Falleg minningarathöfn um Rasmus í Fríkirkjunni

rasmus-rasmussen-_1176080.jpg

 rasmus-poems_1176081.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Útför Rasmusar Rasmussen fór fram í Færeyjum í gærdag (laugardag).  Á annað þúsund manns mætti til að kveðja þennan merka gítarleikara og tónlistarmann.  Um kvöldið var minningarsamkoma um hann á veitingastaðnum Sirkusi í Þórshöfn.  Færri komust að en vildu.  Þarna spilaði gamla hljómsveitin hans,  Makrel.  Einnig hljómsveitin Deja Vu og fleira tónlistarfólk.

  Rasmus var svo sannarlega vinamargur.  Allir sem honum kynntust hittu fyrir ljúfan, hæglátan, glaðværan og brosmildan dreng.  Allir sem honum kynntust urðu umsvifalaust góðir vinir hans.  Hann var traustur,  einlægur og góður vinur.

  Ljúfmennska Rasmusar stangaðist skemmtilega á við harða,  þunga og háværa rokkið sem hann sótti í.  Hann naut sín best á sviði þegar lætin voru sem mest, hávaðinn mestur og rokkið þyngst.  Þegar hann kíkti í heimsókn til mín vildi hann heyra þær íslensku plötur sem buðu upp á mest "brútal" harðkjarnarokk.  Hljómsveitin Mínus var í sérstöku uppáhaldi.

  Kolbrún Edda Sigurhansdóttir stóð fyrir minningarathöfn um Rasmus við Reykjavíkurtjörn og í Fríkirkjunni í gærkvöldi.   Athöfnin hófst með kertafleytingu á tjörninni við Iðnó.  Síðan var samverustund í Fríkirkjunni.  Það má sjá upphaf athafnarinnar á http:/www.ruv.is/sarpurinn/sjonvarpsfrettir . Fletta upp á 14. okt og mínútu 11:16.

  Í Fríkirkjunni og við kertafleytingu stýrði Hörður Torfason dagskránni.  Hann flutti nokkur lög og spjallaði við gesti.  Færeyska söngkonan Guðríð (nafnið er framborið Gúrí) Hansdóttir flutti lag eftir Rasmus. Ég flutti ávarp og lagði áherslu á að ekki megi heimfæra yfir á Færeyinga í heild ofbeldið og ofsóknir sem Rasmus sætti af hálfu örfárra.  Alls ekki.  Færeyingar almennt eru gott fólk.  Eins og Rasmus. 

  Séra Hjörtur Magni Jóhannsson,  prestur Fríkirkjunnar,  ávarpaði einnig kirkjugesti og bauð okkur að kveikja á kertum til minningar um Rasmus. Þetta var falleg stund. 

  Ég færi Kolbrúnu Eddu sérstakar þakkir fyrir framtakið.   Einnig Herði Torfa,  Guðríði,  Hirti Magna,  Fríkirkjunni og þeim fjöldamörgu sem mættu í samverustundina. 

  Sömuleiðis færi ég íslenskum fjölmiðlum bestu þakkir fyrir góða umfjöllun í kjölfar fráfalls Rasmusar og öllu sem því tengist.  Það var sómi að og nærgætni.

  Rasmus hafði dálæti á Íslandi,  íslenskri rokkmúsík og það var yndislegt að fá að taka þátt í þessari minningarathöfn.  Eftir að ráðist var á Rasmus í Þórshöfn margsagði hann mér að stuðningsbylgjan sem hann fékk frá Íslendingum hafi skipt hann öllu máli.

  2008 spilaði og söng Rasmus á 30 ára afmæli Samtakanna 78.  Ég heilsaði að sjálfsögðu upp á hann, ásamt Ingólfi Júlíussyni,  gítarleikara Q4U.  Ingó var búinn að vinna í Færeyjum myndbönd fyrir færeysku hljómsveitina Tý og hafði kynnst Rasmusi.  Nokkrum dögum síðar skrifaði Rasmus mér tölvupóst og sagði eitthvað á þessa leið:  "Ég geri mér grein fyrir því að það var ekkert mikið mál fyrir ykkur Ingó að heilsa upp á mig.  En þið getið aldrei ímyndað ykkur hvað það gaf mér mikinn styrk að finna þennan stuðning frá ykkur í verki."   Hann bað mig um að skila þessu til Ingós.  Ingó varð jafn hissa og ég á að þetta skipti Rasmus svona miklu máli.  Rasmus var vinur okkar og auðvitað heilsuðum við upp á hann þegar hann var á Íslandi.

  Rasmus upplifði sig eftir árásina 2006 sem byrði á fjölskyldu sinni og vinum.  Hann hætti í hljómsveitinni Makrel til að hinir í hljómsveitinni þyrftu ekki að svara fyrir það að vera með homma í hljómsveitinni.  Rasmus átti það til að eyða símanúmeri sínu og neita að taka á móti heimsóknum á geðdeildinni og neita að taka við símtölum. Ég lenti í því oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að hann var búinn að biðja mig um að heilsa upp á sig þegar ég kæmi til Færeyja (ég fer þangað 2 - 3 árlega).  Þegar á reyndi var hann í sjálfskipaðri einangrun.  En ekki alltaf.  Við vorum í samskiptum fram á síðasta dag.  Stundum spjölluðum við á fésbók klukkustundum saman.  Stundum var Rasmus hamingjusamur og með ýmis áform varðandi músík.  Stundum var hann langt niðri og fannst hann vera byrði á öllum. 

   Hann stofnaði plötuúgáfufyrirtæki sem bar hið dimma nafn Myrkar Records (Myrkurs plötur).  Hann gaf út plötu undir hljómsveitarnafninu Hatursvart.  Upphafslag plötunnar heitir Í skugganum hjá djöflinum.  Hann sendi frá sér plötu undir listamannsnafninu  Mjörkeborg (í merkingunni eiturskýjaborg eða eiturþokuborg). Það leyndi sér ekki að þungt var yfir bænum.

  Rasmus sendi mér alltaf sýnishorn af öllu sem hann var að gera í músík.  Hann sendi mér einnig plöturnar með áletruninni "Jens Guð, takk! Rasmus". Í tölvupóstum var hann yfirleitt jákvæðurog glaður.  Á morgun ætla ég birta póst sem hann sendi mér mánuði eftir að hann var vistaður á geðdeild.  Ég las þann póst á minningarathöfninni og sumir klökknuðu við.  Ég líka.

.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst einhvern veginn gott að heyra að margir hafi verið á jarðarförinni þarna. Athöfnin í Fríkirkjuni var falleg já, ég var sérstaklega hrifinn af Guðríð Hansen útgáfunni af mekrel laginu forever and beyond, gerði það á einstakan hátt af einlægni. Gekk framhjá tjörninni aftur á heimleið og mér fannst fallegt að sjá að 20-30 fljótandi kertin loguðu enn á henni en nú án fólks.  Man eftir tónleikunum á Grandrokk þar sem Makrel spilaði ásamt Deja Vu á sínum tíma, báðar sveitirnar voru frábærar.

Ari (IP-tala skráð) 15.10.2012 kl. 00:42

2 Smámynd: Jens Guð

  Ari,  takk fyrir þín orð.  Mér þótti flutningur Guðríðar á þessu lagi áhfrifamikill og fallegur.  Hún náði að túlka fegurð lagsins.  Ég komst við þegar kirkjugestir yfirgáfu samkonuna og margir voru tárvotir og klökkir.  Margir ókunnugir þökkuðu mér með handabandi fyrir ávarp mitt  Ég gerði þó ekki annað en kveðja góðan vin og minnast hans. 

Jens Guð, 15.10.2012 kl. 01:55

3 identicon

Gott framtak hjá ykkur.   Vona að færeysku ofbeldismennirnir sem eyðilögðu Rasmus hafi fylgst með þessum skrifum þínum og kunni að skammast sín.   Á hinsvegar ekki von á ví að Snorri ( fyrrum kennari á Akureyri ) og félagar hans á Omega kunni að skammast sín fyrir sínar öfgafyullu skoðanir og fordóma. 

Stefán (IP-tala skráð) 15.10.2012 kl. 08:24

4 identicon

Mér finnst þetta soldið skrítið með að hafa þetta í kirkju, er kirkjan og trúin ekki akkúrat það sem stuðlaði að dauða hans.

DoctorE (IP-tala skráð) 15.10.2012 kl. 09:01

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Virkilega falleg athöfn og ræðan þín er minnisstæðasta líkræða sem ég hef nokkru sinni heyrt.  Takk fyrir þetta allt Jens og þið hin sem lögðuð hönd á plóg.

Sigurður Þórðarson, 15.10.2012 kl. 10:40

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jens minn mikið er gott að heyra hve þú hefur gert þessum pilti góð skil.  Þú ert einstök manneskja og gott að eiga þig að sem vin. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.10.2012 kl. 17:38

7 identicon

Takk fyrir ræðuna þína í gærkvöldi, Jens. Hún var einlæg og sönn en þegar þú last síðasta bréfið sem Rasmus skrifaði setti það mig alveg út af laginu því þetta voru hugsanir sem ég þekkti svo vel þegar ég var í svipuðum sporum og Rasmus og meira að segja á sama aldri. Ég lifði þær af en Rasmus fór halloka, þvi miður. Ég átti mjög erfitt með að halda aftur af mér það sem eftir var athafnarinnar. Ég gat ekki fundið ræðuna mína en vona að ég hafi komist skammarlaust frá mínu framlagi.

Hörður Torfason (IP-tala skráð) 15.10.2012 kl. 20:25

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Elsku Hörður minn, það þekki ég til þín að ég veit að þú kemst skammlaust frá öllu sem þú tekur þér fyrir hendur, segi og skrifa minn kæri.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.10.2012 kl. 20:27

9 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  Snorri og hans líkar (einnig í Færeyjum) halda sig blessunarlega til hlés þessa dagana.

Jens Guð, 15.10.2012 kl. 23:37

10 Smámynd: Jens Guð

  DoctorE,  öfgafyllstu illgjarnir bókstafstrúarmenn eru ekki samnefnari fyrir kirkjuna og trúaða almennt.  Fríkirkjan er dæmi um umburðarlynda og víðsýna kirkju.  Það skipti öllu máli að minnast Rasmusar á friðsælan hátt og hafa þetta fallega samverustund.  Það tókst.   

Jens Guð, 15.10.2012 kl. 23:50

11 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður,  takk sömuleiðis fyrir komuna.

Jens Guð, 15.10.2012 kl. 23:51

12 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  þjáningar Rasmusar,  mótlætið,  veikindin og sjálfsvígið voru og eru ekki alveg einskis ef saga hans fær að heyrast.  Það hefur þegar orðið gríðarmikil viðhorfsbreyting í Færeyjum og lagabreyting.  Þar fyrir utan var Rasmus einstaklega góður og yndæll maður.  Hvernig sem hann hefði fallið frá þá hefði hann alltaf átt skilið góða umfjöllun.  

Jens Guð, 16.10.2012 kl. 00:01

13 Smámynd: Jens Guð

  Hörður,  þitt framlag var frábært.  Ávarp þitt var áhrifaríkt, einmitt í og með vegna þess að það var talað frá hjartanu en ekki lesið af blaði.  Bestu þakkir fyrir þína aðkomu að þessu öllu. 

Jens Guð, 16.10.2012 kl. 00:05

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já einmitt Jens, ef til vill var hann sendiboði og engill, hvað vitum við um það?  Þeir eru til.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.10.2012 kl. 00:06

15 identicon

Mig langaði bara að leggja orð í belg.  Mér varð algerlega orða vant þegar ég las um örlög þessa fallega drengs.  Því fannst mér það mín borgarlega skylda að mæta á þessa fallegu athöfn síðastliðinn sunnudag.  Dóttir mín átta ára var með mér.  Mér fannst það mín skylda sem faðir að mæta með hana.  Mig langaði að segja, takk fyrir fallega stund, Jens, Hörður og aðrir sem stóðu að þessu. 

Oddur Malmberg (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 22:22

16 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil, hvaða nafni sem við getum gefið því þá hafa örlög Rasmusar umbylt viðhorfum í færeysku samfélagi og haft áhrif hérlendis einnig.  Viðhorfsbreytingin hefur bætt stöðu samkynhneigðra í Færeyjum og mun bæta stöðu þarlendra sem eiga við andlega erfiðleika að stríða.  Rokksenan í Færeyjum hefur hafið söfnun fyrir því sem kallast Fountain House.  Það er stofnun í nafni Rasmusar þar sem fólki með andlega erfileika gefst kostur á endurhæfungu og stuðningi við að taka þátt í þjóðfélaginu:  Endurmenntun og hjálp við að fá vinnu við sitt hæfi og svo framvegis.

Jens Guð, 19.10.2012 kl. 23:19

17 Smámynd: Jens Guð

  Oddur, bestu þakkir fyrir þessi orð og takk fyrir að mæta á minningarathöfnina.  Hún vakti mikla athygli í Færeyjum.  Síðast í gær var ég í löngu viðtali í kvöldfréttum í færeyska útvarpinu um þetta. 

Jens Guð, 19.10.2012 kl. 23:21

18 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábært að heyra Jens minn afar gott mál.

Var einmitt í gær að fá skilaboð frá mínum syni, það er nefnilega þannig að þeir lifa áfram, hafa bara verið kallaðir til vinnu annarsstaðar, en hafa tengingu við okkar heim áfram, sem er æðislegt að vita.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.10.2012 kl. 23:23

19 Smámynd: Jens Guð

  Í sorginni skiptir miklu máli að þjáningar þeirra sem eru farnir hafi ekki verið til einskis heldur leiði til gæfu annarra.  Það er eiginlega grimmt að orða þetta svona.  Það er erfitt að hugsa um þetta á þennan hátt.  Ég hef fellt tár yfir hugsun um það sem Rasmus mátti ganga í gegnum.  En ég veit líka að honum hefði þótt vænt um að mótlætið sem hann þurfti að þola yrði öðrum til góðs.  

Jens Guð, 20.10.2012 kl. 00:04

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jens ég veit að það  er þannig og mér líður vel með að nákvæmlega þannig sé þetta.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.10.2012 kl. 01:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.