fram af Bjartri framtíð.  Eins og flestum öðrum en Sjálfstæðisflokknum.  Reyndar hefur margoft gerst í útlöndum að komist hefur upp að æðstu stjórnmálamenn og þeirra nánustu slái skjaldborg um barnaníðinga.

  Líklegt er að þetta kalli á nýjar kosningar.  Hvað þá?  Næsta víst er að Flokkur fólksins fljúgi inn á þing.  Jafnvel við þriðja mann.  Spurning hvort að nýir flokkar bætist í hópinn.  Einn heitir Frelsisflokkurinn eða eitthvað svoleiðis.  Dettur Viðreisn út af þingi?  Mun Framfarafylking Sigmundar Davíðs bjóða fram?  Segir Bjarni Ben af sér formennsku í Sjálfstæðisflokknum?    

hjalti og félagar


mbl.is „Ekki lengra gengið að sinni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.