Smásaga af fjárfesti

okeypis.jpg

  Ding-dong,  gellur dyrabjallan.  Húsfrúin gengur til dyra.  Útifyrir stendur hvíthærður maður með sakleysislegan hvolpasvip.  Hann býður góðan dag og kynnir sig sem Hrapp Úlfsson,  fjárfesti og auðmann. 

  - Ég átti leið hér hjá og fann ilm af signum fiski.  Ég fékk vatn í munninn.  Ef þú ert að elda nóg þá þigg ég örlítinn bita.
   Frúin kallar á bóndann.  Spyr hvort að þau séu ekki með nóg af mat.  Hér sé kominn gestur.
  Sem betur fer er nóg af mat því gesturinn tekur hraustlega til matar síns.  Hann segist græða á demantakaupum frá Færeyjum.  Hann kaupi þaðan einnig kol,  silfur og Nígeríubréf. 
  Um það leyti sem matartíma lýkur sprettur Hrappur á fætur.  Hann segir að svona góðum gestgjöfum verði að launa vel.  Hann vill leyfa þeim að græða með sér.  Hann komi aftur á morgun og útskýri dæmið.
  Daginn eftir mætir Hrappur í hádegismat.  Líka næstu daga.  Hann er kominn í fast hádegisfæði til um leið og hann útskýrir hægt og bítandi fyrir hjónunum hvernig þau geti með hans hjálp orðið auðmenn.  Í leiðinni stingur hann upp á hvað þau eigi að hafa í matinn daginn eftir.  Í mánaðanna rás þróast hádegisverðurinn í fjölrétta hlaðborð með forréttum,  stórsteikum með rauðvínssósum og desertum.  Hrappur mælir með vínum sem passa réttunum og vindlum til að púa eftir matinn.  Þetta er maður sem veit um hvað hann talar.
  Hrappur býður hjónunum að láta sig fá 14 milljónir kr. og hann láti þau fá 100 milljónir eftir nokkrar vikur. 
  Hjónin eiga ekki 14 milljónir.
  - Ekki vandamálið,  segir Hrappur glaður í bragði.  Það eru bankar út um allt.  Bara rölta í einn þeirra og fá 14 millur gegn veði í húsinu.
  Hjónin fagna þessu heillaráði.  Að ósk Hrapps afhenda þau honum milljónirnar í seðlum. 
  -  Stílaðu kvittunina á nafn okkar beggja,  biður frúin um.  Við erum orðin það fullorðin að annað okkar getur hrokkið upp af hvenær sem er.
  Nei,  Hrappur upplýsir að í þessu dæmi séu engar kvittanir.  Allt sé á svörtu vegna gjaldeyrishafta.  Þegar hann borgi þeim 100 millur þá sé heldur engin kvittun skrifuð.  Peningurinn fari óskiptur í þeirra vasa svart og sykurlaust.  
  Þetta eru góðar fréttir.  Hjónin faðma Hrapp og lofa að minnast hans í kvöldbænum sínum.
  Nokkrum dögum síðar er dóttir hjónanna í heimsókn þegar Hrappur mætir til hádegisverðar.  Að fyrirmælum Hrapps hafa hjónin hvorki sagt henni né öðrum frá gróðabrallinu.  Það er leyndarmál.  Enda ekki alveg löglegt.  Eða eins og Hrappur útskýrði það:  "Meira á gráu svæði.  Ef einhver græðir þá græða allir þegar upp er staðið.  Það er ekki eins og þið hendið 100 milljónum út um gluggann.  Þið kaupið nýjan bíl.  Þá græðir bílasalinn.  Þið kaupið ný húsgögn.  Þá græðir húsgagnaverslunin.  Það græða allir."
  Dóttir hjónanna undrast að sjá Hrapp í heimsókn.  
  - Hvað ert þú að gera hér?  Margdæmdur svindlari.
  - Ekki margdæmdur,  leiðrétti Hrappur.  Bara einstaka sinnum.  Ég hef aldrei setið í fangelsi.  Þetta var misskilningur.
  - Þú náðir að semja um náðun á þeirri forsendu að þér myndi líða illa í fangelsi og börn þín yrðu óróleg,  heldur dóttirin áfram.
  Hrappi leiðist þessi umræða.  Hann setur punkt fyrir aftan hana með því koma til móts við dótturina:
  - Ég skal vera alveg hreinskilinn með það að stundum mátti standa öðruvísi að málum.  Ég lærði af þeim mistökum sem voru gerð og er betri maður fyrir vikið.  Það gera allir mistök einhvern tíma á ævinni.  Það á ekki að velta mönnum upp úr tjöru og fiðri það sem eftir er.
  Hjónin taka undir þessi orð.  Öll vopn eru slegin úr hendi dótturinnar.  Hún kveður en varar foreldra sína um leið við að láta Hrapp plata sig.  Foreldrarnir glotta inni í sér.  Það kemur annað hljóð í strokkinn þegar dóttirin erfir 100 milljónir.
 
  Að nokkrum vikum liðnum gætir óþolinmæði hjá hjónunum.  
  - Hvenær koma 100 milljónirnar
  - Þær eru alveg að detta inn,  fullyrðir Hrappur.  Reyndar verða þetta fleiri en 100 millur.  Mér reiknast til að þetta verði nær 120 millum.  Vonandi getið þið gert eitthvað skemmtilegt fyrir þessar 20 viðbótarmillur.  Kannski skroppið í heimsreisu á lúxussnekkju. 
  Gömlu hjónin fagna,  faðma Hrapp og skammast sín fyrir að hafa rekið á eftir 100 millunum..
  
  Daginn eftir kemur Hrappur með nánari upplýsingar á stöðunni.  Hjónin þurfa að láta hann fá 30 millur til að koma peningnum til Íslands.  Viku síðar afhendi hann þeim tösku með 150 millum í seðlum.  
  Hjónin eiga ekki 30 millur.
  - Ekki málið,  segir Hrappur glaðbeittur.  Þið seljið kofann á 50 millur.  Endurgreiðið 14 millu lánið með smávægilegum vöxtum.  Látið mig fá 30 millur.  5 - 6 millur standa út af sem þið getið gert eitthvað skemmtilegt við.  Viku síðar sitjið þið uppi með 150 millur í tösku.
  Þetta er gott ráð.  Hjónin fagna með því að opna kampavínsflösku og faðma Hrapp.  
  
  Tíminn líður.  Mánuðir verða ár.  Engar milljónir skila sér.  Eftir að húsið var selt  fóru hjónin á vergang.  Þau ráða ekki við uppsprengdan leigumarkaðinn.  Þeim til happs varð að Hrappur fann á haugunum bílhræ sem alveg er hægt að sofa í.  Bílhræið seldi hann þeim á gangverði.  Reyndar rúmlega það vegna þess að hjónin sleppa við að borga tryggingar af bílnum.  Hann er óskráður.  Þau sleppa líka við að borga bifreiðagjald.  Bíllinn er ógangfær.  Þar með sparast heilmikill bensínkostnaður.  Til að hafa í sig og á sækja hjónin úthlutun hjá Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands.  Hrappur mætir ætíð stundvíslega í hádegismat.  Hádegisverðurinn er ekki sama veislumáltíð og áður.   
  Skyr og brauðsneiðar eru ráðandi.  Það er engin eldunaraðstaða í bílhræinu.  En það eru gleðidagar inn á milli.  Í eitt skipti rétti Hrappur gömlu hjónunum umslag með 50 þúsund krónum og sagði að meira væri á leiðinni.  Jafnvel strax á næsta ári.  Þau föðmuðu hann í bak og fyrir.  Þeim munaði virkilega mikið um þennan 50 þús. kall.  Um kvöldið báðu þau guð um að blessa Hrapp.  Hann bjargaði því að loks gátu þau leyst út meðölin sín.  Meðölin voru fljót að slá á gigtina,  kvíðaköstin,  hjartsláttartruflanir og bakverkina.  Það var dæmalaust happ að eiga Hrapp að,  þennan öðling.   
_keypis_kaffi_a_a_eins_125_kr.jpg      
---------------------------------------------------------
Fleiri smásögur og leikrit: 
 - Ofbeldi
- Hvalkjöt
    
  - Bílasaga
 - Barátta góðs og ills
- Skóbúð
- Rómantísk helgarferð
- Álfar
.
- Bóndi og hestur
.
.
 - Gömul hjón
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1098829/
.
 - Hnefaleikakeppni aldarinnar:
.
 - Peysuklúbburinn
.
 - Vinalegur náungi:
.
 - Gamall einbúi
.
- Saga af systrum
.
 - Jólasaga
.
- Á rjúpnaveiðum:
.
- Ólétta nunnan:
.
- Gullfiskur:
.
- Flugvélamódel:
.
- Miðaldra maður:
.
- Leyndarmál stráks:
.
- Matarboð í sveitinni:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sauðsvartur almúginn hér er alltaf tilbúinn að láta fjárglæfrafólk blóðmjólka sig. Talandi dæmi um það er fólkið sem hamast í marg afskifuðum tækjum og tólum í World Class og borgar svo stórfé í áskriftir hjá 365 miðlum með allt sitt skrautlega eignarhald og er vissulega til sölu, en enginn vill kaupa, enda til sölu á uppsprengdu verði. Þar að auki býr almenningur á Íslandi að vissu leiti við skagfirskt kaupfélags-efnahagssvæði, þar sem úrelt hafta og tollastefna ræður ríkjum. Framsóknarflokkurinn er í raun að moka okkur hægt og bítandi inn í skagfirska moldarkofa og kaupfélagsstjórinn hlær.    

Stefán (IP-tala skráð) 19.2.2014 kl. 08:45

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

góð saga og örugglega margar sannar af þessu tagi.

Valdimar Samúelsson, 19.2.2014 kl. 13:16

3 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  ég sá á Fésbók í morgun að fólk var þar að vísa til skagfirska kaupfélags-efnahagssvæðisins þegar umræðan barst að spillingar.  Fésbókarvinir mínir virðast hafa kíkt á þessi "komment" hér. 

Jens Guð, 19.2.2014 kl. 23:09

4 Smámynd: Jens Guð

  Valdimar,  svo sannarlega á þessi saga ótal hliðstæður í raunveruleikanum.  Ég veit um þekktan tónlistarmann sem tapaði aleigunni,  verulega hárri upphæð (tugum milljóna),  í hendur Íslendings sem var fórnarlamb Nígeríusvindls.  Þar með urðu báðir Íslendingarnir fórnarlömb Nígeríusvindlsins.  

  Sá sem taldi sig hafa hlotið risaarf frá óþekktum ættingja í Nígeríu tapaði einnig öllu sínu og dóttir hans líka.  Þau feðgin trúa því ennþá að þau séu alveg við það að ná arfinum og dæla milljónum í svindlarann.  Þetta er sagan endalausa.  Hefur staðið yfir í 15 ár eða svo.  Nígeríusvindlarinn er búinn að ná um eða yfir 100 milljónum út úr feðginunum og vinum þeirra.  Stóra vandamálið er að feðginin trúa án gagnrýnnar hugsunar.  Kallinn gegndi áður háu embætti á vegum hins opinbera.  Fyrir bragðið trúa aðrir sögu hans um risaarfinn sem er alveg að detta í hús.   

Jens Guð, 19.2.2014 kl. 23:18

5 identicon

Samt eru þetta smáaurar miðað við það sem "viðurkennd" trúarbrögð  hala inn, td þjóðkirkja sumra íslendinga halar inn á lygasögunni sinni amk 5000 milljónir á ári og rétt eins og með þessi feðgin sem trúa enn án gagnrýnnar hugsunar og arfinn, þá trúa kristnu sauðirnir á glópabull eftir að þeir eru dauðir, sem er enn heimskulegra :)

DoctorE (IP-tala skráð) 20.2.2014 kl. 13:03

6 Smámynd: Jens Guð

  DoctorE,  fólk elskar að sniðganga gagnrýna hugsun. 

Jens Guð, 20.2.2014 kl. 21:11

7 identicon

„DoctorE, fólk elskar að sniðganga gagnrýna hugsun.“

Er maðurinn sem þetta sagði ekki ásatrúar? Fylgir trú á Valhallarfeðga og eilífa drykkju eftir dauðann gagnrýnni hugsun en trú kristinna?

Tobbi (IP-tala skráð) 21.2.2014 kl. 08:54

8 Smámynd: Jens Guð

  Tobbi,  ég er einn af fólkinu.  Lýsingin undanskilur mig ekki. 

Jens Guð, 21.2.2014 kl. 18:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband