Færsluflokkur: Vísindi og fræði
1.4.2018 | 04:42
Nauðsynlegt að vita
Íslendingar sækja í vaxandi mæli sólarstrendur út um allan heim. Aðallega sunnar á hnettinum. Vandamálið er að mannætuhákarlar sækja líka sumar af þessum ströndum. Mörg góð manneskjan hefur tapað fæti eða hendi í samskiptum við þá.
Hlálegt en satt; að hákarlinn er lítið sem ekkert fyrir mannakjöt. Hann sér allt óskýrt. Þegar hann kemur sínu sjódapra auga á manneskju þá heldur hann að þar sé selur. Hann elskar selspik. Eins og ég.
Hákarl er lélegur í feluleik. Hann fattar ekki að þegar hann syndir nærri yfirborði sjávar þá stendur uggi upp úr. Þetta skiptir ekki máli gagnvart selum sem synda neðansjávar. Manneskja sem kemur auga á hákarlsugga tekur hinsvegar eftir ógninni. Verstu viðbrögð eru að taka hræðslukast og sprikla í átt að landi. Það vekur aðeins athygli hákarlsins og espar hann upp. Hann heldur að þar sé selur að reyna undankomu. Stekkur á bráðina og fær sér bita.
Í þessum kringumstæðum hefur manneskjan tvo betri kosti en flótta. Önnur er að grípa um sporð ókindarinnar og hlaupa með hana snaröfuga upp í strönd. Hún kemur engum vörnum við. Sveigjanleiki skrokksins er svo takmarkaður.
Hin aðferðin er að ríghalda kvikindinu kjurru. Hákarl drukknar umsvifalaust ef hann er ekki á stöðugri hreyfingu.
Vísindi og fræði | Breytt 2.4.2018 kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.3.2018 | 01:59
Hvenær er sumarfrí SUMARfrí?
Á eða í Smáratorgi eru tveir ljómandi góðir matsölustaðir. Annar er asískur. Þar er hægt að blanda saman allt að þremur réttum. Einhverra hluta vegna er það 100 krónum dýrara en að blanda saman tveimur réttum. Ódýrast er að kaupa aðeins einn rétt. Engu að síður er eins réttar skammturinn alveg jafn stór og þriggja rétta máltíðin. Verðið ætti þess vegna að vera hið sama.
Hinn veitingastaðurinn heitir Food Station. Margir rugla honum saman við Matstöðina vestast í Kópavogi. Nöfnin eru vissulega lík. Annað þó þjóðlegra. Þessa dagana er Food Station lokuð. Á auglýsingatrönu fyrirtækisins stendur: "Lokað vegna sumarleyfa frá 15. mars til 4. apríl". Í mínum huga er ekkert sumarlegt við mars. Sumardagurinn fyrsti er ekki fyrr en 19. apríl. Hann er meira að segja of snemma. Myndi heita vordagurinn fyrsti ef ekki væri nokkru áður frjósemishátíð vorsins, kennd við frjósemisgyðjuna Easter (páskar).
15.3.2018 | 03:42
Hvaða áhrif hefur tónlist?
Nútímatækni heilaskanna og allskonar græja hafa staðfest að tónlist hefur gríðarmikil áhrif á okkur. Það var svo sem vitað fyrir. Bara ekki mælt með myndum af starfsemi heilans.
Gamlar rannsóknir leiddu í ljós að sérútfærð músík spiluð í stórmörkuðum getur aukið sölu um fjórðung. Það er rosalega mikið.
Hver og einn einstaklingur þekkir að músík hefur áhrif. Sum lög koma okkur í gott stuð. Önnur framkalla angurværð. Enn önnur framkalla minningar.
Þegar hlustað er á músík verður virkni heilans mikil. Þar á meðal heilastöðvar sem hafa að gera með athyglisgáfu, námsgetu, minni og framtíðaráform.
Tónlist kemur umsvifalaust af stað öflugri framleiðslu á vellíðunarboðefninu dópamín. Það og fleiri boðefni heilans eru á við öflug verkjalyf og kvíðastillandi. Eru að auki örvandi gleðigjafar og efla varnarkerfi líkamans svo um munar. Til viðbótar bætist við framleiðsla á hormónum sem einnig efla varnarkerfi líkamans.
Sjúklingar sem hlusta á sína uppáhaldsmúsík áður en þeir gangast undir uppskurð framleiða hormónið cortisol. Það eyðir áhyggjum og streitu.
Þegar hlustað er á uppáhaldstónlist þá verða viðhorf gagnvart öðrum jákvæðari. Fólk verður félagslyndara. Finnur jafnvel fyrir sterkri löngun til að bjóða upp í dans.
Börn sem læra á hljóðfæri stækka þann hluta heilans sem hefur að gera með sköpunargáfu í víðtækustu merkingu. Sú er ástæðan fyrir því að flestir tónlistarmenn eru jafnframt áhugasamir um aðrar listgreinar. Bítlarnir eru gott dæmi. John Lennon var myndlistamaður og rithöfundur. Paul McCartney var áhugateiknari og sendi frá sér teiknimyndabók. George Harrison var með leiklistadellu og gaf út kvikmyndir Monthy Pyton. Ringo Starr var einnig með leiklistadellu. Hann lék í fleiri kvikmyndum en Bítlamyndum. John Lennon sagði að ef liðsmenn Bítlanna hefðu ekki náð saman á réttu augnabliki og á réttum forsendum þá hefði aðeins Ringo náð að spjara sig. Hann væri það hæfileikaríkur leikari.
