Einkennileg vinnubrögð

  Ég fór á pósthús.  Við innpökkunarborðið var háaldraður maður að loka stóru bólstruðu umslagi.  Hann var auðsjáanlega afar máttlaus og hreyfingar voru hægar.  Hann teygði sig í breiðu glæru límbandsrúlluna og límdi þvers og kruss yfir framhlið umslagsins.  Hugsanlega var ætlunin að styrkja umslagið.  Samt eru þessi bólstruðu umslög níðsterk. 

  Ég þurfti að nota límbandið og fylgdist þolinmóður með vinnubrögðum gamla mannsins.  Þau voru eins og kvikmynd í "slow motion".  Ég beið og ég beið.  Og beið og beið.  Eftir óralangan tíma var maðurinn búinn að þekja framhlið umslagsins með glæra límbandinu.  Hann ætlaði að taka umslagið upp.  Þá kom í ljós að límbandsrenningarnir stóðu vel út fyrir umslagið.  Það var límt fast á stóra og þunna skjalatösku sem lá undir umslaginu.  

  Gamli maðurinn reyndi ítrekað að rykkja umslaginu af töskunni.  Án árangurs.  Það var pikkfast.  Hann reyndi að toga umslagið af töskunni.  Það gekk ekki heldur.  Eftir töluvert streð náði kallinn í skæri og klippti umslagið laust.  Eftir sat ferhyrndur límbandsrammi á töskunni.  

  Maðurinn snéri umslaginu við og ýtti töskunni til hliðar.  Svo hófst hann handa við að þekja bakhlið umslagsins með límbandi.  Að því loknu ætlaði maðurinn að taka umslagið upp.  Þá var það kyrfilega límt við borðið og að hluta við töskuna.  Nú var sá gamli kominn í æfingu við að leysa svona vandamál.  Hann klippti umslagið laust.  Á meðan notaði ég límbandsrúlluna í fljótheitum.  

   Áður - þegar ég sá að bið mín eftir límbandinu styttist - náði ég mér í afgreiðslunúmer.  Útreikningurinn stóðst.  Skömmu eftir að ég hafði límt minn pakka kom afgreiðslunúmer mitt upp á skjáinn.  Um það bil sem ég snéri mér að afgreiðsludömunni ruddist sá gamli fram fyrir mig og rétti henni númerið sitt.  Það var 15 númerum á undan mínu.  Daman fór að hlæja og sagði eitthvað á þá leið að það væri ekkert mál að afgreiða okkur báða í einu.  Sem hún gerði og var eldsnögg að afgreiða mig.

  Á leiðinni út velti ég því fyrir mér hvernig gamli maðurinn haldi að númerakerfi póstsins virki.   Ég komst ekki að niðurstöðu.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bráðskemmtileg og myndræn saga úr hversdagnum

A la Lennon:

Life is what happens to you while you're busy making other plans!

Hrúturinn (IP-tala skráð) 30.10.2013 kl. 00:01

2 identicon

Svo hefur sá gamli hugsanlega sest upp í bíl og svínað fyrir fólk út og suður á ólöglega hægum hraða eins og svo mörg gamalmenni gera, alls ófær um akstur. 

Stefán (IP-tala skráð) 30.10.2013 kl. 11:13

3 identicon

Ég hef mestan áhuga á að vita hvar þú fannst pósthús...

Þau eru aldeilis ekki á hverju strái.

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 30.10.2013 kl. 13:12

4 Smámynd: Jens Guð

  Hrúturinn,  takk fyrir það.

Jens Guð, 30.10.2013 kl. 13:34

5 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  það er næsta víst.

Jens Guð, 30.10.2013 kl. 13:36

6 Smámynd: Jens Guð

  Nanna,  ég fann þetta í Síðumúla. 

Jens Guð, 30.10.2013 kl. 13:38

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sú var tíðin að virðing var borin fyrir þeim eldri. Nú tíðkast að gera grín að öllu eins og ekkert sé eðlilegra. En við skulum minnast þess að ellin nær okkur öllum að lokum.

Guðjón Sigþór Jensson, 30.10.2013 kl. 14:43

8 Smámynd: Jens Guð

  Guðjón Sigþór,  þegar einhver kryddar tilveruna á spaugilegan máta þá er ástæða til að brosa.  Góð ástæða.  Það á ekki að hætta að brosa að fólki þegar það nær tilteknum aldri.  Alls ekki.  

Jens Guð, 30.10.2013 kl. 17:39

9 identicon

Sá gamli er á fullu að gera góða hluti - ef að það er satt að góðir hlutir gerast hægt

Grrr (IP-tala skráð) 30.10.2013 kl. 21:52

10 Smámynd: Jens Guð

  Grrr,  góður!  

Jens Guð, 30.10.2013 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband