Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Fésbókin er ólíkindatól - kemur skemmtilega á óvart

  Herskari hakkara er í fullri vinnu hjá Fésbók.  Hún gengur út á að þróa bókina stöðugt lengra í þá átt að notandinn verði fíkill.  Verði háður henni.  Verði eins og uppvakningur sem gerir sér ekki grein fyrir ósjálfráðri hegðun sinni.

  Þetta er gert með allskonar "fítusum", hljóðum, lit, leikjum og ýmsum fleiri möguleikum,  svo sem "læk-takka" og tilfinningatáknum.  Með þessu er hrært í efnaboðum heilans.  Ástæða er til að vera á varðbergi.  Vera meðvitaður um þetta og verjast.  Til að mynda með því að stýra því sjálfur hvað löngum tíma er eytt í bókina á dag eða á viku.  Láta hana ekki teyma sig á asnaeyrum fram og til baka allan sólarhringinn.  

  Þess eru mörg dæmi að fólk vakni upp á nóttunni til að kíkja á Fésbók.  Einnig að það fresti því að fara í háttinn.  Svo og að matast sé fyrir framan skjáinn.

  Fésbókin hefur skemmtilegar hliðar.  Margar.  Hún getur til að mynda komið glettilega á óvart.  Flestir hafa einhver hundruð Fb-vina og upp í 5000 (hámark).  Notandinn fær ekki að sjá innlegg þeirra í réttri tímaröð.  Þess í stað eru þau skömmtuð eftir kúnstarinnar reglum.  Þær ráðast meðal annars af því hjá hverjum þú hefur "lækað" oftast og skrifað flestar athugasemdir hjá.  Bókin safnar stöðugt upplýsingum um þig.  Greinir og kortleggur.  

  Póstarnir sem bókin sýnir manni fyrst falla hlutfallslega betur og betur að þínum smekk.  Áhugamálum, viðhorfum til stjórnmála og allskonar.  Sýnilegasti Fb-vinahópurinn þróast í fjölmennan já-hóp.

  Vegna þess að manni eru ekki sýnd innlegg í réttri tímaröð getur útkoman orðið skondin og ruglingsleg.  Oftast kíki ég á Fb á morgnana fyrir vinnu og aftur að kvöldi eftir vinnu.  Á morgnana blasa iðulega við kveðjur með ósk um góða nótt og ljúfar drauma.  Á kvöldin blasa við kveðjur þar sem boðið er góðan og blessaðan dag.  Síðasta mánudag birtist mér innlegg með textanum:  "Jibbý!  það er kominn föstudagur!"  

  Ég sá að þessari hressilegu upphrópun var póstað á föstudeginum.  Fb sá hinsvegar ekki ástæðu til að skila henni til mín fyrr en eftir helgi.  


mbl.is Fyrrverandi lykilstarfsmaður hjólar í Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandsvinur í skjölunum

  Nöfn íslenskra auðmanna eru fyrirferðamikil í Paradísarskjölunum;  þessum sem láku út frá lögmannsstofunni Appleby á Bermúda.  Ef ég þekki íslenskan metnað rétt er næsta víst nöfn Íslendinga séu hlutfallslega flest miðað við höfðatölu.  Sem eru góðar fréttir.  Þjóð sem er rík af auðmönnum er vel sett.  Verra samt að svo flókið sé að eiga peninga á Íslandi að nauðsyn þyki að fela þá í skattaskjóli.

  Ekki einungis íslenskir auðmenn nota skattaskjól heldur líka Íslandsvinir.  Þekktastur er hugsjónamaðurinn Bono í hljómsveitinni U2.

 


mbl.is Tugir Íslendinga í skjölunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óstundvísir eru í góðum málum

  Það er eins og sumt fólk kunni ekki á klukku.  Það mætir alltaf of seint.  Stundvísum til ama.  Þeir sem bölva óstundvísi mest og ákafast telja hana vera vondan löst.

  Nú hefur þetta verið rannsakað.  Niðurstaðan er sú að óstundvísir séu farsælli í lífinu og lifi lengur.  Þeir eru bjartsýnni og afslappaðri.  Eiga auðveldara með að hugsa út fyrir boxið og sjá hlutina í stærra samhengi.  Eru ævintýragjarnari og eiga fleiri áhugamál.  5 mínútur til eða frá skipta engu máli.  Þeir þurfa ekki langtímaplan til að bóka flug, hótelgistingu, rútu eða lest.  Taka bara næsta flug.  Ef það er uppbókað þá hlýtur að vera laust sæti í þarnæsta flugi.  Ekki málið.  Engin ástæða til að "gúgla" veitingahús á væntanlegum áfangastað.  Því síður að bóka borð.  Eðlilegra er að skima aðeins í kringum sig kominn á staðinn.  Láta ókunnugt veitingahús koma sér á óvart.  Skyndibiti í næstu sölulúgu kemur líka til greina.  Þannig hlutir skipta litlu máli.  Peningar líka.  

  Önnur rannsókn hefur leitt í ljós að sölumenn sem skora hæst í bjartsýnimælingu selja 88% meira en svartsýnir.  Samanburður á A fólki (ákaft, óþolinmótt) og B fólki (afslappað, skapandi hugsun, óstundvísi) sýnir ólíkt tímaskyn.  A fólk upplifir mínútu sem 58 sek.  B fólkið upplifir hana sem 77 sek.  A fólk er mun líklegra til að fá kransæða- og hjartasjúkdóma.


Hvernig er hann á litinn?

  Á síðustu dögum fyrir alþingiskosningar er gott og holt að hvíla sig einstaka sinnum á þrefi um framboðslista, frambjóðendur, kosningaloforð,  reynslu sögunnar og annað sem máli skiptir. Besta hvíldin fæst með því að þrefa um eitthvað sem skiptir ekki máli.  Til að mynda hvernig skórinn á myndinni er á litinn.

  Í útlöndum er rifist um það.  Sumir segja hann vera ljósbleikan með hvítri reim.  Heldur fleiri segja hann vera gráan með blágrænni (túrkís) reim. 

  Upphaf deilunnar má rekja til breskra mæðgna.  Þær voru ósammála um litina.  Leitað var á náðir Fésbókar.  Sitt sýnist hverjum.

  Þetta minnir á eldri deilu um lit á kjól.  Sumir sáu hann sem hvítan og gylltan.  Aðrir sem svartan og bláan.  Niðurstaðan varð sú að litaskynjunin fór eftir því hvort áhorfandinn er A fólk (morgunhanar) eða B fólk (vakir frameftir).  Aldur spilar einnig inn í.

 

skór á lit


Letingi? Það er pabba að kenna

  Börn eru samsett úr erfðaefni foreldranna.  Sumir eiginleikar erfast frá móðurætt.  Aðrir frá föðurlegg.  Þar fyrir utan móta foreldrar börnin í uppeldinu.  Það vegur jafnvel þyngra en erfðirnar.  Börn apa sumt eftir móður.  Annað eftir föður.  Þetta hefur verið rannasakað.  Netsíðan Red Bull TV greinir frá niðurstöðunni:

  Heiðarleika og hreinskilni læra börn af móður.  Líka óöryggi, áhyggjur, gleymsku og fatasmekk.  

  Leti og óþolinmæði læra þau af föður.  Einnig áræði, vonda mannasiði, reiðiköst og áhuga á íþróttum og bókmenntum.   


Óhugnanlegar hryllingssögur

 

  Ég var að lesa bókina "Martröð með myglusvepp".  Rosaleg lesning.  Höfundur er Skagfirðingurinn Steinn Kárason umhverfisfræðingur, rekstrarhagfræðingur, garðyrkjufræðingur, tónlistarmaður, rithöfundur og sitthvað fleira.

  Fyrri hluti bókarinnar inniheldur átta reynslusögur fórnarlamba myglusvepps.  Þær eru svo átakanlegar og sláandi að lesandinn er í "sjokki".  Myglusveppurinn er lúmskur.  Hann veldur hægt og bítandi miklum skaða á líkama og sál.  Jafnvel til frambúðar.  Hann slátrar fjárhag fórnarlambsins.  Það þarf að farga húsgögnum, fatnaði og öðru sem sveppagró hafa borist í.  

  Eðlilega er lengsta og ítarlegasta reynslusagan saga höfundar.  Hinar sögurnar eru styttri endurómar.  En staðfesta og bæta við lýsingu Steins á hryllingnum.

  Í seinni hluti bókarinnar er skaðvaldurinn skilgreindur betur.  Góð ráð gefin ásamt margvíslegum fróðleik.  

  Ég hvet alla sem hafa minnsta grun um myglusvepp á heimilinu til að lesa bókina "Martröð um myglusvepp".  Líka hvern sem er.  Þetta er hryllingssögubók á pari við glæpasögur Arnalds Indriðasonar og Yrsu. Margt kemur á óvart og vekur til umhugsunar.  Til að mynda að rafsegulbylgjur þráðlausra tækja hafi eflt og stökkbreytt sveppnum.

martröð um myglusvepp 

    

  


Heilinn þroskast hægar en áður var talið

  Margt ungmennið telur sig vita allt betur en aðrir.  Eða þá að það telur sig vera kjána.  Bjána sem aldrei rætist neitt úr.  Vonlaust eintak.  Tilfellið er að ungt fólk er óþroskað.  Óttalega óþroskað.  Þess vegna fær það ekki að taka bílpróf fyrr en 17 ára í stað 13 - 14 ára (um leið og það nær niður á kúplingu og bremsu).  Af sömu ástæðu fær það ekki að ganga í hjónaband og kjósa til Alþingis fyrr en 18 ára (auðveldara að keyra bíl en vera í hjónabandi og kjósa).    

  Lengi var kenningin sú að heilinn væri ekki fullþroskaður fyrr en á 18 ára.  Nýgiftu fólki með kosningarétt er þó ekki treyst til þess að kaupa áfengi fyrr en tveimur árum síðar.  

  Nú þarf að endurskoða þetta allt saman.  Með nýjustu tækni til að skoða virkni heilans hefur komið í ljós að heilinn er ekki fullþroskaður fyrr en á fertugs aldri.  Um eða upp úr þrítugs afmælinu.  

  Þetta birtist á ýmsan hátt.  Til að mynda snarfellur glæpahneigð upp úr 25 ára aldri.  Það vekur upp spurnar um hvort ástæða sé til að hafa það til hliðsjónar í sakamálum.  Nú þegar eru börn ósakhæf að mestu.  

  Annað sem breytist á þessum aldri er að athyglisgáfa eflist sem og rökhugsun og skammtímaminni.  Jafnframt dregur úr kæruleysi, áhættusækni og hvatvísi.  Fólk hættir að taka hluti eins oft og mikið inn á sig og komast í uppnám.   

 


Stórmerkilegt færeyskt myndband spilað 7,6 milljón sinnum

  Færeysk myndbönd eiga þess ekki að venjast að vera spilað yfir 7 milljón sinnum.  Eitt myndband hefur þó verið spilað yfir 20 milljón sinnum.  Nú hefur annað myndband slegið í gegn.  Það heitir "Hvat ger Rúni við hondini".  Þar sýnir Rúni Johansen svo liðuga hönd að nánast er um sjónhverfingu að ræða.  

  Myndbandið hefur verið spilað 4 þúsund sinnum á þútúpunni og 7,6 milljón sinnum á LADbible síðunni.  Það hefur fengið yfir 100 þúsund "like",  81 þúsund "komment" og verið deilt 50,450 sinnum.

  Mest spilaða færeyska myndbandið sýnir hval springa er Bjarni Mikkelsen stingur í hann.

 


Dónaskapur

  Ef fuglar kynnu sig og væru "dannaðir" þá myndu þeir grjóthalda goggi til klukkan sjö eða átta að morgni.  Því er ekki að heilsa.  Þessir skrattakollar byrja að góla og kvaka af ákafa um - eða jafnvel fyrir - klukkan sex.  Engin tillitssemi gagnvart vinnandi fólki.  Sveittan!

 


Þú getur lengt æviskeiðið um fimm ár

  Skemmtileg tilviljun.  Ég var að passa yndislegu barnabörnin.  Í hamingjuvímunni á eftir rakst ég á grein í tímaritinu Evolution and Human Behaviour.  Í henni greinir frá yfirgripsmikilli rannsókn sem var unnin af fimm háskólum í Þýskalandi, Sviss og Ástralíu.  Úrtakið var 500 manns á aldrinum frá 70 og upp úr.  

  Niðurstöður rannsóknarinnar leiddi í ljós að fólk sem passar barnabörn lifir að meðaltali fimm árum lengur en aðrir.  Talið er að boðefnið oxytocin hafi eitthvað með þetta að gera.  Það er kallað væntumþykju-hormónið.  Heilinn framleiðir aukaskammt af því þegar litið er eftir barnabörnunum.

  Eins er talið að pössunin þýði mikilvægi þess að gamalt fólk hafi eitthvað fyrir stafni.  Finni til ábyrgðar, geri áætlanir, skipuleggi sig og eigi glaðar stundir.

  Svona er einfalt og ánægjulegt að lengja lífið um fimm ár.  Þetta er enn ein ástæðan fyrir því að virkja vistmenn elliheimila til barnagæslu.  

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.