Reykvískur skemmtistaður flytur til Benidorm

 

  Um árabil var Ob-la-di Ob-la-da einn áhugaverðasti skemmtistaður landsins.  Hann var staðsettur á Frakkastíg.  Alltaf troðfullt út úr dyrum.  Iðulega komust færri inn en vildu.  Sérstaða staðarins var að þar spiluðu þekktir tónlistarmenn lög úr smiðju Bítlanna.  Einungis Bítlalög.  Ekkert nema Bítlalög.  Sjaldnast í upprunalegum útsetningum.  Samt stundum í bland.  

  Bassaleikarinn Tómas heitinn Tómasson hélt utan um dagskrána.  Hann var jafnframt fasti punkturinn í hljómsveitunum sem komu fram,  hvort sem þær kölluðust Bítladrengirnir blíðu eða eitthvað annað.  Meðal annarra sem skipuðu húshljómsveitina ýmist fast eða lauslega voru gítarleikararnir Magnús R. Einarsson,  Eðvarð Lárusson,  Gunnar Þórðarson;  trommuleikarinn Ásgeir Óskarsson;  söngvararnir Andrea Gylfadóttir,  Egill Ólafsson og Kormákur.  

  Að degi til um helgar spilaði Andrea Jónsdóttir vel valin Bítlalög af hljómplötum.  Alltaf var rosalega gaman að kíkja á Ob-la-di.  Útlendir Bítlaaðdáendur sóttu staðinn.  Þar á meðal Mike Mills úr bandarísku hljómsveitinni R.E.M.  Hann tróð upp með húshljómsveitinni.  Mig rámar í að Yoko Ono hafi kíkt inn.  Líka gítarleikari Pauls McCartneys.  

  Svo kom reiðarslagið.  Lóðareigendur reiknuðu út að arðvænlegt yrði að farga húsinu og reisa í staðinn stórt hótel.  Ob-la-di var hent út.  Um nokkra hríð stóð til að Ob-la-di myndi flytja upp í Ármúla 5 í húsnæði sem þá hýsti frábæran skemmtistað,  Classic Rock.

  Leikar fóru þannig að kínverskt veitingahús keypti Classic Rock.  Þá var ekki um annað að ræða en kanna möguleika á Spáni.  Í morgun skrifaði eigandi Ob-la-di,  Davíð Steingrímsson, undir húsaleigusamning í Benidorm.  Innan nokkurra vikna opnar Ob-la-di á ný.  Að þessu sinni í Benidorm.  

  Ob-la-di er ekki fyrsti íslenski skemmtistaðurinn sem flytur búferlum til útlanda.  Fyrir nokkrum árum flutti heimsfrægur skemmtistaður,  Sirkus,  frá Klapparstíg til Þórshafnar í Færeyjum.

Davíð Steingríms & co      

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gráðugir lóðaeigendur miðbæjar Reykjavíkur byggja hótel þvers og kruss og eyðileggja miðborgina um leið með skammtíma gróðahyggju. Ferðamönnum mun ekki fjölga endalaust hér eins og hótelbyggingum og ferðamönnum gæti jafnvel fækkað mjög hratt. Hvað verður þá um allar ljótu hótelbyggingarnar í miðbæ Reykjavíkur ?  Varðandi lagið Ob-la-di-Ob-la-da, sem skemmtistaðurinn heitir eftir, þá samdi Sir Paul lagið í bráð skemmtilegum ska / reggae stíl ættuðum frá Jamaica. Texti lagsins byrjar einmitt á ,, Desmond has a barrow in the market-place " sem vísar í Jamaiska reggae söngvarann Desmond Dekker sem hafði þegar Paul samdi lagið, túrað um England. Titil lagsins má rekja til lagsins Oo-bla-Dee eftir ameríska jazz píanistann Mary Lou Williams, en hún samdi lagið fyrir jazz trompetleikarann Dizzy Gillespie. Í textanum kemur fyrir ,, life goes on , brah ', sem er tilvitnun í orðalag nígeríska congaleikarans, Jimmy Scott. Sir Paul hlustaði á mjög fjölbreytta tónlist frá öllum aldursskeiðum og öllum heimshornum, sem skilaði sér heldur betur inn í tónlist The Beatles. 

Stefán (IP-tala skráð) 13.4.2018 kl. 21:44

2 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  reggí var nýr músíkstíll 1968.  Varð til í rosalegri hitabylgju sem gekk yfir Jamaíka 1966.  Eyjaskeggar gátu ekki lengur dansað hinn hraða ska-dans vegna lamandi hitans.  Þegar hægði á taktinum skerptist svo um munaði á "aftur-á-bak/öfuga" trommutaktinum sem greinir ska og reggí frá öðrum músíkstílum.

  George Harrison var ákafastur Bítla um reggí.  Hann sótti nánast hvert kvöld pöbba í London þar sem jamaísk hljómsveit spilaði reggí.  Aðrir Bítlar voru líka aðdáendur.  Illar tungur segja að gríðarmiklar hassreykingar hafi leikið stórt hlutverk.

  Paul samdi Ob-La-Di en var lengst af í vandræðum með útsetninguna.  Hann spilaði lagið löturhægt eins og venja var með reggí þarna á upphafsárum þess.  Svo gerist það að John Lennon mætir út úr dópaður í hljóðverið;  hlammar sér við píanóið og gólar:  "Ob-La-Di!" (kom nafn á lagið).  Hann þrumaði lagið á tvöföldum hraða.  Paul varð fyrir uppljómun.  Þarna var útsetningin sem lagið þurfti.  Hann snarhenti sér í að hljóðrita lagið á þessum hraða með píanóið sem leiðandi hljóðfæri.  Asinn var svo mikill - til að varðveita stemmninguna - að Paul ruglaðist í textanum.  Ruglaðist á nöfnunum Molly og Desmond.  Ruglingurinn fékk að standa.  

  Öðrum Bítlum en Paul þótti lagið ómerkileg barnagæla.  Þeir stóðu harðir gegn því að það yrði gefið út á smáskífu.  Leikar fóru þannig að skoska hljómsveitin Marmalade brá við skjótt,  gaf lagið út á smáskífu í útsetningu Bítlanna og negldi það í 1. sæti.

  Í bókinni "Beatlesongs" er Paul skráður fyrir píanóleiknum.  Flestar aðrar heimildir,  til að mynda Wikipedia - skrá John Lennon á píanóið.  Ég hallast að seinni uppskriftinni.  Bæði vegna sögunnar af því hvernig John kúventi útsetningunni og líka vegna þess hvað píanóleikurinn er einfaldur.  John spilaði alltaf ofur minimalískan píanóleik. 

Jens Guð, 14.4.2018 kl. 11:34

3 identicon

Það er gaman að studera tilvist þessa ágæta stórsmells af Hvíta albúmi Bítlanna. Lagið er t.d. merkilegt fyrir það að vera fyrsta hvíta reggae lagið á Vesturlöndum að sögn margra tónlistarfræðinga. Hvaðan Paul fékk svo nafn lagsins er líklega frekar beint frá samnefndri reggae hljómsveit Ob-la-di-ob-la-da, sem var starfandi í London á þessum árum, en að hann hafi fengið hugmyndina beint frá laginu Oo-Bla-Dee, sem Dizzy Gillespie flutti, nema hvort tveggja sé. Svo mikið er víst að foringi þessarar hljómsveitar, Scott nokkur frá Jamaica reyndi að hafa fé af Paul fyrir nafn lagsins og segir sagan að Paul hafi m.a. borgað fyrir að leysa Scott þennan úr fangelsi. Vegna reggae áhuga George sem þú nefnir Jens, ( skrítið að George hafi ekki samið reggae lag ), má gera ráð fyrir að hann hafi farið á hljómleika Desmond Dekker me Paul og víst er að báðir höfðu mikinn áhuga á grasinu sem fylgdi og fylgir reggae tónlist. Þó var það John sem hafði reykt þeirra lang mest þegar hann eftir 40 klukkustunda upptökur á laginu Ob-la-di-ob-la-da stekkur á píanóið og spilar þennan hraða inngang sem svo var notaður. Það má því telja líklegra að John spili á píanóið en Paul sem spilaði bæði á rafmagns og kontra bassa í laginu. Gaman væri að heyra fyrri upptökur af laginu í hægari reggae takti, en þessi hraði ska taktur gerði lagið klárlega að þessum smelli. Þarna má segja að John hafi launað Paul fyrir það að færa lag Johns Help úr ballöðu í þennan hraða flutning sem hjálpaði til við að gera það líka að ódauðlegum smelli.  

Stefán (IP-tala skráð) 14.4.2018 kl. 14:07

4 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  allir Bítlar voru ofneytendur hass.  Ringó og Lennon voru að auki alkahólistar;  Fyllibyttur.  Þeir voru blindfullir upp á hvern dag í meira en áratug.  Í bland slöfruðu þeir í sig LSD eins og morgunkorni.  Samtímis voru Paul og George út úr reyktir 

Jens Guð, 14.4.2018 kl. 18:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband