Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Veitingaumsögn

kjötsúpa í Súpuvagninum
 
  - Réttur:  Íslensk kjötsúpa
  - Veitingastaður:  Súpuvagninn,  Mæðragarði við MR
  - Verð:  900 - 1100 kr.
  - Einkunn: **** (af 5)
 
  Litlir matsöluvagnar með sölulúgu spretta nú upp eins og gorkúlur í Reykjavík.  Þökk sé hlýnandi veðurfari og fjölgun túrhesta. 
  Ennþá betra er að í sumum matsöluvögnunum er boðið upp á bráðholla íslenska kjötsúpu. 
  Í Súpuvagninum er hægt að velja um tvær skammtastærðir.  Minni skálin tekur sennilega um hálfan lítra og kostar 900 kr.  Stærri skálin tekur líklega um 800 ml eða því sem næst.  Hún kostar 1100 kr. 
  Ég fékk mér stærri skálina og borðaði úr henni ofan frá. Það er að segja ég hrærði ekki upp í henni heldur leyfði henni að skilja sig.  Þunn,  glær og bragðgóð súpan flaut á efri helmingi skálarinnar.  Þegar kom að neðri helmingnum tók við þykk súpa með hafragrjónum,  gulrótum,  rófum, kartöflum,  hvítkáli og lauk.  
  Þessi kjötsúpa er í alla staði eins og hefðbundin íslensk kjötsúpa.  Fyrir minn smekk mætti hún vera aðeins matarmeiri.  Kjötið er 140 gr  (jafngildir kjötskammti í hamborgara).  Hlutfall þess mætti vera pínulítið hærra.  Á móti vegur að hægt er fá aukaskammt af kjöti fyrir 250 kr.  Það er sniðugur kostur.  280 gr af kjöti er samt heldur mikið af því góða.
  Eini gallinn við súpuna var að kjötið var magurt og mauksoðið.  Þar með dálítið losaralegt í stað þess að vera þétt.    
 
súpuvagninnkjötsúpa Súpuvagnsins  
-------------------------------------------
Síðustu veitingaumsagnir: 
 

Danskur strippari strippaður í Færeyjum

  Tollverðir í einu flugstöðinni í Færeyjum,  í Vogum,  hafa yfir að ráða fíkniefnahundi.  Fram til þessa hefur hvutti bent með áberandi hætti á þá Dani sem eru svo vitlausir að koma til Færeyja með eiturlyf.  Svo bar það til að fræg dönsk nektardansmey hugðist verja rómantískri helgi í Færeyjum.  Fíkniefnahundurinn trylltist í návist hennar.  Leitað var á dömunni.  Ekkert fannst.  Hún var send í röntgenmyndatöku.  Ekkert grunsamlegt kom þar fram.  Þá var framkvæmd á henni gróf líkamsleit.  Að hennar sögn var ekki aðeins einum putta stungið í endaþarm hennar heldur fimm fingra krumlu upp að olnboga.  Ekkert dóp fannst. 

  Færeysku tollvörðunum til afsökunar má tiltaka að fíkniefnahundurinn hefur fram til þessa verið óskeikull.  En öllum verður á.  Skýringin er eflaust sú að danska nektardansmærin hefur einhvern tíma áður verið með dóp í sínum vösum.  Hún uppgötvaði nýlega að hún væri komin með barn í mallakútinn.  Undir þannig kringumstæðum hætta margar konur að neyta eiturlyfja.  Hinn möguleikinn er sá að daman hafi vitað af dóphundinum í Vogum og verið nógu klár til að láta ekki reyna á dópsmygl til Færeyja.  

  En hún er ósátt.  Verulega ósátt við meðhöndlunina á sér.  Kannski hefur þetta eftirmála.  Henni var samt nær að koma til Færeyja í fatnaði sem hafði hýst dóp.  Svo er ég ekkert viss um að daman segi satt og rétt frá að öllu leyti.  Hitt er annað mál að færeyskir tollverðir eru harðir í horn að taka þegar kemur að eiturlyfjum.  Þeir standa sína vakt vegna þess að Færeyjar eiga að vera fíkniefnalausar. 

  danskur strippari

  


mbl.is Þunguð nektardansmær í endaþarmsleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirburðir færeysku kartöflunnar niðurægja íslenskar kartöflur

