Bítlalögin sem John Lennon hataði

".  .

  Bítillinn John Lennon var óvenju opinskár og hreinskiptinn.  Hann sagði undanbragðalaust skoðun sína á öllu og öllum.  Hann var gagnrýninn á sjálfan sig ekki síður en aðra.  Ekki síst lög sín.  Hann hafði óbeit á mörgum lögum Bítlanna - þó hann hafi sætt sig við að þau væru gefin út á sínum tíma vegna þrýstings frá útgefandanum, EMI.  Bítlarnir voru samningsbundnir honum til að senda frá sér tvær plötur á ári og einhverjar smáskífur.  Til að uppfylla samninginn leyfðu Bítlarnir lögum að fljóta með sem voru uppfyllingarefni - að þeirra mati.

  Að sögn gítarleikarans George Harrison litu þeir Ringo og Paul alltaf á John sem leiðtoga hljómsveitarinnar - þrátt fyrir að stjórnsami og ofvirki bassaleikari Paul McCartney hafi að mörgu leyti stýrt Bítlunum síðustu árin eftir að umboðsmaðurinn Brian Epstein dó.   

  Paul sýndi George og trommuleikaranum Ringo ofríki þegar þar var komið sögu.  En bar lotningarfulla virðingu fyrir John.  Stofnaði ekki til ágreings við hann.  Þeir skiptust á tillögum og ábendingum um sitthvað sem mátti betur fara.  Báðir tóku því vel og fagnandi.  Þeir voru fóstbræður. 

  Þó komu upp nokkur dæmi þar sem Paul mótmælti John.  Fyrst var það þegar John dúkkaði upp með lagið "She said, she said" á plötunni Revolver.  Paul þótti það vera óboðleg djöflasýra.  John fagnaði því viðhorfi vegna þess að hann ætlaði laginu einmitt að túlka sýrutripp.  Í stað þess að rífast um lagið stormaði Paul úr hljóverinu og lét ekki ná á sér við hljóðritun þess.  Lagið var hljóðritað án hans.  George spilaði bassalínuna í hans stað.  Síðar tók Paul lagið í sátt og sagði það vera flott.  

  Í annað sinn lagðist Paul - ásamt George og Ringo - gegn furðulagi Johns "Revolution #9".  En John fékk sínu fram.  Lagið kom út á "Hvíta albúminu".  Hann var sá sem réði.  Samt þannig að hann umbar öll þau lög Pauls sem honum þóttu léleg.

  Eftirtalin Bítlalög hafði John óbeit á.  Fyrir aftan eru rökin fyrir því og tilvitnanir í hann. 

1   It´s Only Love (á plötunni Help) - "Einn af söngvum mínum sem ég hata.  Glataður texti."

2   Yes it Is (smáskífa 1965) - "Þarna reyndi ég að endurtaka leikinn með lagið This Boy.  En mistókst.

3   Run For Your Life (á Rubber Soul).  - "Uppfyllingarlag.  Enn eitt sem mér líkaði aldrei.  George hefur hinsvegar alltaf haldið upp á þetta lag."

  And Your Bird Can Sing (á Revolver).  - "Enn ein hörmung.  Enn eitt uppfyllingarlagið."

5   When I m Sixty-Four (á Sgt. Peppers...) - "Afalag Pauls.  Ég gæti aldrei hugsað mér að semja svona lag." 

6   Glass Onion (á Hvíta albúminu) - "Þetta er ég að semja uppfyllingarlag"

7   Lovely Rita (á Sgt. Peppers...) - "Ég kæri mig ekki um að semja lag um fólk á þennan hátt."

8   I ll Get You (á 4ra laga smáskífu 1963) - "Við Paul sömdum þetta saman en lagið var ekki að gera sig."

9   Hey Bulldog (á smáskífu 1967) - "Góð hljómgæði á merkingarlausu lagi."

10  Good Morning, Good Morning (á Sgt. Peppers...) - "Einskonar bull en samt falleg orð.  Uppfyllingarlag."

11  Hello, Goodbye - John var mjög ósáttur þegar EMI gaf þetta lag út á smáskífu.  Honum þótti það ekki þess virði.

12  Lady Madonna (á smáskífu 1968) - "Gott píanóspil sem nær þó aldrei flugi."

13  Ob-La-Di Ob-La-Da (á Hvíta albúminu) - Paul vildi ólmur að þetta lag yrði gefið út á smáskífu.  John tók það ekki í mál.   

14  Maxwells Silver Hammer (á Abbey Road) - John leiddist þetta lag svo mikið að hann harðneitaði að taka þátt í hljóðritn þess.  Engu að síður sagði hann það vera ágætt fyrir hljómsveitina að hafa svona léttmeti með í bland.  Þannig næðu plöturnar til fleiri.     

15  Martha My Dear (á Hvíta albúminu) - John leiddist þetta lag.  Samt ekki meira en svo að hann spilar á bassa í því.

16  Rocky Racoon (á Hvíta albúminu) - "Vandræðalegt!"

17  Birtday (á Hvíta albúminu) - "Drasl!"

18  Cry Baby Cry (á Hvíta albúminu) - "Rusl!"

19  Sun King (á Abbey Road) - "Sorp!"

20  Mean Mr. Mustard (á Abbey Road) - "Óþverri sem ég samdi í Indlandsdvölinni."

21  Dig a Pony (á Let it be) - "Enn ein vitleysan.  Ég var í orðaleik og þetta er bókstaflega rugl."

22  Let It Be (á Let it be) - "Þetta lag hefur ekkert með Bítlana að gera.  Ég skil ekki hvað Paul var að pæla með þessu lagi."  

  Rétt er að taka fram að John skipti oft um skoðun á flestum hlutum.  Líka á Bítlalögum.  Til að mynda er til upptaka þar sem hann hrósar Let It Be sem glæsilegu lagi.  Þetta fór dálítið eftir dagsforminu;  hvernig lá á honum hverju sinni.   

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

"Thank you for this program"!

Sigurður I B Guðmundsson, 10.9.2019 kl. 10:14

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hjartans þakkir fyrir þennan fróðleik. Rímar nokkuð vel við söguna af því þegar John sagði við viðmælanda að hann vildi helst, að öll lög Bítlanna yrðu leikin og tekin upp á nýtt. 

"Þó ekki Strawberry field forever" sagði viðmælandinn.

"Jú, alveg sérstaklega það lag," á John að hafa sagt.  

Ómar Ragnarsson, 11.9.2019 kl. 21:18

3 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  takk fyrir innlitið.

Jens Guð, 12.9.2019 kl. 20:16

4 Smámynd: Jens Guð

Ómar, upptökustjóri Bítlanna,  George Martin, sagði að hann hafi séð eftir því að hafa ekki beitt sér fyrir því að kassagítar-demó Johns á Strawberry fields forever væri gefið út í stað sýrðu útgáfunnar.  Demó-útfærslan rataði inn á The Beatles Anthology í lok síðustu aldar.  Hún er virkilega flott.  Engu að síður markaði sýrða útgáfan 1967 tímamót í sögu rokksins.  Jafn sýrt lag hafði ekki áður litið dagsins ljós.  Það skoraði á áræðni og tilraunastarfsemi nýskapandi rokksveita.  Sem fóru á flug.   

Jens Guð, 12.9.2019 kl. 20:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.