Gjaldfrjáls tónlistarkennsla í Færeyjum

 

  Um síðustu aldamót urðu meiriháttar umskipti í færeyskri tónlist.  Svo afgerandi að við getum talað um byltingu.  Í stað þess að herma eftir frægum útlendum hljómsveitum komu fram á sjónarsvið hljómsveitir á borð við Ivory, Clickhaze og Yggdrasil, sóló-söngkonan Eivör og Teitur.  Þau spiluðu frumsamda músík á eigin forsendum án eftirhermu.  Já,  Eivör var reyndar söngkona Ivory, Clickhaze og Yggdrasil.  Með Ivory söng hún djass.  Með Clickhaze söng hún trip-hopp.  Með Yggdrasil söng hún spunadjasskennt heimspopp (world music).  Sem sóló söng hún vísnatónlist með djasskeim og þjóðlegum færeyskum kvæðasöng. Fram til þessa þótti ungum Færeyingum gamli kvæðasöngurinn hallærislegur.  En Eivör var svo töff að hún gerði hann töff.  Varð meðal annars þungarokkshljómsveitinni Tý innblástur til að dusta rykið af hringdanskvæðinu "Orminum langa" og þungarokksvæða það.  Með þeim árangri að það varð vinsælasta lagið í Færeyjum og á Íslandi 2002. 

  Fram að tónlistarbyltingunni um aldamótin var Færeyingum fjarlæg hugsun að hægt væri að lifa á tónlist.  Ennþá fjarlægara að hægt væri að spila utan Færeyja.  Kúvending varð á.  Fjöldi færeyskra hljómsveita og tónlistarmanna er atvinnumenn í faginu í dag.  Þeir selja mun fleiri plötur í útlöndum en í Færeyjum.  Ruðningsáhrif eru töluverð á aðrar atvinnugreinar.  Ekki síst ferðamannaiðnað.  Heimsfrægð færeyskra tónlistarmanna dregur allt upp að 7500 á árlega rokkhátíð,  G!Festival,  í Götu á Austurey.  Einnig á Ólavsvökukonsertinn á Ólavsvöku og fleiri tónlistarhátíðir.  Eivör hefur náð toppsæti á vinsældalistum í Noregi, Danmörku og Íslandi auk Færeyjum. Týr náði 1. sæti norður-ameríska vinsældalistans CMJ (mælir spilun í framahldsskólaútvarpsstöðvum í Bandaríkjunum og Kanada).

  Færeyskir ráðamenn hafa áttað sig á mikilvægi færeyskrar tónlistar.  Nú hefur færeyska ríkið gert 3ja ára samning við franska nettónlistarskólann Meludia.  Allir Færeyingar fá ókeypis aðgang að honum.  Þar læra þeir að lesa tónlist, skrifa tónlist og skilja tónlist.  Jafnt leikmenn sem fagmenn.  Allt kennsluefnið verður á færeysku.  Sjá:  https://www.meludia.com/

         


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svona er líka tekið á þessu á hinum Norðurlöndunum, öllum nema náttúrulega Íslandi, þar sem ekkert er ókeypis, allra síst varðandi kenslu og skólamál þar sem hver höndin er líka upp á móti hver annari. 

Stefán (IP-tala skráð) 11.4.2018 kl. 07:09

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Kannski ætti "Nossarinn" sem stal "Sökniði" að fá að taka þátt!!

Sigurður I B Guðmundsson, 12.4.2018 kl. 09:27

3 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  þú átt þá við að tónlistarnám sé gjaldfrjálst á Norðurlöndunum en ekki að Meludia starfi þar.  

Jens Guð, 12.4.2018 kl. 17:48

4 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  frábær tillaga!

Jens Guð, 12.4.2018 kl. 17:49

5 identicon

Já, nákvæmlega Jens, en á Íslandi virðaist svona nám flokkast undir lúxus, sem er undarlegt eins og svo margt annað á Íslandi. 

Stefán (IP-tala skráð) 12.4.2018 kl. 19:16

6 identicon

Ps. Mér skilst Jens, að þú sért á Útvarpi Sögu að æsa upp helsta chihuahua rakkann á Fróni og saka um lagastuld. Chihuahua mun  því væntanlega gelta eins og Paradísarfugl Megasar. 

Stefán (IP-tala skráð) 12.4.2018 kl. 19:32

7 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  það er fjör!

Jens Guð, 13.4.2018 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband