Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Ósvífið Nigeríusvindl

  Unga manninn,  Nígeríudrenginn,  dreymdi um að eignast tölvu.  Æðsta óskin var að eignast Apple tölvu.  Í Nígeríu er - einhverra hluta vegna - ævintýraljómi yfir Apple tölvum.  Kannski spilar inn í að plötufyrirtæki Bítlanna heitir Apple.  

  Á hverjum degi rölti drengurinn niður á sölutorg í von um að finna Apple tölvu á góðu verði.  Hann viðraði þetta við sölumann.  Sá selur síma af ýmsu tagi og fylgihluti.  Hann taldi sig geta útvegað Apple tölvu á góðu verði.  Hann bauð stráksa að koma á torgið daginn eftir.  Sem hann gerði.  Þar beið hans þessi fallega rauða tölva með upphleyptu gulu Apple merki.  Hann er að springa úr stolti yfir glæsitækinu. 

  Eina vandamálið er að tækið var dýrara en vonir stóðu til.  Hinir krakkarnir í þorpinu halda því fram að kauði sé fórnarlamb ósvífins Nígeríusvindls.  Hann veit að leiðindin stafa einungis af öfund.  Hann hlær að þeim. 

tölva 


Kossaráð

  Kærustupör lenda iðulega í hremmingum þegar kossaárátta blossar upp hjá þeim.  Vandamálið er nefið.  Það er illa staðsett á miðju andlitinu.  Þar skagar það út í loftið eins og Snæfellsnes.  Við kossaflangsið rekast nefin venjulega harkalega saman.  Oft svo illa að á eftir liggur parið afvelta á bakinu með fossandi blóðnasir. Við það hverfur öll rómantík eins og dögg fyrir sólu.

  Þetta þarf ekki að vera svona.  Til er pottþétt kossaaðferð sem setur nefin ekki í neina hættu.  Hún er svona (smella á mynd til að stækka):

koss 


Hvernig litu rokkstjörnurnar út í dag?

  Í hvaða átt hefði tónlist Jimi Hendrix þróast ef hann væri á lífi í dag?  En Janis Joplin?  Eða Kurt Cobain?  Þessum spurningum hefur áhugafólk um tónlist spurt sig í áraraðir.  Það hefur borið hugmyndir sínar saman við hugmyndir annarra.  Þetta er vinsælt umræðuefni á spjallsíðum netsins.

  Önnur áhugaverð spurning:  Hvernig liti þetta fólk út ef það væri sprelllifandi í dag?  Tyrkneskur listamaður telur sig geta svarað því.  Til þess notar hann gervigreind.  Útkoman er eftirfarandi.  Þarna má þekkja John Lennon,  Janis Joplin,  Jimi Hendrixkurt,  Kurt Cobain,  Tupac,  Freddie Mercury og Elvis Presley.

Johnjanisjimi

                                                                                           

I-havefreddieelvis


Viðgerðarmaðurinn Albert

  Hann er þúsundþjalasmiður.  Sama hvað er bilað;  hann lagar það.  Engu skiptir hvort  heimilistæki bili,  húsgögn,  pípulagnir,  rafmagn, tölvur,  bílar eða annað.  Hann er snöggur að kippa hlutunum í lag.  Hann smíðar, steypir, flísaleggur,  grefur skurði,  málar hvort sem er utan eða innan húss.  

  Um tíma bjuggum við á sama gistiheimili.  Þar þurfti af og til að dytta að hinu og þessu.  Þá var viðgerðarmaðurinn Albert í essinu sínu.  Á gistiheimilinu bjuggu einnig hjón frá Kambódíu.  Samkomulagið var gott.  Ásamt öðrum íbúum vorum við eins og eins stór fjölskylda.  Svo bar við að viðgerðarmaðurinn Albert og ég sátum í herbergi kambódísku hjónanna.  Hjör á stórum fataskáp þeirra hafði gefið sig.  Hurðin dinglaði kengskökk.  Hjónin báru sig illa undan þessu. 

  Viðbrögð viðgerðarmannsins Alberts voru að sitja í sínum stól og líta í rólegheitum í kringum sig.  Hann kom auga á járntappa af gosflösku.  Teygði sig eftir honum.  Um leið dró hann upp svissneskan hníf.  Eða réttara sagt eftirlíkingu að svissneskum hníf.  Með hnífnum hnoðaðist hann á tappanum án þess að skoða hjörina. Að skömmum tíma liðnum teygði hann sig í hana.  Eftir smástund var hurðin komin í lag.  Fataskápurinn var eins og nýr.  Viðgerðarmaðurinn Albert stóð ekki upp af stól á meðan viðgerðarferlið stóð yfir.           

albert         


Sökudólgurinn gripinn glóðvolgur

  Í árdaga tölvunnar var sett upp tölvustofa í Háskóla Íslands.  Tölvurnar voru frumstæðar og kostuðu skildinginn.  Fljótlega kom upp sú staða að lyklaborðin biluðu.  Þetta var eins og smitandi sýki.  Takkar hættu að virka eða skiluðu annarri niðurstöðu en þeim var ætlað.  Þetta var ekki eðlilegt.  Grunur kviknaði um að skipulögð skemmdarverk væru unnin á tölvunum.  Eftirlitsmyndavélum var komið fyrir í stofunni svo lítið bar á.  Þær fundu sökudólginn.  Hann reyndist vera ræstingakona;  afskaplega samviskusöm og vandvirk með langan og farsælan feril. 

  Á hverju kvöldi skóladags þreif hún tölvustofuna hátt og lágt.  Meðal annars úðaði hún yfir tölvurnar sótthreinsandi sápuúða sem hún þurrkaði jafnharðan af.  Hún úðaði einnig vökvanum yfir lyklaborðin.  Vandamálið er að enn í dag - nálægt 4 áratugum síðar - eru lyklaborð afskaplega viðkvæm fyrir vökva.  Ég votta það.

tölva þvegin

 

 


Fölsk Fésbókarsíða

  Fésbókarvinur minn,  Jeff Garland,  sendi mér póst.  Hann spurði af hverju ég væri með tvær Fésbókarsíður með samskonar uppsetningu.  Sömu ljósmyndir og sömu Fésbókarvinir.  Draugasíðan hafði sent honum vinarbeiðni.  Mín orginal-síða er með 5000 vinum.  Draugasíðan var með 108 vini.  Öllum sömu og orginal-síðan mín.  

  Ég fatta ekki húmorinn eða hvaða tilgangi draugasíðan á að þjóna.  Enda fattlaus.  Jeff hefur tilkynnt FB draugasíðuna.  Vonandi er hún úr sögunni.  Draugasíðan hefur blessunarlega ekki valdið neinu tjóni.  Þannig lagað.  En ginnt 108 FB vini mína til að svara vinarbeiðni.     


Tussufínt blogg

  Fyrir tveimur árum lak út tölvupóstur frá Elíasi Jóni Guðjónssyni,  aðstoðarmanni menntamálaráðherra,  Katrínar Jakobsdóttur.  Yfirskrift póstsins var:  Tussufínt.  Efni póstsins var um að tiltekinn blaðamaður væri æstur í að "skúbba" einhverju. 

  Ekki upplýstist hverjum pósturinn var ætlaður.  Talið var líklegt að hann hafi verið ætlaður einhverjum upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar.  Á dularfullan hátt endaði pósturinn í tölvu hjá tímaritinu Grapevine.  Þar á bæ birtu menn póstinn á vefsíðu Grapevine.

  Nýyrðið tussufínt olli bylgju hneykslunar og fordæminga.  Það þótti svakalega gróft.  Argasta klám.  Í netheimum,  fésbók og bloggi,  töpuðu menn jafnvægi.  Þeir voru miður sín.  Ekki síst þeir sem duglegastir eru að uppnefna stórnmálamenn og forsetann og saka þá um flesta glæpi sem til eru.

  Hægt og bítandi náðu menn aftur jafnvægi.  Orðið virtist ætla að gleymast.  En nú sprettur það skyndilega fram á ólíklegustu stöðum.  Bara í dag sá ég það í tveimur blöðum.

  Fyrst átti ég leið í banka.  Þar lá frammi áróðursrit LÍÚ,  Morgunblaðrið.  Ég fletti upp á leiðara DOddssonar.  Þá blasti við mér fyrirsögnin "Tussufínn pistill".  

  Ég flýtti mér að hylja fyrirsögnina með höndunum.  Leit svo í kringum mig til að ganga úr skugga um að hvorki börn né óharðnaðir unglingar væru á staðnum.  Það voru aðeins örfáir rígfullorðnir þarna inni.  Ég braut blaðið saman og faldi það.

  Því næst fór ég á pósthús til að sækja póstinn minn.  Þar á meðal var tímaritið Séð og heyrt.  Ég fletti í gegnum það og staðnæmdist við opnu með plötuumsögnum.  Þar æpti á mig fyrirsögnin  "Tussufín plata".  Átt var við plötuna  Valtara  með Sigur Rós.

  Hvað er í gangi?  

   


Í þá gömlu góðu daga - III

  Þetta er síðasta lotan í upprifjun á gömlu góðu dögunum.  Þessari ótrúlegu tilveru fyrir daga heimilistölvunnar,  internetsins,  Fésbókar,  bloggsins,  tölvuleikja, "google",  þútúpunnar og þess alls sem er svo stór liður í því sem við erum að fást við dag hvern.  Táningar og börn geta ekki ímyndað sér hvernig hægt var að komast af án tölvunnar og internetsins.  Á þeim dögum var pabbinn alfræðiorðabók:

breyttir tímar-5

  Þá spurði barnið:  "Hver skapaði heiminn,  pabbi?"  Faðirinn svaraði:  "Guð skapaði heiminn,  sonur sæll."

  Nú spyr barnið:  "Hver skapaði heiminn,  pabbi?"  Og faðirinn svarar:  "Gúgglaðu það,  sonur sæll."

breyttir tímar-6

  Áður stóðu foreldrarnir valdmannslegir yfir taugaveikluðum,  óöruggum og niðurlútum nemendum og hrópuðu:  "Hvað eiga þessar einkunnir að þýða?"

  Nú standa nemendurnir sjálfsöruggir fyrir framan taugaveiklaða, óörugga og niðurlúta kennara þegar foreldrarnir yfirheyra kennarana:  "Hvað eiga þessar einkunnir að þýða?"

breyttir tímar-7

 


Í þá gömlu góðu daga - II

breyttir tímar-2

  Áður:  "Mamma,  ég er að fara út að spila fótbolta."

  Nú:  "Mamma,  en ég er að spila fótbolta."

breyttir tímar-3

  Áður:  "Farðu inn í herbergið þitt!"

  Nú:  "Farðu inn í herbergið þitt!"

breyttir tímar-4

  Afmæli áður:  "Vá,  sjáið alla pakkana!"

  Afmæli nú:  "Vá,  sjáið hvað margir muna eftir mér á Fésbók!"

 


Í þá gömlu góðu daga

breyttir_timar-1_1131906.jpgHlustað á músík

 

 

Horft á bíómyndir.

 

Spjallað við vini.

 

 

Dagblöðin lesin.

 

Spiluð músík.  

 

 

Til að fá stærri og skýrari mynd þarf að smella á hana.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband