Afi og Trúbrot

  Á æskuheimili mínu,  Hrafnhóli í Hjaltadal,  var hefð fyrir jólaboðum.  Skipst var á jólaboðum við næstu bæi.  Það var gaman.  Veislukaffi og veislumatur.  Fullorðna fólkið spilaði bridge fram á nótt.  Yngri börn léku sér saman.  Þau sem voru nær unglingsaldri eða komin á unglingsaldur glugguðu í bækur eða hlustuðu á músík.

  Í einu slíku jólaboði 1969 bar svo við að í hús var komin splunkuný plata með hljómsveitinni Trúbroti. Þetta var fyrsta plata hljómsveitarinnar.  Dúndur góð og spennandi plata.  Lokalagið á henni heitir Afgangar (nafnið hljómar ekki vel á færeysku.  Eða þannig.  Á færeysku þýðir orðið brundur).  Þar er bróðir minn ávarpaður með nafni - ásamt öllum hans nöfnum.  "Þarna ertu Stebbi minn / sanni og góði drengurinn. / Þú ert eins og afi þinn / vænsti kall, já, og besta skinn."

  Við bræður - ég 13 ára - lugum í afa að lagið væri um Stebba bróður og afa.  Afi - alltaf hrekklaus - trúði því.  Hann fékk mikið dálæti á laginu og allri plötunni.  Þó að hann þyrfti að staulast kengboginn með erfiðismunum á milli hæða þá lét hann sig ekki muna um það til að hlusta enn einu sinni á "lagið um okkur".  

  Í jólaboðinu safnaðist unga fólkið saman til að hlýða á Trúbrot.  Græjurnar voru þandar í botn.  Bóndinn af næsta bæ hrópaði:  "Þvílíkur andskotans hávaði.  Í guðanna bænum lækkið í þessu gargi!"

    Afi kallaði á móti:  "Nei,  þetta er sko aldeilis ljómandi fínt.  Þetta er Trúbrot!"

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Ætli þú hafir ekki tónlistaáhugan frá afa þínum sem var greinilega langt á undan sinni samtíð!

Sigurður I B Guðmundsson, 21.11.2020 kl. 10:18

2 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  ég er að minnsta kosti viss um að fáir á níræðisaldri hafi verið jafn ákafir í að hlusta á Trúbrot og afi. 

Jens Guð, 21.11.2020 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband