Smásaga um súran hval

súr hvalur 

  Það var fyrir hálfri öld.  Íslensk alþýðuheimili voru fátæk.  Það þurfti að spara hverja krónu.  Engu var eytt í óþarfa.  Þvert á móti þurfti að beita ýtrustu útsjónarsemi til að endar næðu saman.  Það mátti ekkert út af bregða til að heimilið stæði skil á sínum gjöldum.  Heimilisfaðirinn fagnaði hverri aukavinnu sem bauðst.  Húsmóðirin framlengdi endingu á slitnum fötum heimilisfólksins með því að staga í og sauma bætur yfir slitnustu fleti.  Það var sjaldan svigrúm til að gera sér dagamun.  Þó var það reynt á stórhátíðum.

  "Gunni minn,  þú þarft að skjótast fyrir mig í búðina,"  kallaði húsmóðirin á átta ára drenginn,  elstan þriggja barna.  "Af því að sumardagurinn fyrsti er á morgun þá ætla ég að hafa súran hval í eftirrétt á morgun.  Taktu þennan hundrað króna seðil og keyptu 250 grömm af súrum hval."

  Gunni lét ekki segja sér það tvisvar.  Honum þótti gaman að fara í búðina.  Það var svo gaman að horfa á allt góðgætið sem þar fékkst.  Hann var vanur að heita sjálfum sér því að þegar hann yrði fullorðinn þá myndi hann kaupa nammi.  Hann var viss um að það væri bragðgott. 

  Gunni var ekkert að flýta sér í búðinni.  Hann gaf sér góðan tíma til að skoða margt.  Lyktin var góð.  Eftir langan tíma gekk hann að kjötborðinu,  veifaði 100 króna seðlinum og bað um súran hval.  Kaupmaðurinn tók við seðlinum og troðfyllti þrjá innkaupapoka af súrum hval. 

  "Það verður aldeilis veisla heima hjá þér,"  kallaði kaupmaðurinn glaður í bragði þegar hann horfði á eftir Gunna kjaga um búðina með hvalinn. 

  "Já,  það er sumardagurinn fyrsti á morgun,"  útskýrði Gunni um leið og hann rogaðist með pokana út úr búðinni. 

  Á heimleiðinni varð Gunni hvað eftir annað að setjast niður og hvíla sig.  Hvalkjötið var svo þungt.  Hann hlakkaði til að fá hrósið frá mömmu sinni fyrir dugnaðinn og eljuna.  Viðbrögðin urðu önnur.  Mamman hrópaði í geðshræringu:  "Keyptir þú hval fyrir allan peninginn?  Ertu búinn að missa vitið?"

  Hún beið ekki eftir svari.  Það var hárrétt ákvörðun.  Það kom ekkert svar.  Hún settist niður,  fól andlitið í höndum sér og fór að hágráta.  Hún grét af reiði.  Grét af vonbrigðum.  Grét í ráðaleysi og örvinglan.

  Gunni horfði undrandi á þessi viðbrögð.  Að honum læddist grunur um að hann hefði klúðrað einhverju við innkaupin.  Hann vissi ekki hverju.  Hann mat stöðuna þannig að betra væri að læðast í burtu í stað þess að leita skýringar.  Hann læddist hljóðlega inn í litla herbergi systkinanna,  klifraði upp í efri kojuna og beið þess að pabbi kæmi heim úr vinnunni.  Það var alltaf léttara yfir mömmu þegar pabbi var heima.

  Gunni spratt fram þegar hann heyrði pabba koma inn úr dyrunum.  Sem betur fer var mamma hætt að gráta.  Hún var samt eins og niðurdregin,  ef vel var að gáð.  En ekki reiðileg.

  "Gunni minn,  leggðu á borð.  Við fáum okkur að borða,"  sagði hún.  Gunni hlýddi.  Mamma bar á borð skál með súrum hval. 

  Það hýrnaði yfir pabba.  "Það er bara veisla,"  sagði hann fagnandi.  "Já, það er sumardagurinn fyrsti á morgun,"  upplýsti mamma.

  Öllum þótti hvalurinn góður.  Líka morguninn eftir þegar hvalur var á borðum í stað hafragrautar.  Hvalurinn vakti ekki alveg sömu kæti þegar hann var hádegisverðurinn.  Yfir kvöldmatnum spurði pabbi:  "Væri ekki ráð að hafa soðnar kartöflur með hvalnum?  Hann er dálítið einhæfur svona einn og sér í hvert mál."

  "Nei," mótmælti mamma.  "Ef við förum að drýgja hvalinn með kartöflum eða brauði eða öðru þá sitjum við uppi með hvalinn í allt sumar.  Það væri annað ef við ættum ísskáp.  Þá væri hægt að hafa hvalinn í annað hvert mál.  En eins og þetta er verðum við að hafa hvalinn í öll mál þangað til hann er búinn."

  Allir andvörpuðu og vissu að þetta var rétt.  Eftir því sem dögunum fjölgaði varð hvalurinn ólystugri.  Öllum bauð meira og meira við hvalnum.  Kjötið tapaði þéttleika.  Það varð slepjulegra og hlaupkenndara með hverjum deginum sem leið.  Allir minnkuðu skammtinn sinn við hverja máltíð.  Allir kúguðust.  Kannski var það ekki einungis vegna þess hvað súr hvalur í öll mál dag eftir dag eftir dag er einhæf fæða.  Kannski tapaði hvalurinn bragðgæðum við að standa sólarhringum saman í hlýju eldhúsi.  Kannski var þetta samverkandi.  Enginn hafði áhuga á að komast að hinu sanna í því.  Það var aldrei minnst á hval eftir þetta á heimilinu.  Aldrei. 

---------------------------------

Fleiri smásögur og leikrit:

 - Bílasaga

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1303801/

 - Barátta góðs og ills
- Skóbúð
- Rómantísk helgarferð
- Álfar
.
- Bóndi og hestur
.
.
 - Gömul hjón
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1098829/
.
 - Hnefaleikakeppni aldarinnar:
.
 - Peysuklúbburinn
.
 - Vinalegur náungi:
.
 - Gamall einbúi
.
- Saga af systrum
.
 - Jólasaga
.
- Á rjúpnaveiðum:
.
- Ólétta nunnan:
.
- Gullfiskur:
.
- Flugvélamódel:
.
- Miðaldra maður:
.
- Leyndarmál stráks:
.
- Matarboð í sveitinni:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.