Bráðskemmtileg bók

  Í vikunni kom út bókin "Ekki misskilja mig vitlaust!".  Hún inniheldur samantekt á spaugilegum mismælum og ambögum þjóðþekktra manna.  Einkum þeirra sem hafa mismælt sig í beinni útsendingu í ljósvakamiðlum. Líka er vitnað til annarra.  Til að mynda er titill bókarinnar sóttur í ummæli Guðbjarts Jónssonar.  Hann var löngum kenndur við veitinga- og skemmtistaðinn Vagninn á Flateyri.

  Allar tilvitnanir eru feðraðar.  Þær eru ekki uppdiktaður útúrsnúningur.  Það gefur textanum aukið vægi.  Fjölbreytni er meiri en halda mætti að óreyndu.  Margar tilvitnanir eru einnar línu setning.  Aðrar slaga upp í smásögur.  

  Þrátt fyrir að bókin sé aðeins um 80 blaðsíður þá er textinn það þéttur - án mynda - að lestur tekur töluverðan tíma.  Best er að lesa hana í áföngum.  Japla á textanum í smáum skömmtum.  Sum broslegustu mismælin eru þannig að maður áttar sig ekki á þeim við fyrsta lestur. Önnur er gaman að endurlesa og jafnvel brúka til gamans. 

  Höfundur bókarinnar er Guðjón Ingi Eiríksson.  Í formála segir hann meðal annars:  "Mismæli og ambögur ... og oft er útkoman algjör snilld!  Merkir jafnvel eitthvað allt annað en upp var lagt með og kitlar þá stundum hláturtaugarnar.  Tengist oft misheyrn og misskilningi og auðvitað öllu þar á milli."

  Sýnishorn:

  "Heilbrigðisráðherra tók ákvörðunina að höfðu samræði við lækna." Heimir Már Pétursson,  fréttamaður á Stöð 2.

  "Bíllinn er hálfur á hliðinni."  Telma Tómasson,  fréttakona á Stöð 2.

  "Nú eru allir forsetar þingsins konur í fyrsta sinn."  Páll Magnússon í fréttalestri í Ríkisútvarpinu.

ekki misskilja mig vitlaust

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Svo er Hugleikur Dagsson oftar en ekki alveg óborganlegur. "Fleiri íslensk dægurlög" er litil bók og þar gerir hann meðal annars "Bellu símamær" að símavændiskonu á "Rauða torginu"!!!

Sigurður I B Guðmundsson, 30.9.2018 kl. 10:09

2 identicon

 Ég efast ekki um að það megi brosa yfir þessari bók, en mikið væri gaman að fá bók eftir Gyrði Elíasson í jólapakka. Jafnvel þó að nýja bókin hans heiti Sorgarmarsinn.

Stefán (IP-tala skráð) 30.9.2018 kl. 12:16

3 identicon

Sæll Jens

Ég sé að Vigdís er í miðjunni á forsíðunni, það er líklega viðeigandi. Hún átti eins og frægt er orðið "strax er teygjanlegt hugtak." Það mekilega við það er að tæknilega gerst ekkert á andartakinu sem að skipunin er gefin út en síðar er henni framfylgt. Þannig að strax er sannarlega teygjanlegt hugtak.

Samt er þetta nú svo mikið smámál að varla tekur því að tala um það, eins og flest mál Vigdísar.

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 30.9.2018 kl. 14:09

4 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  Hugleikur er snillingur!

Jens Guð, 30.9.2018 kl. 15:38

5 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  allt eftir Gyrði er eðall.

Jens Guð, 30.9.2018 kl. 15:40

6 Smámynd: Jens Guð

Sigþór,  heill kafli er lagður undir mismæli og ambögur Vigdísar.  Hann heitir "Vigdís Hauksdóttir - drottning mismælanna".

Jens Guð, 30.9.2018 kl. 15:43

7 identicon

lol :)

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 30.9.2018 kl. 18:18

8 Smámynd: Jens Guð

Sigþór,  ekki er þó í kaflanum vísað í þessa broslegu lýsingu á orðinu strax. 

Jens Guð, 30.9.2018 kl. 19:02

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þessa setningu, sem einn af fréttamönnum RUV skrifaði, lærði ég utanað: 

"Sérfræðingar, sem rannsakað hafa aurskriðuna, sem féll á mörg hús í útborg Gautaborgar í ger, telja líklegt, að járnbrautarlest, sem ekið var fyrir ofan húsin og framhjá þeim, hafi verið sá böggull, sem reið skammrifinu."

Þennan óborganlega texta var ég látinn fá til að lesa sem aðalþulur, en ákvað að breyta honum, þótt mig dauðlangaði til að láta hann flakka. 

Ómar Ragnarsson, 30.9.2018 kl. 21:11

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Önnur löng setning úr Alþýðublaðinu í kringum 1960 sem ég lagði á mig að læra, og þegar ég fer með hana fyrir fólk, les ég greinarmerkin: 

"Osló er vinalegur bær, komma, þegar maður er á gangi á götu i Osló, komma, sér maður mann, komma, sem manni finnst, komma, að maður þekki, komma, nú, komma, þegar maðurinn hefur gengið framhjá manni, komma, kemur í ljós, kommma, að aðeins var um mjög líka menn að ræða, komma, en Norðmenn eru mjög líkir Íslendingum, punktur."

Ómar Ragnarsson, 30.9.2018 kl. 21:29

11 Smámynd: Jens Guð

Ómar,  bestu þakkir fyrir skemmtileg innlegg.

Jens Guð, 30.9.2018 kl. 21:46

12 Smámynd: Sverrir Stormsker

Ég heyrði hina góðu og skeleggu stjórnmálakonu, Vigdísi Hauks, segja þetta í útvarpsviðtali fyrir nokkrum mánuðum:

"Þetta var ein fallegasta sýn sem mér hefur borist til eyrna."

Vigga er ein af fáum sem getur japlað á augnakonfekti með eyrunum. Eg hélt að það væri bara á færi Megasar.

Sverrir Stormsker, 30.9.2018 kl. 21:50

13 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þessa bók verður maður að eignast, ef ekki núna, þá strax!

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 30.9.2018 kl. 23:48

14 identicon

Vigdís er í mínum huga einskonar nútíma Grettir Ásmundsson, sem málaði sig út í horn ( út í eyju reyndar ) eða þá einskonar Don Kikoti, sem sá vindmillur breytast í óvinaheri. Vigdís gefst aldrei upp frekar en Kikoti og þrátt fyrir að virðast illa máli farin stundum blessunin.

Stefán (IP-tala skráð) 1.10.2018 kl. 07:25

15 identicon

Það má nýta mismæli til sigurs ef "meningen er god nok". Eins og þjálfarinn sagði í hálfleik: "Nú verðum við allir að bíta í öxlina strákar". Og þeir sneru tapi í sigur.

Sigurður Bjarklind20 (IP-tala skráð) 1.10.2018 kl. 08:04

16 Smámynd: Jens Guð

Sverrir,  þetta er gullmoli!

Jens Guð, 1.10.2018 kl. 08:54

17 Smámynd: Jens Guð

Halldór Egill,  ég mæli með því.

Jens Guð, 1.10.2018 kl. 08:55

18 Smámynd: Jens Guð

Stefán (# 14),  hún kryddar tilveruna.

Jens Guð, 1.10.2018 kl. 08:56

19 Smámynd: Jens Guð

Sigurður Bjarklind (# 15),  takk fyrir góða sögu.

Jens Guð, 1.10.2018 kl. 08:58

20 identicon

Ég ætla hér í umræðunni að hrósa marg umræddri Vigdísi hér fyrir dugnað við ljósmyndun inn um glugga ræfilslegs bragga við Nauthólsvík. Þessi forljóti braggi er samkvæmt Vigdísi að fara að kosta borgarbúa hálfan milljarð. Já, fjármál Reykjavíkurborgar koma víða við sögu þessa dagana, ekki síður en fjármál Fimleikafélags Hafnarfjarðar sem hafnfirðingar segja mér skrautlegar sögur af. Ekkert íþróttafélag í Reykjavík getur mér vitandi sótt sér svo auðveldlega fé úr vösum reykvískra útsvarsgreiðenda. Það vantar greinilega eins og eina Vigdísi í Hafnarfjörðinn til að mynda mannvirkin í Kaplakrika.

Stefán (IP-tala skráð) 1.10.2018 kl. 22:12

21 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Já,1/11 2009 varð Páli Magnússyni á aö lesa; Íslandsmeistarar Manchester United unnu Chelsea 3-0.Ég var í tölvunni og bloggaði "heyrði ég rétt" Víðir Benedikts svaraði."jú þú heyrðir rétt".. 

Helga Kristjánsdóttir, 2.10.2018 kl. 02:07

22 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Skemmtilegra blogg en Jens Guðs, er vandfundið. Jákvæðnin í öllum hornum og lífið gott, þrátt fyrir ýmis leiðindi á  vegi okkar allra. Hafðu eilífar þakkir Jens Guð fyrir "kómíkina" í pistlum þínum. Ekki veitir af.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 2.10.2018 kl. 03:43

23 identicon

OSLÓ er falleg borg og vinaleg, næstum því á hverju götuhorni eða á kaffisölum sér maður mann, sem maður er alveg viss um að þekkja, nú, svo þegar maðurinn er farinn fram hjá, er aðeins um mjög líkar manneskjur að ræða, en Norðmenn eru einkar líkir okkur Íslendingum.

Abl, 4.6.1960

Tobbi (IP-tala skráð) 2.10.2018 kl. 12:44

24 Smámynd: Jens Guð

Stefán (# 20),  hún er vís til að skottast til Hafnarfjarðar og taka myndir inn um glugga.

Jens Guð, 3.10.2018 kl. 15:03

25 Smámynd: Jens Guð

Helga,  þessi var góður!

Jens Guð, 3.10.2018 kl. 15:07

26 Smámynd: Jens Guð

Halldór Egill,  bestu þakkir fyrir hlý orð.

Jens Guð, 3.10.2018 kl. 15:14

27 Smámynd: Jens Guð

Tobbi,  takk fyrir það.

Jens Guð, 3.10.2018 kl. 15:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.