Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Klæddu frambjóðendur sig rétt?

  Litir hafa sterk áhrif á fólk.  Til að mynda framkallar rauður litur hungurtilfinningu.  Á síðustu öld bannaði matvælaeftirlit í Danmörku litarefni í cola-drykkjum.  Þeir urðu þá gráir.  Líktust steypu.  Salan hrundi.  Bannið var snarlega afturkallað.

  Þegar frambjóðendur stjórnmálaflokka koma fram í sjónvarpi skiptir klæðnaður miklu máli.  Ímynd vegur þyngra en málefni.  Þetta hefur verið rannsakað til áratuga í útlöndum með einróma niðurstöðu.  Árangurríkasti klæðnaður karlkyns frambjóðanda í sjónvarpi er jakkaföt og hálsbindi.  Köflótt bómullarskyrta og prjónavesti eru vonlaust dæmi.  Heppilegasti litur á jakka er dökkblár/svartblár.  Sá litur kallar fram tilfinningu fyrir trúverðugleika,  ábyrgð og góðri dómgreind.  Nánast allir karlkyns frambjóðendur í kosningasjónvarpi sjónvarpsstöðva í ár fóru eftir þessu.

  Heppilegasti litur á skyrtu er hvítur ljósblár;  nánast hvítur með bláum blæ. Eða alveg hvítur.  Flestir kunnu það.  Færri kunnu að velja sér bindi.  Dagur B.  var ekki með bindi.  Ekki heldur Þorvaldur í Alþýðufylkingunni.  Bindisleysi Þorvaldar og Dags virkar vel á kjósendur Alþýðufylkingarinnar.  En skilar engu umfram það.  Í tilfelli Dags kostar það Samfylkinguna 8. borgarfulltrúann.  Pottþétt.

  Flestir aðrir frambjóðendur klikkuðu á hálsbindinu.  Heppilegasti litur á hálsbindi er rauður.  Rautt hálsbindi kallar fram tilfinningu fyrir ástríðu og áræði.  Frambjóðandi Framsóknarflokksins var með grænt bindi.  Það var ekki alrangt.  Litur Framsóknarflokksins er grænn.  En svona "lókal" skilar ekki sæti í borgarstjórn.

  Í útlandinu kunna menn þetta.            

matttrump 


Bullað um rykmaura

  Ný rannsókn leiðir í ljós að svefnbæli simpansa eru snyrtilegri en rúm mannfólks.  Munar miklu þar um.  Þetta hefur vakið undrun og umtal.  Við hverju bjóst fólk?  Að simpansar væru sóðar?  Það eru fordómar.  Simpansar eru snyrtipinnar.  Þess vegna meðal annars skipta þeir ört um svefnbæli.

  Í umræðunni hérlendis hefur mörgum orðið tíðrætt um að rúm fólks séu löðrandi í rykmaurum og rykmauraskít.  Þetta er bull hvað varðar íslensk rúm.  Einhverra hluta vegna er bullið lífseigara og útbreiddara en niðurstöður rannsókna sem sýna annað.  Þær sýna að rykmaurar þrífast ekki á Íslandi.  Hita- og rakastig kemur í veg fyrir það.

  Jú,  það hafa fundist rykmaurar á Íslandi.  Örfáir.  Allir rígfullorðnir.  Engin ungviði.  Það undirstrikar að einu rykmaurarnir á Íslandi séu nýinnfluttir frá útlöndum.  Flækingar sem slæðast með ferðalöngum.  Verða ekki langlífir og ná ekki að fjölga sér.

  Hitt er annað mál að ástæðulaust er að amast við rykmaurum.  Þetta eru tvær vinalegar og ástríkar tegundir.  Önnur er undirlögð kynlífsfíkn á háu stigi.  Báðar tegundir éta dauðar húðfrumur.  Gott að einhver geri það.  

rykmaur    

 


Ekki skipta um röð!

  Hver kannast ekki við að vera dálítið á hraðferð,  skreppa í stórmarkað,  kaupa eitthvað smotterí og koma að langri biðröð við alla afgreiðslukassa?  Þá þarf í skyndingu að vega og meta stöðuna.  Innkaupakerrur sumra í röð eru sneisafullar af óþörfu drasli.  Í annarri en lengri röð eru hinsvegar flestir með fátt annað en brýnustu nauðsynjar;  mjólk, brauð og smávegir af nammi frá Nóa Síríus.  

  Þarna þarf að velja á milli.  Þetta hefur verið rannsakað á vísindalegan hátt af viðskiptafræðideild Harvard háskóla.  Í rannsókninni voru einnig skoðaðar biðraðir á flugstöðvum og í pósthúsum.

   Niðurstaðan er sú að fólk velur rétta biðröð í fyrstu atrennu.  Sá sem fær bakþanka og færir sig yfir í aðra röð endar á því að vera afgreiddir seinna en sá sem er næstur á eftir honum í röðinni sem hann yfirgefur.

-----------------------------

  Fróðleiksmoli:  Hvert sem bresku Bítlarnir fóru - eftir að þeir slógu í gegn - mynduðust langar biðraðir eftir að sjá þá og kaupa miða.  Eftirspurn var miklu meiri en framboð.  Fjöldi manns slasaðist í biðröðunum vegna troðnings og æsings í Bandaríkjunum.  Hámarkið var hljómleikaferð til Ástralíu.  Biðraðir töldu kvartmilljón manns (250.000) og þær teygðu sig yfir 15 kílómetra. 


Bestu og verstu bílstjórarnir

  Breskt tryggingafélag,  1st Central,  hefur tekið saman lista yfir bestu og verstu bílstjórana,  reiknað út eftir starfi þeirra.  Niðurstaðan kemur á óvart,  svo ekki sé meira sagt.  Og þó.  Sem menntaður grafískur hönnuður og skrautskriftarkennari hefði ég að óreyndu getað giskað á að myndlistamenn og hverskonar skreytingafólk væru öruggustu bílstjórarnir.  Sömuleiðis mátti gefa sér að kóksniffandi verðbréfaguttar væru stórhættulegir í umferðinni,  rétt eins og í vinnunni.   

Bestu bílstjórarnir

1.  Myndlistamenn/skreytingafólk

2.  Landbúnaðarfólk

3.  Fólk í byggingariðnaði

4.  Vélvirkjar

5.  Vörubílstjórar

Verstu bílstjórarnir

1.  Verðbréfasalar/fjármálaráðgjafar

2.  Læknar

3.  Lyfsalar

4.  Tannlæknar

5.  Lögfræðingar 


Drekkur þú of mikið vatn?

  Vatn er gott og hollt.  Einhver besti drykkur sem til er.  Við Íslendingar erum svo lánssamir að eiga nóg af góðu drykkjarvatni úr krana.  Fæstir jarðarbúa eru svo heppnir.  Þeim mun einkennilegra er að Íslendingar skuli þamba daglega litað sykurleðjuvatn í sama mæli og Bandaríkjamenn.      

  Samkvæmt prófessor í Árhúsum í Danmörku (www.samvirke.dk) er of mikil vatnsdrykkja jafn varasöm og of lítil vatnsdrykkja.  Of mikil vatnsdrykkja getur sett svo mikið álag á nýrun að hún valdi vatnseitrun.  Þig svimar, færð krampa, verður máttlaus og í versta tilfelli deyrð.  Sjaldgæft en gerist þó árlega.

  Þumalputtareglan er sú að drekka ekki meira vatn en sem nemur 1/30 af líkamsþyngd.  60 kílóa manneskju hentar að drekka 2 lítra af vökva á dag.  90 kg manneskju hentar að drekka 3 lítra.  Við útreikninginn er brýnt að taka með í reikninginn allan vökva.  Ekki aðeins vatn.  Líka vökvarík fyrirbæri á borð við súpur, te, agúrkur, tómata og jarðarber.

  


Nauðsynlegt að vita

  Íslendingar sækja í vaxandi mæli sólarstrendur út um allan heim.  Aðallega sunnar á hnettinum.  Vandamálið er að mannætuhákarlar sækja líka sumar af þessum ströndum. Mörg góð manneskjan hefur tapað fæti eða hendi í samskiptum við þá.

  Hlálegt en satt;  að hákarlinn er lítið sem ekkert fyrir mannakjöt.  Hann sér allt óskýrt.  Þegar hann kemur sínu sjódapra auga á manneskju þá heldur hann að þar sé selur.  Hann elskar selspik.  Eins og ég. 

  Hákarl er lélegur í feluleik.  Hann fattar ekki að þegar hann syndir nærri yfirborði sjávar þá stendur uggi upp úr.  Þetta skiptir ekki máli gagnvart selum sem synda neðansjávar.  Manneskja sem kemur auga á hákarlsugga tekur hinsvegar eftir ógninni.  Verstu viðbrögð eru að taka hræðslukast og sprikla í átt að landi.  Það vekur aðeins athygli hákarlsins og espar hann upp.  Hann heldur að þar sé selur að reyna undankomu. Stekkur á bráðina og fær sér bita.

  Í þessum kringumstæðum hefur manneskjan tvo betri kosti en flótta.  Önnur er að grípa um sporð ókindarinnar og hlaupa með hana snaröfuga upp í strönd.  Hún kemur engum vörnum við.  Sveigjanleiki skrokksins er svo takmarkaður.

  Hin aðferðin er að ríghalda kvikindinu kjurru.  Hákarl drukknar umsvifalaust ef hann er ekki á stöðugri hreyfingu.


Hvenær er sumarfrí SUMARfrí?

  Á eða í Smáratorgi eru tveir ljómandi góðir matsölustaðir.  Annar er asískur.  Þar er hægt að blanda saman allt að þremur réttum.  Einhverra hluta vegna er það 100 krónum dýrara en að blanda saman tveimur réttum.  Ódýrast er að kaupa aðeins einn rétt.  Engu að síður er eins réttar skammturinn alveg jafn stór og þriggja rétta máltíðin.  Verðið ætti þess vegna að vera hið sama.

  Hinn veitingastaðurinn heitir Food Station.  Margir rugla honum saman við Matstöðina vestast í Kópavogi.  Nöfnin eru vissulega lík.  Annað þó þjóðlegra.  Þessa dagana er Food Station lokuð.  Á auglýsingatrönu fyrirtækisins stendur: "Lokað vegna sumarleyfa frá 15. mars til 4. apríl". Í mínum huga er ekkert sumarlegt við mars.  Sumardagurinn fyrsti er ekki fyrr en 19. apríl.  Hann er meira að segja of snemma.  Myndi heita vordagurinn fyrsti ef ekki væri nokkru áður frjósemishátíð vorsins,  kennd við frjósemisgyðjuna Easter (páskar).    

food station

   


Hvaða áhrif hefur tónlist?

  Nútímatækni heilaskanna og allskonar græja hafa staðfest að tónlist hefur gríðarmikil áhrif á okkur.  Það var svo sem vitað fyrir.  Bara ekki mælt með myndum af starfsemi heilans.

  Gamlar rannsóknir leiddu í ljós að sérútfærð músík spiluð í stórmörkuðum getur aukið sölu um fjórðung.  Það er rosalega mikið. 

  Hver og einn einstaklingur þekkir að músík hefur áhrif.  Sum lög koma okkur í gott stuð.  Önnur framkalla angurværð.  Enn önnur framkalla minningar.  

  Þegar hlustað er á músík verður virkni heilans mikil.  Þar á meðal heilastöðvar sem hafa að gera með athyglisgáfu,  námsgetu,  minni og framtíðaráform.  

  Tónlist kemur umsvifalaust af stað öflugri framleiðslu á vellíðunarboðefninu dópamín.  Það og fleiri boðefni heilans eru á við öflug verkjalyf og kvíðastillandi.  Eru að auki örvandi gleðigjafar og efla varnarkerfi líkamans svo um munar.  Til viðbótar bætist við framleiðsla á hormónum sem einnig efla varnarkerfi líkamans.  

  Sjúklingar sem hlusta á sína uppáhaldsmúsík áður en þeir gangast undir uppskurð framleiða hormónið cortisol.  Það eyðir áhyggjum og streitu.  

  Þegar hlustað er á uppáhaldstónlist þá verða viðhorf gagnvart öðrum jákvæðari.  Fólk verður félagslyndara.  Finnur jafnvel fyrir sterkri löngun til að bjóða upp í dans.  

  Börn sem læra á hljóðfæri stækka þann hluta heilans sem hefur að gera með sköpunargáfu í víðtækustu merkingu.  Sú er ástæðan fyrir því að flestir tónlistarmenn eru jafnframt áhugasamir um aðrar listgreinar.  Bítlarnir eru gott dæmi.  John Lennon var myndlistamaður og rithöfundur.  Paul McCartney var áhugateiknari og sendi frá sér teiknimyndabók.  George Harrison var með leiklistadellu og gaf út kvikmyndir Monthy Pyton.  Ringo Starr var einnig með leiklistadellu.  Hann lék í fleiri kvikmyndum en Bítlamyndum.  John Lennon sagði að ef liðsmenn Bítlanna hefðu ekki náð saman á réttu augnabliki og á réttum forsendum þá hefði aðeins Ringo náð að spjara sig.  Hann væri það hæfileikaríkur leikari.

  Hægur taktur tónlistar lækkar blóðþrýsting.  Hún er einnig besta meðal gegn mígreni og höfuðverk.  Meira en það:  Hlustun á uppáhaldstónlist dregur mjög svo verulega úr flogaköstum veikra.  Músíkástríða mín sem barns kvað niður flogaveikiköst (þau voru af gerð sem kallast drómasýki).  

          

     


Nauðsynlegt að vita um hænur

  -  Ef allar hænur heims eru taldar saman þá eru þær yfir 25 milljarðar.

  -  Ef öllum hænum heims er skipt jafnt á meðal manna þá gerir það 3,5 á hvern.

  -  Gainesville í Georgíu í Bandaríkjum Norður-Ameríku er alifuglahöfuðborg heims.  Þar er bannað með lögum að nota hnífapör við át á djúpsteiktum kjúklingi.  Hann er og skal vera fingramatur.

  -  Hæna verpir að meðaltali 255 eggjum á ári.

  -  Rannsókn leiddi í ljós að hæna getur léttilega þekkt yfir 100 andlit.  

  -  Lagið "Fugladansinn" - einnig þekkt sem "Hænsnadansinn" - var samið af Swisslendingnum Weren Thomas um 1960.

  -  1980 náði "Fugladansinn" vinsældum í Hollandi.

  -  1981 var lagið einkennislag fyrir Októberfest í Oklahoma undir heitinu "Hænsnadansinn".

 

 

 


Flugbílar að detta inn á markað

  Lengst af hafa bílar þróast hægt og breyst lítið í áranna rás.  Það er að segja grunngerðin er alltaf sú sama.  Þessa dagana er hinsvegar sitthvað að gerast.  Sjálfvirkni eykst hröðum skrefum.  Í gær var viðtal í útvarpinu við ökumann vörubíls.  Hann varð fyrir því að bíll svínaði gróflega á honum á Sæbraut.  Skynjarar vörubílsins tóku samstundis við sér: Bíllinn snarhemlaði á punktinum, flautaði og blikkaði ljósum.  Forðuðu þar með árekstri.

  Sífellt heyrast fréttir af sjálfkeyrandi bílum.  Þeir eru að hellast yfir markaðinn.  Nú hefur leigubílafyrirtækið Uber tilkynnt um komu flugbíla.  Fyrirtækið hefur þróað uppskriftina í samvinnu við geimferðastofnunina Nasa.  Það setur flugbílana í umferð 2020.  Pældu í því.  Eftir aðeins 3 ár.  Við lifum á spennandi tímum.

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.