Færsluflokkur: Íþróttir

Mikilvægt að leiðrétta

  Í gær bloggaði ég um glaðværa og ofur hamingjusama gesti á hinum frábærlega skemmtilegu Færeysku fjölskyldudögum á Stokkseyri  (sjá:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1081699/ ).  Þar hélt ég eftirfarandi fram:  "Það hefur ekki einu sinni komið upp sú staða að menn séu ósammála um eitt né neitt"

  Vegna trúverðugleika þessarar bloggsíðu sé ég mig knúinn til að leiðrétta þetta.  Í gær hitti ég nefnilega Færeying sem hafði aðra sögu að segja.  Hann var í fótboltaliði Færeyinga sem keppti við Íslendinga á laugardaginn á íþróttavelli Stokkseyrar.  Þessi maður fullyrti að Íslendingar hafi verið rangstæðir allan leikinn.  Aðrir voru ósammála honum.

  Hér eru nokkur eftirminnanleg atriði úr leiknum:


Hnefaleikakeppni aldarinnar

 boxing_giant

   Það stendur mikið til.  Jói sleggja hefur skorað á sjálfan sig í boxeinvígi aldarinnar.  Það hefur aldrei áður ríkt jafn mikill spenningur fyrir hnefaleikakeppni.  Hnefaleikahöllin er þéttsetin.  Það er fyrir löngu síðan uppselt á bardagann.  

  Fyrsta lota byrjar frekar rólega.  Jói sleggja þreifar fyrir sér.  Hann er að kynnast sér.  Vega og meta veikleika sína og styrkleika.  Rétt áður en bjallan glymur nær Jói sleggja að koma upphöggi á sjálfan sig.  En nær að verjast með því að sveigja andlitið aftur á bak á síðustu stundu.  En hrekst um leið út í horn.
  Næsta lota hefst á harðri sókn.  Jói sleggja á í vök aö verjast.  Áhorfendur standa með honum.  Það gefur honum aukið sjálfstraust.  Hann verst eins og óður maður um leið og hann reynir að finna veika bletti á sjálfum sér.  Ótal vindhögg setja strik í reikninginn.  Jói sleggja finnur fyrir þreytu.  En hann lætur ekki deigan síga.  Það er að duga eða drepast. Hann lætur höggin dynja á sér.  En verst samt hetjulega.  Hugsunin snýst um að verja höfuðið fyrir óvæntum stungum.
  Bjallan hringir.  Það er jafntefli enn sem komið er.  Jói sleggja ákveður í samráði við þjálfara sinn að beita óþokkabrögðum í 3ju lotu.  Um leið og hún hefst kýlir Jói sleggja viljandi undir beltistað.  Dómarinn dregur upp gula spjaldið.  Jói hrifsar gula spjaldið af dómaranum og étur það.  Það snöggfýkur í dómarann.  Hann dregur upp rauða spjaldið.  Jói sleggja hrifsar það einnig af honum og étur það.  Dómarinn gefur merki um hlé á bardaganum.  Síðan kallar hann reiðilega og skipandi til þjálfarans hans Jóa sleggju:  "Komdu með vatn handa kallinum.  Það er ekki hægt að láta hann éta tvö skraufþurr spjöld í röð án þess að drekka vatn með."
  Þjálfarinn hlýðir.  Jói sleggja þambar tvo lítra af vatni og biður um meira.  Hann er í stuði.  Hann kemur auga á skúringafötuna fulla af óhreinu sápuvatni og þambar allt úr henni líka.  Jói sleggja er hörkutól og engin pempía.  Hann rífur moppuna af skúringastönginni og sporðrennir henni (ekki skúringastönginni.  Bara moppunni).  Enda orðinn svangur eftir allan hamaganginn.  
  Það gutlar í Jóa sleggju þegar dómarinn hleypir bardaganum í gang aftur.  Jói sleggja tekur á öllu sínu.  Undir lok 3ju lotu nær hann upphandarhöggi og vankast.  Hann fylgir því eftir með rothöggi beint í andlitið.  Dómarinn gefur merki um að bardaganum sé lokið.
  Áhorfendur tryllast.  Allir standa með Jóa sleggju.    
  Jói sleggja rankar við sér.  Dómarinn krýnir hann sigurbelti undir drynjandi lófaklappi áhorfenda.  Þegar Jói sleggja yfirgefur hringinn flykkjast fréttamenn að honum.  Spurningarnar dynja á Jóa.  Aðallega sú hvers vegna hann berjist bara við sjálfan sig.  Jói sleggja svarar hreinskilnislega.  Hann hefur engu að leyna:  "Ég hef einfaldan smekk. Ég berst aðeins við þann besta."
----------------------------
Fleiri smásögur og leikrit:
 - Peysuklúbburinn
.
 - Vinalegur náungi:
.
 - Gamall einbúi
.
- Saga af systrum
.
 - Jólasaga
.
- Á rjúpnaveiðum:
.
- Ólétta nunnan:
.
- Gullfiskur:
.
- Flugvélamódel:
.
- Miðaldra maður:
.
- Leyndarmál stráks:
.

Frábært lag

  Ég veit ekkert um boltaleiki.  Þykir þeir allir hundleiðir áhorfs og er alltaf slétt sama um hverjir böðlast í þessum krakkaleikjum óháð því hverjir eru að sprikla hverju sinni.  Hinsvegar dúkka stundum upp flott lög þegar boltaleikir í sjónvarpinu eru auglýstir.  Sérstaklega er gaman þegar þar eru spiluð lög með The Sex Pistols eða The Clash.  Núna keyrir Sjónvarpið boltaauglýsingu með "intrói" lagsins  I Fought the Law  með The Clash.  Eitthvað EM sem ég veit ekki hvað er.  Kannski Evrópumót boltaleikja óþroskaðra drengja sem hafa ekkert betra við tímann að gera en elta uppblásna tuðru?  Skiptir ekki máli af minni hálfu. Hún gefur upp boltann fyrir að rifja upp þetta ágæta lag sem tvívegis hefur farið hátt á vinsældalista víðsvegar um heim.  Takið eftir skemmtilegum áherslum trommuleiks Toppers Headons sem keyrir glæsilega upp hrynjanda lagsins.

  Er þetta norski fáninn sem trónir í bakgrunni?


mbl.is "Fingur" Nevilles til rannsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jenka - og allt verður vitlaust! Þvílíkt stuð!

  Í þriðja þætti  Færibands  Bubba á rás 2 í kvöld með Ragga Bjarna sem viðmælanda fóru þeir félagar enn og aftur á kostum.  Aldeilis frábært útvarpsefni.  Raggi er snilldar sögumaður og þeir Bubbi ná einstaklega vel saman á þann hátt að spjall þeirra fer á gott flug.  Fyrir þá sem misstu af þættinum eða vilja heyra hann aftur er hægt að slá honum - og fyrri þáttunum - upp á www.ruv.is.

  Þeir félagar komu inn á fyrirbærið jenka.  En játuðu vanþekkingu á þessu fyrirbæri.  Jenka er finnskur dans.  Hvar sem tveir Finnar eða fleiri koma saman brestur á með jenka.  Finnar verða jafn friðlausir að dansa jenka og Færeyingar að stökkva í hringdans þegar þeir hittast.  Mestu töffarar Finna bregða á jenka hvenær sem færi gefst.  Jenka er málið í Finnlandi.   

 


Splunkuný mynd af Tiger Woods

  Fyrir nokkrum dögum vissi ég ekki hver Tiger Woods var.  Jú,  nafnið hljómaði kunnuglegt og ég held að ég hafi getað sett það í samhengi við golf frekar en körfubolta - ef ég hefði virkilega farið að velta fyrir mér hvers vegna nafnið var kunnuglegt.  En ég var bara ekkert að pæla í því.  Eg fékk um daginn "add" frá Tiger Woods á Fésbók.  Mér hefur verið kennt að sýna varkárni þegar "add" berst frá útlendu nafni.  Það ku vera algengt að um vírus sé að ræða.  Ég sendi skilaboð til baka þar sem ég óskaði eftir nýjustu mynd af manninum.  Ég þekkti hann ekki á myndinni sem fylgdi "addinu".  Hún var greinilega gömul.

  Nú er ég búinn að fá splunkunýja mynd af manninum.  Þetta virðist vera sami maður og er í fréttum þessa dagana fyrir klaufalegt aksturslag,  framhjáhald og annað slíkt sem fylgir gjarnan velgengni í íþróttum. 

tiger_woods_jolakort.jpg

 


mbl.is Tiger segist hafa brugðist fjölskyldu sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðskemmtilegar ljósmyndir af rónum

  Margir hafa undrast hvers vegna flestir rónar líta úr eins og nýkomnir úr góðu átaki í líkamsrækt þegar þeir voru í raun bara á nokkurra daga fylleríi.  Nú hefur rannsókn leitt í ljós að þegar langdrukknir menn komast í tiltekið ölvunarástand þá leitar líkami þeirra ósjálfrátt í helstu jógastellingar,  eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmyndum.  Manneskjan á myndunum til vinstri er að mestu edrú.  Hún stundar jóga. 

1yoga

Þessi stelling kallast "Savasana" sem þýðir fullkomin afslöppun.  Fólk fer oftast í hana í lok jógatíma eða í lok erfiðs drykkjudags.

 

3yoga

"Balasana" heitir þessi stelling.  Í henni er upplifun á frið og ró sterkust.  Galdurinn er að fótleggir og tær þurfa að snerta gólf eða jörðu.  Höfuð slútir niður en annar hluti búksins er ofar.

 

5yoga

"Setu Bandha Sarvangasana" er nafnið á þessari erfiðu æfingu.  Fótleggir snúa beint niður en læri og magi liggja ofar.  Hendur,  herðar og höfuð þurfa að liggja á gólfi eða jörðu.  Stellingin hvílir þreytt læri um leið og hún róar hugann. 

7yoga

Hér eru kviður og hryggjasúla styrkt með stellingunni "Marjayasana".  Fótleggir liggja samhliða eftir gólfi eð jörðu,  læri eru lóðrétt og bakið er bogamyndað. 

9yoga

Þessi flókna stelling kallast "Halasana".  Hún vinnur gegn bakverkjum og svefnleysi.  Hún er svo öflug að sumir sofna í henni.  Mikilvægt er að höfuð liggi á gólfi eða jörðu og bakið sé þráðbeint upp í loft.

11yoga

Ekki má gleyma að styrkja axlasvæðið og brjósthol.  Það er gert með æfingunni "Dolpin".  Maðurinn framar á myndinni til hægri telur sig vera með svo ágætt brjósthol og axlir að hann sleppir þessari æfingu.

13yoga

Þá er komið að "Salambhasana" til að styrkja mjóhrygg og fætur.  Nauðsynlegt er að hælar séu hæsti punktur og hendur liggi eftir hliðum.  Ef undirlag er gott er æskilegt að höfuð liggi einnig hátt.  Maðurinn á myndinni til hægri fann ekki gott undirlag en gerir sitt besta í þeim aðstæðum.

15yoga

Höfuð og bak þurfa að liggja þétt á gólfi eða jörðu og fætur mynda efsta punkt.  Æfingin,  "Ananda Balasana",  er góð fyrir mjaðmirnar.

17yoga

Í lokaæfingunni er tekið á honum stóra sínum í "Malasana".  Trixið er að fætur standa á gólfi eða jörðu og rass látinn ná næstum því jafn langt niður en má þó ekki snerta undirlagið.  Æfingin styrkir bakvöðva og ökkla.


Skúbb! Fyrrverandi þingmaður sigurvegari á Landsmóti UMFÍ

  sigurjon

  Gífurlegur fjöldi er nú á Akureyri vegna Landsmóts UMFÍ.  Ég fylgist ekki með íþróttaviðburðum (ef hnefaleikar eru undanskildir ásamt strandblaki kvenna).  En meistarinn Magnús Geir Guðmundsson (www.meistarinn.blog.is) var svo elskulegur að senda mér skýrslu um hápunkta mótsins.  Fyrst  hann slær því ekki upp á sínu bloggi bregð ég við skjótt og skúbba hér:

  Keppt var í sjósundi yfir Eyjafjörð.  Af hátt í fjörtíu keppendum sigraði með glæsibrag Sigurjón Þórðarson formaður Ungmennafélags Skagafjarðar,  Hegranesgoði og fyrrverandi alþingismaður Frjálslynda flokksins.  Ég sló á þráðinn til Sigurjóns.  Hann var að vonum ánægður með árangurinn.  Sigurinn kom honum á óvart.  Þetta er í fyrsta skipti sem hann prófar sjósund. 

  Sigurjón var 29 mínútur að synda yfir fjörðinn en flestir aðrir um þrjú korter.  Vegalengdin var vel á annan kílómetra.  Sennilega tæpur hálfur annar.


Færeyjar 14 : Ísland 1

 kvennabolti

   Ég horfi aldrei á fótbolta.  Þess vegna missti ég af leiknum Færeyjar-Ísland í gær.  Mér var hinsvegar sagt frá leiknum ásamt þeim tíðindum að Færeyingar væru að bursta Íslendinga.  Þá fór ég á stúfana að kanna málið.  Þetta er mjög merkilegt mál og ekki allt sem sýnist.

  Færeyingar vorkenna Íslendingum svo gífurlega vegna efnahagshrunsins að þeir sendu hingað lið með amatörum að uppistöðu til.  Menn sem fundust á rölti uppi í færeyskum brekkum og höfðu aldrei spilað alvöru fótboltaleik áður.  Þetta átti að tryggja að Íslendingar fengju að vinna leikinn.

  Í einhverjum galsa og kæruleysi skoruðu Færeyingar fyrsta mark leiksins.  Næst skoruðu Íslendingar,  eins og ráð var fyrir gert.  Nema Íslendingar skoruðu sjálfsmark.  Þá var staðan 2:0 fyrir Færeyjar.  Færeyingar urðu miður sín.  Þeim þótti sem þeir væru orðnir ógeðslega ókurteisir við gestgjafa sína og bræður er eiga um sárt að binda vegna frjálshyggjukreppunnar.

  Færeyingar brugðu á það ráð í seinni hálfleik að standa allir mun aftar á leikvellinum til að leyfa Íslendingum að leika sér með boltann nálægt færeyska markinu.  Áður en yfir lauk tókst Íslendingum loks með erfiðismunum að pota einum bolta í færeyska markið.  Færeyingum var gífurlega létt og réðu sér varla fyrir kæti.  Þeir hefðu aldrei fyrirgefið sér að sigra Ísland 2:0.  Það hefði verið meiri ruddaskapur en Færeyingar geta afborið að sýna Íslendingum.

  Þar fyrir utan þýða þessi úrslit í raun 14:1 þegar tekið er mið af höfðatölu.  Færeyingar kunna ekki við að segja það upphátt.


mbl.is „Möguleikarnir fyrir hendi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lauflétt smásaga

boltamynd

  Baddi boltabulla sækir alla fótboltaleiki sem hann veit af.  Reyndar bara þá sem ekkert kostar inn á.  Að öðru leyti skiptir það Badda boltabullu ekki máli hvort 4ðu deildar lið séu að keppa eða utandeildarlið. 
  Badda boltabullu er alveg sama hvaða lið keppa.  Hann stendur ýmist með öðru liðinu eða báðum ef liðin eru ekki í vel aðgreindum búningum.  Hann gerir hróp að leikmönnum.  Stundum með hvatningaorðum en oftast með skömmum.  Sakar þá um klaufaskap,  aulagang og að brjóta af sér í leiknum.  Hróp hans óma allan leikinn.  Hann tilkynnir rangstöðu,  hendi,   víti og annað sem honum þykir aðfinnsluvert.  Tilkynningarnar eru aldrei til samræmis við úrskurð dómarans.  Kannski er það þess vegna sem hann hellir spurningum yfir dómarann:  "Ertu blindur,  fíflið þitt?",  "Ertu sofandi,  heimski ræfill?",  "Ertu vangefinn?"
   Einstaka sinnum hleypur Baddi boltabulla inn á völlinn og eldsnöggt út af aftur.  Í þau skipti hefur hann hripað niður á blað orðsendingu til leikmanna.
  Um daginn hljóp hann að einum með bréf sem í stóð:
  "Lýður Hörður!  Þú ert ömurlegasti knattspyrnumaður sem ég hef séð.  Síðast þegar ég sá þig spila var ég svo heppinn að heyra dómarann kalla nafn þitt.  Ég var fljótur að skíra útikamarinn minn í höfuðið á þér.  Ef þú átt leið um Grímsnesið getur þú fundið kamarinn við sumarbústaðinn minn.  Kamarinn er merktur stórum gulum stöfum "Lýður Hörður".  Í mínum huga eru Lýður Hörður og kamar eitt og hið sama." 
  Undir þetta skrifaði Baddi stoltur fullt nafn sitt.
  Baddi boltabulla hristist af hlátri á meðan hann fylgdist með manninum lesa bréfið.  Hláturinn breyttist í forvitnissvip er maðurinn,  að loknum lestri,  dró upp blað og penna og byrjaði að skrifa á blaðið.
  Þegar leikurinn var flautaður af gekk hann framhjá Badda boltabullu og rétti honum blaðið.  Á því stóð:
  "Kæri Baldur.  Ég hef aldrei spilað fótbolta.  Þess vegna get ég hvorki verið ömurlegur knattspyrnumaður né góður.  Hinsvegar er ágætt að þú skulir hafa eytt tíma og málningu í að skrifa Lýður Hörður á kamarinn þinn.  Láttu það standa þar áfram.  Ég heiti ekki Lýður Hörður og dómarinn segir ekki Lýður Hörður þegar hann kallar til mín.  Hann segir línuvörður."
------------------

Skagamenn skoruðu mörkin

  Ég veit ekkert um fótbolta.  Ég fylgist ekkert með því dæmi.  Mér þótti gaman að spila fótbolta sem barn og unglingur.  Þótti skemmtilegast að svindla eða fíflast.  Mér stóð alltaf á sama hver vann og annað í þeim dúr.  En á fullorðinsárum skiptir fótbolti mig engu máli.  Ég hef aldrei haldið með neinu liði öfugt við systkini mín og foreldra.  Ættingjarnir eru uppteknir af Liverpool,  KA,  Þór,  KR og einhverjum liðum sem að ég hef engan áhuga á að fylgjast með.  Ég nenni ekki að horfa á fótbolta nema þegar Færeyingar keppa.

  Á dögunum barst mér í hendur plata sem heitir Skagamenn skoruðu mörkin.  Ansi hreint áhugaverð plata með lögum úr ýmsum áttum.  Einkum þykir mér fengur að flutningi Óla Palla snillings á rás 2 á laginu Blindsker eftir Bubba Morthens.  Frá því að mér barst platan hef ég ítrekað staðið mig að því að setja umrætt lag á "repeat".  Lagið var/er frábært með Das Kapital.  Það er ennþá flottara með Óla Palla.  Aldeilis mögnuð útfærsla.

  Ég á eftir að spila plötuna oftar áður en ég skrifa um hana plötudóm. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.