Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
21.2.2014 | 21:02
Vegir ástarinnar eru (ó)rekjanlegir
Stundum er því haldið fram að engir sölumenn komist með tærnar þar sem bílasölumenn á góðu flugi eru með hælana. Enda nauðsynlegt. Svo oft þarf að selja bílhræ sem engin heilvita manneskja svo mikið sem lítur á. En snjöllu sölumönnunum tekst að selja hverja einustu bíldruslu.
Víkur þá sögu að breskum hjónum á fimmtugsaldri, herra og frú Bayford, 2ja barna foreldrum. Þau unnu 148 milljónir sterlingspunda (x 188 ísl. kr.) í Lottó. Í fjölmiðlum sögðust hjónin vera staðráðin í því að láta aurinn ekki breyta sér og fjölskyldulífi þeirra á neinn hátt. Þau leyfðu sér samt að kaupa eitt og annað smálegt án þess að fara á eyðslufyllerí. Þar á meðal fór frúin á bílasölu. Bílasalinn gaf sér góðan tíma í að kynna fyrir kellu þá kosti sem voru í boði. Það var engin ástæða til að rasa um ráð fram þegar velja á heppilegasta bíla sem eiga að endast í marga mánuði. Áður en yfir lauk hafði salinn selt frúnni 5 Audi bíla: Sitthvorn bílinn handa foreldrum hennar, einn handa bróðir hennar, annan handa mágkonu hennar og einn handa frúnni sjálfri.
Herra Bayford skipti sér ekkert af þessu og kom hvergi nærri. Hann hefur engan huga á bílum. Er ekki einu sinni með bílpróf.
Um það leyti sem frú Bayford staðgreiddi bílana var hún komin upp í rúm til bílasalans. Það var ekki aftur snúið. Hún skildi í snatri við herra Bayford. Bílasalinn flutti inn til hennar. Hann sagði þegar í stað upp í vinnunni og hvílir sig.
![]() |
Fólk gleymir að rækta ástina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.2.2014 | 23:50
Smásaga af fjárfesti
Ding-dong, gellur dyrabjallan. Húsfrúin gengur til dyra. Útifyrir stendur hvíthærður maður með sakleysislegan hvolpasvip. Hann býður góðan dag og kynnir sig sem Hrapp Úlfsson, fjárfesti og auðmann.
Viðskipti og fjármál | Breytt 23.1.2015 kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.2.2014 | 22:08
Hvað eru Bjarni Ben og Sigmundur Davíð?
Spurningin sem margir spyrja sig - og nokkra aðra - er: Hvað eru Bjarni Ben og Sigmundur Davíð? Svar við spurningunni áleitnu brennur á íslenskum almenningi (og í bland nokkrum útlendingum með bakpoka). Mér er ljúft og skylt að upplýsa málið - fyrst að ég á annað borð veit svarið. Í stuttu máli er Bjarni Ben djúpsteiktur fiskur (nánar tiltekið fiskborgari). Sigmundur Davíð er hakkað naut (í formi nautaborgara).
Bjarni Ben og Sigmundur Davíð eru nýjustu réttirnir á veitingastaðnum Texasborgurum við Grandagarð.
Fram til þessa hafa hamborgararnir á Texasborgurum verið 140 gr. Bjarni Ben og Sigmundur Davíð eru hinsvegar 90 gr. Þeir eru afgreiddir í hamborgarabrauði og með frönskum kartöflum, sósu og salati. Verðið er sniðið að kaupgetu fólks í skuldaánauð; 690 kall.
Hlutverk nafngiftar þessara málsverða er að minna ráðamenn landsins á að skuldugir landsmenn eru langþreyttir á bið eftir skuldaleiðréttingu. Þeir bíða og bíða og bíða og bíða eftir skuldaleiðréttingu sem boðuð var á vormánuðum og átti að ganga í gegn einn, tveir og þrír. Svo gleymdist hún. Að mér skilst. Í atinu þurfti að einbeita kröftum að kvótagreifum sem toguðust á um að borga sér 800 milljónir í arð (í stað 700 milljóna). Eða eitthvað svoleiðis.
Ég þekki ekkert til þessara mála og skipti mér ekkert af þeim. En ég held að framtak Texasborgara sé skemmtilegur flötur á skuldaánauðinni.
Tekið skal fram að ég hef engin tengsl við Texasborgara. Aftur á móti snæði ég oft á Sjávarbarnum. Hann er við hliðina á Texasborgurum og - að ég held - sami eigandi. Á Sjávarbarnum er boðið upp á glæsilegt sjávarréttahlaðborð í bland við kjúklingarétti. Það er í miklu uppáhaldi hjá mér.
Hér er eigandinn, Magnús Ingi Magnússon, með Bjarna Ben og Sigmund Davíð í fanginu.
Bjarni Ben spilar ekki á loftgítar. Þess í stað er hann liðtækur á loftklarinettu og loftfuglaflautu.
Viðskipti og fjármál | Breytt 14.2.2014 kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.2.2014 | 22:32
Dauði tónlistariðnaðarins
Með reglulegu millibili koma fram á sjónarsvið fyrirbæri sem slátra tónlistariðnaðinum - ef mark er takandi á þeim sem hæst grætur hverju sinni yfir örlögum sínum á dánarbeði tónlistariðnaðarins. Nýjasti morðingi tónlistariðnaðarins er niðurhalið á netinu og mp3. Í lok síðustu aldar var það skrifanlegi geisladiskurinn. Þar áður náði bandaríski tónlistariðnaðurinn að banna DAT-snælduna. Japanskur snælduframleiðandi, Sony, gerði sér þá lítið fyrir, keypti bandaríska plöturisann CBS og aflétti banninu í krafti þess. Um svipað leyti úreltis DAT-snældan vegna innkomu geisladisksins.
Músíksjónvarpsstöðin MTV og tónlistarmyndbönd voru um tíma sökuð um að ganga af tónlistariðnaðinum dauðum. "Myndbönd drápu útvarpsstjörnuna" (Video Killed the Radio Star), sungu The Buggles og þóttu spámannslega vaxnir.
Á áttunda áratugnum urðu svokölluð kassettutæki þokkalega góð, ódýr og almenningseign. Tónlistariðnaðurinn fylltist örvæntingu. Hann sameinaðist í rosalega öflugri herferð gegn kassettunni. Höfðað var til samvisku kassettutækjaeigenda. Á plötuumslög og í plötuauglýsingum var birt teikning af kassettu yfir x-laga nöglum. Uppstillingin var stæling á einkennistákni sjóræningja. Með fylgdi texti þar sem fullyrt var að tónlist afrituð yfir á kassettu í heimahúsi væri að slátra tónlistariðnaðinum.
Orðheppnu pönkararnir í Dead Kennedys tóku skemmtilegan snúning á þessu. Þegar þeir sendu frá sér plötuna "In God We Trust, Inc." var hún einnig gefin út á kassettu. Kassettan var merkt þessum boðskap um að upptaka á kassettu í heimahúsi væri að slátra tónlistariðnaðinum. Fyrir neðan þann texta bættu Dead Kennedys-liðar við: "Við höfum þessa hlið kassettunnar óátekna svo þú getir lagt hönd á plóg" (við að slátra tónlistariðnaðinum).
Á annarri plötu sungu Dead Kennedys gegn MTV í laginu "MTV Get Off the Air". Til samræmis við það að MTV skiptir litlu máli í dag hafa núverandi liðsmenn Dead Kennedys breytt textanum í "Mp3 Get Off the Air".
Heildarsaga Dead Kenndys er jafn geggjuð og grátköst tónlistariðnaðarins og skallapoppara yfir stöðugri slátrun á sér. Framan af var hljómsveitin mjög kjaftfor í bland við hárbeittan húmor. Söngvarinn, Jello Biafra, var og er mjög fyndinn og beitir kaldhæðni af list. Lagaheitin segja sitt: "Too Drunk to Fuck", "Stealing People´s Mail", "Kill the Poor", "Anarchy for Sale", "California Uber Alles"...
Þegar fréttatímar voru uppfullir af sögum af Pol Pot og félögum í Kambódíu að þrælka og strádrepa íbúa landsins söng Jello um "Holiday in Cambodia". Nafnið Dead Kennedys er baneitrað. Íslenskur frændi minn skrapp til New York (eða hvort það var Boston?) á upphafsárum Dead Kennedys. Þá var hljómsveitin þekkt í Evrópu en tilheyrði neðanjarðarpönksenu í Bandaríkjunum. Í plötubúð spurði frændi eftir plötum með Dead Kennedys. Það snöggfauk í afgreiðslumanninn. Hann reiddi hnefa til höggs og spurði hvað þetta grín um dauða Kennedya ætti að þýða. Það tók afgreiðslumanninn góðan tíma að ná andlegu jafnvægi á ný á meðan frændi upplýsti hann um þessa hljómsveit.
Eins og algengt er áttuðu þöngulhausar sig ekki á kaldhæðni Jellos. Nasistar og aðrir rasistar hylltu Dead Kennedys og fjölmenntu á alla þeirra hljómleika. Á síðustu plötunni heitir eitt lagið "Nazi Punks Fuck Off". Það breytti engu. Ku Klux Klanarnir tóku því sem virðingarvotti í sinn garð. Jello var nóg boðið og leysti hljómsveitina upp. Hann snéri sér að uppistandi og nýtur mikilla vinsælda sem slíkur. Hann hefur sent frá sér fjölda uppistandsplatna. Hann var með vel heppnað uppistand á Íslandi fyrir nokkrum árum.
Jafnframt hefur Jello sungið inn á plötur með ýmsum hljómsveitum (þar á meðal Lard og No Means No) og gert kántrý-plötu með Mojo Nixon. Eftir að Jello leysti DK upp óx viðskiptavild hljómsveitarinnar bratt. Allskonar hljómsveitir fóru að kráka (cover song) lög DK. Auglýsendur, kvikmyndaframleiðendur, sjónvarpsþáttaframleiðendur og ýmsir aðrir vildu fá að nota lög DK. Jello stóð fastur gegn því. Hann vildi varðveita ímynd DK sem hljómsveitar í uppreisn, með málstað pönksins að leiðarljósi. Jello stóð einnig gegn því að lög DK væru gefin út á safnplötum.
Hljóðfæraleikararnir í DK fóru í mál við Jello. Þeir sökuðu hann um að hafa af þeim háar fjárupphæðir með því að taka ekki fagnandi allri notkun á DK-lögum á öllum vígstöðvum. Þeir unnu málið. Síðan hafa þeir selt lög DK út og suður. Sömuleiðis endurreistur þeir hljómsveitina með öðrum söngvara og túra þvers og kruss.
Viðskipti og fjármál | Breytt 13.2.2014 kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2014 | 01:39
Ástæðan fyrir því að fólk verslar eins og fífl
Allir þekkja einhverja sem hafa fengið svokallað kaupæði. Rólegheitamanneskja kíkir á útsölu, ætlar ekki að kaupa neitt, er bara að forvitnast, en kemur heim hlaðin vörum sem hún hefur ekkert með að gera og kann enga skýringu á því hvað kom yfir hana. Af hverju hún missti stjórn á sér. Af hverju hún keypti hluti sem hana vantaði ekki. Af hverju hún keypti hluti á hærra verði en hún er sátt við.
Þetta hefur verið rannsakað á vísindalegan hátt í Háskólanum í Bangor í Wales. Við tilteknar aðstæður, til að mynda þegar útsala hefst, þá myndast æsileg stemmning. Það hleypur æði á viðskiptavini. Stemmningin rafmagnast og magnast upp. Eftir 23 mínútur í þessu spennuþrungna andrúmslofti æsings og hamagangs slekkur heilinn á þeim hluta sem stjórnar rökhugsun. Við það breytist manneskjan í uppvakning. Hún verður fáviti sem hefur enga stjórn á sér. Án allrar skynsemi fer hún á sjálfstýringu sem gengur út á að kaupa og hamstra. Verðskyn hverfur eins og dögg fyrir sólu sem og allt annað sem hefur með skynsemi að gera. Manneskjan er dómgreindarlaus og stjórnlaus.
Hið sama er uppi á teningnum þegar um uppboð er að ræða. Fyrir aldarfjórðungi tók ég þátt í skammtíma sölumarkaði í Húsgagnahöllinni uppi á Höfða. Til að lífga upp á stemmninguna var boðið upp á dagskrá með tónlistaratriðum og fleiru. Þar á meðal uppboði með vörum úr sölubásunum. Þá brá svo við að geggjun rann á gesti og þeir buðu í og keyptu vörur á þrefalt og fjórfalt hærra verði en þær kostuðu í sölubásunum. Eftir tvö eða þrjú uppboð gekk þetta svo fram af okkur að frekari uppboð voru blásin af. Þetta sem átti að vera léttur og skemmtilegur leikur reyndist kappsömum kaupfíklum ofraun.
Næst þegar þú ferð á útsölu taktu þá með einhvern sem tekur tímann. Að 23 mín. liðnum þarf hann að stoppa þig af með góðu (miklu fremur en illu). Á því augnabliki ert þú að missa vitið. Sættu þig við það og láttu gott heita.
---------------------------------------
Tvífarar:
![]() |
Borgað fyrir að fá að borga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 02:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
6.2.2014 | 22:26
Plötusala og tónlistarmenn blómstra
Plötusala hefur vaxið og vex ennþá frá einum áratug til annars. Þannig hefur það verið alveg frá upphafi plötuframleiðslu og plötusölu. Þetta á við um plötusölu hérlendis, jafnt sem erlendis. Á þessum tíma hefur sala á plötum tekið allskonar hliðarspor. Á tímabili kom kassettan sterk inn og náði nokkurri markaðshlutdeild í plötusölu. Svokölluð 8 rása teip urðu líka vinsæl. Einkum í Bandaríkjunum. Svo leysti geisladiskurinn vinylplötuna af hólmi. Um 15 ára skeið eða svo var geisladiskurinn allsráðandi. Að undanförnu hefur sala á vinylplötum aukist aftur jafnt og þétt.
Á sama tíma hefur sala á tónlist í stafrænu formi tekið stóran og ört vaxandi bita af kökunni. Sá markaður er ennþá í mótun. Hann á eftir að taka miklum breytingum eins og hingað til. Músíkveitur á borð við tonlist.is og spotify.com selja stök lög og heilar plötur í gegnum niðurhal. Sömuleiðis selja tónlistarmenn lög (og plötur) beint til neytandans af sínum eigin netsíðum. Líka í gegnum erlendar netsíður á borð við amazon.com og play.com. Sala á þessum síðum telur ekki í opinberum gögnum um sölu á íslenskum plötum.
Jafnframt hefur færst í vöxt að músík íslenskra tónlistarmanna sé gefin út af erlendum plötufyrirtækjum. Sala á þeirra músík telur ekki í opinberum tölum um sölu á íslenskri tónlist.
Þrátt fyrir þetta var í fyrra sala á tónlist gefinni út af íslenskum plötufyrirtækjum svipuð og árin 2009 og 2010. Salan 2011 og 2012 var meiri.
Á síðustu fimm árum eru tónlistarmenn að selja plötur á Íslandi í stærra upplagi en áður þekktist. Mugison og Ásgeir Trausti eru að selja 30 og 40 þúsund eintök af stakri plötu. Of Monsters and Men kemur fast á hæla þeirra.
Jaðarmúsík er að seljast vel. Skálmöld selur sinn víkingametal í þúsunda upplagi. Mammút, Lay Low, Valdimar, Kaleo, Blússveit Þollýjar og fleiri eru á góðu róli. Hebbi selur um og yfir 6000 eintök af hverri plötu sinni.
Bestu fréttirnar eru þær að söluhæstu plötur síðustu ára eru góðar plötur. Þetta eru plötur sannra listamanna sem leggja sálina í tónlist sína. Sköpunargleði, metnaður og einlægni ráða för. Þessir tónlistarmenn njóta virðingar fyrir að standa með sjálfum sér sem listamenn. Það skilar sér í vinsældum og góðri plötusölu. Ólöglegt niðurhal styrkir sölu á bitastæðri tónlist. Rannsóknir í Bretlandi og Frakklandi hafa staðfest það. Niðurhalarar eru stórtækustu plötukaupendurnir. Vegna áhuga og ástríðu fyrir tónlist nota þeir allar leiðir til að kynnast sem mestu magni af tónlist. Svo kaupa þeir rjómann af því sem best lætur í eyrum.
Íslendingar sem hafa fulla atvinnu af sinni tónlist eru mun fjölmennari en áður. Góð og heiðarleg íslensk tónlist og íslenskir tónlistarmenn blómstra sem aldrei fyrr. Líka í kynþokka.
![]() |
Kynþokkafyllstu íslensku söngvararnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 7.2.2014 kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.2.2014 | 22:53
Peningar leysa vandamál og skapa önnur
Allir hafa velt fyrir sér þeim möguleika að vinna álitlega upphæð í lottói eða öðru happdrætti. Þess vegna kaupa flestir af og til lottómiða eða aðra happdrættismiða. Upphæðir sem Íslendingar vinna á þennan hátt eru innan skynsamlegra marka. 14 - 20 milljónir kr. Í mesta lagi 70 - 80 milljónir. Þetta eru ekki upphæðir sem rugla neinn í ríminu. En notaleg búbót sem kallar á að vinningshafinn geri sér dagamun.
Fyrir nokkrum árum las ég samantekt í bresku dagblaði yfir þá sem höfðu unnið hæstu upphæðir í þarlendu lottói. Milljarða. Það var dapurleg lesning um hjónaskilnaði, málaferli, fjölskylduerjur, eiturlyfjaneyslu, klessukeyrða sportbíla og önnur leiðindi.
Fyrir nokkrum dögum rakst ég á nýtt viðtal við einn af þessum "óheppnu" vinningshöfum. Hann heitir Mark og vann 2,2 milljarða ísl. kr. fyrir tveimur áratugum. Hann segir vinninginn hafa laðað fram það versta í fari fólks; gremju, öfund, græðgi, illgirni. Ef hann fer á barinn er ætlast til þess að hann splæsi á alla. Þegar hann gerir það er hann sakaður um að hreykja sér. Ef hann gerir það ekki er hann kallaður nirfill.
Mark segir að vissulega geti peningar leyst tiltekin vandamál. En þeim fylgi ótal önnur vandamál sem hann sá ekki fyrir. Í dag umgengst hann nánast enga af þeim sem hann var í bestu sambandi við fyrir lottóvinninginn. Þar á meðal hefur samband hans við dætur, stjúpmóður og aðra ættingja rofnað vegna illinda. Hann er fjórgiftur og kennir barnsmæðrum sínum um að hafa snúið dætrum hans gegn honum.
Tilætlunarsemi og frekja var slík fyrst eftir vinninginn að ólíklegasta fólk bað hann um að kaupa handa sér bíla og hús. Eða kaupa af þeim hús á uppsprengdu verði. Hann gerði það í fjórum tilfellum og hlaut engar þakkir fyrir. Þess í stað var hann sakaður um flottræfilshátt. Fólkið sem hann taldi sig vera að gera greiða talar ekki við hann í dag.
Mark hefur staðið í svo mörgum málaferlum að hann grínast með að þægilegast yrði að fá fasta aðstöðu í einkaherbergi merktu sér í dómshúsinu. Hann er kominn á sextugsaldur, er ennþá vel settur fjárhagslega, en þjáist af þunglyndi og sækir tíma hjá sálfræðingi til að komast í gegnum daginn.
Í greininni er sagt frá öðrum vinningshöfum, tvennum hjónum sem bæði skildu í kjölfar vinningsins eftir langt og farsælt hjónaband. Hér er Mark með fyrstu konu sinni á meðan allt lék í lyndi.
![]() |
Klinkið varð að 14 milljónum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 6.2.2014 kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.1.2014 | 17:50
Einföld leið til að tvöfalda framleiðsluna
Það er verulega undarlegt hvað mörgum gengur illa að hámarka framleiðslu í fyrirtækjum sínum. Það er eins og framleiðendur á öllum sviðum vilji að reksturinn lulli í hægagangi á hálfum afköstum. Dæmi: Það er auðvelt að tvöfalda mjólkurframleiðsluna. Líka eggjaframleiðsluna. Það eina sem þarf að gera er að spila músík fyrir dýrin.
Þessar skepnur hafa einfaldan músíksmekk. Þær kunna best við einfaldar laglínur og straumlínulagaðan flutning. Flóknir taktar, taktskiptingar, ágeng sóló eða hamagangur og læti veita dýrunum ekki ánægju. Kýr kunna vel við ljúft harmónikkuspil og léttklassík. Hænur kunna best við létta söngleikjamúsík og léttklassík.
Þessi músík veitir skepnunum vellíðan. Þær slaka á, kumra og mala inni í sér og fyllast hamingju. Það leiðir til aukinnar mjólkurframleiðslu og örara eggjavarpi.
Í einhverjum tilfellum er hægt að tvöfalda mjólkurframleiðsluna með þessari aðferð. Hænurnar tvöfalda varpið með það sama.
Hér er sönglag sem Paul Simon orti um morgunverð. Hann samanstóð af spældu eggi og kjúklingi.
![]() |
Lág laun ástæðan fyrir litlum hagvexti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.1.2014 | 20:06
Berrassaður á hverfisbar
Fyrir nokkrum árum var rekinn hverfispöbb á efri hæð í Ármúla 5 (fyrir ofan Vitaborgarann, við hliðina á Broadway). Pöbbinn var kenndur við rússneska kafbátaskýlið, Pentagon. Nafnið Pentagon þýðir fimmhyrnd bygging. Mörgum þótti nafngiftin á pöbbanum sérkennileg vegna þess að hann var í ferhyrndri byggingu. Núna heitir staðurinn Crystal.
Svo bar til eitt kvöldið að fjölmenni var inni á staðnum. Virðulegur eldri maður klæddur í vandaðan jakka og með hálsbindi sat sem fastast úti í horni. Þegar hann vantaði nýtt bjórglas kallaði hann á þjón og lét færa sér á borðið. Að nokkrum bjórglösum liðnum þurfti maðurinn að bregða sér á klósettið. Þá blasti við að hann var berlæraður. Aðeins í hvítum nærbuxum með rauðum doppum. En í sokkum og stífbónuðum spariskóm.
Þetta vakti kátínu annarra gesta, undrun og forvitni. Siggi Lee reið á vaðið og spurði manninn hverju klæðaleysið sætti. Sá berlæraði andvarpaði, stundi þungt og svaraði hægt, dapur á svip:
"Æ, ég lenti í vandræðum með leigubílinn sem skutlaði mér hingað. Ég var orðinn peningalaus. Leigubílstjórinn varð snælduvitlaus og tók buxurnar mínar í pant."
![]() |
Berrassaður maður í Hafnarstræti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.1.2014 | 21:50
Maturinn í tómu rugli
Kona var í blaðaviðtali fyrir nokkrum árum. Viðtalið snérist að einhverju leyti um lífstíl konunnar sem grænmetisætu. Vegna dýraverndunarsjónarmiða neytti konan hvorki kjöts né fisks eða annarra dýraafurða. Mjólkurvörur og egg fóru ekki inn fyrir hennar varir né heldur eggjanúðlur. Að því kom að konan var spurð um uppáhaldsmat. Hún svaraði því til að hún elskaði kjúklingasalatið á tilteknum veitingastað í Kópavogi.
Svona er Ísland í dag. Ekkert nautakjöt í nautakjötsbökum. Enginn hvítlaukur í hvítlauksbökum. Nautakjöt drýgt með hrossakjöti. Innfluttir kjúklingar og svínakjöt seld sem hágæða íslensk framleiðsla (eitthvað annað en útlenski óþverrinn sem er stútfullur af sterum og fúkkalyfjum). Kjúklingur skilgreindur sem grænmeti. Eins og pizzan í Bandaríkjunum. Það er allt í rugli allsstaðar.
Í Ástralíu er asíuættað matvælafyrirtæki, Lamyong. Það hefur sett á markað grænmetisskinku með kjúklingabragði. Þetta er snúið. Skinka er reykt og soðið svínslæri. Það getur ekkert annað hráefni verið svínslæri. Síst af öllu er hægt að kalla grænmeti svínslæri. Hvað þá grænmetisbúðing sem bragðast eins og kjúklingur.
Lengsta hungurverkfall á Íslandi varð frétt fyrir fjórum dögum. Fréttaefnið var að Höskuldur H. Ólafsson fékk í fyrsta skipti mat frá bankahruninu 2008. Vandamálið er að hvorki Höskuldur né aðrir muna lengur hvers vegna hann hóf hungurverkfallið fyrir hálfu sjötta ári. Það var Gerður Kristný rithöfundur sem kom auga á þessa frétt.
Ég kom hinsvegar sjálfur auga á skemmtilega útlenda Fésbókarfærslu sem vinsælt er að deila á þeim vettvangi. Þar segir af konu sem var að hefja matreiðslu á kvöldverði heimilisins. Eiginmaðurinn kom inn í eldhús og spurði hvort hann gæti hjálpað til. Konan jánkaði því. Sagði honum að taka kartöflupokann, skræla helminginn og sjóða í potti. Nokkru síðar blasti þessi sjón við konunni:
Viðskipti og fjármál | Breytt 16.1.2014 kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)