Færsluflokkur: Heilbrigðismál
23.9.2020 | 06:16
Breskir strompar
Á dögunum þurfti ég að vera heimavið í nokkra daga. Til að stytta mér stundir tók ég upp á því að horfa á sjónvarp úr hófi fram. Meðal þess sem fyrir augu bar var breskur raunveruleikaþáttur, Love island. Hópi glæsilegra ungmenna á þrítugsaldri er komið fyrir i reisulegri villu á eyju. Þar er dekrað við hópinn í mat og drykk. Dömurnar spranga um á bikiní og drengirnir á sundskýlu. Enda nýta þau sér sundlaugina.
Leikurinn gengur út á að fólkið pari sig. Þeim sem mistekst er sparkað af eyjunni. Aðrir koma í staðinn. Þeir þurfa að sprengja upp parasamband til að mynda nýtt par. Nóg er að horfa á einn þátt. Þeir eru allir eins. Fátt ber til tíðinda.
Eitt vekur athygli umfram annað. Það er hvað hátt hlutfall þátttakenda keðjureykir. Ég kannaði málið. Í ljós kom að fjórðungur Breta reykir. Til samanburðar eru Íslendingar ekki að standa sig. Aðeins sjöundi hver reykir.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.9.2020 | 02:15
Afi landsfrægur til áratuga
Afi var heljarmenni; nautsterkur og fylginn sér. Skapið hljóp iðalega með hann í gönur. Hann var varla kominn á unglingsár þegar hann var farinn að slást við fullorðna menn. Þeir lömdu hann. Pabbi hans brá á það ráð að koma honum til náms í hnefaleikum. Eftir að hafa sótt tvo tíma gekk kennarinn á fund föðurins; tjáði honum að ekki væri hægt að kenna afa. Hann kynni ekki að taka leiðsögn. Þegar taka ætti létta æfingu þá missti afi ætið stjórn á skapi sínu og færi að slást eins og upp á líf og dauða.
Eljan í afa dugði vel til bústarfa. Hann breytti stórgrýttum melum í grösug tún. Hann greip ótal misstórra steina í fangið og henti þeim út fyrir túnstæðið. Sumum svo stórum að undrun sætir að hægt hafi verið að bifa þeim. Þetta þótti svo mikið afrek að Kristján 10. Danakonungur verðlaunaði afa fyrir ótrúlegar jarðumbætur. Verðlaunin voru fjármunir sem hjálpuðu afa að reisa glæsilegt íbúðarhús með samfastri hlöðu, fjósi og haughúsi 1937. Það var fyrsta steinhúsið í Hjaltadal.
Þremur áratugum síðar bankaði farandsölumaður á dyr. Hann var að selja stóla. Mamma keypti af honum skrifstofustól og bauð honum í kaffi. Í eldhúsinu sat afi. Þeir sölumaðurinn kynntu sig með nafni. Við að heyra nafn afa sagði sölumaðurinn: "Stefán Guðmundsson á Hrafnhóli. Þetta hljómar kunnuglegt. Ég hef heyrt þetta nafn áður."
Afi svaraði: "Það er nú líkast til. Það var sagt frá því í útvarpinu er ég fékk peningaverðlaun frá Kristjáni 10. Danakonungi."
Kristján 10.
Hrafnhóll
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.7.2020 | 23:42
Af hverju talar fólk um sig í þriðju persónu?
Ég var að horfa á sjónvarpsþátt með bandarískum réttarsálfræðingi, Dr. Phil. Hann talar ítrekað um sig í þriðju persónu. Þetta er ósjálfráð aðferð til að upphefja sig. Skrýtið að sálfræðingur átti sig ekki á þessu. Hann hefur þó upplýst hvað liggur að baki. Pabbi hans var sjálfhverfur alkahólisti. Phil þráði viðurkenningu frá honum. Þó ekki væri nema smá hrós. Það kom aldrei. Honum gekk vel í skóla. En pabbinn lét það sig engu skipta. Phil fékk aldrei neitt jákvætt frá honum.
Kunningi minn átti erfiða æsku. Ólst upp við ofbeldi. Hann talar oftast um sig í þriðju persónu. Og alltaf þegar hann hælir sér af einhverju. Hann segir: "Bjössi eldaði frábæran rétt í gær a la Björn" og "Bjössi veit nú margt um þetta!"
Annan þekki ég sem bætir nafni sínu alltaf við þegar hann vitnar í samtöl sín. Hann lætur viðmælandann hefja setningar á ávarpinu "Ólafur minn..." eða: "Ég get sagt þér, Ólafur minn..."
Heilbrigðismál | Breytt 27.7.2020 kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
28.3.2020 | 00:01
Falskt öryggi
Einnota hanskar eru í tísku um þessar mundir. Hvítir þykja flottastir. Bláir og grænir njóta einnig vinsælda. Annars fer þetta að mestu eftir litnum á fötunum sem fólk klæðist hverju sinni.
Einnota hanskar eru ekki aðeins skemmtilegur klæðnaður. Þeir geta líka spornað gegn útbreiðslu kórónaveirunnar. Eða hvað? Jú, ef rétt er að farið. Verra er að þeir geta einnig gefið falskt öryggi.
Veiran smitast ekki bara við snertingu. Hún svífur um loftin blá; ferðast allt í kringum smitað fólk. Veik manneskja þarf ekki einu sinni að hósta hraustlega til að smita aðra. Henni nægir að anda án rykgrímu.
Einnota hanski venur fólk ekki af því að snerta andlitið á sér. Í hanska flaðrar fólk upp hurðahúna sem löðra í veirum; stigahandrið, innkaupakerrur, slær inn PIN-númer og svo framvegis. Þegar hanskaklætt fólkið snertir síðan á sér andlitið þá er það engu betur sett en berhentir.
Yfirleitt liggja hanskarnir þétt um höndina. Við það verður húðin þvöl. Það er kjörlendi fyrir veiruna. Mikilvægt er að hendur séu vel þurrar þegar þeim er stungið í hanska.
Töluverð kúnst er að fara úr einnota hanska. Margir fara þannig úr þeim að þeir gætu eins sleikt hurðahún.
Tíður handþvottur er heppilegri en hanskar. Hann skilur heldur ekki eftir sig sama sóðaskap og hanskinn. Víða fyrir utan matvöruverslanir má sjá einnota hanska fjúkandi út um öll bílastæði.
Sumir klippa framan af fingrum hanskans; breyta honum í grifflur. Það er töff en veitir falskt öryggi gegn kórónaveirunni.
Heilbrigðismál | Breytt 5.4.2020 kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
3.3.2020 | 22:25
Fjölmiðlar ljúga gróflega
Íslenskir fjölmiðlar hafa hamrað á því dögum og vikum saman að coronaveiran - Covid 19 - sé komin til allra Norðurlandanna. Framan af var reyndar hengt við fréttina að Ísland væri undanskilið. Svo kom veiran til Íslands.
Stóra lygin í þessum fréttaflutningi er að veiran hefur ekki borist til Færeyja (í þessum skrifuðu orðum). Hafa Færeyingar þó hvergi dregið af sér að spígspora um Tenerife og Ítalíu.
Ólíklegt er að Færeyingar sleppi við veiruna til frambúðar. Samt. Færeyingar eru heilsubesta þjóð í Evrópu (og kannski í heiminum?). Líka hamingjusamasta þjóð Evrópu (og kannski heims?). Atvinnuþátttaka Færeyinga er sú mesta í Evrópu. Bæði meðal karla og kvenna. 85,4 Færeyinga, 15 ára og eldri, vinna sér til gagns og gamans. Að auki eru Færeyingar frjósamasta þjóð Evrópu. Þannig mætti áfram telja.
Annað en þó þessu skylt. Samkvæmt óstaðfestum fréttum greindist maður í N-Kóreu með veiruna. Hann var skotinn með það sama.
Heilbrigðismál | Breytt 4.3.2020 kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.2.2020 | 23:45
Þannig má laga skemmd lungu
Sígarettur eru ekki eins hollar og margir halda. Að reykja þær veldur ertingu og álagi á lungun. Einkum ef mikið og oft er reykt; þá skaðast lungun. Strompar fá þrálátan hósta, lungnateppu og jafnvel krabbamein, svo fátt eitt sé nefnt.
Háskóli í Maryland í Bandaríkjum Norður-Ameríku hefur rannsakað dæmið og skoðað hvað sé til ráða. Niðurstaðan kemur á óvart. Ávöxturinn tómatur getur gert kraftaverk. Aðeins þarf að snæða tvo tómata á dag til að þeir hefji viðamikla viðgerð á skemmdum lungum.
Tómatsósa skilar minni árangri. Skiptir þar engu máli hvort hún er framleidd úr tómötum eða eplamauki. Hinsvegar geta fersk epli hjálpað.
Heilbrigðismál | Breytt 29.2.2020 kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.2.2020 | 08:43
Heilsuátak Stónsara
Óregluiðnaðurinn hefur átt um sárt að binda síðustu árin. Þetta byrjaði með því að gítarleikari The Rolling Stones, Keith Richards, hætti á gamals aldri að nota eiturlyf. Áður var hann stórtækur neytandi þeirra í hálfa öld. Hann hélt sig ekki við eitthvert eitt eiturlyfið heldur hellti þeim öllum í sig sem hann komst yfir.
Keith gafst upp á dópinu vegna þess að honum þótti eiturlyfin sem eru í boði í dag vera léleg. Útþynnt drasl.
Þessu næst fékk whisky-iðnaðurinn kjaftshögg er hann hætti að þamba daglegan skammt. Hann hætti að drekka áfengi, að eigin sögn. Hefur síðan aðeins drukkið hvítvín og bjór. Nú er það sígarettuiðnaðurinn sem fær höggið. Í október hætti hann að reykja búðarsígarettur. Segist vera hættur að nenna því. Ekki hefur komið fram hvort eða hvað hann reykir í staðinn.
Í fréttum er haldið fram að hann hafi reykt 19 pakka á dag. Það stenst ekki skoðun. Mestu strompar ná ekki að reykja nema 4 eða 5 pakka á dag. Hver sem rétt tala er þá finnur sígarettuiðnaðurinn fyrir heilsuátaki Keiths. Hann segir að mun auðveldara hafa verið að leggja heróínneyslu á hilluna en retturnar.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 14:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.8.2019 | 00:00
Einfaldur skilnaður - ekkert vesen
Hver kannast ekki við illvíga hjónaskilnaði? Svo illvíga að hjónin ráða sér lögfræðinga sem fara með málið til skiptastjóra. Matsmenn eru kallaðir til. Þeir telja teskeiðar, diska og glös. Tímakaupið er 30 þúsund kall. Heildarkostnaðurinn við skilnaðinn er svo hár að allar eigur eru seldar á brunaútsölu til að hægt sé að borga reikningana. Það sem eftir stendur er lítið eða ekkert handa hjónunum.
Miðaldra bóndi í Kambódíu valdi aðra leið er hjónabandið brast eftir tuttugu ár. Hann sagaði húsið í tvennt. Öðrum eigum skipti hann í fjóra hluta. Þau eiga nefnilega tvo syni. Þessu næst lét hann flytja sinn helming hússins heim til aldraðra foreldra sinna. Þar klambraði hann hálfhýsinu utan á hús þeirra.
Konan býr með sonunum í sínu hálfhýsi þar sem stóð.
Maðurinn átti frumkvæðið að skilnaðinum. Hann sakar konuna um að hugsa ekki nógu vel um sig. Hann hafi verið vanræktur eftir að hann fárveiktist andlega.
Heilbrigðismál | Breytt 28.8.2019 kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.7.2019 | 00:04
5 tíma svefn er ekki nægur
Sumt fólk á það til á góðri stundu að hreykja sér af því að það þurfi ekki nema fimm tíma nætursvefn. Þetta hefur verið rannsakað af New York háskóla í læknisfræði. Dr. Rebecca Robbins leiddi rannsóknina. Niðurstaðan er sú að hugmyndin um að fimm tíma svefn sé ekki aðeins bull heldur skaðleg.
Þetta stuttur nætursvefn eykur mjög líkur á fjölda lífshættulegra heilsubresta, svo sem hjartaáfalli, heilablóðfalli og almennt ótímabærum dauða. Fólki er ráðlagt frá því að horfa á sjónvarp fyrir háttatíma. Jafnframt er upplýst að neysla áfengra drykkja undir svefn rýri svefngæði. Frá þessu segir í The Journal Sleep Health en ekki hinu: Að heppilegast sé að stunda morgundrykkju samviskusamlega.
Rannsóknin byggir á yfir 8000 gögnum.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.6.2019 | 17:07
Gáfnafar Íslendinga slagar í asískar þjóðir
Flestir vita að Asíubúar eru gáfaðastir allra jarðarbúa. Þar af skora íbúar Hong Kong og Singapore hæst. Fast á hæla þeirra koma íbúar Suður-Kóreu, Japans, Kína og Tævans. Til að allrar sanngirni sé gætt skal tekið fram að ekki hefur tekist að mæla gáfnafar íbúa Norður-Kóreu. Að sögn þarlendra fjölmiðla búa stjórnendur ríkisins að yfirnáttúrulegu gáfnafari. Og yfirnáttúrulegum hæfileikum á flestum sviðum, ef út í það er farið. Hafa meira að segja sent mannað geimfar til sólarinnar.
Færri vita að Ítalir, Íslendingar og Svisslendingar koma þétt upp að Asíubúum í gáfnafari. Ótrúleg staðreynd ef hliðsjón er höfð af útsendingum frá Alþingi. Málið er að aðrar þjóðir eru vitlausari.
HÉR má sjá listann. Hann er ekki fullkominn, eins og að ofan greinir varðandi Norður-Kóreu. Líka vantar Færeyinga á listann. Þeir eru flokkaðir með Dönum. Eiga áreiðanlega sinn þátt í því að Danir ná 9. sætinu.
Heilbrigðismál | Breytt 24.6.2019 kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)