Lulla frænka og Sophia Loren

  Lulla frænka var ekki alltaf fyrirsjáanleg.  Hvorki í orðum né gjörðum.  Hún átti þrjú systkini á Norðurlandi.  Sjálf bjó hún í Reykjavík.  Hún var dugleg að heimsækja systkini sín og frændfólk.  Dvaldi þá dögum saman hjá hverjum og einum.  Það var alltaf mjög gaman þegar Lulla var í heimsókn.  Hún skipti sér meira af okkur börnunum en flest annað fullorðið fólk.  Spjallaði mikið við okkur alveg frá því að við lærðum að tala.  Hún söng fyrir okkur í ítölskum óperustíl og jóðlaði heilu ósköpin.  Hún kenndi okkur að húlla.  Það var einhverskonar dans með stórri gjörð um mittið.  

 

  Lulla sagðist vera ein örfárra Íslendinga sem kynni að jóðla og kynni tökin á húlla.  Gat sér til um að hún væri flinkasti húlla-dansari Íslands.  Kannski var það rétt hjá henni.  Við höfðum engan samanburð.  Nema,  jú,  við krakkarnir gáfum henni lítið eftir þegar á reyndi.  Kannski er húlla-hæfileikinn ættgengur.

  Lulla taldi sig vera tvífara þekktrar ítalskrar leikkonu,  Sophiu Loren.  Henni dauðbrá, að sögn,  stundum þegar hún leit í spegil.  Í speglinum blasti við andlit Sophiu Loren.  Hana grunaði sterklega að þegar hún væri á gangi niðri í bæ þá héldi fólk að þar færi Sophia Loren.  

  Lulla vissi ekki til að þær Sophia Loren væru skyldar.  Engu að síður taldi hún augljóst að um æðar sér rynni suðrænt blóð.  Hún gat ekki staðsett hvort hún væri af ítölskum,  frönskum eða spænskum ættum.  Það kom til greina að eiga ættir að rekja til allra þessara landa.  Með orðum Lullu:  "Sennilega er ég komin af einhverju fínu fólki í þessum löndum."  Vísbendingarnar sem hún hafði fyrir sér voru meðal annars þær að þegar hún hélt á bolla þá lyftist litli putti ósjálfrátt út í loftið.  Einnig skar hún skorpuna af smurbrauðsneiðum og leifði skorpunni.  Hvorutveggja einkennandi fyrir kónga og annað fyrirfólk í suðrænum löndum, að sögn Lullu.

  Lulla var svarthærð með svartar augabrúnir og stór augu.  Með einbeittum vilja mátti merkja að eitthvað væri svipað með andlitsdráttum þeirra Sophiu Loren.  En þær voru ekki tvífarar.  Það var lítil hætta á að fólk ruglaði þeim saman. 

sophia_loren.jpg   Á æskuheimili mínu,  sveitabæ í útjaðri Hóla í Hjaltadal,  var oft fjölmennt á sumrin.  Einkum í sumarfrísmánuðinum júní.  Þá komu ættingjar og vinir foreldra minna í heimsókn.  Flestir stoppuðu í marga daga eða vikur.  Foreldrum mínum og okkur krökkunum þótti þetta rosalega gaman.  Þegar best lét voru hátt í 30 næturgestir til viðbótar við 9 heimilisfasta.  Þá var slegið upp tjaldi úti á hlaðvarpanum.  Jafnframt man ég eftir tilfellum þar sem við nokkrir krakkar sváfum úti í hlöðu.  Það var mikið ævintýri og góð skemmtun.  

  Lulla var eitt sinn í heimsókn þegar gestum fjölgaði.  Einhverra hluta vegna var hún ósátt við það.  Hugsanlega fannst henni þrengt að svefnstað sínum.  Mér dettur það í hug vegna þess að hún tók upp á því að vaka fram á nótt eftir að aðrir voru lagstir til hvílu.  Hún sat þá alein í eldhúsinu,  drakk svart kaffi og keðjureykti.  

  Snemma nætur renndi nýr bíll í hlað.  Lulla spratt til dyra.  Úti fyrir stóð vinafólk okkar,  langt að komið.  Daginn eftir tilkynnti Lulla okkur að hún hafi verið snögg að snúa þessu fólki við.  Hún hafi sagt þeim að það væri ekki smuga á næturgistingu fyrir þau.  Það væri þvílíkt stappað að fjöldi manns svæfi á eldhúsgólfinu og sjálf þyrfti hún að sofa í baðkarinu.  

  Hvorutveggja var ósatt.  Það svaf enginn í eldhúsinu og því síður í baðkarinu.  Næturgestir voru ekkert það margir í þetta skiptið þó að þeir væru margir.  Það var alveg pláss fyrir fleiri.  Foreldrum mínum þótti miður að Lulla hefði vísað vinafólkinu á brott.  Fannst samt fyndið að Lulla skyldi skrökva þessu með baðkarið.  Lullu þótti ekkert fyndið við það.  Hún sagði alvörugefin:  "Þetta var það eina sem mér datt í hug.  Og það hreif.  Fólkið snéri við í dyrunum og fór.  Ég fór að sofa og hef sjaldan sofið betur."   

--------------------------------

Meira af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1358050/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband