Færsluflokkur: Heilbrigðismál
29.1.2022 | 00:41
Töfrar úðans
Ég var að selja snyrtivörur, alnáttúrulegar heilsusnyrtivörur úr Aloe Vera plöntunni að uppistöðu til. Aldraður maður á Egilsstöðum hringdi í mig. Hann bað mig um að senda sér í póstkröfu sólarolíu sem heitir Dark Tanning Oil Spray. Ástæðuna sagði hann vera þreytu í augum. Hann grunaði að úðaspreyið gæti gert sér gott. Einkum vegna þess að Aloe Vera var uppistöðuhráefnið.
Nokkrum vikum síðar hringdi maðurinn aftur til að fá fleiri úðabrúsa. Hann sagði að reynslan væri svo góð við að spreyja í augun að hann væri byrjaður að spreyja í eyrun líka. Með jafn góðum árangri. Eyrun hvíldust vel útspreyjuð.
Nokkrum vikum síðar hringdi hann enn í mig. Hann vantaði fleiri úðabrúsa. Nú var hann byrjaður að spreyja upp í munninn á sér undir svefninn. Allt annað líf. Hann svæfi eins og kornabarn. Að auki væru draumfarir ljúfari.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.11.2021 | 00:56
Ósætti út af kjúklingavængjum
Ofbeldi tíðkast víðar en í bandarískum skemmtiþáttaseríum. Stundum þarf ekki mikið til. Jafnvel að gripið sé til skotvopna þegar fólki mislíkar eitthvað. Það hefur meira að segja hent á okkar annars friðsæla Íslandi; þar sem flestir sýna flestum takmarkalausa ást og kærleika.
Í Vínlandinu góða, nánar tiltekið í Utah-ríki, vildi umhyggjusamur faðir gera vel við þrítugan son sinn. Á heimleið úr vinnu keypti hann handa honum vænan skammt af kjúklingavængjum. Viðtökurnar voru ekki jafn fagnandi og pabbinn bjóst við. Stráksa mislíkaði að kallinn hafði ekki keypt uppáhaldsvængina hans heldur einhverja aðra tegund. Mönnum getur sárnað af minna tilefni. Hann stormaði inn á baðherbergi. Þar var ein af byssum heimilisins geymd. Kauði nýtti sér það. Hann tók byssuna og skaut á kallinn. Sem betur fer var hann ekki góð skytta í geðshræringunni. Kúlan fór yfir í næsta hús og hafnaði þar í uppþvottavél.
Kallinn stökk á strákinn og náði að afvopna hann. Áður tókst drengnum að hleypa af tveimur skotum til viðbótar. Bæði geiguðu að mestu en náðu samt að særa kallinn.
Einhver bið verður á að gaurinn fái fleiri kjúklingavængi. Hann er í fangelsi.
.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 08:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.8.2021 | 08:34
Frábær lögregla
Í fyrradag missti tæplega fertugur maður vitið. Óvænt. Enginn aðdragandi. Hann var bara allt í einu staddur á allt öðrum stað en raunveruleikanum. Ég hringdi í héraðslækni. Til mín komu tveir kvenlögregluþjónar sem hóuðu í sjúkrabíl.
Þetta fólk afgreiddi vandamálið á einstaklega lipran hátt. Minnsta mál í heimi hefði verið að handjárna veika manninn og henda honum inn á geðdeild eða löggustöð. Þess í stað var rætt við hann á ljúfu nótunum. Að hluta til fallist á ranghugmyndir hans en um leið fengið hann til að fara á fætur og koma út í sjúkrabíl.
Þetta tók alveg 2 klukkutíma. Skref fyrir skref: Að standa á fætur, að fara í skó og svo framvegis.
Að lokum tókst að koma honum í sjúkrabílinn. Hálftíma síðar hringdi önnur lögreglukonan í mig. Vildi upplýsa mig um framhaldið frá því að maðurinn fór í sjúkrabílinn. Sem var töluverð dagskrá sem náði alveg til dagsins í dag.
Þvílíkt frábær vinnubrögð. Ég hafði ekki rænu á að taka niður nöfn.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.3.2021 | 20:14
Færeyingar skara framúr
Í fréttum af erlendum vettvangi er iðulega tíundað hvernig norrænu þjóðunum vegnar í baráttunni við kóróna-vírusinn. Gallinn við þennan fréttaflutning er að Færeyingar eru taldir með Dönum. Fyrir bragðið fer glæsilegur árangur Færeyinga framhjá flestum. Nú skal bætt úr því:
Í Færeyjum er enginn smitaður. Enginn er að bíða eftir niðurstöðu úr skimun. Enginn er í innlögn. Enginn er í sóttkví.
Færeyingar hafa skimað um 240 þúsund manns. Það er mikið fyrir þjóð sem telur 53 þúsund. Skýringin er margþætt. Meðal annars hafa margir Færeyingar búsettir erlendis átt erindi til Færeyja oftar en einu sinni frá því að Covid gekk í garð fyrir tveimur árum. Sama er að segja um marga útlendinga sem þurfa að bregða sér til Færeyja vinnutengt. Einnig hefur verið töluvert um að Íslendingar og Danir sæki Færeyjar heim í sumar- og vetrarfríum. Erlend skip og togarar (þar af íslenskir) kaupa vistir í Færeyjum og landa þar. Svo eru það erlendu skemmtiferðaskipin.
Sjálfir gera Færeyingar út glæsilegt skemmtiferðaskip, Norrænu, sem siglir til og frá Færeyjum, Íslandi og Danmörku. Í þessum skrifuðu orðum er tveir Danir í sóttkví um borð í Norrænu.
Færeyingar hafa gefið 10 þúsund bólusprautur. Þar af hafa 11% af þjóðinni fengið fyrri sprautuna og 7,7% seinni sprautuna.
Danskur ráðherra, að mig minnir Mette Frederiksen, sagði í viðtali að Danir gætu lært margt af Færeyingum í baráttunni við Covid-19. Íslendingar geta það líka. Og reyndar lært margt annað af Færeyingum.
Heilbrigðismál | Breytt 30.3.2021 kl. 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
4.12.2020 | 05:34
Lulla frænka í stimpingum
Lulla föðursystir mín var ekki eins og fólk er flest. Hennar andlega heilsa var ekki sem best. Hún sagði og gerði margt óvenjulegt. Oft var það eitthvað broslegt. Hún var ljúfmenni og vildi öllum vel. Okkur í fjölskyldunni þótti vænt um hana. Það var ætíð gleðiefni að fá hana í heimsókn.
Lulla ók allra sinna ferða; hvort sem hún var með ökuskírteini í lagi eða ekki. Það var allur háttur á. Og aldrei borgaði hún sektir sem hlóðust upp í þykkum bunkum. Hún fylgdi ekki alltaf umferðareglum. Fyrir bragðið var bíll hennar jafnan dældaður á öllum hliðum. Hún kippti sér ekkert upp við það. Þess vegna vakti undrun þegar hún tók afar nærri sér að sjá dæld farþegamegin á bíl móður minnar. Hún var alveg miður sín.
Svo bar við að þær mágkonur fóru til Dalvíkur á jarðarför. Er þær nálguðust kirkjuna gaf Lulla mömmu ströng fyrirmæli um að leggja bílnum þannig að enginn sæi dældina. Að útför lokinni óskaði kona nokkur eftir að fá far með þeim. Lulla tók því illa. Sagði að það væri lykkja á leið þeirra, þær væru að flýta sér og þetta hentaði ekki. Mamma hinsvegar tók vel í ósk konunnar og bauð hana velkomna í bílinn.
Er konan hugðist ganga að bílnum farþegamegin stökk Lulla í veg fyrir hana. Var hún þó stirð til gangs. Lulla tók á henni og hrinti í aftursætið bílstjóramegin. Mömmu dauðbrá og reyndi að gera gott úr þessu með því að ræða eitthvað skemmtilegt við konuna. Skutlið var innan Dalvíkur og tók stutta stund. Er konan hafði yfirgefið bílinn spurði mamma Lullu: "Hvers vegna í ósköpunum lentuð þið í stimpingum?" Hún kveikti sér í sígarettu og svaraði síðan sallaróleg: "Ég vildi akki að hún sæi dældina."
Heilbrigðismál | Breytt 6.12.2020 kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.10.2020 | 21:51
Hve langt á að ganga?
Ég er frekar andvígur Covid-19. Eða eiginlega alveg andvígur kvikindinu. Ég hallast að viðhorfi Kára Stefánssonar um að gripið verði til harkalegra varna. Jafnvel að öllum verslunum verði lokað tímabundið - nema matvöruverslunum. Vissulega sársaukafull aðgerð fyrir marga. Á móti vegur að dragist Covid-faraldurinn á langinn þá mun hann valda ennþá fleirum harm. Þetta er eins og valið á milli þess að rífa sársaukafullt af sér plástur hægt og bítandi eða kippa honum af og finna sársauka í 1 sekúndu.
Einu mótmæli ég harðlega: Það er lokun lyfjaverslana. Ég þarf að kaupa þar mínar daglegu gigtarpillur. Ég ætla að fleiri þurfi nauðsynlega að kaupa lyf.
![]() |
Vill loka fyrir helgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.9.2020 | 06:16
Breskir strompar
Á dögunum þurfti ég að vera heimavið í nokkra daga. Til að stytta mér stundir tók ég upp á því að horfa á sjónvarp úr hófi fram. Meðal þess sem fyrir augu bar var breskur raunveruleikaþáttur, Love island. Hópi glæsilegra ungmenna á þrítugsaldri er komið fyrir i reisulegri villu á eyju. Þar er dekrað við hópinn í mat og drykk. Dömurnar spranga um á bikiní og drengirnir á sundskýlu. Enda nýta þau sér sundlaugina.
Leikurinn gengur út á að fólkið pari sig. Þeim sem mistekst er sparkað af eyjunni. Aðrir koma í staðinn. Þeir þurfa að sprengja upp parasamband til að mynda nýtt par. Nóg er að horfa á einn þátt. Þeir eru allir eins. Fátt ber til tíðinda.
Eitt vekur athygli umfram annað. Það er hvað hátt hlutfall þátttakenda keðjureykir. Ég kannaði málið. Í ljós kom að fjórðungur Breta reykir. Til samanburðar eru Íslendingar ekki að standa sig. Aðeins sjöundi hver reykir.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.9.2020 | 02:15
Afi landsfrægur til áratuga
Afi var heljarmenni; nautsterkur og fylginn sér. Skapið hljóp iðalega með hann í gönur. Hann var varla kominn á unglingsár þegar hann var farinn að slást við fullorðna menn. Þeir lömdu hann. Pabbi hans brá á það ráð að koma honum til náms í hnefaleikum. Eftir að hafa sótt tvo tíma gekk kennarinn á fund föðurins; tjáði honum að ekki væri hægt að kenna afa. Hann kynni ekki að taka leiðsögn. Þegar taka ætti létta æfingu þá missti afi ætið stjórn á skapi sínu og færi að slást eins og upp á líf og dauða.
Eljan í afa dugði vel til bústarfa. Hann breytti stórgrýttum melum í grösug tún. Hann greip ótal misstórra steina í fangið og henti þeim út fyrir túnstæðið. Sumum svo stórum að undrun sætir að hægt hafi verið að bifa þeim. Þetta þótti svo mikið afrek að Kristján 10. Danakonungur verðlaunaði afa fyrir ótrúlegar jarðumbætur. Verðlaunin voru fjármunir sem hjálpuðu afa að reisa glæsilegt íbúðarhús með samfastri hlöðu, fjósi og haughúsi 1937. Það var fyrsta steinhúsið í Hjaltadal.
Þremur áratugum síðar bankaði farandsölumaður á dyr. Hann var að selja stóla. Mamma keypti af honum skrifstofustól og bauð honum í kaffi. Í eldhúsinu sat afi. Þeir sölumaðurinn kynntu sig með nafni. Við að heyra nafn afa sagði sölumaðurinn: "Stefán Guðmundsson á Hrafnhóli. Þetta hljómar kunnuglegt. Ég hef heyrt þetta nafn áður."
Afi svaraði: "Það er nú líkast til. Það var sagt frá því í útvarpinu er ég fékk peningaverðlaun frá Kristjáni 10. Danakonungi."
Kristján 10.
Hrafnhóll
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.7.2020 | 23:42
Af hverju talar fólk um sig í þriðju persónu?
Ég var að horfa á sjónvarpsþátt með bandarískum réttarsálfræðingi, Dr. Phil. Hann talar ítrekað um sig í þriðju persónu. Þetta er ósjálfráð aðferð til að upphefja sig. Skrýtið að sálfræðingur átti sig ekki á þessu. Hann hefur þó upplýst hvað liggur að baki. Pabbi hans var sjálfhverfur alkahólisti. Phil þráði viðurkenningu frá honum. Þó ekki væri nema smá hrós. Það kom aldrei. Honum gekk vel í skóla. En pabbinn lét það sig engu skipta. Phil fékk aldrei neitt jákvætt frá honum.
Kunningi minn átti erfiða æsku. Ólst upp við ofbeldi. Hann talar oftast um sig í þriðju persónu. Og alltaf þegar hann hælir sér af einhverju. Hann segir: "Bjössi eldaði frábæran rétt í gær a la Björn" og "Bjössi veit nú margt um þetta!"
Annan þekki ég sem bætir nafni sínu alltaf við þegar hann vitnar í samtöl sín. Hann lætur viðmælandann hefja setningar á ávarpinu "Ólafur minn..." eða: "Ég get sagt þér, Ólafur minn..."
Heilbrigðismál | Breytt 27.7.2020 kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
28.3.2020 | 00:01
Falskt öryggi
Einnota hanskar eru í tísku um þessar mundir. Hvítir þykja flottastir. Bláir og grænir njóta einnig vinsælda. Annars fer þetta að mestu eftir litnum á fötunum sem fólk klæðist hverju sinni.
Einnota hanskar eru ekki aðeins skemmtilegur klæðnaður. Þeir geta líka spornað gegn útbreiðslu kórónaveirunnar. Eða hvað? Jú, ef rétt er að farið. Verra er að þeir geta einnig gefið falskt öryggi.
Veiran smitast ekki bara við snertingu. Hún svífur um loftin blá; ferðast allt í kringum smitað fólk. Veik manneskja þarf ekki einu sinni að hósta hraustlega til að smita aðra. Henni nægir að anda án rykgrímu.
Einnota hanski venur fólk ekki af því að snerta andlitið á sér. Í hanska flaðrar fólk upp hurðahúna sem löðra í veirum; stigahandrið, innkaupakerrur, slær inn PIN-númer og svo framvegis. Þegar hanskaklætt fólkið snertir síðan á sér andlitið þá er það engu betur sett en berhentir.
Yfirleitt liggja hanskarnir þétt um höndina. Við það verður húðin þvöl. Það er kjörlendi fyrir veiruna. Mikilvægt er að hendur séu vel þurrar þegar þeim er stungið í hanska.
Töluverð kúnst er að fara úr einnota hanska. Margir fara þannig úr þeim að þeir gætu eins sleikt hurðahún.
Tíður handþvottur er heppilegri en hanskar. Hann skilur heldur ekki eftir sig sama sóðaskap og hanskinn. Víða fyrir utan matvöruverslanir má sjá einnota hanska fjúkandi út um öll bílastæði.
Sumir klippa framan af fingrum hanskans; breyta honum í grifflur. Það er töff en veitir falskt öryggi gegn kórónaveirunni.
Heilbrigðismál | Breytt 5.4.2020 kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)