Færsluflokkur: Heilbrigðismál
15.3.2018 | 03:42
Hvaða áhrif hefur tónlist?
Nútímatækni heilaskanna og allskonar græja hafa staðfest að tónlist hefur gríðarmikil áhrif á okkur. Það var svo sem vitað fyrir. Bara ekki mælt með myndum af starfsemi heilans.
Gamlar rannsóknir leiddu í ljós að sérútfærð músík spiluð í stórmörkuðum getur aukið sölu um fjórðung. Það er rosalega mikið.
Hver og einn einstaklingur þekkir að músík hefur áhrif. Sum lög koma okkur í gott stuð. Önnur framkalla angurværð. Enn önnur framkalla minningar.
Þegar hlustað er á músík verður virkni heilans mikil. Þar á meðal heilastöðvar sem hafa að gera með athyglisgáfu, námsgetu, minni og framtíðaráform.
Tónlist kemur umsvifalaust af stað öflugri framleiðslu á vellíðunarboðefninu dópamín. Það og fleiri boðefni heilans eru á við öflug verkjalyf og kvíðastillandi. Eru að auki örvandi gleðigjafar og efla varnarkerfi líkamans svo um munar. Til viðbótar bætist við framleiðsla á hormónum sem einnig efla varnarkerfi líkamans.
Sjúklingar sem hlusta á sína uppáhaldsmúsík áður en þeir gangast undir uppskurð framleiða hormónið cortisol. Það eyðir áhyggjum og streitu.
Þegar hlustað er á uppáhaldstónlist þá verða viðhorf gagnvart öðrum jákvæðari. Fólk verður félagslyndara. Finnur jafnvel fyrir sterkri löngun til að bjóða upp í dans.
Börn sem læra á hljóðfæri stækka þann hluta heilans sem hefur að gera með sköpunargáfu í víðtækustu merkingu. Sú er ástæðan fyrir því að flestir tónlistarmenn eru jafnframt áhugasamir um aðrar listgreinar. Bítlarnir eru gott dæmi. John Lennon var myndlistamaður og rithöfundur. Paul McCartney var áhugateiknari og sendi frá sér teiknimyndabók. George Harrison var með leiklistadellu og gaf út kvikmyndir Monthy Pyton. Ringo Starr var einnig með leiklistadellu. Hann lék í fleiri kvikmyndum en Bítlamyndum. John Lennon sagði að ef liðsmenn Bítlanna hefðu ekki náð saman á réttu augnabliki og á réttum forsendum þá hefði aðeins Ringo náð að spjara sig. Hann væri það hæfileikaríkur leikari.
Hægur taktur tónlistar lækkar blóðþrýsting. Hún er einnig besta meðal gegn mígreni og höfuðverk. Meira en það: Hlustun á uppáhaldstónlist dregur mjög svo verulega úr flogaköstum veikra. Músíkástríða mín sem barns kvað niður flogaveikiköst (þau voru af gerð sem kallast drómasýki).
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.3.2018 | 02:31
Einkennilegt mál skekur Færeyjar
Glæpir eru fátíðir í Færeyjum. Helst að Íslendingar og aðrir útlendingar séu til vandræða þar. Sömuleiðis eru Færeyingar óspilltasta þjóð Evrópu. Að auki fer lítið fyrir eiturlyfjaneyslu. Í einhverjum tilfellum laumast ungir Færeyingar til að heimsækja Kristjaníu í Kaupmannahafnarferð og fikta við kannabis. Einstaka maður.
Í ljósi þessa er stórundarlegt mál komið upp í Færeyjum. Það snýr að virtum þingmanni, sveitarstjórnarmanni í Tvöreyri og lögregluþjóni. Sá heitir Bjarni Hammer. Hann hefur nú sagt af sér embættum. Ástæðan er sú að hann reyndi að selja ungum stúlkum hass.
Bjarni var lögþingsmaður Jafnaðarmannaflokksins. Önnur stúlkan er formaður ungliðahreyfingar Þjóðveldisflokksins. Hin i Framsóknarflokknum. Þær geymdu upptöku af samskiptunum.
Í Færeyjum er gefið út eitt dagblað. Það heitir Sósialurin. Ritstjóri er hin ofurfagra Barbara Hólm. Hún er gift forsprakka pönksveitarinnar 200, sem á fjölmarga aðdáendur á Íslandi og hefur margoft spilað hér. Barbara er fyrrverandi formaður ungliðahreyfingar Þjóðveldisflokksins. Hún frétti af málinu frá fyrstu hendi. Stormaði umsvifalaust með upptökuna til lögreglunnar og upplýsti málið í Sósíalnum.
Almenningur fékk áfall. Viðbrögð flokkssystkina Bjarna eru þau að fullyrða að málið sé pólitískt. Ósvífnir pólitískir andstæðingar Jafnaðarmanna hafi með slóttugheitum gómað hrekklaust góðmenni í gildru. Misnotað rómaðan velvilja manns sem leggur sig fram um að hjálpa og greiða götu allra.
Vinur Bjarna hefur stigið fram og lýst því yfir að hann hafi komið í heimsókn til sín 2014. Þar var fleira fólk. Vinurinn kallar á konu sína til vitnis um að í það skiptið hafi Bjarni hvorki gefið né selt vímuefni.
Annað þessu skylt; um væntanlega útgáfu ríkisins á vest-norrænni söngbók. Smella HÉR
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.2.2018 | 19:55
Grænlendingum fækkar
Íslendingum fjölgar sem aldrei fyrr. Veitir ekki af. Einhverjir þurfa að standa undir klaufalegum fjárfestingum lífeyrissjóða. Líka ofurlaunum stjórnarmanna lífeyrissjóða og fyrirtækja sem þeir fjárfesta í. Tröllvaxinn ferðamannaiðnaður kallar á vinnandi hendur. Rótgrónir Íslendingar vilja ekki vinna í fiski, við þrif eða við ummönnun. Þá koma útlendingar til góða sem gerast íslenskir ríkisborgarar.
Á síðasta áratug - 2007-2017 - fjölgaði Íslendingum svo um munar. Ekki vegna frjósemi heldur vegna innflytjenda. 2007 voru Íslendingar 307 þús. Í dag erum við nálægt 350 þús.
Færeyingar eru frjósamastir norrænna þjóða. Þeir eru iðnir við kolann. Enda fegurstir og kynþokkafyllstir. 2007 voru þeir 48 þús. Í dag eru þeir yfir 50 þús.
Norðmönnum fjölgaði um 12,3%. Þökk sé innflytjendum. Meðal annars Íslendingum í þúsundatali. Flestir með meirapróf. Íbúar Noregs, Finnlands og Danmörku eru hver um sig vel á sjöttu milljón. Svíar eru 10 milljónir. Samanlagt erum við norrænu þjóðirnar um 30 milljónir. Fjölgar árlega.
Verra er að Grænlendingum fækkar. Undanfarin ár hafa þeir ýmist staðið í stað eða fækkað. 2007 voru þeir næstum 57 þúsund. Í fyrra voru þeir innan við 56 þúsund. Ekki gott. Á móti vegur að íslenskt fyrirtæki hefur tryggt sér rétt til gullgrafar á Grænlandi.
Heilbrigðismál | Breytt 21.2.2018 kl. 06:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.1.2018 | 00:04
Íslandsvinur hannar neyðarhjálpardróna
Á fyrri hluta aldarinnar var breski olympíuskylmingameistarinn og rokksöngvarinn Bruce Dickinson með annan fótinn á Íslandi. Hann var flugmaður hjá Iceland Express og söng - og syngur enn - með þungarokkshljómsveitinni Iron Maiden.
Heimsathygli vakti um árið þegar Iron Maiden var aðalnúmer á Hróarskeldurokkhátíðinni í Danmörku. Aðdáendur Iron Maiden frá Ameríku og víðar tóku framhaldsflug frá Keflavík. Andlitið datt af þeim við flugtak þegar flugmaðurinn kynnti sig í hátalarakerfi: Bruce Dickinson.
Brúsi er um margt ólíkur rokkstjörnuímyndinni. Hann hefur aldrei notað vímuefni. Þess í stað lærði hann sagnfræði; hefur skrifað sagnfræðibækur. Söngtextar hans bera merki áhuga hans á sögunni. A sviði er hann engu að síður rokkstjarnan sem gefur allt í botn. Hann segist vera rosalega ofvirkur. Sú er ástæðan fyrir því að hann sniðgengur vímuefni - vitandi að annað hvort er í ökkla eða eyra. Aldrei neitt þar á milli.
Að undanförnu hefur Brúsi unnið að hönnun neyðarhjálpardróna; flygildis sem getur borið hjálpargögn til fólks á hamfarasvæðum þar sem öðrum leiðum verður illa við komið. Uppskrift hans gengur út á að koma hjálpargögnum til 50 manns á einu bretti. Þar á meðal vatni, mat og sjúkravörum.
Útgangspunkturinn og sérstaða í hönnun Brúsa er að flygildið sé kolefnafrítt. Jafnframt svo ódýrt í innkaupum og ódýrt í rekstri að hjálparsveitum muni ekki um að bæta því í búnað sinn.
Brúsi er 60 ára og hefur selt yfir 100 milljónir platna.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.12.2017 | 08:34
Nýræð í 14 mánaða fengelsi
Í Þýskalandi er bannað að afneita helför gyðinga á fyrri hluta síðustu aldar. Því er haldið fram að sex milljónir gyðinga hafi verið myrtir af nasistum. Sumir telja töluna vera ónákvæma. Hvað sem til er í því þá liggur í Þýskalandi allt að fimm ára fangelsisrefsing við því að þvertaka fyrir morðin. Slíkt er skilgreint sem hvatning til kynþáttahaturs.
Öldruð þýsk nasistafrú, Ursula Haverbeck, lætur það ekki á sig fá. Í fyrra var hún dæmd til 8 mánaða fangelsunar er hún reyndi að sannfæra borgarstjórann í Detmold um að það væri haugalygi að í Auschawitz hafi verið starfrækt útrýmingarstöð. Sú gamla forhertist. Hún reyndi að sannfæra dómara, saksóknara og alla sem heyra vildu að allt tal um útrýmingarbúðir væri viðurstyggileg lygi og áróður. Var henni þá gerð aukarefsing. Nú er hún 89 ára á leið á bak við lás og slá í 14 mánuði. Hún lýkur afplánun 2019 og heldur þá upp á 91 árs afmælið.
Heilbrigðismál | Breytt 2.12.2017 kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
20.11.2017 | 07:59
Illmenni
Varasamt er að lesa spádóma út úr dægurlagatextum. Einkum og sér í lagi spádóma um framtíðina. Bandaríski fjöldamorðinginn Charles Manson féll í þessa gryfju. Hann las skilaboð út úr textum Bítlanna. Reyndar er pínulítið ónákvæmt að kalla Manson fjöldamorðingja. Hann drap enga. Hinsvegar hvatti hann áhangendur sína til að myrða tiltekna einstaklinga.
Út úr Bítlalögunum "Blackbird" og "Helter Skelter" las kallinn spádóm um að blökkumenn væru að taka yfir í Bandaríkjunum. Ofsahræðsla greip hann. Viðbrögðin urðu þau að grípa til forvarna. Hrinda af stað uppreisn gegn blökkumönnum. Til þess þyrfti að drepa hvítt fólk og varpa sökinni á blökkumenn.
Áhangendur Mansons meðtóku boðskap hans gagnrýnislaust. Þeir hófust þegar handa. Drápu fólk og skrifuðu - með blóði fórnarlambanna - rasísk skilaboð á veggi. Skilaboð sem hljómuðu eins og skrifuð af blökkumönnum. Áður en yfir lauk lágu 9 manns í valnum.
Samhliða þessu tók Manson-klíkan að safna vopnum og fela út í eyðimörk. Stríðið var að skella á.
Spádómarnir sem Manson fór eftir rættust ekki. Það eina sem gerðist var að klíkunni var stungið í fangelsi.
Hið rétta er að Paul var með meiningar í "Blackbird"; hvatningarorð til bandarísku mannréttindahreyfingarinnar sem stóið sem hæst þarna á sjöunda áratugnum.
Charles Manson var tónlistarmaður. Ekkert merkilegur. Þó voru the Beach Boys búnir að taka upp á sína arma lag eftir hann og gefa út á plötu - áður en upp um illan hug hans komst.
![]() |
Charles Manson er látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
4.11.2017 | 13:26
Með 639 nagla í maganum
Mataræði fólks er allavega. Sumir eru matvandir. Setja sér strangar reglur um það hvað má láta inn fyrir varirnar. Sneiða hjá kjöti. Sneiða hjá öllum dýraafurðum. Sumir snæða einungis hráfæði sem hefur ekki verið hitað yfir 40 gráðum. Sumir sneiða hjá sykri og hveiti. Aðrir lifa á sætindum og deyja. Enn aðrir borða allt sem á borð er borið. Jafnvel skordýr.
Fáir borða nagla. Hvorki stálnagla né járngaura. Nema 48 ára Indverji. Honum var illt í maganum og fór til læknis. Við gegnumlýsingu sást fjöldi nagla í maga og þörmum. Er hann var skorinn upp með hraði reyndust naglarnir vera 639. Flestir 5 - 6 cm langir.
Maðurinn hafði verið blóðlítill. Hann kannaðist ráðið um að taka inn járn við því. Naglar virtust hentugri en annað járn. Það var auðvelt að kyngja þeim með vatni. Til tilbreytingar át hann dálítið af járnauðugri mold af og til.
