Ófyrirgefanlegt klúður hjá IKEA

kalkunn_lifandi_1182154.jpg

 

 

kalkúnn tilbúinn til eldunar

  Húsgagnaverslunin IKEA í Hafnarfirði býður þessa dagana upp á þakkargjörðarhátíðarkalkún ásamt meðlæti.  Hugsanlega er tilefnið að á dögunum héldu Kanadamenn hátíðlegan haustfagnað Indíána, svokallaða þakkargjörðarhátíð.  Nokkru síðar héldu Bandaríkjamenn þennan sama haustfagnað hátíðlegan og kalla hann sömuleiðis þakkargjörðarhátíð.

  Á haustfagnaðinum er rótgróin hefð að hafa á borðum fylltan kalkún ásamt maís, trönuberjasósu og fleiru.  Þetta er jafn fastur siður og hangikjötið og jafningurinn á Íslandi á jóladag.

  Verðið á þakkargjörðarhátíðarkalkúninum hjá IKEA er 995 kr.  Húrra fyrir því.  Verra er að máltíðin stendur ekki undir nafni.  Jú,  skammturinn er alveg ríflegur.  En án trönuberjasultu.  Þakkargjörðarhátíðarkalkúnn er ekki þakkargjörðarhátíðarkalkúnn án trönuberjasulta.  Þetta er hneyksli!

  Mér var svo brugðið þegar engin var trönuberjasultan að matarlystin hvarf eins og dögg fyrir sólu.  Mér fannst kalkúnasneiðarnar ekki nógu þurrar.  Það var eins og þær væru vættar.  Kannski drógu þær svona í sig safann úr rauðkálinu.  Hann flaut.  

  Ég hef ekki oft né víða í Bandaríkjunum (og aldrei í Kanada) snætt hátíðarkalkún í heimahúsi.  En í þau skipti sem það hefur gerst eru hvorki rauðkál né brúnaðar kartöflur meðlæti. Brúnuðu kartöflurnar í IKEA passa engu að síður glettilega vel meðkalkúni.  Rauðkálið á sennilega að vera staðgengill trönuberjasultu.  En því er ekki saman að jafna.  Þetta er jafn fráleitt og að hafa franskar kartöflur með hangikjöti í stað soðinna kartafla í uppstúfi. 

  Fyrir ykkur sem matreiðið kalkún um jólin mæli ég eindregið með kryddblöndu sem heitir Best á kalkúninn.  Og í allra guðanna bænum hafið trönuberjasultu með.  Þannig og aðeins þannig verður kalkúnaveisla alvöru hátíðarmatur.

  Næst ætla ég að prófa hangikjötsréttinn í IKEA.  Ef hann er án jafnings verð ég fyrir jafn miklum vonbrigðum og með kalkúninn.  Hinsvegar verður spennandi að komast að því hvort hangikjötsmáltíðin kosti 895 kr. eins og stendur á auglýsingaspjaldi við innganginn í matsalinn eða 995 kr. eins og stendur á verðlista fyrir ofan matborðið.  Verulega spennandi.  Ég hlakka til og læt ykkur vita.

 bestakalkuninn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Má koma með sultukrukku með sér?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 27.11.2012 kl. 22:20

2 Smámynd: Jens Guð

  Jóhannes Laxdal,  þar komstu með góða lausn á vandamálinu!  Þegar ég tékka á hangikjötinu tek ég með mér - til öryggis - nýlagaðan jafning í potti. 

Jens Guð, 27.11.2012 kl. 22:36

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ekki gleyma kúmeninu! það er toppurinn

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 27.11.2012 kl. 22:43

4 Smámynd: Jens Guð

  Jóhannes,  takk fyrir ábendinguna.  Þetta verð ég að prófa. 

Jens Guð, 27.11.2012 kl. 23:09

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég skrapp í Ikea á fimmtudaginn var og fékk mér pylsu.  Hún var alveg ágæt, mér fannst kalkúnninn of dýr.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.11.2012 kl. 01:22

6 Smámynd: Jens Guð

  Jóna Kolbrún,  fólk virðist almennt ánægt með pylsurnar í IKEA.  Ekki síst þegar verð er borið saman við aðra pylsusölustaði. 

Jens Guð, 28.11.2012 kl. 11:49

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það jafnast samt ekkert á við sænsku kjötbollurnar með sósu, sultu og kartöflum í Íkea, hvar sem sú verslun annars er á norðurlöndunum já og víðar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.11.2012 kl. 20:30

8 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  ég kannast við sænsku kjötbollurnar í IKEA og kann vel að meta þær.  Ljómandi bragðgóður réttur á góðu verði.

Jens Guð, 28.11.2012 kl. 21:46

9 identicon

Er Ikea ekki í Garðabæ?

Hörður Stefánsson (IP-tala skráð) 9.12.2012 kl. 21:33

10 Smámynd: Jens Guð

  Hörður,  kannski tilheyrir þetta landsvæði Garðabæ.  Takk fyrir ábendinguna.

Jens Guð, 9.12.2012 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.