Færsluflokkur: Fjármál

Illa farið með góðan dreng

  Ég rekst stundum á mann.  Við erum málkunnugir.  Köllum hann Palla.  Hann býr í lítill blokk.  Í sama stigagangi býr vinur hans.  Köllum hann Kalla.  Þeir eru hálfsjötugir einstæðingar.  Fyrir bragðið sækja þeir í félagsskap hvors annars. Fá sér stundum bjór saman; tefla,  skreppa í bingó og svo framvegis.

  Í hvert sinn sem ég rekst á Palla hefst samtalið á þessum orðum:  "Ég er alveg að gefast upp á Kalla."  Í kjölfar kemur skýring á því.  Í gær var hún svona:

  "Hann bauð mér út að borða.  Þegar við héldum af stað bað hann mig um að aka að Bæjarins bestu.  Það var allt í lagi.  Mér þykir pylsur góðar.  Hann pantaði tvær pylsur með öllu og gos.  Ég hélt að önnur væri handa mér og hann myndi spyrja hvernig gos ég vildi.  En,  nei,  pylsurnar voru handa honum.  Ég pantaði pylsu og gos.  Þegar kom að því að borga sqagði hann:  "Heyrðu,  ég gleymdi að taka veskið með mér.  Þú græjar þetta."  Ekki í fyrsta skipti sem hann leikur þennan leik.  Þegar við vorum búnir með pylsurnar sagðist hann verða að fá eitthvað sætt á eftir.  Við keyrðum að konditorí-bakaríi.  Ég keypti handa okkur tertusneiðar og heitt súkkulaði.  Hann kvartaði undan tertunni.  Skóf utan af henni allt besta gumsið og borðaði það.  Skildi sjálfa tertukökuna eftir.  Lét mig síðan kaupa aðra og öðruvísi tertusneið."

  Fyrir mánuði rakst ég á Palla.  Þá sagði hann:

  "Ég er alveg að gefast upp á Kalla.  Um daginn stakk hann upp á því að við myndum halda upp á jólin með stæl.  Gefa hvor öðrum lúxus-jólagjafir.  Samt eitthvað gagnlegt sem við myndum hvort sem er kaupa sjálfir fyrr eða síðar.  Ég var tregur til.  Enda auralítill.  Honum tókst að tala mig til með þeim rökum að hann væri búinn að kaupa góða jólagjöf handa mér sem ég ætti eftir að nota oft.  Er ég samþykkti þetta sagðist hann vera búinn að velja sér jólagjöf frá mér.  Það væri tiltekinn snjallsími.  Mér þótti heldur mikið í lagt.  Um leið fékk ég þá flugu í hausinn að hann væri búinn að kaupa samskonar síma handa mér.  Ég hafði stundum talað um að fá mér snjallsíma.  Flestir eru með svoleiðis í dag.  Á aðfangadag tók ég upp pakkann frá honum.  Í honum voru tíu þvottapokar úr Rúmfatalagernum sem kosta 99 kr. stykkið"           

pylsur terta


Danir óttast áhrif Pútins í Færeyjum

  Danski forsætisráðherrann,  Mette Frederiksen,  er nú í Færeyjum.  Erindið er að vara Færeyinga við nánari kynnum af Pútin.  Ástæðan er sú að danskir fjölmiðlar hafa sagt frá þreifingum um fríverslunarsamning á milli Færeyinga og Rússa.  Rússar kaupa mikið af færeyskum sjávarafurðum.  

  Ótti danskra stjórnmálamanna við fríverslunarsamninginn snýr að því að þar með verði Pútin komninn inn í danska sambandsríkið.  Hann sé lúmskur, slægur og kænn.  Hætta sé á að Færeyingar verði háðir vaxandi útflutningi til Rússlands.  Rússar gætu misnotað þá stöðu.  Heppilegra væri að dönsku sambandsríkin þjappi sér betur saman og hafi nánara samráð um svona viðkvæm mál.

  Þetta er snúið þar sem Danir eru í Evrópusambandinu en Færeyingar og Grænlendingar ekki.  

pútín     


Kvikmyndaumsögn

 - Titill:  Héraðið

 - Helstu leikarar:  Sigurður Sigurjónsson,  Arndís Hrönn Egilsdóttir,  Hannes Óli Ágústsson,  Edda Björg Eyjólfsdóttir...

 - Handrit og leikstjórn:  Grímur Hákonarson

 - Einkunn: **** (af 5)

  Þessi áhugaverða kvikmynd átti upphaflega að vera heimildamynd um Kaupfélag Skagfirðinga. Vegna hræðslu Skagfirðinga við að tjá sig um hið alltumlykjandi skagfirska efnahagssvæði reyndist ógjörningur að fá viðmælendur til að tjá sig fyrir framan myndavél.  Þar fyrir utan eru margir Kaupfélagssinnar af hugsjón.  Telja að ofríki Kaupfélagsins veiti mörgum vinnu og standi gegn því að peningar samfélagsins fari suður.  Kaupfélag Skagfirðinga stendur svo sterkt að lágvöruverslanir á borð við Bónus,  Krónuna og Nettó eiga ekki möguleika á að keppa við KS í Skagafirði  Skagfirðingar vilja fremur versla í dýrustu búð landsins,  Skagfirðingabúð Kaupfélagsins, en að peningur fyrir greiddar vörur fari úr héraðinu.

  Ég er fæddur og uppalinn Skagfirðingur.  Ég votta að margar senur myndarinnar eiga sér fyrirmynd í raunveruleikanum.  Jafnvel flestar.  Sumar samt í hliðstæðu.  Í myndinni er stofnað mjólkursamlag til höfuðs Kaupfélaginu.  Í raunveruleika stofnað pabbi minn og fleiri bændur sláturhús til höfuðs KS. 

  Kvikmyndin fer rólega af stað.  Eftir fæðingu kálfs og dauðsfall vörubílstjóra gerist myndin dramaatísk.  Hún er spennandi, áhrifarík og vekur til umhugsunar.  Flott í flesta staði.

  Arndís Hrönn er sannfærandi í hlutverki reiðu ekkjunnar.  Ég man ekki eftir að hafa séð þessa leikkonu áður.  Aðrir leikarar standa sig einnig með prýði.  Ekki síst Sigurður Sigurjónsson.  Hann túlkar Þórólf, nei ég meina Eyjólf kaupfélagsstjóra, af snilld.

  Gaman er að sjá hvað fjós eru orðin vélvædd og sjálfvirk.

  Ég mæli með því að fólk skreppi í bíó og kynnist skagfirska efnahagssvæðinu. 

héraðið


Spornað gegn matarsóun

  Matarsóun er gríðarmikil á Íslandi - eins og víða um heim allan.  Algengt er að fólk kaupi of mikið matarkyns fyrir heimilið.  Maturinn rennur út á tíma og skemmist.  Sama vandamál hrjáir matvöruverslanir.  Svo eru það veitingastaðirnir.  Einkum þeir sem bjóða upp á hlaðborð.  Margir hrúga óhóflega á diskinn sinn og leifa helmingnum.

  Í Hong Kong er veitingastaður sem býður upp á hlaðborð.  Gestir eru hvattir til að taka lítið á diskinn sinn;  fara þess í stað fleiri ferðir að hlaðborðinu.  1000 kr. aukagjald er sett á reikning þeirra sem klára ekki af disknum sínum.  Þetta mættu íslensk veitingahús taka upp. 

hlaðborð


Ódýrasta bensínið?

  Hvert olíufyrirtækið á eftir öðru auglýsir grimmt þessa dagana.  Þar fullyrða þau hvert og eitt að þau bjóði upp á lægsta verð.  Hvernig er það hægt?  Lægsta verð þýðir að allir aðrir eru dýrari. Ef öll olíufélögin bjóða sama verð þá er ekkert þeirra ódýrast.  

  Er einhver að blekkja?  Ekki nóg með það heldur er Jón Ásgeir kominn í stjórn Skeljungs.  Í kjölfar var færeyski forstjórinn settur af.  Fleiri fuku í leiðinni.  Við lifum á spennandi tímum,  sagði Þorgerður Katrín þegar bankarnir voru keyrðir í þrot (og kúlulán upp á heila og hálfa milljarða voru afskrifuð á færibandi). 

magn


Skemmtilegt verðlag í Munchen

  Ég er enn með hugann við Munchen í Þýskalandi eftir að hafa dvalið þar um páskana.  Ísland er dýrasta borg í heimi.  Munchen hefur til margra ára dansað í kringum 100. sæti.  Verðlag þar er nálægt þriðjungi lægra en í Reykjavík að meðaltali.  Auðveldlega má finna dæmi þar sem munurinn er meiri.

  Ég fer aldrei inn í verslanir í útlöndum.  Nema stórmarkaði.  Já, og plötubúðir.  Helstu útgjöld snúa að mat og drykk.  Í stórmarkaðskeðju sem heitir Rewe fann ég Beck´s bjór á 94 kr. (0,69 evrur).  Hálfur lítri. 4,9%.   

  Á Íslandi er Beck´s örlítið dýrari,  389 kall í ÁTVR.  Taka má tillit til þess að hérna er hann 5%.  Það telur. 

  1,5 lítra vatnsflaska kostar 41 kr. (0,30 evrur).

  Glæsilegt morgunverðarhlaðborð kostar 667 kr (4,9 evrur).

  Á gistiheimilinu sem hýsti mig kostar hálfur lítri af bjór úr krana á 340 kr. (2,5 evrur) fram á kvöld.  Síðar um kvöldið hækkar verðið í 476 kr. (3,5 evrur).

  Ég hef engan áhuga á fínum veitingastöðum.  Nenni ekki að sitja og bíða eftir að matur sé eldaður.  Kýs frekar mat sem þegar er eldaður.  Ég gerði þó undantekningu er ég sá að á asískum veitingastað var boðið upp á stökka önd (crispy) með grænmeti og núðlum.  Sá veislumatur kostar 803 kr. (5,9 evrur).  Enginn málsverður kostaði mig 1000 kall.  Sá dýrasti var á 952 kr.  Það var lambakjöt í karrý. 

morgunverður í munchenþýskur morgunverður 

stökk öndbarinnlamb í karrý


Pallbíll til sölu

  Nánast splunkunýr pallbíll - svo gott sem beint úr kassanum - er til sölu á tíu milljónir króna.  Samkvæmt ökumæli hefur hann verið keyrður miklu minna en ekki neitt;  mínus 150 þúsund kílómetra.  Góð framtíðareign;  fasteign á hjólum.  Slegist verður um hann á bílasöluplani Procar.  Fyrstur kemur, fyrstur fær.  Ryðblettirnir eru meira til skrauts en til vandræða.  

procar

  


Ódýr matur

  Matarverð í Toronto í Kanada er töluvert lægra en á Íslandi.  Eins og flest annað.  Þar að auki er skammturinn vel útilátinn.  Í stað þess að leifa helmingnum komst ég upp á lag með að kaupa matinn "take away".  Þannig dugði hann í tvær máltíðir.  Matarsóun er til skammar.   Á veitingastað sem heitir Caribbean Taste er - á milli klukkan 11.00 - 15.00 - seldur kjúklingur (BBQ eða karrý) á 610 ísl. kr.  Hann er borinn fram með góðri hrúgu af fersku salati og hrísgrjónum með nýrabaunum. 

  Á Caribbean Taste er maturinn afgreiddur í pappabakka með loki.  Ég gat því snætt inni á staðnum og tekið afganginn með mér.  Það var ljúft að flýta sér hægt á staðnum.  Notaleg ópoppuð reggí-músík hljómaði á góðum styrk.  Á vegg blasti við stór mynd af Bob Marley.

  Grillaður lax er á 728 kr.  Eftir klukkan 15.00 hækkar verðið um 40% eða meir.  Kjúklingurinn er þá kominn í 855 kr. og laxinn í 1080 kall.

  Á nálægum morgunverðarstað fékk ég rétt sem heitir "Simple 2 eggs".  Spæld egg, beikon,  ristaðar brauðsneiðar (önnur með hnetusmjöri, hin með jarðaberjamauki) og stór plastskál með blönduðum ávaxtabitum.  M.a. ananas, jarðaberjum, appelsínum og bláberjum.  Ávextirnir voru heil máltíð út af fyrir sig.   Rétturinn kostaði 837 kr.

  Dýrasta máltíðin sem ég keypti var á Eggspectation. 1360 kr. Hún samanstóð af tveimur lummum (amerískum pönnukökum).  Ofan á þeim var sitthvor stóra og þykka pönnusteikta skinkusneiðin.  Þar ofan á voru spæld egg.  Yfir var heit hollandaise sósa.  Meðlæti voru djúpsteiktar þunnt skornar kartöflusneiðar,  stór melónusneið og tvær þykkt þverskornar appelsínusneiðar (önnur blóðappelsína). 

  Næst dýrasta máltíðin sem ég keypti kostaði 1256 kr.  Hún var á Maja Indian Cuisine, indverskum veitingastað.  Þar fær viðskiptavinurinn að velja sér 3 rétti af mörgum úr tveimur hitaborðum.  Meðlæti er ferskt salat, hrísgrjón og hlussustórt bragðgott nanbrauð.  Ég valdi lamb í karrý, kjúkling í karrý og framandi rétt sem leit girnilega út en var eiginlega eins og ágæt hnausþykk súpa.  Indverski pakkinn dugði mér í 3 máltíðir.      

  Ég fann matvöruverslun sem selur heitan mat úr hitaborði.  Hægt er að velja úr þremur-fjórum réttum sem "rútinerast" dag frá degi.  Stundum lax.  Stundum kjúklingabitar.  Borgað er fyrir réttinn en ekki er rukkað fyrir meðlæti á borð við grænmeti og steikta kartöflubáta.  Verðið er 800 - 900 kr.  

  Algengt verð á hálfslítra bjórdós er 184 kr. 

caribean tastesimply 2 eggsávaxtaskáleggspectationindverskur matur    

   


Hvers vegna þessi feluleikur?

  Á níunda áratugnum vann ég á auglýsingastofu.  Einn daginn kom Ingvar Helgason á stofuna.  Hann rak samnefnda bílasölu.  Hann sagðist vera að gera eitthvað vitlaust.  Hann væri búinn að kaupa fjölda heilsíðuauglýsinga í dagblöðunum um tiltekinn bíl án viðbragða.  

  Þegar ég skoðaði auglýsingarnar blasti vandamálið við.  Í þeim var bíllinn lofsunginn í bak og fyrir.  Hinsvegar vantaði í auglýsingarnar hver væri að auglýsa;  hver væri að selja bílinn.  Lesandinn gat ekki sýnt nein viðbrögð.

  Ég á fleiri sögur af fyrirtækjum sem auglýsa hitt og þetta án upplýsinga um það hver er að auglýsa og hvar hægt er að kaupa auglýstu vöruna.  

  Í vikunni birtist í Fréttablaðinu heilsíðuauglýsing undir fyrirsögninni "Combo-tilboð".  Þar voru myndir af mat og drykk,  brauðmeti og allskonar á tilboðsverði.  Það er að segja lækkuðu verði - að því er má skiljast.

  Undir auglýsinguna er kvittað "netgíró Kvikk".  Ekkert heimilisfang.  Engin vísbending um hvort um er að ræða sjoppu á Reyðarfirði eða í Keflavík,  Stokkseyri eða Hofsósi.

Ég sló inn netgíró.is. Fyrirbærið reyndist vera einhverskonar peningaplottsdæmi.  Lánar pening,  gefur út greiðslukort og hengir fólk eða eitthvað.

  Ég sló inn "kvikk.is".  Þar reyndist vera bifreiðaverkstæði.  Eftir stendur að ég hef ekki hugmynd um hver er að selja pylsu og gos á 549 kall.  Þangað til ég kemst að því kaupi ég pylsu og gos í Ikea á 245 kall.  Spara 304 krónur í leiðinni.    

pylsa og gos

    


Ný verslun, gamalt verð

  Í vikunni hafa stórar tveggja blaðsíðna auglýsingar birst í dagblöðum.  Þar er boðað að splunkuný verslun verði opnuð með stæl í dag (laugardaginn 1. september).  Gefin eru upp skapleg verð á skóm og fleiri vörum.  Svo skemmtilega vill til að einnig eru gefin upp önnur og hærri verð á sömu vörum.  Fyrir framan þau segir: Verð áður.  Hvernig getur búð vitnað í eldra verð sem gilti áður en hún var opnuð?  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.