Þetta virtist virka vel. Þangað til að honum varð illt í mallakútnum.
Eigandi litlu byggingarvöruverslunarinnar í hverfinu óttast að kallinn hætti að kaupa nagla af sér. Það var einmitt hann sem fræddi kauða um nauðsyn þess að taka inn járn við blóðleysi.
.
Heilbrigðismál | Breytt 5.11.2017 kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.11.2017 | 07:42
Óstundvísir eru í góðum málum
Það er eins og sumt fólk kunni ekki á klukku. Það mætir alltaf of seint. Stundvísum til ama. Þeir sem bölva óstundvísi mest og ákafast telja hana vera vondan löst.
Nú hefur þetta verið rannsakað. Niðurstaðan er sú að óstundvísir séu farsælli í lífinu og lifi lengur. Þeir eru bjartsýnni og afslappaðri. Eiga auðveldara með að hugsa út fyrir boxið og sjá hlutina í stærra samhengi. Eru ævintýragjarnari og eiga fleiri áhugamál. 5 mínútur til eða frá skipta engu máli. Þeir þurfa ekki langtímaplan til að bóka flug, hótelgistingu, rútu eða lest. Taka bara næsta flug. Ef það er uppbókað þá hlýtur að vera laust sæti í þarnæsta flugi. Ekki málið. Engin ástæða til að "gúgla" veitingahús á væntanlegum áfangastað. Því síður að bóka borð. Eðlilegra er að skima aðeins í kringum sig kominn á staðinn. Láta ókunnugt veitingahús koma sér á óvart. Skyndibiti í næstu sölulúgu kemur líka til greina. Þannig hlutir skipta litlu máli. Peningar líka.
Önnur rannsókn hefur leitt í ljós að sölumenn sem skora hæst í bjartsýnimælingu selja 88% meira en svartsýnir. Samanburður á A fólki (ákaft, óþolinmótt) og B fólki (afslappað, skapandi hugsun, óstundvísi) sýnir ólíkt tímaskyn. A fólk upplifir mínútu sem 58 sek. B fólkið upplifir hana sem 77 sek. A fólk er mun líklegra til að fá kransæða- og hjartasjúkdóma.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.10.2017 | 06:23
Allt er þá þrennt er
Útlendir ferðamenn á Íslandi hafa stundum á orði að Ísland sé mjög ameríkanserað. Hvert sem litið er blasi við bandarískar keðjur á borð við KFC, Subway, Dominos og svo framvegis. Í matvöruverslunum svigni hillur undir stæðum af bandarísku morgunkorni, bandarísku sælgæti og ropvatni á borð við Coca-Cola, Pepsi og Sprite. Ekkert nema gott um það að segja.
Á skjön við þetta gerðust um árið þau undur að flaggskip bandarísks ruslfæðis, McDonalds, kafsigldi á Íslandi. Var það í fyrsta skipti í sögunni sem McDonalds hrökklaðist úr landi vegna dræmra viðskipta.
Nokkru síðar hvarf keppinauturinn Burger King á braut af sömu ástæðu. Nú er röðin komin að Dunkin Donuts á kveðja. Krummi í Mínus og frú voru forspá er þau köstuðu kveðju á kleinuhringjastaðinn við opnun. Svo skemmtilega vill til að þau eru að opna spennandi veitingastað í Tryggvagötu, Veganæs. Bæ, bæ Dunkin Donuts. Helló Veganæs!
![]() |
Loka Dunkin' Donuts á Laugavegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 06:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
23.10.2017 | 08:07
Hvernig er hann á litinn?
Á síðustu dögum fyrir alþingiskosningar er gott og holt að hvíla sig einstaka sinnum á þrefi um framboðslista, frambjóðendur, kosningaloforð, reynslu sögunnar og annað sem máli skiptir. Besta hvíldin fæst með því að þrefa um eitthvað sem skiptir ekki máli. Til að mynda hvernig skórinn á myndinni er á litinn.
Í útlöndum er rifist um það. Sumir segja hann vera ljósbleikan með hvítri reim. Heldur fleiri segja hann vera gráan með blágrænni (túrkís) reim.
Upphaf deilunnar má rekja til breskra mæðgna. Þær voru ósammála um litina. Leitað var á náðir Fésbókar. Sitt sýnist hverjum.
Þetta minnir á eldri deilu um lit á kjól. Sumir sáu hann sem hvítan og gylltan. Aðrir sem svartan og bláan. Niðurstaðan varð sú að litaskynjunin fór eftir því hvort áhorfandinn er A fólk (morgunhanar) eða B fólk (vakir frameftir). Aldur spilar einnig inn í.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)