  Færeyingar kalla kartöflur epli.  Um það hef ég áður skrifað.  Líka hversu snilldarlega Færeyingar rækta kartöflur.  Um það má lesa með því að smella á þennan hlekk:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1303680/

  Færeyskar kartöflur eru stærri og bragðbetri en þær íslensku.  Stærsta færeyska kartaflan í ár vegur 711 grömm.   Hún er 18 cm löng og 20 cm í þvermál.  Það er reisn yfir færeyskum kartöflum í samanburði viö lambaspörð íslensku kartöflunnar. 

færeysk kartafla


Viðbjóðsleg framkoma íslenskra embættismanna gagnvart Færeyingum

 Færeyskt skip, Næraberg,  lenti í nauð. Vélarbilun við makrelveiðar í grænlenskri lögsögu.  Það náði að skrölta til Íslands á fjögurra hnúta hraða. Móttökurnar á Íslandi voru til skammar.  Þær einkenndust af embættismannahroka og rembingi.  Framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar, Ásgrímur Ásgrímsson,  bannfærði skipið með það sama.  Bannaði alla þjónustu við skipið.  Skipsverjar máttu ekki einu sínni fara frá borði.  Þeir máttu hvorki kaupa vistir né eldsneyti í íslenskri höfn.   

  Sjávarútvegsráðherra lýsti yfir ógildingu á banninu. En fylgdi því ekki eftir af neinum þunga.  Hrokafull afstaða íslenskra embættismanna fékk að leika lausum hala dögum saman.  Viðbrögð íslensks almennings voru þau að hátt í 14 þúsund manns studdi á Fésbók afsökunarbeiðni til Færeyinga.  Sömuleiðis tóku einstaklingar upp á því að færa áhöfn Nærabergs hamborgara og gosdrykki.  Það var niðurlægjandi fyrir alla aðila - þó að reisn væri yfir uppátækinu út af fyrir sig.  

  Allt bull um lög frá 1998 um samskipti við Færeyinga höfðu og hafa ekkert gildi eftir að fríverslunarsamningur við Færeyinga 2006 gekk í gildi.   

   Framkoma íslenskra embættismanna í garð Færeyinga er viðbjóður.  Næsti bær við hrokafullt erindi Ölgerðarinnar,  kröfu um að frábært Föroya Bjór Gull sé tekið af markaði.  Styðjið Færeyinga í verki með því að kaupa Föroya Bjór Gull og sniðgangið vörur frá Ölgerðinni. 

  Ég fordæmi  hroka og yfirgangssemi íslenskra frekjuhunda í garð Færeyinga.  Ég er búinn að setja viðskiptabann á Ölgerðina Egil Skallagrímsson.  Óþverrafyrirtæki.  

föroyabjórgull

   


mbl.is Færeyska skipið farið frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falsanir Sleep Shepherd

 Það eru ekki aðeins uppbelgdir og hrokafullir íslenskir embættismenn sem níðast á Færeyingum þessa dagana. Bandarísku hryðjuverkasamtökin Sleep Shepherd fara einnig mikinn.  Forsprakki SS,  Paul Watson,  er töluvert yfirlýsingaglaðari og kjaftforari en aðrir SS-liðar.  SS hafa staðið vakt í Færeyjum í allt sumar án tíðinda. Í gær klúðraðist vaktin vegna þess að SS-liðar sváfu á meðan hvalur var veiddur fyrir framan trýnið á hrjótandi hópnum. Í dag kom upp smá órói þegar hvalur var veiddur.  Það gekk samt allt ljúft fyrir sig. SS-liðar voru handjárnaðir og fjarlægðir snöfurlega.

  Forsprakki SS,  Paul Watson,  heldur því fram að fullyrðingar Færeyinga um að veiðar á marsvínum (grind) sé sjálfsbjargarviðleitni en ekki í ábataskyni standist ekki skoðun.   Máli sínu til stuðnings birtir hann ljósmyndir úr kjötborði færeyskrar matvöruverslunar.  Þar sést glöggt að til sölu er hvalkjöt merkt hvalbiff.  Það sem Paul og félagar fatta ekki er að hvalbiff er norkst heiti á hvalkjöti.  Þetta er norskt hvalkjöt.  Ekki færeyskt.  

 

norskt hvalbuff

norskt hvalbuff A


Sea Shepherd-liðar sváfu af sér hvalveiðar í Færeyjum

sea shepherd stara á hafið  Í allt sumar,  alveg frá júníbyrjun,  hafa 100 félagar í bandaríska hryðjuverkahópnum Sea Shepherd haldið úti vöktum í Færeyjum. Starað dag og nótt út á haf í því hlutverki að koma auga á hval.  Þeir eru í herferð gegn hvalveiðum Færeyinga.  Átakið kallast Grind Stop 2014.  Margt spaugilegt hefur borið til tíðinda.  Það helst að vöktun SS-liðanna hefur verið tíðindalaus í allt sumar.  Hvalurinn hefur ekki látið á sér kræla.  Það er fyrir löngu síðan orðin verulega vandræðaleg staða fyrir Sea Shepherd. Sú er ástæðan fyrir því að dvölin í Færeyjum var framlengd.  Vaktin átti að standa fram í miðjan ágúst en stendur enn.  
 
  Í Fésbókarfærslum SS-liða hefur borið á ólund yfir aðgerðarleysi í Færeyjum,  tilbreytingarleysi og einhæfri stöðu að stara á haf út á vöktum heilu og hálfu dagana.
 
 Í morgun bar til tíðinda að loksins sást til nokkurra hvala uppi í fjöru í Hvalba.  Hvalveiðimenn héldu af stað.  Þeir óku framhjá bíl þriggja Sea Shepherd vaktmanna.  Þeir reyndust allir vera steinsofandi í bílnum og hrutu eins og sögunarverksmiðja í Brazilíu.  Illar tungur herma að þeir hafi reykt of stíft af hassi.  Kannski rangt.  Kannski rétt.
 
  Af tillitssemi við svefn,  hrotur og drauma sofandi SS-liðanna var haft hljótt um hvalrekann.  Öfugt við það sem venja er þegar mótorbátar eru ræstir út og herkvaðning með látum.  Þess í stað voru hvalirnir vegnir í kyrrþey í fjörunni og hvalkjötinu skipt á milli íbúa Hvalba.  Heldur betur góð búbót.   
 
  Eins og oft áður eru SS-liðar gríðarlegt aðhlátursefni í Færeyjum. Í þetta sinn fyrir að hafa hrotið í draumförum á meðan hvalur var veiddur og veginn fyrir framan trýnið á þeim steinsofandi og afvelta inni í eftirlitsbíl.   Héðan í frá kalla Færeyingar SS-samtökin aldrei annað en Sleep Shepherd.  
 
Sleep Shepherd
 

Sprenging í sölu á Föroya Bjór Gulli

föroya bjór gull dós

 

  Íslendingar kunna vel að meta hinn bragðgóða færeyska bjór Föroya Bjór Gull.   Í vörulista Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) er honum lýst þannig:  "Gullinn,  ósætur,  meðalfylling,  meðalbeiskja.  Korn,  baunir,  malt,  humar."  Ég lýsi bragðinu sem skörpu,  ósætu og að eftirbragð sé gott.  Hann kippir vel í,  um 6%.  

  Það er stutt síðan Íslendingar almennt vissu af tilvist Föroya Bjór Gulls.  Þó hefur hann verið framleiddur í hálfan fjórða áratug og verið seldur á Íslandi lengst af.  Lengst af þeim tíma hefur hann verið seldur á Íslandi.  Hinsvegar hefur aldrei verið gert neitt átak í kynningu á honum.  Það hafa helst verið Færeyingar á Íslandi sem sótt hafa í heilsudrykkinn,  svo og Íslendingar sem hafa heimsótt Færeyjar.

  Í síðustu viku brá svo við að Föreyja Bjór Gull barst í tal í íslenskum fjölmiðlum.  Ástæðan var afskaplega hrokafullt og ósvífið bréf sem forstjóri Ölgerðarinnar Agli Skallagrímssyni sendi forstjóra Föroya Bjór.  Við þau tíðindi rann á Íslendinga Gull-æði.  Sala á Föroya Bjór Gulli á Íslandi óx um 1200%.  Söluaukningin hefði orðið ennþá meiri ef hann hefði ekki selst upp í sumum vínbúðum.  Þar toguðustu menn á um síðustu dósirnar þannig að víða lá við stimpingum.  Mörg dæmi voru um að menn keyptu Föroya Bjór Gull tvo og upp í þrjá daga í röð.  Þá hafa margir lýst því yfir á Fésbók og á bloggsíðum að héðan í frá kaupi þeir engan bjór annan en Föroya Bjór Gull.  Þetta sé besti bjór í heimi.  

  Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu ÁTVR eru í dag til örfáar kippur í aðeins þessum þremur verslunum:  Heiðrúnu (20 kippur + 1 dós),  Akureyri (26 kippur) og Hafnarfirði (51 kippa + 5 dósir).    

   


Kaupum ekkert frá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni

 

  Staðreynd númer 1:  Til margra áratuga hafa skandínavískir bjórframleiðendur auðkennt tilteknar bjórtegundir með nöfnum eins og Pilsner,  Stout,  Lite, Gull og svo framvegis.

  Staðreynd númer 2:  Fyrir hálfum fjórða áratug hóf færeyska Föroya Bjór framleiðslu á Föroya Bjór Gull samkvæmt þessum skandinavísku stöðlum á bjór.

  Staðreynd númer 3:   Níu árum síðar hóf Ölgerðin Egill Skallagrímsson framleiðslu á Egils gull.  Bragðdaufum pissbjór.  Það er aukaatriði.  Gárungar kalla hann Egils sull.  

   Færeyski Föroya Bjór Gull er góður.  Virkilega góður.  

  Á útrásarárum íslensku geðveikinnar fyrir bankahrun fór Ölgerðin fram á það að kaupa Förya Bjór.  Óskaði eftir nákvæmum upplýsingum um allt sem snéri að markaðsmálum Föroya Bjór.  Því var hafnað en af vinsemd boðið upp á samvinnu.  

  Staðreynd númer 4:   Ölgerðin fann sér færeyska heildsölu sem kann ekkert á færeyska bjórmarkaðinn.  Kann ekkert á dreifingarkerfi bjórs í Færeyjum til vínveitingastaða, pöbba eða annarra sem selja bjór í Færeyjum.  Ráðamönnum Föroya Bjór þótti það undarlegt uppátæki.  Og spaugilegt.  Föroya Bjór hefði af vinsemd alveg getað bætt bjór Ölgerðarinnar inn í sitt góða og öfluga dreifingarkerfi á bjór.   Það var einungis jákvæðni gagnvart því.  Vegna þess hvaða aulalegu leið Ölgerðin fór er hún aðhlátursefni í Færeyjum.  

  Staðreynd númer 4:  Fyrir þremur árum fékk Ölgerðin nafnið "Egils gull" skrásett vörumerki.  

  Staðreynd númer 5:  Fyrir þremur vikum eða svo sendi Ölgerðin bréf til Föroya Bjórs.  Í því var ekki óskað eftir viðræðum eða neitt slíkt.  Erindið var afskaplega hrokafull skipun um að Föroya Bjór taki Föroya Bjór Gull af markaði.  Frestur var gefinn til 18. ágúst.  Ef að færeysku skrælingjarnir yrðu ekki við skipun herraþjóðarinnar þá muni Föroya Bjór Gull verða sett út af markaðnum fyrir tilstilli dómsstóla.     

  Ósvífin skipun Ölgerðarinnar er forkastanleg.  Þar ræður hrokinn ríkjum.   Þrátt fyrir fráleita kröfuna hefði samt verið eðlilegri framsetning að óska eftir viðræðum.  Ekki þetta:  Þú skalt hlýða mér eða að öðrum kosti verður þú dreginn á rassgatinu fyrir dómsstóla.

  Hroki Ölgerðarinnar er fyrirlitlegur.  Ölgerðin hefur enga möguleika á að vinna málið.  Löng hefð er fyrir því að tiltekin bjórtegund sé kennd við gull.  Meira að segja finnski Lapin Kulta þýðir Lapin Gull.  Þó að einhver fái skrásett vörumerkið Egils Pilsner þá veitir það viðkomandi ekki einkarétt á orðinu Pilsner.  Né heldur Lite eða Stout eða öðrum fjölþjóðlegum og alþjóðlegum heitum sem skilgreina bjórtegundir.     

  Ég hef þegar sett viðskiptabann á Ölgerðina og hvet alla til að taka þátt í viðskiptabanninu.  Þetta er óþverrafyrirtæki á meðan hrokafullir skrattakollar ráða þar ríkjum.  

  Færeyingar eru bestu og nánustu vinir Íslendinga. Þeir björguðu okkur þegar engir vildu lána okkur gjaldeyri í kjölfar bankahrunsins.  Yndislegt fólk.  Yndisleg þjóð.  Ölgerðin er andstæðan:  Hrokafullir frekjuhundar.  

húðflúr + Færeyjar

  

föroyabjór síðan 1888

 


mbl.is Sprenging í sölu á Føroya-Gulli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskiptabann á Ölgerðina Egil Skallagrímsson

  Ég hvet til þess að við,  Íslendingar,  látum af öllum viðskiptum við Ölgerðina Egil Skallagrímsson.  Einkum og sér í lagi sniðgöngu á Egils sulli (vörumerki Egils gull).  Ástæðan er ærin og liggur í dónalegu bréfi frá Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra Ölgerarðinnar,  til Föroya Bjór í Færeyjum.  Þar segir meðal annars:  

  "Ef Föroya Bjór hættir ekki þegar í stað allri sölu og markaðssetningu á Íslandi - og öllum innflutningi til Íslands á færeyskum Gull-bjór,  þá hefur forstjórinn,  Andri Þór Guðmundsson, engin önnur úrræði en að leita réttar síns fyrir dómsstólum."

  Ofstopinn,  dónaskapurinn og frekjan í þessum texta er til skammar.   Þar fyrir utan er krafan út í hött.  Föroya Bjór Gull hefur verið á markaði mun lengur en Egils sullið.  Jafnframt er Föroyja Bjór Gull úrvals góður bjór en Egils sullið ómerkilegt skólp.  Egils sullið hefur stórskaðað viðskiptavild Föroya Bjór Gull með því að gera út á rótgróið nafn úrvals bjórs.

  Þetta er góði færeyski Gull-bjórinn:

Foroya Bjor Gull

 

  Ekki rugla honum saman við Egils sull. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

--------------------------------------------------------------------------------------


Ósvífin frekja í garð færeysks framleiðanda

föroya bjór gull
  Færeyskur bjór er sá besti í heimi.  Ekki síst Föroya Bjór GULL.  Hann hefur notið gríðarlegra vinsælda víða um heim í hálfan fjórða áratug.  Þar af hefur hann verið seldur íslenskum aðdáendum í 33 ár.  Öllum til mikillar gleði og ánægju.  
 
  Færeyskur bjór er svo góður að fyrir mörgum árum lét ég húðflúra merki Föroya Bjór (nafnið og myndina af færeyska hrútnum) yfir allan vinstri framhandlegginn á mér.  Alltaf þegar ég sé húðflúrið þá sleiki ég út um.
 
  Fyrir örfáum árum tók íslenskt fyrirtæki,  Ölgerðin Egill Skallagrímsson,  upp á því að gera út á viðskiptavild Föroya Bjór GULL.  Föroyja Bjór sá ekki ástæðu til að amast við því.  Þvert á móti þótti mönnum þar á bæ það bara broslegt.  
 
  Verra er að Egils gull er ómerkilegur bjór.  Sérstaklega í samanburði við Föroya Bjór GULL.  Egils gull skaðar á þann hátt viðskiptavild "GULLS".
 
  Ráðamenn hjá Ölgerðinni kunna ekki að skammast sín.  Núna barst Föroya Bjór hótunarbréf frá Ölgerðinni.  Þar er Föroya Bjór skipað að hætta þegar í stað að selja Föroya Bjór GULL.  Að öðrum kosti verði gripið til harkalegra aðgerða og þeim bjór bolað út af íslenskum markaði.  
 
  Eðlilega þykir Færeyingum þetta undarleg og smekklaus framkoma.  Ef þeim sýnist svo geta þeir kært Ölgerðina fyrir að stela "GULL" nafninu,  látið dæma nafnið af henni og farið fram á háar skaðabætur fyrir tjónið sem Egils sullið hefur valdið Föroyja Bjór GULLinu.  Áður vonast þeir þó til að frekjukastið renni af ráðamönnum Ölgerðarinnar.    
 
olgerdin gull
   

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.