Hægur taktur tónlistar lækkar blóðþrýsting. Hún er einnig besta meðal gegn mígreni og höfuðverk. Meira en það: Hlustun á uppáhaldstónlist dregur mjög svo verulega úr flogaköstum veikra. Músíkástríða mín sem barns kvað niður flogaveikiköst (þau voru af gerð sem kallast drómasýki).
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.11.2017 | 09:24
Nauðsynlegt að vita um hænur
- Ef allar hænur heims eru taldar saman þá eru þær yfir 25 milljarðar.
- Ef öllum hænum heims er skipt jafnt á meðal manna þá gerir það 3,5 á hvern.
- Gainesville í Georgíu í Bandaríkjum Norður-Ameríku er alifuglahöfuðborg heims. Þar er bannað með lögum að nota hnífapör við át á djúpsteiktum kjúklingi. Hann er og skal vera fingramatur.
- Hæna verpir að meðaltali 255 eggjum á ári.
- Rannsókn leiddi í ljós að hæna getur léttilega þekkt yfir 100 andlit.
- Lagið "Fugladansinn" - einnig þekkt sem "Hænsnadansinn" - var samið af Swisslendingnum Weren Thomas um 1960.
- 1980 náði "Fugladansinn" vinsældum í Hollandi.
- 1981 var lagið einkennislag fyrir Októberfest í Oklahoma undir heitinu "Hænsnadansinn".
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.11.2017 | 08:55
Flugbílar að detta inn á markað
Lengst af hafa bílar þróast hægt og breyst lítið í áranna rás. Það er að segja grunngerðin er alltaf sú sama. Þessa dagana er hinsvegar sitthvað að gerast. Sjálfvirkni eykst hröðum skrefum. Í gær var viðtal í útvarpinu við ökumann vörubíls. Hann varð fyrir því að bíll svínaði gróflega á honum á Sæbraut. Skynjarar vörubílsins tóku samstundis við sér: Bíllinn snarhemlaði á punktinum, flautaði og blikkaði ljósum. Forðuðu þar með árekstri.
Sífellt heyrast fréttir af sjálfkeyrandi bílum. Þeir eru að hellast yfir markaðinn. Nú hefur leigubílafyrirtækið Uber tilkynnt um komu flugbíla. Fyrirtækið hefur þróað uppskriftina í samvinnu við geimferðastofnunina Nasa. Það setur flugbílana í umferð 2020. Pældu í því. Eftir aðeins 3 ár. Við lifum á spennandi tímum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.11.2017 | 07:33
Fésbókin er ólíkindatól - kemur skemmtilega á óvart
Herskari hakkara er í fullri vinnu hjá Fésbók. Hún gengur út á að þróa bókina stöðugt lengra í þá átt að notandinn verði fíkill. Verði háður henni. Verði eins og uppvakningur sem gerir sér ekki grein fyrir ósjálfráðri hegðun sinni.
Þetta er gert með allskonar "fítusum", hljóðum, lit, leikjum og ýmsum fleiri möguleikum, svo sem "læk-takka" og tilfinningatáknum. Með þessu er hrært í efnaboðum heilans. Ástæða er til að vera á varðbergi. Vera meðvitaður um þetta og verjast. Til að mynda með því að stýra því sjálfur hvað löngum tíma er eytt í bókina á dag eða á viku. Láta hana ekki teyma sig á asnaeyrum fram og til baka allan sólarhringinn.
Þess eru mörg dæmi að fólk vakni upp á nóttunni til að kíkja á Fésbók. Einnig að það fresti því að fara í háttinn. Svo og að matast sé fyrir framan skjáinn.
Fésbókin hefur skemmtilegar hliðar. Margar. Hún getur til að mynda komið glettilega á óvart. Flestir hafa einhver hundruð Fb-vina og upp í 5000 (hámark). Notandinn fær ekki að sjá innlegg þeirra í réttri tímaröð. Þess í stað eru þau skömmtuð eftir kúnstarinnar reglum. Þær ráðast meðal annars af því hjá hverjum þú hefur "lækað" oftast og skrifað flestar athugasemdir hjá. Bókin safnar stöðugt upplýsingum um þig. Greinir og kortleggur.
Póstarnir sem bókin sýnir manni fyrst falla hlutfallslega betur og betur að þínum smekk. Áhugamálum, viðhorfum til stjórnmála og allskonar. Sýnilegasti Fb-vinahópurinn þróast í fjölmennan já-hóp.
Vegna þess að manni eru ekki sýnd innlegg í réttri tímaröð getur útkoman orðið skondin og ruglingsleg. Oftast kíki ég á Fb á morgnana fyrir vinnu og aftur að kvöldi eftir vinnu. Á morgnana blasa iðulega við kveðjur með ósk um góða nótt og ljúfar drauma. Á kvöldin blasa við kveðjur þar sem boðið er góðan og blessaðan dag. Síðasta mánudag birtist mér innlegg með textanum: "Jibbý! það er kominn föstudagur!"
Ég sá að þessari hressilegu upphrópun var póstað á föstudeginum. Fb sá hinsvegar ekki ástæðu til að skila henni til mín fyrr en eftir helgi.
Fyrrverandi lykilstarfsmaður hjólar í Facebook | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2017 | 11:39
Íslandsvinur í skjölunum
Nöfn íslenskra auðmanna eru fyrirferðamikil í Paradísarskjölunum; þessum sem láku út frá lögmannsstofunni Appleby á Bermúda. Ef ég þekki íslenskan metnað rétt er næsta víst nöfn Íslendinga séu hlutfallslega flest miðað við höfðatölu. Sem eru góðar fréttir. Þjóð sem er rík af auðmönnum er vel sett. Verra samt að svo flókið sé að eiga peninga á Íslandi að nauðsyn þyki að fela þá í skattaskjóli.
Ekki einungis íslenskir auðmenn nota skattaskjól heldur líka Íslandsvinir. Þekktastur er hugsjónamaðurinn Bono í hljómsveitinni U2.
Tugir Íslendinga í skjölunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
2.11.2017 | 07:42
Óstundvísir eru í góðum málum
Það er eins og sumt fólk kunni ekki á klukku. Það mætir alltaf of seint. Stundvísum til ama. Þeir sem bölva óstundvísi mest og ákafast telja hana vera vondan löst.
Nú hefur þetta verið rannsakað. Niðurstaðan er sú að óstundvísir séu farsælli í lífinu og lifi lengur. Þeir eru bjartsýnni og afslappaðri. Eiga auðveldara með að hugsa út fyrir boxið og sjá hlutina í stærra samhengi. Eru ævintýragjarnari og eiga fleiri áhugamál. 5 mínútur til eða frá skipta engu máli. Þeir þurfa ekki langtímaplan til að bóka flug, hótelgistingu, rútu eða lest. Taka bara næsta flug. Ef það er uppbókað þá hlýtur að vera laust sæti í þarnæsta flugi. Ekki málið. Engin ástæða til að "gúgla" veitingahús á væntanlegum áfangastað. Því síður að bóka borð. Eðlilegra er að skima aðeins í kringum sig kominn á staðinn. Láta ókunnugt veitingahús koma sér á óvart. Skyndibiti í næstu sölulúgu kemur líka til greina. Þannig hlutir skipta litlu máli. Peningar líka.
Önnur rannsókn hefur leitt í ljós að sölumenn sem skora hæst í bjartsýnimælingu selja 88% meira en svartsýnir. Samanburður á A fólki (ákaft, óþolinmótt) og B fólki (afslappað, skapandi hugsun, óstundvísi) sýnir ólíkt tímaskyn. A fólk upplifir mínútu sem 58 sek. B fólkið upplifir hana sem 77 sek. A fólk er mun líklegra til að fá kransæða- og hjartasjúkdóma.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.10.2017 | 08:07
Hvernig er hann á litinn?
Á síðustu dögum fyrir alþingiskosningar er gott og holt að hvíla sig einstaka sinnum á þrefi um framboðslista, frambjóðendur, kosningaloforð, reynslu sögunnar og annað sem máli skiptir. Besta hvíldin fæst með því að þrefa um eitthvað sem skiptir ekki máli. Til að mynda hvernig skórinn á myndinni er á litinn.
Í útlöndum er rifist um það. Sumir segja hann vera ljósbleikan með hvítri reim. Heldur fleiri segja hann vera gráan með blágrænni (túrkís) reim.
Upphaf deilunnar má rekja til breskra mæðgna. Þær voru ósammála um litina. Leitað var á náðir Fésbókar. Sitt sýnist hverjum.
Þetta minnir á eldri deilu um lit á kjól. Sumir sáu hann sem hvítan og gylltan. Aðrir sem svartan og bláan. Niðurstaðan varð sú að litaskynjunin fór eftir því hvort áhorfandinn er A fólk (morgunhanar) eða B fólk (vakir frameftir). Aldur spilar einnig inn í.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.10.2017 | 17:16
Letingi? Það er pabba að kenna
Börn eru samsett úr erfðaefni foreldranna. Sumir eiginleikar erfast frá móðurætt. Aðrir frá föðurlegg. Þar fyrir utan móta foreldrar börnin í uppeldinu. Það vegur jafnvel þyngra en erfðirnar. Börn apa sumt eftir móður. Annað eftir föður. Þetta hefur verið rannasakað. Netsíðan Red Bull TV greinir frá niðurstöðunni:
Heiðarleika og hreinskilni læra börn af móður. Líka óöryggi, áhyggjur, gleymsku og fatasmekk.
Leti og óþolinmæði læra þau af föður. Einnig áræði, vonda mannasiði, reiðiköst og áhuga á íþróttum og bókmenntum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)