Helgi Hóseasson og Jón Þorleifs

jon_orleifsHelgi-Hós  Ég skrifaði um Helga Hóseasson í gær.  Sjá hér .  Hann varð landsfrægur er hann skvetti skyri yfir þingmenn 1972.  Þannig mótmælti hann því að fá ekki að afturkalla það að hafa verið fermdur á barnsaldri,  14 ára krakki.  

  Helgi mætti allstaðar lokuðum dyrum í baráttu sinni fyrir afturköllun. Hann fylgdi eftir þessu baráttumáli sínu til dauðadags.  Og gaf engan afslátt.

  Jón Þorleifsson,  rithöfundur og verkamaður,  átti margt sameiginlegt með
Helga. Jón barðist fyrir því að afhjúpa verkalýðsforingjana.  Hann kallaði þá verkalýðsrekendur.  Taldi þá vera fláráða og spillta.  Hann taldi þá hafa farið illa með sig og íslenskan verkalýð.  

  Fyrst þegar ég kynntist Jóni Þorleifs á fyrri hluta áttunda áratugarins var Jóni oft líkt við Helga Hóseasson.  Þeir voru róttækir uppreisnarmenn.  Þeir fylgdu baráttu sinni eftir og fóru ótroðnar slóðir í baráttunni.

  Jón og Helgi voru vinnufélagar.  Helgi var húsasmiður og Jón verkamaður í vinnu við að byggja Breiðholtið.

  Þrátt fyrir að vera skoðanabræður um flest varð vinnufélögunum ekki vel til vinar.  Báðir sökuðu hinn um að vera öfgamann.  Eftir stutt kynni töluðust þeir ekki við.  En gáfu sameiginlegum vinnufélögum þá skýringu að hinn væri svo mikill öfgamaður að hann verðskuldaði ekki samskipti.  

  Lengst gekk gagnkvæm andúð á hvor öðrum - en jafnframt sama afstaða - þegar vinnufélagi þeirra var borinn til grafar. Báðir mættu spariklæddir til jarðarfararinnar.  Hvorugur mætti þó til kirkjunnar þar sem útförin fór fram. Þeir stilltu sér upp fyrir utan kirkjugarðinn.  Höfðu um það bil 10 metra bil á milli sín.  Þar stóðu þeir án þess að talast við á meðan messað var yfir hinum látna.  Samt viðstaddir utan kirkjugarðs til að votta hinum látna virðingu sína.  Þeir stóðu sömu vakt utan kirkjugarðs á meðan kista hins látna var lögð í gröf.  Báðir tóku niður höfuðfat á meðan.  Svo héldu allir heim á leið.

  Þegar Jón sagði mér frá þessu spurði ég:  "Heilsuðust þið vinnufélagarnir ekki?" svaraði Jón:  "Nei,  ég átti ekkert vantalað við þennan öfgamann!"  

  Fleiri sögur af Jóni: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1541557/     

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir góðan pistil.

Wilhelm Emilsson, 16.1.2015 kl. 17:12

2 Smámynd: Jens Guð

  Takk fyrir innlitið.

Jens Guð, 16.1.2015 kl. 20:15

3 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Jón Þorleifsson var einn af þeim sem "blogguðu" löngu áður en tölvan varð almenningseign. Þ.e.a.s. hann skrifaði pésa og gaf þá út. Ég safnaði þeim einu sinni, á örugglega 20 stykki eða meira. "Eru Íslendingar að éta börnin sín?" heitir einn. "Vaðið í blóði" er annar. Inntakið er sumpart mjög skynsamlegt, sumpart sérviskulegt. Tungutakið mjög sérviskulegt. Athyglisverðir pésar. Svo, fyrir nokkrum árum, eftir að ég hafði verið að safna þessu í 1-2 ár, sá ég dánartilkynningu um Jón. Hringdi i vin minn, sem einnig var aðdáandi og safnari, og við fórum í fámenna jarðarför hans frá Fossvogskapellu. Það var eins skiptið sem ég "hitti" hann. Nánast sem boðflenna. Nallinn var spilaður yfir honum á orgelið, Marteinn Hunger sá um það. Þetta var smekkleg en látlaus athöfn.

Vésteinn Valgarðsson, 17.1.2015 kl. 22:31

4 Smámynd: Jens Guð

  Vésteinn,  það er gaman að fá þetta sjónarhorn frá þér.  Með tíð og tíma varð Jón mér kær.  Börn mín og systurbörn elskuðu hann og dýrkuðu  Ég teiknaði kápumyndir á nokkrar af hans bókum.  Fyrst og fremst til að hífa þær upp fyrir að vera aðeins ljósritaðar ritgerðir.  Það kom mér ánægjulega á óvart hversu margir samt mættu í hans annars allt að því "kyrrþey" jarðarför.  Hann hafði slitið sambandi við nánast alla sína ættingja.  Mig minnir að um 60 manns hafi fylgt honum til grafar.  Athöfnin var að ósk hans sjálfs laus við sálmasöng og þátttöku prests.  Þetta var samt falleg stund og alveg í anda Jóns. Þau sem fóru með falleg kveðjuorð leyfðu sér að rifja einnig upp broslegar minningar um þennan merkilega mann.  Það hljómar ekki vel - nema fyrir okkur sem þekktum Jón best - er ein frænka Jóns sagði eftir jarðarförina að þetta hafi verið fallegasta útför sem hún hafi verið viðstödd.               

Jens Guð, 17.1.2015 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband