Smásaga um rómantíska helgarferð til Parísar

    Myrkur grúfði yfir djúpunum og andi súrrealisma sveif um draumaheima.  Vekjaraklukka rauf þögnina assgoti harkalega.  Jói á skóflunni spratt á fætur,  greip eldsnöggt til hamars á náttborðinu og mölbraut vekjaraklukkuna með hnitmiðuðu hamarshöggi. 
  "Verði ljós," hugsaði Jói um leið og hann ýtti á slökkvarann.  "Það er skrítið að kveikja ljós með því að ýta á slökkvara," hugsaði Jói og var dálítið rangeygur á því augnabliki.
  Svo leit hann í kringum sig.  Hann kom auga á ókunnuga konu sem svaf við hlið hans.  Hún var vöknuð og horfði undrandi á Jóa. 
  "Ðaðaðaðaðaðaða," sagði konan ákveðin.  Svo bætti hún við ennþá ákveðnari:  "Ða ða."
  Jói á skóflunni hugsaði með sér:  "Það getur verið gott að kunna þennan frasa ef að ég lendi í því að kveðast á við einhvern."  Í keppni í kveðskap þarf staka að byrja á sama staf og staka keppinautarins endar á.  Yfirleitt tapar sá sem fær framan í sig eins og blauta tusku stöku sem endar á stafnum ð.  Upphátt spurði Jói á skóflunni:
  "Af hverju talar þú svona einkennilega?"
  Konan svaraði samviskulaus:  "Vegna þess að tungan á mér er föst við góminn.  Ég talaði svo mikið í gær að tungan á mér bræddi úr sér.  Þá klauf ég hana.  Eftir það fór ég að tala tungum tveim.  Til að laga þetta ætlaði ég að kaupa gel sem heitir Tungutak.  Í ógáti keypti ég gel sem heitir Tonnatak. Það límdi tunguna við góminn."
  Jói á skóflunni hafði engan skilning á þessu.  Hann heyrði ekki einu sinni hverju konan svaraði.  Hann hófst þegar handa við að klæða sig í spariföt. 
  "Hvað er klukkan?" spurði konan.  Hún var forvitna týpan.
  "Hvernig á ég að vita það?" ansaði Jói. 
  "Kanntu ekki á klukku?" spurði konan forvitnari en áður.
  "Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að kunna á klukku þegar ég á ekki einu sinni úr?" spurði Jói á móti. 
  Jói hafði aldrei séð þessa konu áður.  Hann hugsaði:  "Hvernig komst þessi kona inn til mín?" 
  Samstundis fékk hann bakþanka sem jöðruðu við þunglyndi.  Hvað var hann að hnýsast í einkamál ókunnugrar konu?  Hann velti samt fyrir sér möguleikum:  Skreið hún inn um glugga?  Hafði hún skotist inn til hans þegar hann skrapp út til að sækja póstinn sinn?
  Jói lauk við að klæða sig í jakkaföt úr íslenskri kjötsúpu (besta sem ég fæ).  Hann setti á sig bindi;  sparibindi.  Flott dömubindi.  Hann sýndi á sér fararsnið.
  "Hvert ertu að fara?" spurði forvitna konan. 
  "Í vinnuna," svaraði Jói undanbragðalaust.  "Ég vinn á flugvellinum hérna rétt hjá," útskýrði hann til að enginn misskilningur kæmi upp.
  "Það er enginn flugvöllur hérna," fullyrti konan.
  "Jú," svaraði Jói.  "Hann er neðanjarðar og fáir vita af honum.  Þetta er leynilegur njósnaflugvöllur."
  Jói gekk út í nóttina.  Hann ætlaði út á strætóstoppistöð en villtist.  Á vegi hans varð gömul kona í hjólastól.  Hún gerði sér dælt við Jóa. 
  "Vilt þú giftast mér," spurði gamla konan.
  "Ertu viss um að við séum ekki þegar gift?" spurði Jói og taldi áríðandi að það kæmist á hreint.
  "Já,  ég hef aldrei gifst," svaraði sú gamla. 
  "Ég kannast samt svakalega vel við þig," svaraði Jói.
  "Það gæti verið vegna þess að ég bjó heima hjá þér frá því að þú fæddist og leigi ennþá í kjallaranum heima hjá foreldrum þínum," útskýrði konan. 
  "Það getur svo sem verið," játaði Jói á skóflunni og hélt áfram för.  Á næsta götuhorni hitti hann fallegustu konu sem hann hafði augum litið.  Nei,  það var reyndar á þar næsta götuhorni.
  Jói á skóflunni var dolfallinn af hrifningu.  Hann spurði konuna hvort að hann mætti bjóða henni út að borða.  Hún tók vel í það.  Hann leiddi hana að pylsuvagninum Bæjarins bestu og bauð henni upp á pylsu með öllu.  Fjárhagurinn leyfði ekki að hann spanderaði í gosdrykk með.  Það var í góðu lagi.  Pylsan var safarík. 
  "Má ég bjóða þér í rómantíska helgarferð til Parísar um næstu helgi?"  spurði Jói. 
  Fallega konan samþykkti það.  Þau bundust fastmælum um að hittast á Flugstöðinni í Keflavík klukkan 3 næsta föstudag og verja rómantískri helgi í París fram til mánudags.
  Jói mætti tímanlega á Flugstöðina í Keflavík.  Tíminn leið.  Ekkert bólaði á fallegu konunni.  Nöfn þeirra voru kölluð upp í hátalarakerfi Flugstöðvarinnar.  Síðasta útkall.  Þá birtist gamall maður í göngugrind.  Hann gekk rakleiðis til Jóa.  Heilsaði honum og kynnti sig sem afa fallegu konunnar.  Hann útskýrði málið.  Fallega konan hafði dottið.  Afinn lá undir grun um að hafa hrint henni niður stiga.  Það kom fram síðar.  Fallega konan var fótbrotin og handleggsbrotin.  Hún lá á spítala.  Afinn vildi ekki láta helgarferðina til Parísar ónýtast.  Þess vegna mætti hann í staðinn fyrir fallegu konuna.
  Jói á skóflunni var ekki sáttur.  Hann ákvað þó að gera gott úr þessu.  "Ég týni kallinum bara á flugvellinum í París," hugsaði hann.  Það gerði hann.  Síðan hefur ekkert til afans spurst.
.
.
Fleiri smásögur og leikrit:
.
 - Barátta góðs og ills
- Skóbúð
 - Álfar
.
- Bóndi og hestur
.
.
 - Gömul hjón
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1098829/
.
 - Hnefaleikakeppni aldarinnar:
.
 - Peysuklúbburinn
.
 - Vinalegur náungi:
.
 - Gamall einbúi
.
- Saga af systrum
.
 - Jólasaga
.
- Á rjúpnaveiðum:
.
- Ólétta nunnan:
.
- Gullfiskur:
.
- Flugvélamódel:
.
- Miðaldra maður:
.
- Leyndarmál stráks:
.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mig langar til að verða sá fyrsti sem óskar (hver er þessi Óskar annars?) þér til hamingju með Nóbelsverðlaunin!  Þetta er bara tímaspursmál úr þessu.  Reyndar er kannski sá hængur á að til þess að þú fáir þau verður einhver háskólakennari í bókmenntum að stinga upp á þér við sænsku Akademíuna.  En það mál er auðleyst;  ég kenndi einu sinni við háskólann í Hong Kong og dríf bara í þessu.  Það er þá annaðhvort í haust eða þá  2014 í síðasta lagi.

Tobbi (IP-tala skráð) 24.3.2013 kl. 09:46

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hver er munurinn á Jóa á skóflunni og Grétari á Gröfunni?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.3.2013 kl. 18:26

3 Smámynd: Jens Guð

  Tobbi,  ég fékk eitt sinn verðlaun fyrir eitthvað.  Ég man ekki hvað.  En útiloka ekki að það hafi verið Nóbelinn.  Ef það var ekki Nóbel þá treysti ég á þín góðu sambönd í útlöndum.

Jens Guð, 25.3.2013 kl. 00:42

4 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  ég veit það ekki.  Ég veit ekki hver Grétar á Gröfunni er. 

Jens Guð, 25.3.2013 kl. 00:43

5 Smámynd: Jens Guð

  Tobbi,  þessi smásaga mín á það sameiginlegt með eldri smásögum mínum að vera skrifuð í kjölfar þess að bjór hefur gutlað í nágrenni við mig.  Ég les þessar sögur daginn eftir og man ekkert eftir því að hafa skráð þær.  Þegar ég seint og síðar meir les þær þá er ég sáttur við bullið.  Það er nú bara þannig að einhverjir verða að bulla.  Annars væri ekkert bull til. 

Jens Guð, 25.3.2013 kl. 02:16

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Grétar á gröfunni er gröfukarl á Flateyri, en enginn venjulegur gröfukarl, og það var hljómsveit nefnd eftir honum.  En munurinn er að hann er raunverulegur en Jói á Skóflunni bara skapaður af þér

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.3.2013 kl. 09:15

7 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  takk fyrir upplýsingarnar.  Nafnið hringdi einhverjum bjöllum hjá mér án þess að ég áttaði mig á samhenginu.  Áreiðanlega hef ég heyrt það sem hljómsveitarnafn.

Jens Guð, 25.3.2013 kl. 13:07

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já þeir voru frekar vinsælir á tímabili allavega hér fyrir vestan. Voru að skemmta mest í Vagninum á Flateyri.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.3.2013 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband