19.7.2009 | 02:57
Falleg smásaga af ættleiðingu
Jón Jónsson er kominn á fimmtugsaldur. Hann hefur aldrei verið við kvenmann kenndur. Hann hefur ekki mátt vera að því. Hann hefur verið upptekinn við að verða ríkur. Til þess hefur hann prófað margar leiðir: Sett upp sólbaðsstofu og bónstöð, opnað gervinaglastofu og tekið þátt í öllum píramídasölukerfum sem hann hefur frétt af: New skin, Herbalife, Living Forever Products, Topperware, Rainbow ryksugur, gullmyntusölu, Noni drykk, keðjubréf af ýmsu tagi og svo framvegis.
.
Frá unglingsárum hefur Jón alltaf verið þumlungi frá því að verða milljarðamæringur. Árlega hefur hann sagt mörgum sinnum við kunningjana: "Á sama degi að ári verð ég sestur á helgan stein. Hættur að vinna við annað en fylgjast með milljörðum streyma inn á bankabækur mínar." Í kjölfar hefur fylgt glæsileg útlistun á því hvernig dæmin vinda upp á sig með þessum árangri.
.
2007 fór Jón út í bílapartasölu. Einn daginn fékk bílapartasalan upphringingu frá Færeyjum. Þar var Íslendingur að leita að peru í stefnuljós á gamlan bíl. Jón átti það og sendi Íslendingnum. Eftir þetta kallaði Jón sig útrásarvíking. Veldi hans var farið að teygja anga sína til útlanda.
.
Í vetur var ættleiðingalögum á Íslandi breytt. Nú mega einstaklingar ættleiða börn. Þá helltist yfir Jón löngun til að verða foreldri. Hann sótti í snarhasti um að fá að ættleiða dreng. Aldur skipti engu máli. Kostnaðurinn var um hálf milljón króna. Jón var ekki í vandræðum með að reiða hana fram. Hann hringdi í pabba sinn og náði að slá hann um upphæðina.
.
Nokkru síðar fékk Jón Jónsson tvö bréf frá ættleiðingastofu. Hann var boðaður á fund til að ganga frá málum.
Jón mætti tímalega. Honum var vísað inn til ábúðamikils embættismanns. Sá tilkynnti að nú væri allt klappað og klárt og aðeins þyrfti að undirrita pappíra og Jón yrði þaðan í frá einstætt foreldri. Barnið væri ekki mætt en til að nota tímann væri ekki eftir neinu að bíða. Bara vinda sér í undirskriftir.
.
Embættismaðurinn hamaðist í tölvunni sinni og sagði með þunga: "Þetta er drengur sem heitir Jón Jónsson, eins og þú. Það er skemmtileg tilviljun og einfaldar öll mál. Hann er fæddur...ja, bíðum nú við. Hann virðist vera jafnaldri þinn. Ég ætla aðeins að fletta upp á kennitölu þinni. Já, hér er hún. Þetta er skrítið. Þetta er sama kennitala. Þú ert að ættleiða sjálfan þig."
Jóni var brugðið: "Ha? Er ég að ættleiða sjálfan mig? Hvernig má það vera?"
Embættismaðurinn var líka hissa en sagði jafn ábúðafullur og áður: "Þú hefur greinilega fyllt út umsóknina svona. Þú hefur ættleitt sjálfan þig."
.
Jón rifjaði upp í huga sér að hann hafði ekki skilið upp né niður í umsókninni. Það hafði alltaf gefist vel að skrifa bara eitthvað á svona plögg.
Embættismaðurinn varð ennþá ábúðafyllri en áður og sagði: "Þú skráðir þig sem ættleiðanda sjálfs þíns. það erindi hefur verið samþykkt. Pappírar þínir eru í lagi og uppfylla öll skilyrði."
Jón maldaði í móinn: "Ég hef fyllt eitthvað vitlaust út. Það var ekki ætlun að ættleiða sjálfan mig." Svo bætti hann við ráðagóður: "Ég geri bara nýja umsókn."
Embættismaðurinn sýndi lit og var fullur samúðar: "Já, þú getur aftur sótt um eftir 7 ár. Þá höfum við fylgst með hvernig tekst til með þessa ættleiðingu. En drollum ekki yfir þessu. Við þurfum að skrifa hér undir örfáa pappíra til að ganga að fullu frá ættleiðingunni. "
.
Þeir hófust þegar handa. Þegar öllum formheitum var lokið gekk Jón Jónsson ringlaður út í góða veðrið. Hann gekk í þungum þönkum heim á leið. Hann gleymdi að hann hafði komið á bílnum sínum.
Jón fékk skyndilega kvíðakast. Hann var búinn að stefna helstu ættingjum og vinum til hátíðarkvöldverðar til að fagna ættleiðingunni. Gestir eiga að mæta klukkan 20.00 á Hótel Nordica. Í engu er sparað í mat og drykk. Hljómsveit mun spila dinnermúsík á meðan borðhald stendur yfir og dansmúsík eftir það.
Hvernig á Jón Jónsson að útskýra að hann hafi ættleitt sjálfan sig? Þetta verður vandræðalegt. Allt í einu fær Jón góða hugmynd. Hann klappar sér blíðlega á aðra kinnina og segir: "Sonur sæll. Ég læt þig um að útskýra þetta fyrir fólkinu. Ef þú klúðrar einhverju er það þér sjálfum til minnkunar en ekki mér."
.
Við þessa góðu lausn verður Jón Jónsson svo glaður að hann rífur af sér harmónikutösku sem hann hefur burðast með á bakinu undanfarnar vikur. Töskuna setur hann á jörðina og tekur upp úr henni forláta harmóniku. Hann festir 5 metra langa keðju í töskuna og hinn enda keðjunnar krækir hann í beltið sitt. Því næst lítur hann eldsnöggt í kringum sig. Hann kemur auga á tvo fjúkandi innkaupapoka. Annar er merktur Bónusi og hinn Nóatúni. Jón hnýtir pokana með jöfnu millibili á keðjuna. Honum þykir litríkir pokarnir laða fram hátíðastemmningu.
.
Jón festir í snatri á sig harmónikuna og gengur hröðum skrefum með töskuna í eftirdragi. Hann spilar fjörugan slagara frá Utangarðsmönnum á harmónikuna. Glaðleg músíkin kætir Jón. Án þess að taka eftir því fer hann ósjálfrátt að syngja með. Hann tekur heldur ekki eftir því að þegar hann þrammar framhjá elliheimilinu Grund þá renna vistmenn á hljóðið. Þeir sleppa út á gangstétt og troðast í halarófu á eftir harmónikutöskunni. Flestir með stafi eða í göngugrind. Jón er horfinn inn í heim tónlistarinnar. Hann tekur ekki eftir umhverfinu. Fyrr en varir er hann farinn að syngja eins hátt og lungu og raddbönd leyfa. Íbúar í næstu húsum reka höfuð út um glugga eða flykkjast út á svalir beggja vegna götunnar. Allir taka hraustlega undir með Jóni um leið og þeir henda smákökum, pennum og kjötbeinun í gamla fólkið af Grund. Hverfið bergmálar í fjörlegum fjöldasöng:
Þið munuð öll, þið munuð öll,
Þið munuð öll, þið munuð öll,
þið munuð öll deyja!
Þið munið stikna, þið munið brenna!.
Þið munuð stikna, þið munuð brenna!
Feður og mæður, börn ykkar munu stikna...
.
.
.
--------------------------------------------------------------------
Fleiri örleikrit og smásögur:
- Matarboð í sveitinni
- Morðsaga
- Um borð
- Í plötubúð
- Hundur
- 27 ára
- Strákur skiptir um gír
- Skokkari
- Boltabulla
- strákur með sög
Meginflokkur: Bækur | Aukaflokkar: Pepsi-deildin, Lífstíll, Menning og listir | Breytt 7.9.2009 kl. 10:19 | Facebook
Athugasemdir
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.7.2009 kl. 03:04
Jóna Kolbrún, takk fyrir innlitið. Það er smá pönk í þessu.
Jens Guð, 19.7.2009 kl. 03:11
Sýra út í eitt.
SKK (IP-tala skráð) 19.7.2009 kl. 03:17
Steypa út í gegn.
brahim, 19.7.2009 kl. 05:13
ég er hræddur um að fúggalyfin séu enn að virka Jens :D
Óskar Þorkelsson, 19.7.2009 kl. 11:45
Þú ert nú meiri steikin Jens
Ómar Ingi, 19.7.2009 kl. 13:16
Það væri gaman að vita hvaða efni eru í lyfjunum og hvers vegna krossvirkni þeirra er svona
Jóhannes (IP-tala skráð) 19.7.2009 kl. 13:33
Ég sé þig fyrir mér í rúminu skemmta þér við að skemmta öðrum
Ég hafði gaman að steypunni. Er sagan heimfærð til einhverra nokkurra persóna? Kannski nokkrar samansteyptar í eina?
Guðni Karl Harðarson, 19.7.2009 kl. 13:34
Þessi maður býr trúlega á Skagaströnd.
Þorsteinn Briem, 19.7.2009 kl. 13:42
SKK, það er eitthvað skrítið við þetta.
Jens Guð, 19.7.2009 kl. 23:13
Brahim, enda var í engu sparað með járnbindinguna.
Jens Guð, 19.7.2009 kl. 23:14
Óskar, ég er enn á fúkkalyfjakúr í bland við verkjalyf og bólgueyðandi. Ég er meira og minna í móki af þessu. Sagan varð einmitt til í einu góðu móki þar sem draumfarir blönduðust ofsjónum er ég sveif á milli svefns og vöku.
Jens Guð, 19.7.2009 kl. 23:18
Ómar Ingi, þetta er verulega steikt. Það leynir sér ekki.
Jens Guð, 19.7.2009 kl. 23:19
Jóhannes, það er innihaldslýsing á öllum lyfjunum. Ég þekki hinsvegar ekki fyrir hvað hin ýmsu hráefni standa.
Jens Guð, 19.7.2009 kl. 23:21
Guðni Karl, ég hafði engar tilteknar lifandi persónur sem fyrirmyndir. Þetta er bara bull út í loftið. Hinsvegar ætla ég að flestir kannist við einhverjar manneskjur sem hafa alla sína ævi verið á fullu við að verða ríkar í gegnum öll þessi píramídasölukerfi og annað slíkt sem hellist yfir á hverju ári.
Jens Guð, 19.7.2009 kl. 23:26
Steini, þessi var góður! Og sennilega hittirðu naglann á höfuðið.
Jens Guð, 19.7.2009 kl. 23:28
Prófaðu bara Magnyl,held að það virki alltaf ágætlega.Góðan bata.
Númi (IP-tala skráð) 19.7.2009 kl. 23:41
Númi, þær virka ágætlega þessar Paratabs verkjatöflur sem ég var settur á. Ég læt læknana um þetta. Það er þeim sem er boðið í kokteilboðin og veislurnar hjá Actavis og hvað þessi lyfjafyrirtæki.
Jens Guð, 19.7.2009 kl. 23:52
Er ennþá að reyna að muna á hvaða punkti ég fór að hlæja...
Það gerðist nú samt.
Minnir hins vegar soldið á hrossið sem var tvíburi sjálfs síns.
Hildur Helga Sigurðardóttir, 20.7.2009 kl. 01:01
Hildur Helga, ég kannast ekki við söguna um hrossið sem var tvíburo sjálfs síns. Það væri gaman að heyra meira af því.
Jens Guð, 20.7.2009 kl. 01:14
Fréttin um tvíburahrossið var í sjónvarpsfréttum í liðinni viku. Sérfræðingar segja að tvö frjóvguð egg hafi orðið að einu...þess vegna sé hrossið (Trippið) tvíburi sjálf síns. Enda er það með dökkbrúnan afturenda...rauðan haus og háls...og skjótt að auki. Þetta er víst mjög sjaldgæft fyrirbrygði.
brahim, 20.7.2009 kl. 01:43
Briham, takk fyrir þessar upplýsingar. Þetta er sprenghlægilegt.
Jens Guð, 20.7.2009 kl. 03:10
Ég tók ekki eftir því hvenær ég byrjaði að hlæja en hæst hló ég þegar gaurinn byrjaði að syngja
Þór (IP-tala skráð) 20.7.2009 kl. 13:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.