Færsluflokkur: Fjármál

Íslenska leiðin

  Maður sem við köllum A var fyrirtækjaráðgjafi Glitnis.  Hann gaf fátækum vinum olíufyrirtækið Skeljung.  Þetta var sakleysisleg sumargjöf.  Hún olli þó því að A var rekinn með skömm frá Glitni.  Eðlilega var hann þá ráðinn forstjóri Skeljungs.  Um leið réði hann þar til starfa nokkra vini úr bankanum.  Þeirra í stað rak hann nokkra reynslubolta.  Hinsvegar er hjásvæfa hans ennþá í vinnu hjá Skeljungi.  Það er önnur saga og rómantískari.

  Skeljungur keypti Shell í Færeyjum.  Nokkru síðar var starfsmaður færeyska Shell ráðinn forstjóri Skeljungs.  Síðan er fyrirtækinu stýrt frá Færeyjum.  Þetta þótti einkennilegt.  Hefðin var sú að framkvæmdastjóri tæki við forstjórastóli. 

  Fyrsta verk færeyska forstjórans var að kaupa hlutabréf í Skeljungi á undirverði og selja daginn eftir á yfirverði.  Lífeyrissjóðir toguðust á um að kaupa á yfirverðinu.  Kauði fékk í vasann á einum degi 80 milljónir eða eitthvað.  Þetta er ólíkt Færeyingum sem öllu jafna eru ekki að eltast við peninga. 

  Persóna A var óvænt orðin meðeigandi Skeljungs.  Hann (kk) og vinirnir seldu sinn hlut í Skeljungi á 830 milljónir á kjaft. 

  Þetta er einfalda útgáfan á því hvernig menn verða auðmenn á Íslandi.

magn

 

 


Hvað finnst þér?

  Glyvrar er 400 manna þorp á Austurey í Færeyjum.  Það tilheyrir 4000 manna sveitarfélaginu Rúnavík.  Eins og almennt í Færeyjum skipar kirkjan háan sess í tilveru íbúa Glyvrar.  Kirkjubyggingin er næstum aldargömul.  Hún er slitin og að lotum komin.  Á níunda áratugnum var púkkað upp á hana.  Það dugði ekki til.  Dagar hennar eru taldir. 

  Eftir ítarlega skoðun er niðurstaðan sú að hagkvæmasta lausn sé að byggja nýja kirkju frá grunni.  Búið er að hanna hana á teikniborði og stutt í frekari framkvæmdir.  Verra er að ekki eru allir á eitt sáttir við arkitektúrinn.  Vægt til orða tekið.  Sumum er heitt í hamsi.  Lýsa honum sem ljótustu kirkjubyggingu i heimi,  hneisu og svívirðu.

  Öðrum þykir ánægjuleg reisn yfir ferskum arkitektúrnum.  Þetta sé djörf og glæsileg hönnun.  Hún verði stolt Glyvrar.  

  Hér eru myndir af gömlu hvítu kirkjunni og nýju svörtu.  Hvað finnst þér?

gamla kirkjanGlyvra-kirkja    


Skelfilegur laxadauði

  Laxeldi í kvíum er í sviðsljósinu í kjölfar áhugaverðrar heimildarmyndar eftir Þorstein J.  Vilhjálmsson.  Hún var sýnd í sjónvarpinu í síðustu viku.  Töluverður vandræðagangur virðist ríkja í laxeldinu hér.  Margt er á gráu svæði sem full ástæða er til að vera á verði gagnvart.

  Arnarlax fyrir vestan skilaði góðu tapi vegna dauða laxa í vetur.  Ofkæling.

  Í Noregi er sömuleiðis sitthvað úr skorðum í laxeldi.  Þar ganga nú yfir skelfileg afföll.  Laxinn drepst í hrönnum.  Í janúar-mars drápust 13,6 milljón laxar.  Það er 30% aukning frá sama tímabili í fyrra.  Allt það ár drápust 53 milljónir úr veikindum áður náðist að slátra þeim.

  Sökudólgurinn er vandræðagangur með úrgang,  aflúsun og eitthvað þessháttar.   Þetta er dýraníð.

  Eins og með svo margt er annað og betra að frétta frá Færeyjum.  Þar blómstrar laxeldið sem aldrei fyrr.  Nú er svo komið að laxeldið aflar Færeyingum meira en helmingi alls gjaldeyris.  Langstærsti kaupandinn er Rússland.  Íslendingar geta ekki selt Rússum neitt.  Þökk sé vopnasölubanninu sem Gunnar Bragi setti á þá.

  Ólíkt laxeldi á Íslandi er í Færeyjum engin hætta á blöndun eldislax og villtra laxa.  Ástæðan er sú að lítið er um villtan lax í Færeyjum.  Um miðja síðustu öld fengu Færeyingar nokkur íslensk laxaseyði.  Þeim slepptu þeir í tvö lítil vötn sem litlar lækjasprænur renna úr.  Laxveiðar þar eru þolinmæðisverk.  Laxarnir eru svo fáir.  Þegar svo ótrúlega vill til að lax bíti á þá er skylda að sleppa honum aftur umsvifalaust.  

lax

 

 

 

 


Íslendingur rændur

  Það er ekki vel falið leyndarmál að norskur þrjótur stal rammíslensku lagi í aldarbyrjun.  Sá ósvífni heitir Rolf Lövland.  Höfundur lagsins heitir Jóhann Helgason.  Á íslensku heitir lagið "Söknuður".  Það kom fyrst út á hljómplötu með Villa Vill 1977.  Norski þjófurinn kallar það "You Raise Me Up".

  Stuldurinn nær yfir rösklega 97% af laginu.  Aukaatriði er að þjófurinn eignaðist snemma kassettu með laginu og dvaldi á Íslandi um hríð.

  Margir hafa sungið lagið inn á plötu með enska texta þjófsnauts þjófsins.  Þeir hafa í grandaleysi skráð lagið á þjófinn.  Hann hefur rakað inn risaupphæðum í höfundarlaun. 

  Höfundurinn, Jóhann Helgason, hefur til áratuga staðið í stappi við að fá höfundarrétt sinn á laginu viðurkenndan.  Enda lag hans harla gott. Vandamálið er að þjófurinn þráast við að viðurkenna sök.  Er að auki studdur af útgefanda sínum,  Universal stórveldinu.

  Í þessari stöðu kosta málaferli til að fá leiðréttan höfundarrétt 150 milljónir eða svo. Farsæll íslenskur lagahöfundur á ekki þá upphæð í vasanum. Leitað hefur verið til margra ára að fjárfestum.  Án árangurs.  Sú leið er eiginlega fullreynd.

  Eigum við, íslenska þjóð,  sem fámennt samfélag að leyfa útlendum þjófi að stela einni bestu lagaperlu okkar?  Njóta heiðurs fyrir gott lag og raka inn milljónum króna í höfundargreiðslum? 

  Vegna þess að einstaklingsframtakið hefur brugðist í málinu verður að skoða aðra möguleika.  Við þurfum að leggja höfuð í bleyti og finna þá möguleika.  Einn möguleikinn er að lífeyrissjóðir fjárfesti í málaferlunum.  Áhættan er lítil og minni en margar aðrar fjárfestingaleiðir sem þeir hafa valið. 

  Annar möguleiki en krítískari er að íslenska ríkið - eitthvað ráðuneytið - blandi sér snöfurlega í málið.  Bregðist af hörku við að vernda íslenska hagsmuni.  Yfirgnæfandi líkur eru á að málið vinnist.  Útlagður kostnaður verður þá greiddur af Universal þegar upp er staðið.  Risaháar höfundargreiðslur munu að auki koma á vængjum inn í íslenska hagkerfið.  

  Fleiri uppástungur óskast.

  Sem öfgamaður í músíksmekk kvitta ég undir að kammerútsetning Villa Vill á laginu sé til fyrirmyndar.  Útlendu útfærslurnar eru viðbjóður. 

       


Samgleðjumst og fögnum!

  Aldrei er hægt að gera Íslendingum til hæfis.  Stöðugt er kvartað undan lágum launum, lélegri sjónvarpsdagskrá og öðru sem skiptir máli.  Nú beinist ólund að Neinum fyrir það eitt að forstjórinn náði að hækka laun sín um 20,6% á milli ára.   

  Að óreyndu mátti ætla að landsmenn samfögnuðu forstjóranum.  Það væri gleðifrétt að eigendur Neins - lífeyrissjóðirnir og lífeyrissjóðsfélagar - hefðu efni á að borga honum næstum 6 milljónir á mánuði (þrátt fyrir hratt minnkandi hagnað olífélagsins undir stjórn ódýra forstjórans).  En ónei.  Í samfélagsmiðlum og heitum pottum sundlauga hvetja menn hvern annan til að sniðgöngu.  Með þeim árangri að um þessar mundir sjást fáir á ferli við bensínstöðvar fyrirtækisins.  Eiginlega bara hálaunamenn, svo sem stjórnarmenn lífeyrissjóðanna.  

  Svo verður þetta gleymt eftir helgi.

 

  


mbl.is Allir fái sömu hækkun og forstjórinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósvífinn þjófnaður H&M

  Færeyskir fatahönnuðir eru bestir í heimi.  Enda togast frægar fyrirsætur, fegurðardrottningar, tónlistarfólk og fleiri á um færeyska fatahönnun. 

  Fyrir tveimur árum kynnti færeyski fatahönnuðurinn Sonja Davidsen til sögunnar glæsilegan og smart kvennærfatnað.  Hún kynnir hann undir merkinu OW Intimates.  Heimsfræg módel hafa sést spranga um í honum.  Þ.á.m. Kylie Jenner. 

  Nú hefur fatakeðjan H&M stolið hönnuninni með húð og hári.  Sonju er eðlilega illa brugðið.  Þetta er svo ósvífið.  Hún veit ekki hvernig best er að snúa sér í málinu.  Fatahönnun er ekki varin í lögum um höfundarrétt.  Eitthvað hlýtur samt að vera hægt að gera þegar stuldurinn er svona algjör.   Þetta er spurning um höfundarheiður og peninga.

  Á skjáskotinu hér fyrir neðan má sjá til vinstri auglýsingu frá Sonju og til hægri auglýsingu frá H&M.  Steluþjófahyski. 

 

faereysk_naerfot.jpg

 


Sápuóperan endalausa

  Þessa dagana auglýsir Skeljungur grimmt eftir starfsfólki:  Sölumönnum í Reykjavík og einnig umboðsmanni á Austurlandi.  Þetta er athyglisvert.  Ekki síst í ljósi þess að fyrir jól sagði fyrirtækið upp 29 manns (um það bil þriðjungur starfsliðs).  Sennilega eru hinir brottræku enn á launaskrá en var gert að yfirgefa vinnustaðinn samdægurs.

  Hröð starfsmannavelta og óreiða einkenna reksturinn.  Líka tíð eigendaskipti.  Nýir eigendur hafa komið,  ryksugað fyrirtækið innanfrá og farið.  Hver á fætur öðrum.  Einn hirti meira að segja - í skjóli nætur - öll málverk ofan af veggjum.  

  Nýr forstjóri tók til starfa í vetrarbyrjun.  Hann er búsettur í Færeyjum og fjarstýrir Skeljungi þaðan.  Hans fyrsta verk í forstjórastóli var að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu á undirverði og selja þau daginn eftir á fullu verði.  Mismunur/hagnaður skilaði honum yfir 80 milljónum króna í vasa á þessum eina degi.  

  Lífeyrissjóðirnir eru alltaf reiðubúnir að kaupa hlutabréfin á hæsta verði.  Jafnvel á yfirverði - eins og eftir að fyrirtækið sendi út falsfrétt um að það væri að yfirtaka verslunarkeðjuna 10-11.  Það var bara plat til að snuða lífeyrissjóði. 

  Þetta er sápuóperan endalausa.  

  magn.jpg


Verðlag

vegan_samloka_aktu_taktu_a_1599_kr.jpg

  Á Aktu-Taktu í Garðabæ var seld samloka á 1599 kr.  Á milli brauðsneiðanna var smávegis kál,  lítil ostsneið og sósa.  Þetta var kallað vegan (án dýraafurða).  Osturinn var að vísu úr kúamjólk.  Í sósunni voru einhverjar dýraafurðir líka.  Sennilega eggjarauða og eitthvað svoleiðis.

  Vissulega var samlokan ekki upp á marga fiska.  Ég set stærra spurningamerki við það að einhver sé reiðubúinn til að borga 1599 kr. fyrir samloku.  Að vísu...já, Garðabæ.

  Til samanburðar:  Í Manchester á Englandi bjóða matvöruverslanir - nánast allar - upp á svokallað "3ja rétta tilboð" (3 meals deal).  Það samanstendur af samlokuhorni, langloku eða vefju að eigin vali (áleggið er ekki skorið við nögl - ólíkt íslenska stílnum) + drykk að eigin vali + snakkpoka að eigin vali (kartöfluflögur, popkorn eða eitthvað álíka).

  Þessi pakki kostar 3 pund sem jafngildir 429 ísl. kr.  Ég valdi mér oftast samlokuhorn með beikoni og eggjum (um það bil tvöfaldur skammtur á við íslenskt samlokuhorn), ásamt hálfum lítra af ávaxtaþykkni (smoothies) og bara eitthvað snakk.

  Á Íslandi kostar samlokuhorn um 600 kall.  Kvartlítri af smoothies kostar um 300 kall.  Þannig að hálfu lítri er á um 600 kall.  Ætli snakkpoki á Íslandi sé ekki á um 300 kall eða meir. 

  Þetta þýðir að íslenskur 3ja rétta pakki er að minnsta kosti þrisvar sinnum dýrari en pakkinn í Manchester. 

  Í Manchester selja veitingahús enskan morgunverð.  Að sjálfsögðu.  Hann samanstendur oftast af tveimur saugagest pylsum (veit ekki hvað þær heita á íslensku), tveimur vænum beikonsneiðum (hvor um sig rösklega tvöföld að stærð í samanburði við íslenskar. Og með aðeina örlítilli fiturönd), grilluðum tómat,  bökuðum baunum, ýmist einu eða tveimur spældum eggjum, tveimur hasskökum (hash browns = djúpsteiktri kartöflustöppu mótaðri í teygðum þríhyrning),  ristuðum brauðsneiðum með smjöri;  ýmist einum stórum pönnusteiktum sveppi eða mörgum litlum.

  Enski morgunverðurinn kostar frá 3,75 pundum (537 ísl. kr.).  Þetta er saðsöm máltíð.  Maður er pakksaddur fram eftir degi.  Nokkrir veitingastaðir á Íslandi selja enskan morgunverð - á 2000 kall. 

  4ra dósa kippa af 5% 440 ml dósum kostar 4 pund (572 ísl kr. = 143 kr.dósin).  Ódýrasta bjórdósin á Íslandi kostar 249 kall (Euroshopper 4,6%).  

 samlokur_e.jpgsmoothie.jpgsnakk.jpgfull-english-breakfast035.jpg

 

 


Íslendingur vínylvæðir Dani

  Á seinni hluta níunda áratugarins blasti við að vinylplatan væri að hverfa af markaðnum.  Þetta gerðist hratt.  Geisladiskurinn tók yfir.  Þremur áratugum síðar snéri vínyllinn aftur tvíefldur.  Nú hefur hann rutt geisladisknum af stalli.  

  Ástæðan er margþætt.  Mestu munar um hljómgæðin.  Hljómur vinylsins er hlýrri, dýpri,  þéttari,  blæbrigðaríkari og notalegri.  Að auki er uppröðun laga betri og markvissari á vinylnum að öllu jöfnu.  Báðar plötuhliðar þurfa að hefjast á öflugum grípandi lögum.  Báðar þurfa að enda á sterkum og eftirminnilegum lögum.  

  Spilunarlengd hvorrar hliðar er rösklega 20 mín.  Hún heldur athyglinni á tónlistinni vakandi.  Þar með tengist hlustandinn henni betur.  Hann meðtekur hana í hæfilegum skömmtum.

  Geisladiskurinn - með sinn harða, kantaða og grunna hljóm - var farinn að innihalda of mikla langloku.  Allt upp í 80 mín eða meir.  Athygli er ekki vakandi í svo langan tíma.  Hugurinn fer að reika eftir um það bil 40 mín að meðaltali.  Hugsun beinist í aðra átt og músíkin verður bakgrunnshljóð.  Auk þessa vilja flæða með of mörg óspennandi uppfyllingarlög þegar meira en nægilegt pláss er á disknum.    

  Stærð vinylsins og umbúðir eru notendavænni.  Letur og myndefni fjórfalt stærra.  Ólíkt glæsilegri pakki.  Fyrstu kynni af plötu er jafnan við að handleika og horfa á umslagið.  Sú skynjun hefur áhrif á væntingar til innihaldsins og hvernig það er meðtekið.  Setur hlustandann í stellingr.  Þetta spilar saman.

  Í bandaríska netmiðlinum Discogs.com er stórt og áhugavert viðtal við vinylkóng Danmerkur,  Guðmund Örn Ísfeld.  Eins og nafnið gefur til kynna er hann Íslendingur í húð og hár.  Fæddur og uppalinn á Íslandi af skagfirskum foreldrum.  Sprenglærður kvikmyndagerðarmaður og grafískur hönnuður.  Hefur framleitt fjölda músíkmyndbanda og hannað plötuumslög.  

  Með puttann á púlsinum varð hann var við bratt vaxandi þörf á vinylpressu.  Hann keypti í snatri eina slíka.  Stofnaði - ásamt 2 vinum - fyrirtækið Vinyltryk.  Eftirspurn varð slík að afgreiðsla tók allt upp í 6 mánuði.  Það er ekki ásættanlegt í hröðum tónlistarheimi.

  Nú hefur alvara hlaupið í dæmið.  1000 fm húsnæði verið tekið í gagnið og innréttað fyrir fyrstu alvöru risastóru vinylpressu í Danmörku í 60 ár.  Nafni fyrirtækisins er jafnframt breytt í hið alþjóðlega RPM Records.  

  Nýja pressan er alsjálfvirk, afkastamikil en orkunett.  Hún spýtir út úr sér plötum 24 tíma á sólarhring í hæstu gæðum.  Afreiðslutíminn er kominn niður í 10 daga.  

  Netsíðan er ennþá www.vinyltryk.dk (en mun væntanlega breytast til samræmis við nafnabreytinguna, ætla ég).  Verð eru góð.  Ekki síst fyrir Íslendinga - á meðan gengi íslensku krónunnar er svona sterkt.  

gudm örn ísfeldguðmundur örn ísfeldplötupressan   

    


Íslandsvinur í skjölunum

  Nöfn íslenskra auðmanna eru fyrirferðamikil í Paradísarskjölunum;  þessum sem láku út frá lögmannsstofunni Appleby á Bermúda.  Ef ég þekki íslenskan metnað rétt er næsta víst nöfn Íslendinga séu hlutfallslega flest miðað við höfðatölu.  Sem eru góðar fréttir.  Þjóð sem er rík af auðmönnum er vel sett.  Verra samt að svo flókið sé að eiga peninga á Íslandi að nauðsyn þyki að fela þá í skattaskjóli.

  Ekki einungis íslenskir auðmenn nota skattaskjól heldur líka Íslandsvinir.  Þekktastur er hugsjónamaðurinn Bono í hljómsveitinni U2.

 


mbl.is Tugir Íslendinga í skjölunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband