Ósvífin sölubrella

  "Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?" spyr Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni.  Eðlileg spurning sem margir hafa spurt sig.  Og aðra.  Ennþá brýnni er spurningin:  Hvenær er dýrari vara ódýrasta varan? 

  Í Fréttablaðinu í dag er heilsíðu auglýsing í rauðbleikum lit.  Þar segir í flennistórum texta:  "LÆGSTA VERÐIÐ Í ÖLLUM LANDSHLUTUM". 

  Í litlum og illlæsilegum neðanmálstexta má með lagni stauta sig framúr fullyrðingunni:  "Orkan býður lítrann á lægsta verðinu í öllum landshlutum - án allra skilyrða." 

  Auðséð er á uppsetningu að auglýsingin er ekki hönnuð af fagmanni.  Líka vegna þess að fagmaður veit að bannað er að auglýsa með hæsta stigs lýsingarorði.  Líka vegna þess að ekki má ljúga í auglýsingum. 

  Ég átti erindi um höfuðborgarsvæðið.  Ók framhjá nokkrum bensínstöðvum Orkunnar (Skeljungs).  Þar kostaði bensínlítrinn kr. 216,80,-  Nema á Reykjavíkurvegi.  Þar kostaði hann kr. 188.8,-.  Sú stöð var merkt í bak og fyrir textanum:  "Ódýrasta eldneytisverð á landinu". 

  Ég var nokkuð sáttur við það.  Þangað til ég ók framhjá Costco.  Þar kostaði bensínlítrinn kr. 180.9,-  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það þarf enginn að vera hissa á því að sjá svona blekkinga auglýsingar frá Orkunni/Skeljungi. Þó að klaufalega sé að verki staðið, þá er einbeittur brotavilji að baki. Rétt eins og að eldsneytisálagning er í hæstu hæðum núna eins og FÍB hefur réttilega bent á. Græðgisvæðing hefur tekið völdin, stjórnarformaður Skeljungs / Orkunnar jú enginn annar en Jón Ásgeir. 

Það er eins og nýr Baugur sé að verða til. Nýtt ,, Baugsævintýri ,, er eitthvað sem þjóðina vantar EKKI í dag.

Stefán (IP-tala skráð) 4.4.2020 kl. 04:02

2 identicon

Samráð og okur hefur alla tíð einkennt sölustarfsemi olíufélaga á Íslandi. Það virðist vera lögmál. Eina bótin er að starfsfólkið á stöðvunum er ljómandi.

sigurður bjarklind (IP-tala skráð) 4.4.2020 kl. 06:48

3 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  svo skemmtilega vill til að Costco kaupir sitt bensín af Skeljungi.  Samt eru bensínstöðvar Orkunnar þetta dýrari.  

Jens Guð, 4.4.2020 kl. 07:58

4 Smámynd: Jens Guð

Sigurður,  sannarlega eru "bensíntittirnir" hver öðrum ljúfari, betri og hjálplegri.  Reyndar mega þeir strangt til tekið ekki aðstoða fólk á plani en gera það samt.  

Jens Guð, 4.4.2020 kl. 08:00

5 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Ætli Íslendingar fjölmenni ekki til að versla við Skeljung til að samhryggjast Jóni Ásgeiri fyir að eiga ekki lengur einkaþotu,lúxussnekkju,íbúðir á Manhattan svo eitthvað sé nefnt!!!

Sigurður I B Guðmundsson, 4.4.2020 kl. 10:26

6 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  landinn stendur í biðröðum við bensíndælur Skeljungs (Orkunnar).  Ákafinn er svo mikill að 2ja metra reglan er vanvirt.  

Jens Guð, 4.4.2020 kl. 11:39

7 identicon

Ég álpaðist að Orkustöð um daginn og þar sem ég var að leggja bílnum og horfði á dæluna, þá leit hún allt í einu út eins og Jón Ásgeir, svo ég keyrði að dælu hjá öðru olíufélagi og ákvað að sniðganga Orkuna / Skeljung algjörlega framvegis. 

Stefán (IP-tala skráð) 4.4.2020 kl. 11:59

8 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  þetta hefur verið JÁ að stilla sér upp við dælurnar - til að láta vita hver er húsbóndinn á heimilinu.  

Jens Guð, 4.4.2020 kl. 14:04

9 identicon

Aftur birtist heilsíðuauglýsingin óbreytt í Fréttablaðinu í dag og ,, baugsfnykur ,, orkunnar / skeljungs verður bara sterkari.

Menn langar auðvitað í lúxusíbúðir í New York og nýja snekkju. Neytendastofa o.fl. hljóta að fara að gera athugasemdir við þetta. 

Stefán (IP-tala skráð) 6.4.2020 kl. 21:28

10 Smámynd: Jens Guð

Stefán (# 9"),  þetta kallast einbeittur brotavilji. 

Jens Guð, 6.4.2020 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband