Lulla frænka og jólaöl

  Þegar ég var í Myndlista- og handíðaskólanum á áttunda áratugnum var stranglega bannað að selja bjór á Íslandi (nema á Keflavíkurvelli).  Þingheimur taldi bjór vera stórhættulegan drykk sem myndi tortíma mannkyninu.  Ég hafði efasemdir og bruggaði dökkan bjór.  Líka vegna þess að námslánin dugðu ekki til að ég gæti styrkt ríkiskassann með myndarlegum fjárframlögum í gegnum vínbúðir ÁTVR.  Þrautalending var að brugga bjór.  

  Svo bar við eitt sunnudagskvöld að ég tappaði bjórnum á flöskur.  Allt var á kafi í snjó (úti,  vel að merkja) og ófærð.  Þá birtist Lulla frænka skyndilega í útidyrunum hjá mér.  Hún var alveg ónæm fyrir muni á færð og ófærð.  Það vissi enginn til þess að hún hefði einhvertíma lent í vandræðum á Skodanum sínum vegna ófærðar.  Þó hlýtur það að hafa gerst.  Ég hef áður sagt frá því þegar öll umferð lá niðri í Reykjavík vegna brjálaðs veðurs.  Allt lamaðist.  Fólk komst hvorki til vinnu né í skóla.  Öryrkjabíllinn fór hvergi.  En Lulla brunaði á sínum bíl frá Skúlagötu til Hvíta bandsins efst á Skólavörðustíg.  Og aftur til baka um kvöldið.  Eins og ekkert væri.

  Jæja,  nema það að komin inn á gólf hjá mér rak Lulla augu í bjórinn.  Það hýrnaði heldur betur yfir kellu.  Hún klappaði saman höndum og hrópaði í fögnuði:  "Þetta lýst mér á!  Húrra!  Ég hef ekki fengið jólaöl frá því að ég var krakki.  Nú ber vel í veiði.  Ég verð að fá glas af jólaöli hjá ykkur."

  Ég vildi ekki upplýsa Lullu um að þetta væri bjór.  Lögreglan hafði alltaf töluverð afskipti af Lullu og aldrei að vita hvað hún segði laganna vörðum í ógáti.  Það var,  jú,  ólöglegt að brugga áfengan bjór.  Ég brá á það ráð að segja Lullu að ölið væri ókælt og ekki tilbúið til drykkjar.   En Lulla var viðþolslaus af löngun og sagði að það gerði ekkert til.  Jólaöl væri það besta sem hún fengi hvort sem það væri kælt eða ókælt.

  Ég hellti í hálft glas.  Lulla skellti því í sig í einum teyg og ískraði af ánægju:  "Helltu almennilega í glasið,  drengur!   Þú átt nóg af þessu.  Þetta er sælgæti."   Lulla var ekki vön að vera frek.  Nú lá rosalega vel á henni.  Ég hlýddi.  En hafði nettar áhyggjur af þessu.  Lulla hafði aldrei bragðað áfengi.  Hún hafði óbeit á því.  

  Lulla drakk frekar hratt úr fulla glasinu og vildi meira.  Hún fékk aftur í glasið.  Drakk heldur hægar úr því.  Að því loknu sagði hún:  "Ég er kominn með svima."  Hún var orðin þvoglumælt.  Ég notaði tækifærið og sagði:  "Það borgar sig ekki að drekka meira af ölinu.  Það er ekki alveg tilbúið til drykkjar."  

  Lulla féllst á það.  Sagðist ætla að koma sér heim.  "Þetta er ekkert óþægilegur svimi," útskýrði hún.  "En ég ætla samt heim og leggja mig."  

  Eftir að hafa kvatt heimilisfólkið og þakkað fyrir sig fór Lulla fram í forstofu og tróð sér í stígvél.  Það gekk brösulega.  Lulla vaggaði óstöðug yfir stígvélunum og slagaði utan í vegg.  "Þetta er furðulegt,"  tautaði hún.  "Það er eins og fæturnir hitti ekki í stígvélin.  Ég vona að ég sé ekki að fá matareitrun." 

  Áhyggjur mínar jukust.  Það hvarflaði að mér að hvetja Lullu til að taka leigubíl.  Jafnharðan vissi ég að enga leigubíla var að fá í þessari ófærð.  Að lokum komst Lulla í bæði stígvélin eftir heilmikið puð.  Hún slagaði út í bílinn sinn.  Ég fylgdist með út um glugga.  Lulla kveikti sér í sígarettu um leið og hún settist inn í bílinn.  Hún setti bílinn ekki í gang næstu 40 mínútur.  Keðjureykti bara inni í bílnum.  Loks ræsti hún bílinn og brunaði af stað í gegnum snjóskaflana.

  Þegar ég áætlaði að Lulla væri komin heim til sín hringdi ég í hana.  Mér til óblandinnar gleði svaraði hún í heimasímann.  Heimförin hafði gengið vel.  Ég spurði hvernig sviminn væri.  Lulla svaraði:  "Hann er notalegur.  Ég ætla að leggjast en ekki sofna strax."  

--------------------------------------- 

   Fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1371568/

--------------------------------------- 

   Hans klaufi

    

--------------------------------------

  Fyrir þremur áratugum eða svo stýrði Bryndís Schram ofur vinsælum barnatíma Sjónvarpsins.  Fjölmiðlakannanir mældu mjög gott áhorf.  Það einkennilega var að uppistaðan af áhorfendum voru miðaldra og eldri karlmenn. 

  Líkt þessu er hlustendakönnun á vinsælum barnatíma í færeyska útvarpinu.

100& hlustenda barnatímans eru fullorðnir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.