Færsluflokkur: Fjármál

Smásaga um viðskipti

  Þegar skólasystkinin byrjuðu í unglingavinnunni hannaði Nonni barmnælur með myndum af lunda og kind.  Nælurnar lét hann fjöldaframleiða í Kína.  Sumarið fór í að koma vörunni í túristasjoppur.  Einnig í sjoppur í fámennari þorpum þar sem fátt var um minjagripi.

  Er haustaði var salan orðin hálf sjálfvirk.  Pantanir bárust í tölvupósti og voru sendar með Póstinum.  Ágæt innkoma,  lítil vinna en einmanaleg.  Tíminn leið hægt.  Nonni saknaði þess að hitta fólk og spjalla. 

  Svo rakst hann á auglýsingu.  Heildverslun með ritföng óskaði eftir lagermanni í hálft starf.  Hann hringdi og var boðaður í viðtal.  Reksturinn var í höndum ungs manns og 17 ára systur hans. 

  Nonni sagði vinnuna henta sér vel til hliðar við nælurnar.  Maðurinn sýndi þeim áhuga.  Spurði mikils og hrósaði framtakinu.  Hann fékk hugmynd:  Hvernig væri að sameina þessi tvö fyrirtæki í eina öfluga ritfanga- og næluheildsölu?  Hann kallaði á systurina og bar þetta undir hana.  Hún fagnaði.  Nonni líka.  Ekki sakaði að hann var þegar skotinn í henni.  Hún var fögur og hláturmild. 

  "Drífum í þessu,"  skipaði bróðirinn.  "Þið tvö skottist eftir nælulagernum á meðan ég geri uppkast að samningi."  Þau ruku af stað.  Stelpan ók á rúmgóðum sendibíl.  Eins gott því Nonni var nýkominn með stóra sendingu.  Nú var gaman.  Fegurðardísin daðraði við hann.  Þau ferjuðu lagerinn inn í vöruhús heildsölunnar.  Bróðirinn kom með skjal til undirritunar.  Mikill og torskilinn texti á flóknu lagamáli.

  "Ég get ekki kvittað undir þetta,"  kvartaði Nonni.  "Ég skil ekki helminginn af þessu.  Þetta hljómar eins og ég sé að afsala mér nælunum til ykkar."

  "Já, það er rétt,"  viðurkenndi maðurinn.  "Við þurfum að umorða textann.  Þetta er  bráðabirgðauppkast. Á morgun semjum við í sameiningu nýtt skjal og fáum lögfræðing að þínu vali til að yfirfara það.  En við skulum öll krota undir uppkastið svo þetta sé komið í ferli."

  "Ég á erfitt með að skrifa undir þetta,"  mótmælti Nonni. 

  "Kanntu ekki að skrifa nafnið þitt?"  flissaði stelpan og ýtti skjalinu að honum.  Fallegt bros hennar sló hann út af laginu.  Eins og ósjálfrátt undirritaði hann en sá um leið eftir því.  Stelpan dró blaðið snöggt til sín og hallaði hlæjandi höfði á öxl hans:  "Ég var að stríða þér!"  

  "Sofum á þessu í nótt og innsiglum samrunann með handabandi," stakk bróðirinn upp á og rétti fram hönd. 

  "Eða með knúsi," bætti stelpan við um leið og hún faðmaði Nonna þéttingsfast.   

  Morguninn eftir mættu Nonni og daman á slaginu klukkan 9.  Hún heilsaði honum með knúsi og sagði "Gaman að sjá þig!  Bróðir minn er lasinn.  Hann var með ælupest í nótt.  Við getum dólað okkur á meðan við að uppfæra viðskiptamannalistann.  Slá inn símanúmer, netföng og það allt.  Eða hvort við byrjum á að senda þinum viðskiptavinum póst um að héðan í frá sendi þeir pantanir á netfang ritfangasölunnar.  Já,  gerum það fyrst."

  Dagurinn leið hratt.  Stelpan var stríðin.  Það var mikið hlegið.  Nonni sveif um á bleiku skýi.

  Bróðirinn var frá vinnu í 2 daga.  Svo kom helgi.  Á mánudeginum mætti hann strangur á svip.  "Ég hef legið undir feldi," sagði hann.  "Þú gagnast ekki nógu vel í vinnu hér.  Þú ert ekki með aldur til að fá bílpróf.  Plan okkar gengur ekki upp."

  Þetta var reiðarslag.  Nonni reyndi að bera sig vel.  Lán í óláni var að kynnast stelpunni.  Þau gætu áfram verið í sambandi ef hann tæki tíðindunum án leiðinda.  "Hún skutlar þá lagernum til mín á eftir," lagði hann til.

  "Nei,  höldum honum hérna!"  mótmælti bróðirinn höstuglega.  "Þú afsalaðir þér honum til mín.  Ég þinglýsti skjalinu.  Þetta eru einföld viðskipti.  Ekki illa meint.  Sumir eru lúserar.  Aðrir sigurvegarar.  Þeir hæfustu lifa!"                   

 

lundikind


Metnaðarfullar verðhækkanir

  Um þessar mundir geisar kapphlaup í verðhækkunum.  Daglega verðum við vör við ný og hærri verð.  Ríkið fer á undan með góðu fordæmi og hærri álögum.  Landinn fjölmennir til Tenerife   Allt leggst á eitt og verðbólgan er komin í 2ja stafa tölu.  Hún étur upp kjarabætur jafnóðum og þær taka gildi. Laun hálaunaðra hækka á hraða ljóssins.  Arðgreiðslur sömuleiðis.  Einkum hjá fyrirtækjum sem nutu rausnarlegra styrkja úr ríkissjóði í kjölfar Covid.

  Túristar og íslenskur almúgi standa í röðum fyrir framan Bæjarins bestu.  Þar borga þeir 650 kall fyrir pulluna.  Það er metnaðarfyllra en borga 495 kall fyrir hana í bensínsjoppum.

pylsa


Gullgrafarar

 

  Fólk sem á rosalega marga peninga á við vandamál að etja.  Fátækt fólk er laust við það vandamál.  Þetta snýst um hvort makinn sé ástfanginn af viðkomandi eða peningahrúgunni.  Líkurnar á að síðarnefnda dæmið eigi við eykst með hverju árinu sem munar á aldri parsins.

  Þegar bítillinn Paul McCartney tók saman við Heather Mills var hann 26 árum eldri.  Hún var á aldur við börn hans.  Þau mótmæltu.  Töldu hana vera gullgrafara.  Hún myndi láta hann barna sig og skilja við hann.  Þar með væri hún komin með áskrift að ríflegu meðlagi og vænni sneið af fjármunum hans.  Þetta gekk eftir.  Hún fékk 50 milljón dollara í vasann (x 144 kr.). 

  John Lennon og Yoko Ono er flóknara dæmi.  Hún var ekki á eftir peningum er hún tók upp á því að sitja um hann.  Hún var allt að því eltihrellir (stalker).  Hún kemur út auðmannafjölskyldu.  Hún var og er framúrstefnu myndlistamaður.  Góð í því.  En var ekki fræg utan þess fámenna hóps sem aðhylltist avant-garde.  John Lennon var farseðill hennar til heimsfrægðar. 

  Yoko er ekki öll þar sem hún er séð.  Þegar henni tókst að ná John frá þáverandi eiginkonu hans og barnsmóður hélt hún því fram að hún þekkti lítið sem ekkert til Bítlanna.  Hún væri bara í klassískri músík.  Eina manneskjan í New York sem vissi ekkert um Bítlana.  Hún var ekki fyrr tekin saman við John en hún fór að dæla frá sér þokkalegum popplögum. 

  Dæmi um undirferli Yokoar:  Hálfblindur John keyrði út í móa.  Yoko slasaðist.  Hún var rúmföst og gat sig lítið hreyft.  Bítlarnir voru að hljóðrita Abbey Road plötuna.  John plantaði rúmi handa Yoko í hljóðverið.  Þannig gat hann annast hana.  Svo gerðist það að John, Paul og Ringo brugðu sér frá.  George Harrison var að dunda á annarri hæð hljóðversins.  Þar voru skjáir sem sýndu úr öryggismyndavélum í byggingunni.  Yoko fattaði það ekki.  George sá hana tipla léttfætta þvert yfir hljóðversgólfið og stela frá honum súkkulaðikexi. 

  Anna Nicoli Smith var bandarísk nektarfyrirsæta.  Mjög fögur.  26 ára giftist hún 89 ára gömlum auðmanni.  Hann dó.  Hún fór í mál við son hans.  Krafðist helming arfs.  Þá dó hún.  Einnig sonur hennar sem var eiturlyfjafíkill.                

  Rachel Hunt var 21 árs sýningardama er hún giftist hálf fimmtugum breskum söngvara,  Rod Stewart.  Hann hélt að hann hefði tryggt sig gegn gullgrafara.  Það reyndist ekki virka.  Rachel náði af honum 35 milljónum dollara. 

  Svo getur alveg verið að venjulegt blásnautt fólk verði í alvöru ástfangið af vellauðugri manneskju.  Peningar skipti þar engu máli.   

 

anna-nicole-smith-and-husband-j-howard-marshallRod Stewart   


Unga fólkið gerir mig hissa

  Eftir því sem ég eldist hærra upp ellilífeyrisaldurinn gengur mér verr að skilja hugsunarhátt ungs fólks.  Það er skrítið fólk.  Áðan verslaði ég smávegis í matvöruverslun.  Ung stelpa á kassanum stóð sig vel í að stimpla inn verðið á vörunum.  Að því búnu gaf hún mér fúslega upp heildarverð innkaupanna.  Ég greiddi með seðli sem nánast passaði við það.  Aðeins 2 krónur umfram.  Þá spurði stúlkan:  "Viltu afganginn?"  Ég varð eitt spurningarmerki:  "Af hverju ætti ég ekki að vilja afganginn?"  Hún svaraði:  "Þetta eru bara 2 krónur." 

 

 

   


Aðdáunarverður metnaður

  Á árum áður voru Prince Polo og kók þjóðarréttur Íslendinga - þá sjaldan er þeir gerðu sér dagamun.  Í dag er þjóðarrétturinn pylsa og Kristall með sítrónubragði. 

  Þangað til nýverið samanstóð pylsan af uppsópi af gólfi kjötiðnaðarmannsins.  Það eru breyttir tímar.  Nú til dags er eru meiri er meiri sérviska við framleiðsluna.

  Vinsælustu sölustaðir pylsunnar eru afgreiðslulúgur Bæjarins bestu.  Varast ber að rugla þeim saman við samnefnt héraðsfréttablað á norðanverðum Vestfjörðum.  Pylsan í Bæjarins bestu kostaði 430 kall uns verðið hækkaði í 480 á dögunum.  Nokkru síðar skreið það í 500 kall.  Núna er erlendir ferðamenn komu til landsins og hófu að hamstra pylsu var verðið snarlega hækkað í 550 kall.

  Þetta er alvöru bisness.  Fyrst að ferðamaðurinn er reiðubúinn að borga 550 kall með bros á vör þá um að gera að sæta lagi.  Hann hefur ekki hugmynd um að í bensínsjoppum á borð við Kvikk kostar pylsan 349 kall.  Verðmunurinn er 201 króna. 

pylsa 


Ferðagjafarvandræði

  Ég vaknaði upp með andfælum þegar í útvarpinu glumdi auglýsing um ferðagjöfina.  Þar var upplýst að hún væri alveg við það að renna út.  Ég hafði ekki leist mína út.  Nú voru góð ráð dýr.  Ég var ekki á leið í ferðalag eitt né neitt.  Ég var bara á leið í Kringluna.  Ég brá mér í Hamborgarafabrekkuna sem þar er staðsett.

  Ég tilkynnti afgreiðsludömu að ég hefði hug á að virkja ferðagjöfina.  Ég dró upp takkasímann minn.  Hann hefur þjónað mér dyggilega frá síðustu öld.  Hún spurði hvort ég væri ekki með snjallsíma.  Nei,  bara þennan.  Ég veit ekki einu sinni hvað snjallsími er.  Daman fórnaði höndum og skipaði mér að hinkra.  Ég hlýddi möglunarlaust.  Hún brá sér frá og sótti aðra afgreiðsludömu.  Sú reyndi að virkja gjöfina.  Án árangurs.  Ég bað hana að reyna aftur.  Hún fórnaði höndum og sagði að þetta virkaði ekki.  

  Næst átti ég erindi í Hamraborg í Kópavogi.  Þar er Subway.  Ég þangað.  Afgreiðslumanneskjan komst ekki lengra en sú í Kringlunni.  Hún reyndi samt aftur og aftur.  Ungur karlmaður blandaði sér í málið.  Hann var allur af vilja gerður að hjálpa.  Eftir nokkrar atrennur áttaði hann sig á því hvernig hlutirnir virkuðu.  Hann er greinilega tölvusnjall.  Hann var allt í einu kominn með strikamerki í símann sinn.  Hann gaf dömunni fyrirmæli um að taka mynd af því og þá væri dæmið í höfn.  Það gekk eftir.

  Til að klára inneignina gerði ég mér ferð í Pítuna í Skipholti.  Afgreiðsludaman sagðist þurfa að gúggla hvernig hún gæti afgreitt dæmið.  Eftir smástund sagði hún:  "Þetta virkar ekki í tölvunni.  En ég get græjað þetta í snjallsímanum mínum."  Það gekk eins og í sögu.

   Á meðan ég beið eftir matnum varð ég vitni að eftirfarandi:  Ung kona fékk máltíð sína.  Skömmu síðar stormaði hún með diskinn sinn að afgreiðsluborðinu.  Spurði hvort að hún hefði pantað þennan rétt.  Afgreiðsludaman játti því og benti á að það stæði á kvittun hennar.  Konan sagði:  "Ég ætlaði ekki að panta þetta.  Ég ætlaði að panta..."  Ég náði ekki hvað hún nefndi.  

  Afgreiðsludaman tók erindinu vel.  Sagði eitthvað á þessa leið:  Ekkert mál.  Ég afskrifa pöntun þína og læt þig fá máltíðina sem þú ætlaðir að panta.

  Þetta er þjónustulund til fyrirmyndar.       

 

kótilettur 


Skammaður í búð

  Ég átti erindi í verslun.  Keypti fyrir 2000 kall.  Borgaði með hundraðköllum.  Pirraður afgreiðslumaður:  "Af hverju ferðu ekki í banka og færð seðla?"  Ég:   "Bankarnir eru lokaðir út af Covid-19"  Hann:  "Þá bíður þú með klinkið þangað til þeir opna."  Ég:  "Hvað er málið?"  Hann:  "Bara djöfulsins ruddaskapur að henda í mann hrúgu af 100 köllum."

 


Samherjasvindlið

Eftir að ég tók virkan þátt í starfsemi Frjálslynda flokksins skipti ég um hest í miðri á;  kúplaði mig út úr pólitískri umræðu.  Hinsvegar brá svo við í gær að vinur minn bað mig um að snara fyrir sig yfir á íslensku yfirlýsingu frá Anfin Olsen,  nánum samstarfsmanni Samherja í Færeyjum.  Þetta á erindi í umræðuna:  Reyndar treysti ég ekki minni lélegu færeysku til að þýða allt rétt. Þú skalt ekki heldur treysta henni.  Ég á líka eftir að umorða þetta almennilega. Ég hef fengið flogakast af minna tilefni.

Hefst þá málsvörn Anfinns:

Ég hef ítrekað sagt frá eignarviðskiptum í félaginu Framherja en útlitið verður stöðugt svartara um þessi viðskipti. Ég og konan eigum 67% hlut í Sp/f Framherja sem er móðurfélag félagsins. Hin 33% eiga Sp/f Framinvest. Í þessu félagi á Samherji 73% og ég og konan 27%. Samanlagður eignarhlutur Samherja í félaginu Framherja er 24%. Ég er forstjórinn og hef fullan ákvörðunarrétt ásamt nefndum í móðurfélaginu og dótturfélögunum sem eru P/F Akraberg, P/F Eysturoy og P/F Regn.

Í sjónvarpsþættinum var vísað til skjala um 16 peningaflutninga til og frá Framherja og Framinvest frá 2010. Allir flutningarnir voru vegna kaupa og sölu á skipum. 2011 var færeyski makrílkvótinn hækkaður úr 85000 tonnum í 150000 tonn. Aðeins eitt uppsjávarfyrirtæki var þá í Færeyjum sem gat tekið á móti makríl til matvinnslu. Vegna makrílstríðsins gátum við ekki landað erlendis. Okkur var nauðugur einn kostur að útvega frystiskip sem gat veitt og verkað eins og móðurskip, svo mest verðmæti fengjust úr þessum stóra makrílkvóta.

Høgaberg

2011 og 2012 Í samstarfi við Samherja gátum við útvegað eitt slíkt skip með hraði. 2011 keyptum við trollarann Geysir frá Katla Seafood sem hafði bækistöðvar í Las Palmas í Kanaríeyjum. Það er dótturfyrirtæki Samherja. Við settum skilyrði fyrir því að Katla Seafood myndi kaupa skipið aftur á sömu upphæð að vertíð lokinni. Þetta var endurtekið 2012. Þá var það systurskipið Alina. Skipin voru formlega kaypt, því þau þurfti að skrásetja í Færeyjum til að geta farið á veiðar. Hluti af áhöfninni var útlendingar. Samið var um að laun þeirra væru gerð upp samkvæmt montøravtaluni (ég held að þetta orð standi fyrir að umreikna) í dönskum krónum. Þrír fjárflutningar voru gerðir samtals upp á 4,9 milljónir króna. Katla Seafót fór frammá að annar kostnaður við skipin báðar vertíðirnar yrði greiddur í dollurum og evrum, til að losna við kostnað vegna gjaldeyrisskipta. Flutningarnir voru gerðir upp í gegnum Framinvest vegna þess að það félag hafði gjaldeyrisreikning til að gjalda Katla Seafood. Framherji gerði svo upp við Framinvest sömu upphæð í dönskum krónum. Gerðir voru upp fjórir fjárflutningar upp á til samans 6,1 milljón dollara og 38,047 evrur.

Fríðborg

2010 samdi Samherji við útgerðarfyrirtækið sem átti rækjuskipið Friðborg um kaup á skipinu. Samherji fór með kaupin í gegnum Framinvest sem er dótturfélag í Færeyjum. Kaupandinn var Katla Seafood á Akureyri, dótturfyrirtæki Samherja. Kaupverðið var millifært í gegnum Framinvest. Þegar allt var upp gert reyndist kaupverðið vera lægra og var mismunurinn endurgreiddur til Katla Seafood á Akureyri.

Akraberg

Sex fjárflutningar voru vegna kaupa P/F Akraberg á trollara frá þýska félaginu DFFU - Deutsche Fischfang Union, dótturfyrirtækis Samherja. Skipinu var breytt til að geta heilfryst slægðan og afhausaðan fisk, uppsjávarfisk og rækjur. Breytingin varð dýrari en reiknað var með. Bankarnir sem höfðu samþykkt að fjármagna kaupin, Realurin og Arion banki, vildu sjá skipið áður en endanlegt lán yrði veitt. Þá þurfti að fá millifjármögnun frá Esja Seafood, dótturfyrirtæki Samherja á Kýpur. Það lán var afgreitt í febrúar 2014, uppá 2,6 milljón evrur. Það var endurgreitt í fernu lagi síðar 2014. Sjötti fjárflutningurinn vegna milligreiðslunnar var í maí 2015. Hann var vegna vaxta og endanlegs uppgjörs vegna lánsins. Þetta var í evrum og var afgreitt í gegnum Framherja sem nú hafði fengið gjaldeyrisreikning. Síðar var gert upp við P/F Akraberg.

  KVF (færeyska sjónvarpið) telur grunsamlegt að ég hafi í útvarpi sagt að kostnaðurinn væri 140-150 milljónir er Akraberg kom til Færeyja þegar hið rétta var að kostnaðurinn varð 160 milljónir. Kaupverðið á Akraberg var 111,8 milljónir. Breytingin kostaði 51,2 milljónir. Lögfræðikostnaður, skráning og fleira var 2,0 milljónir. Það komu upp vandamál með skipið, og útgreiðslur fóru til færeyskrar þjónustu vegna breytinga og umbóta. Þetta skýrir muninn á upphæðinni sem ég gaf upp og endanlegum kostnaði.

Faroe Origin

16. og síðasti fjárflutningurinn sem KVF vísar til er vegna Faroe Origin. Þegar hlutafélagið Faroe Origin var stofnað með því fororði að kaupa hlut af aktivunum frá búnum (ég,veit ekki hvað þetta þýðir. Kannski eitthvasð um þá sem verða virkir í búinu?) frá Faroe Sedafood þá kom Samherji með 25% hlutafjársins. Starfsemin gekk illa. 2015 var hlutafé fært niður í 0. Síðan var nýtt hlutafjárútboð og hlutur Samherja varð 3,5 milljónir. Þá upphæð lagði Framherji til. Það var endurgreitt með einni millifærslu frá Esja Seafood á Kýpur í desember 2015.

Það eru forréttindi að vera í samstarfi við sterkt útlent fyrirtæki. Við höfum starfað með Samherja síðan 1994. Innanhúss viðskipti Samherja eru okkur óviðkomandi. Það er þungt fyrir mig, fjölskyldu mína og okkur öll í Framherja að vera sakaður um þátttöku í ólöglegum og óvanalegum viðskiptum sem ég á enga aðild að.

 


Undarlegt samtal í banka

  Ég var að bruðla með peninga í bankaútibúi.  Það var tuttugu mínútna bið.  Allt í góðu með það.  Enginn var að flýta sér.  Öldruð kona gekk hægum skrefum að gjaldkera.  Hún tilkynnti gjaldkeranum undanbragðalaust hvert erindið var.  "Ég ætla að kaupa peysu hjá þér,"  sagði hún.  Gjaldkerinn svaraði:  "Við seljum ekki peysur.  Þetta er banki."  Konan mælti áður en hún snérist á hæl og gekk burt:  "Já,  ég veit það.  Ég hélt samt að þið selduð peysur." 

peysa


Gleyminn arkítekt

  2007 varð uppi fótur og fit á bæjarráðsfundi Hvergerðisbæjar.  Ástæðan var sú að bænum barst óvænt reikningur upp á 6 milljónir króna.  Reikninginn sendi arkitekt sem gengur undir nafninu Dr. Maggi.  Hann var að rukka fyrir hönnunarvinnu sem innt var af hendi 26 árum áður.   

  Við athugun á bókhaldi kom í ljós að Maggi hafði aldrei rukkað fyrir vinnuna og því aldrei fengið greitt fyrir hana.  Vandamálið var að krafan var fyrnd fyrir löngu síðan lögum samkvæmt.  Bænum var ekki heimilt að borga reikning sem fyrningarlög voru búin að ómerka.  

  Þegar þetta allt lá fyrir komst bæjarráð samt að þeirri niðurstöðu að um sanngirnismál væri að ræða.  Á einhvern hátt yrði að borga kallinum fyrir sína vinnu.  Með nánu samráði við Ölfusinga tókst að finna einhverja leikfléttu til komast framhjá fyrningarlögum.  

  En hvers vegna rukkaði Maggi ekki sínar 6 milljónir í 26 ár?  Við erum að tala um upphæð sem er að minnsta kosti tvöfalt hærri á núvirði. Skýring hans var: "Ég gleymdi því."   

         


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband