Hvað ef John og Paul hefðu aldrei kynnst?

  1956 var litla enska hafnarborgin Liverpool "slömm".  Margir Englendingar neituðu að viðurkenna Liverpool sem hluta af Englandi.  Þetta ár bankaði 14 ára gutti,  Paul McCartney, hjá 16 ára bæjarvillingnum John Lennon.  Bauð sig fram sem gítarleikara, söngvara og lagahöfund í hljómsveit Johns,  The Querrymen.  Þarna varð til öflugasta tvíeyki sögunnar. Frábært söngvapar,  hugmyndaríkir flytjendur og djarfir tilraunakenndir útsetjarar sem toguðu og teygðu tónlist lengra og víðar en áður þekktist.

  The Querrymen breyttust í The Beatles.  Á íslensku alltaf kallaðir Bítlarnir.  Bítlarnir frá Liverpool rúlluðu heimsbyggðinni upp eins og strimlagardínu.  Allt í einu urðu Liverpool og England ráðandi forysta í dægurlagamarkaði heimsins. 

  Pabbi Johns,  Freddie Lennon,  var söngvari,  söngvaskáld og banjoleikari.  Mamma Johns var líka banjoleikari og píanóleikari.  John ólst ekki upp hjá þeim en erfði frá þeim tónlistarhæfileika.  Þegar plötufyrirtækið EMI gerði útgáfusamnning við Bítlana var það munnhörpuleikur Johns sem heillaði upptökustjórann,  George Martin, umfram annað. 

  Pabbi Pauls lagði hart að honum að fara í markvisst tónlistarnám.  Rökin voru:  "Annars endar þú eins og ég;  að spila sem láglaunamaður á pöbbum."  En Paul valdi að læra sjálfur að spila á gítar og píanó. 

  Foreldrar George Harrison eru sagðir hafa verið góðir söngvarar.  Mamma hans er skráð meðhöfundur "Piggies" á Hvíta albúminu.

  Ringó Starr ólst upp á tónlistarheimili.  Þar var allt fullt af hljóðfærum af öllu tagi.  Hann hélt sig við trommur en getur gutlað á píanó og gítar.

  Synir allra Bítlanna hafa haslað sér völl sem tónlistarmenn.  Zak Starkey,  sonur trommuleikarans Ringos,  hefur vegnað vel sem trommuleikari The Who og Oasis.  Eldri sonur Johns,  Julian,  kom bratt inn á markað 1984 með laufléttu alltof ofunnu reggí-lagi um pabba sinn,  "Too Late for goodbyes".  Þetta var á skjön við vinnubrögð Johns sem gengu út á hráleika.  Síðan hefur hvorki gengið né rekið hjá Julian - fremur en hjá öðrum sonum Bítlanna að Zak undanskildum.  Vegna frægðar Bítlanna hafa synir þeirra forskot á aðra í tónlistarheimi.  Þrátt fyrir að þeir séu alveg frambærilegir tónlistarmenn þá vantar upp á að tónlist þeirra að heilli nógu marga til að skila lögum þeirra og plötum inn á vinsældalista. 

  Niðurstaðan er sú að ef John og Paul hefðu ekki kynnst þá hefðu þeir ekki náð árangri út fyrir Liverpool-slömmið.  Lykillinn að yfirburðum þeirra á tónlistarsviðinu lá í samstarfi þeirra.  Hvernig þeir mögnuðu upp hæfileika hvors annars.

  John var spurður út í samanburð á Bítlunum og The Rolling Stones.  Hann svarði eitthvað á þá leið að Rollingarnir væru betri tæknilega.  Þeir væru skólaðir.  Bítlarnir væru amatörar.  Sjálflærðir leikmenn.  En spjöruðu sig.  Svo bætti hann við:  Þegar heildarútgáfa á flutningi á Bítlalögum er borin saman við flutning annarra þá hallar ekki á Bítlana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Á þessum tíma var Liverpool nafli alheimsins og þess vegna er ég "púllari"!

Sigurður I B Guðmundsson, 18.8.2019 kl. 06:18

2 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  ég veit að margir hafa orðið "púllarar" vegna aðdáunar á Bítlunum.

Jens Guð, 19.8.2019 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband