Forvitnilegasti norræni matur

norrænn matur. svið

  Danska fréttablaðið Politiken hefur tekið saman og birt lista yfir forvitnilegustu norræna rétti sem brýn ástæða er til að prófa.  Réttunum er ekki raðað upp í númer.  Mikilvægi réttanna ræðst sennilega frekar af því hvar sælkerinn er staddur og hvenær hann hefur tækifæri til að smakka góðgætið.  Þetta eru helstu réttir sem taldir eru upp (algengum skandinavískum réttum,  svo sem biximat,  gröfnum laxi og þess háttar er sleppt):
.
Danskt:  Smurt franskbrauð með örþunnum súkkulaðiplötum.
Íslenskt:  Hrossakjöt.  Það er meira að segja hægt að kaupa hrossakjöt í íslenskum matvöruverslunum.  Ótrúlegt en satt. 
Danskt:  Rauðgrautur með rjóma.  Grauturinn er búinn til úr jarðarberjum,  rifsberum og eða hindberjum.
Sænskt:  Kjötbollur með kartöflumús og títuberjasultu.  Fæst m.a. í Ikea.
Íslenskt:  Söl.  Íslendingar borða þurrkuð söl eins og hvert annað snakk.  Að sögn ótrúlega hollt.
Sænskt:  Kavíar í túpu (reykt þorskahrogn bragðbætt með salti,  sykri,  tómatmauki o.fl.).
Færeyskt:  Marsvín (grindhvalakjöt)
Norskt:  Vöfflur með smjöri og mysuosti
Grænlenskt:  Hvalspik og -húð.  Snætt hrátt.  Tuggið vel og lengi eins og tyggjó.
Danskt:  Þurrkaðir svínapörustrimlar sem snakk.
Sænskt:  Pylsa með sinnepi,  majónesi og kartöflumús borið fram með kakómjólk.
Íslenskt:  Svið.  Nei,  þetta er ekki eitthvað sem einungis örfáir sérvitringar snæða.  Sviðnir og sundursagaðir kindahausar eru seldir í íslenskum matvöruverslunum.  Fólk borðar kinnar,  húð,  tungu og augun.
Finnskt:  Marinerað hreindýrakjöt.
Íslenskt:  Skyr.  Gerilsneyddar mjólkurvörur njóta vinsælda um öll Norðurlönd.  En aðeins Íslendingar bjóða upp á skyr.
Norskt:  Bakkaló.  Saltfisksréttur með lauki,  papriku o.fl.
Sænskt:  Úldin smásíld borðuð með flatkökum,  kartöflum og fleiru.  Þykir bragðmild og algjört sælgæti.
Sænskt:  Soðnir vatnakrabbar.  Snæddir kaldir.
Danskt:  Brauðsúpa með rjóma.
Grænlenskt:  Riklingur.  Þurrkuð lúða eða loðna.
Grænlenskt:  Selkjötssúpa.
Íslenskt:  Kæstur hákarl
Færeyskt:  Siginn fiskur
Danskt:  Rúgbrauðssamloka með lifrarkæfu,  4 þunnum saltkjötssneiðum,  hráum laukhringjum  og fleiru. 
Danskt:  Reyktur ostur.
Færeyskt:  Skerpukjöt.  Þurrkað lambalæri. 
Danskt:  Kálfabrjóst með piparrótarsósu.
Norskt:  Saltað,  reykt og þurrkað geitakjöt.
Sænskt:  "Dýft í grautinn".  Brauði er dýft ofan í soðið af soðinni jólaskinku. 
Íslenskt:  Djúpsteiktar kleinur.  Þekkjast líka sem fátækrabrauð í Noregi og Svíþjóð.
Finnskt:  Djúpsteikt deig með fyllingu úr kjöthakki,  lauki og hrísgrjónum.  Er selt bæði á matsölustöðum og í kaffihúsum.
Færeyskt:  Fylltur lundi.  Fyllingin er sætt kökudeig með rúsínum.
.
norrænn matur. hákarl
  Hákarlinn er girnilegur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svið með rófustöppu nammi namm,soðkökur,kleinur,léttsaltað hrossakjöt,allt gott.

Margret (IP-tala skráð) 3.10.2011 kl. 12:28

2 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Sviða hausar eru m.a. notaðir í tyrklandi- og súpa af soðinu !  ekki gott !

 Svið eru lika borðuð í Afriku- ekki kannski allstaðar !

Erla Magna Alexandersdóttir, 3.10.2011 kl. 21:36

3 Smámynd: Jens Guð

  Margret,  við erum að tala um alvöru veislumat.  Það er undarlegt að sumir útlendingar kunna ekki vel að meta.  Ég þekki tvenn dæmi þess að útlendingar hafi frétt af því eftir máltíð að þeir hafi snætt hrossakjöt og þá ældu þeir eins og múkkar við tíðindin.  Samt þótti þeim kjötið gott á meðan þeir borðuðu það.

  Eitt sinn var ég staddur á matsölustað BSÍ.  Ég var rétt að ljúka þar málsverði þegar franskt sjónvarpslið keypti sviðakjamma og hóf að gera dagskrá um hann.  Ég kann ekki frönsku en sá að liðið kúgaðist á meðan það var að sýna augað, eyrað og það allt.  Ef ég hefði ekki verið orðinn pakksaddur hefði ég snætt þetta góðgæti fyrir Frakkana.  

  Gott að þú nefnidr soðkökur.  Þær eru nefnilega taldar upp í Politiken sem sænskur matur.  Mér tókst bara ekki að rifja upp íslenska nafnið á fyrirbærinu þannig að ég sleppti því í upptalningunni.  

Jens Guð, 3.10.2011 kl. 22:19

4 Smámynd: Jens Guð

  Erla Magna,  takk fyrir þessar upplýsingar.  Fyrir mörgum árum fluttu nokkrir fátækir íslenskir námsmenn til Svíþjóðar.  Þeir bjuggu nánast við hlið á sláturhúsi.  Þeir fengu leyfi til að hirða kindahausa og fengu aðstöðu til að svíða þá og gott ef ekki matreiða þá einnig á staðnum og borða.  Þetta er svo langt síðan að ég man ekki atburðarrás almennilega.  Nema að starfsfólk sláturhússins fór að taka frá kindahausa fyrir Íslendingana.  Starfsfólki var ekki Svíar en ég man ekki hvaðan frá það var.  Nema að eitt sinn er það lét Íslendingana fá poka með kindahausum lét það annan poka fylgja með og hann innihélt hænsnahausa.  Blessað fólkið hélt að Íslendingar væru gráðugir í alla hausa.

Jens Guð, 3.10.2011 kl. 22:31

5 identicon

Ég slefa bara, það er svo margt þarna sem er ofumáta gott og mig langar að smakka.

Villi Kristjáns (IP-tala skráð) 4.10.2011 kl. 00:19

6 Smámynd: Jens Guð

  Villi,  ég tek undir það.

Jens Guð, 4.10.2011 kl. 10:32

7 Smámynd: Sigurbjörg Sigurðardóttir

Sigurbjörg Sigurðardóttir, 4.10.2011 kl. 17:37

8 Smámynd: Karl Jóhann Guðnason

Góður listi, var spurður nýlega hvað væri íslenskur matur en þurfti að hugsa mig um.  En það er margt í rauninni og maður þarf að eins að fara til útlanda til að gera sér grein fyrir því og sjá hvað við höfum það gott.

Er hrossakjöt sér íslenskt? eða er hægt að fá það annars staðar?

Karl Jóhann Guðnason, 12.10.2011 kl. 15:53

9 Smámynd: Jens Guð

  Sibba,  takk fyrir innlitið.

Jens Guð, 12.10.2011 kl. 22:11

10 Smámynd: Jens Guð

  Karl Jóhann,  í árhundruð boðaði kirkjan að einungis mætti borða þau dýr merkurinnar sem jórtra OG hafa klaufir.  Svínið hefur klaufir en jórtrar ekki.  Hesturinn hefur hófa og jórtrar ekki.  Að sumu leyti var klókt að hrossakjötsát væri fordæmt.  Án þess hefðu svangir kotbændur freystast til að slátra hesti sínum að vetri og sitja síðan uppi bjargarlaus þegar kæmi að bústörfum um sumarið.

  Þegar Íslendingar tóku kristni var um það samið að þeir mættu stunda heiðna siði í laumi.  Ásatrúarmenn nýttu sér það og borðuðu hrossakjöt svo lítið bar á.  Þá kom upp kvittur um að af fólki sem borðaði hrossakjöt leggði stæka hrossafýlu svo vikum skipti.  Þetta fældi marga frá því að borða hrossakjöt.  

  Í aldanna rás gleymdi fólk því að það færi til helvítis ef það borðaði hrossakjöt.  Eftir lifði hræðslan við að anga eins og hrossaskítur.  Hrossakjötsát varð ekki útbreitt á Íslandi fyrr en á síðustu öld,  eða um svipað leyti og Íslendingar fóru að borða svínakjöt og kjúklinga.  Hrossakjötsát hefur hinsvegar ekki rutt sér til rúms erlendis.  Nema í Japan.  Þar er það skorið í örþunnar sneiðar og borðað hrátt.

Jens Guð, 12.10.2011 kl. 22:33

11 Smámynd: Karl Jóhann Guðnason

Takk fyrir þetta svar. Merkileg saga þarna á bakvið!

Karl Jóhann Guðnason, 13.10.2011 kl. 07:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband