Færsluflokkur: Bækur
7.11.2020 | 15:07
Skemmtilegt námsefni
Þetta eru skrýtnir tímar. Við erum flestöll í sjálfskipaðri sóttkví. Eða forðumst að minnsta kosti margmenni og óþarfa heimsóknir og ráp. Þetta er einkar erfitt ástand fyrir börn. Þá er gott að vita af kennslubókunum Lærum saman. Þær eru fjórar saman í handhægri öskju ásamt spennandi verkefnabók, fjórum spilastokkum og lykilorði að hljóðbókum með öllum sögunum og níu myndböndum.
Verkefnabókin inniheldur æfingar og fylgigögn; föndur, leiki og spil.
Pakkinn er miðaður við aldurshópinn 5 - 8 ára. Sögubækurnar segja frá systkinum sem eru einmitt 5 - 8 ára. Þau fást við ýmislegt áhugavert sem býr þau undir skólagönguna sem framundir er. Uppskriftin er þannig að hún veki löngun og áhuga barna á að læra meira.
Bækurnar eru ríkulega myndskreyttar af Brimrúnu Birtu Friðþjófsdóttur. Höfundur efnisins er Kristín Arnardóttir.
Nánar um þetta á www.laerumsaman.is
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.6.2020 | 23:12
Smásaga um mann
Bjössi gengur léttfættur niður Skólavörðustíg. Á miðri götunni mætir hann manni. Þeir heilsast ekki. Þeir þekkjast ekki. Engir aðrir eru á ferli. Ekki þarna. Samt er klukkan 5 að morgni.
Bjössi heldur áfram för. Kominn niður í Austurstræti rekst hann á vinnufélaga. Áreksturinn er svo harkalega að þeir falla í götuna og kútveltast þar í góða stund. Eftir að hafa rúllað fram og til baka bera þeir kennsl á hvorn annan. Þeir brölta á fætur, faðmast og knúsast.
Í þann mund sem ástandið er að verða erótískt spyr Bjössi: "Hvað er að frétta?" Vinnufélaginn lætur ekki koma að tómum kofa hjá sér. Hann romsar óðamála: "Húsasmiðjan er með afslátt á blómum. Allt upp í 50%. Verkfæralagerinn er með opið til klukkan 5 á sunnudögum. Í útlöndum var maður tekinn af lífi af því að allir voru orðnir leiðir á honum. Íslendingar þurfa að skapa 60 þúsund ný störf næstu 30 árin. Þjóðverjar eru farnir að kaupa hús í Færeyjum. Einn keypti 3 hús á einu bretti. Bítillinn og barnagælan Paul McCartney bregst hinn versti við ef einhver kallar Heather stjúpdóttur hans. Þá skipar hann höstuglega að hún sé kölluð dóttir hans. Hún sé jafn mikil dóttir hans og þær sem hann hefur eignast í hjónabandi. Hann ættleiddi hana er hann tók saman við mömmu hennar, Lindu. Atvinnuleysi á Íslandi fer lækkandi. Skiptar skoðanir eru á vindorkurafmagni. Hafrannsóknarstofa leggur til minni þorskafla. Minni þorskafli var upphaf kvótakerfisins á níunda ártugnum. Sælgætisgerðin Nói Síríus er ósátt við að yfirvöld mismuni samkeppnisstöðu erlendra og innlendra framleiðenda með ofurtollum á hráefni. EZ túpressan er þarfaþing á öllum heimilum. Hún fullnýtir allt innihald túpu, hvort sem er kaviar, tannkrem, olíulitir eða annað. Fyrirhugað er slitlag á Dettifossveg. Tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm er frá Hólum í Hjaltadal. John Lennon var ekki ættrækinn. Enda ekki alinn upp af foreldrum sínum heldur kuldalegri frænku. Frænkunni gaf hann höll. Líka systrum sínum tveimur. Í höllinni bjuggu systurnar ásamt fjárhaldsmanni og fleirum. Þegar John Lennon var myrtur gerði ekkjan, Yoko Ono, sér lítið fyrir og sparkaði systrunum og liðinu í kringum þær út úr húsinu. Bensínsölu í Verslun Haraldar Júl hefur verið hætt á Sauðárkróki. Nasdaq vísitalan lækkaði um hálft prósent í gær."
Þegar hér er komið sögu bugast Bjössi undir tíðindunum. Hann brestur í grát með miklum hljóðum. Vinnufélaginn fattar strax að staðan er sorgleg. Hann brestur einnig í grát og grætur miklu hærra en Bjössi. Fær að auki blóðnasir. Þeir ganga svo í sitthvora áttina án þess að kveðjast. Hávær grátur þeirra bergmálar um næstu götur og vekur útlendinga í nálægum hótelum.
Bækur | Breytt 20.6.2020 kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.12.2019 | 23:07
Sýnishorn úr bráðfyndinni bók
Bókin heitir "Hann hefur engu gleymt ... nema textunum!" Gamansögur úr íslenska tónlistarheiminum. Guðjón Ingi Eiríksson safnaði sögunum saman úr ýmsum áttum og skráði. Þær eru eins fjölbreyttar og þær eru margar. Í formála segir meðal annars: "Farið er yfir holt og hæðir og beygjur teknar - sumar ansi krappar - með óteljandi hliðarsporum yfir drullupytti og aðrar vegleysur."
Hér eru dæmi:
Eftir að hljómsveitin Upplyfting hafði verið að spila á dansleik í Miðgarði fór Kristján Björn Snorrason, harmóníkuleikari hennar, út baka til og sá þar ungan sveitapilt, sem greinilega hafði skemmt sér fullvel þá um nóttina, liggja á grúfu úti undir vegg.
"Hvern andskotann ertu að gera þarna?" spurði Kristján Björn.
Eitthvað lífsmark var greinilega með pilti sem svaraði þvoglumæltur:
"Ég er að rannsaka íslenskan jarðveg."
*
Skúli Ágústsson, bóndi í Auðholti og Birtingaholti, en lengst af verslunarstjóri hjá Sláturfélagi Suðurlands í Reykjavík, var góður bassi og söng lengi með Karlakór Reykjavíkur.
Á efri árum Skúla fékk hann eitt sinn boð á árshátíð kórsins. Hann var þá hættur í kórnum og svaraði boðinu með eftirfarandi vísu:
Ég held ég láti hófið bíða,
mér hentar ekki þvílíkt rall.
Hættur að drekka, dansa og ríða.
Hvern djöfulinn á ég að gera á ball?
*
Magnús Þór Sigmundsson söng:
"Eru álfar kannski menn?"
Eitthvað var um að þetta tæki breytingum og yrði:
"Eru álfar danskir menn?"
*
Óskar Pétursson var gestur á hljómleikum Þuríðar Sigurðardóttur og fór að vanda á kostum. Þau spjölluðu og grínuðust heilmikið á milli laga og meðal annars kom Jesú Kristur til tals. Þá sagði Óskar:
"Ég skil ekkert í mönnum að kalla það kraftaverk þegar hann breytti vatni í vín, hérna á sínum tíma. Heima í Skagafirði kallast þetta nú bara að brugga landa!"
Bækur | Breytt 16.12.2019 kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.10.2019 | 07:27
Bráðskemmtileg bók
Út var að koma bókin "Hann hefur engu gleymt... nema textunum!" Undirtitillinn er "Gamansögur úr íslenska tónlistarheiminum". Höfundur er Guðjón Ingi Eiríksson. Undirtitillinn lýsir bókinni. Gamansögunum fylgja áhugaverðir fróðleiksmolar um tónlistarmenn og heilmikil sagnfræði.
Sögurnar eru fjölbreyttar og skemmtilegar. Spanna marga áratugi og ná til margra músíkstíla. Örfá dæmi:
"Hljómsveitin Upplyfting á sér langa sögu og merka og hafa margir velt því fyrir sér hvernig best væri að þýða nafn hennar, ef hún ákvæði nú að herja á útlönd. Hinir sömu hafa væntanlega allir komist að sömu niðurstöðunni, nefnilega... Viagra!
Karlakórinn Fóstbræður fór í söngferð til Algeirsborgar í Alsír fyrir margt löngu síðan. Þegar kórinn kom aftur heim varð Bjarna Benediktssyni, þáverandi forsætisráðherra, að orði: "Þá er Tyrkjaránsins hefnt!"
Nokkrum árum eftir að Megas hafði búið á Siglufirði, eins og fyrr greinir, hélt hann tónleika þar. Opnunarorð hans voru: "Mér er sagt að ég hafi einhvern tímann búið hérna."
Bækur | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.8.2019 | 09:04
Smásaga um gamlan mann
Jói Jóns er 97 ára. Hann er ern og sjálfbjarga. Býr einn í hrörlegu einbýlishúsi. Það er gamalt og kallar á stöðugt viðhald. Jói er meðvitaður um það. Honum þykir skemmtilegt að dytta að því. Hann hefur hvort sem er ekki margt annað fyrir stafni.
Að því kom að Jói þurfti að tjarga þakið til að verja það betur gegn vætu. Er langt var liðið á verk missti hann fótanna á bröttu þakinu. Sveif á hausinn. Við aðrar aðstæður hefði hann rúllað fram af þakinu og kvatt þennan heim á stéttinni fyrir neðan. Í þessu tilfelli límdist hann við blauta tjöruna. Svo rækilega að hann gat sig hvergi hrært. Hékk bara límdur á þakinu. Það var frekar tilbreytingalaust. Hann kallaði á hjálp. Röddin var veik og barst ekki langt utan hússins.
Kallinn kvartaði ekki undan veðrinu. Það var honum hagstætt. Nokkrum klukkutímum síðar áttu barnungir strákar leið framhjá húsinu. Þeim þótti einkennilegt að sjá mann límdan við húsþak. Komnir heim til sín sögðu þeir frá þessu sérkennilega þakskrauti. Mamma eins þeirra hringdi í lögguna. Löggan er þaulvön að bjarga köttum ofan úr trjám. Henni þótti ekki meira mál að bjarga ellilífeyrisþega ofan af húsþaki.
Kominn niður af þakinu tók Jói staðfasta ákvörðun um að fara aldrei aftur upp á þak. Hvorki á sínu húsi né öðrum.
Bækur | Breytt 30.8.2019 kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.7.2019 | 23:44
Smásaga um kærustupar
Unga kærustuparið gat ekki verið ástfangnara og hamingjusamara. Það var nýflutt inn í litla leiguíbúð. Sambúðin var ævintýri upp á hvern dag. Í innkaupaferð í matvöruverslun rákust þau á gamla skólasystur konunnar. Þær þekktust samt aldrei mikið. Skólasystirin fagnaði þó samfundinum eins og þær hafi alla tíð verið æskuvinkonur. Knúsaði konuna í bak og fyrir. Spurði frétta og sagði frá sjálfri sér. Hún flutti til Frakklands en var þarna stödd á Íslandi í örfáa daga. Vandamálið var að hún hafði ekki áttað sig á hvað gistimarkaðurinn á Íslandi er verðbólginn. Kostnaðurinn var að slátra fjárhag hennar.
"Er smuga að ég fái að gista hjá ykkur í örfáa daga?" spurði hún. "Þess vegna í svefnpoka á eldhúsgólfinu eða eitthvað? Það myndi gjörsamlega bjarga fjárhagnum."
Unga parið var tvístígandi. Konan spurði kærastann hvort hann myndi sætta sig við að hún gisti í stofusófanum í nokkra daga. Hann sagði að það muni ekki "bögga" sig. Eflaust yrði gaman fyrir þær dömurnar að rifja upp gamla skóladaga.
Nokkrum dögum síðar fékk kærastan slæmt kvef. Hún hóstaði heilu og hálfu næturnar. Kallinn missti svefn og varð eins og uppvakningur í vinnunni. Á þriðja degi sagði hann við kærustuna: "Ég get ekki verið svefnlaus í marga daga til viðbótar. Ég neyðist til að biðja þig um að sofa í stofunni þangað til kvefið er gengið yfir."
Hún hafði fullan skilning á því. Vandamálið var hinsvegar að stofusófinn var eiginlega of lítill fyrir skólasysturnar að deila honum. Um morguninn tilkynnir skólasystirin að hóstinn hafi haldið fyrir henni vöku. "Ég verð að fá að sofa í svefnherberginu," sagði hún. "Hjónarúmið er alveg nógu breitt til að deila því með kærastanum þínum án vandræða."
Þetta var samþykkt. Hóstinn varð þrálátur. Um síðir hjaðnaði hann. Kærastan vildi eðlilega endurheimta sitt pláss í hjónarúminu. Skólasystirin hafnaði því. Sagðist vera ólétt. Barnið væri getið í þessu rúmi. Foreldrarnir væru sammála um að ala það upp í sameiningu sem par.
Kærustunni var brugðið við að vera óvænt x-kærasta (fyrrverandi). Hún lét þó ekki á neinu bera. Sagði: "Ég styð það."
Skólasystirin varð hægt og bítandi stjórnsöm. Hún fór að gefa x-inu fyrirmæli: Það þurfi að strjúka af gólfunum; nú þurfi að þurrka af. X-ið sá um eldamennsku eins og áður. Um helgar fékk hún fyrirmæli um bakstur: Pönnukökur, vöfflur, ástarpunga og svo framvegis.
Ef gest bar að garði fékk hún fyrirmæli: "Skottastu út í búð eftir gosi og kökum."
Þegar barnið fæddist fékk hún nóg að gera: Bleyjuskipti, böðun, út að ganga með barnavagninn. Allan tímann vann hún sem kassadama í matvöruverslun. Fjármál heimilisins voru sameiginleg. Heimilisfaðirinn var með ágætar tekjur sem starfsmaður í álverinu í Straumsvik. Skólasystirin vann aldrei úti. Eiginlega ekki inni heldur ef frá er talið að hún var dugleg við að vakta sjónvarpið. Hún fékk einn daginn hugmynd um að heimilið vantaði meiri innkomu. Þá skráði hún x-ið í útburð á dagblöðum á morgnana. Benti á að það væri holl og góð hreyfing sem bónus ofan á launin. Sem er alveg rétt.
Bækur | Breytt 25.7.2019 kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
26.2.2019 | 00:03
Smásaga um bíleiganda
Jóhann og frú Þuríður eiga gamlan fólksbíl. Að því kom að ýmislegt fór að hrjá skrjóðinn. Um miðjan janúar gafst hann upp. Þuríður fékk kranabíl til að drösla honum á verkstæði. Þar var hann til viðgerðar í marga daga. Bifvélavirkjunum tókst seint og síðar meir að koma honum í lag.
Verkstæðiseigandinn hringdi í frú Þuríði. Tilkynnti henni að bíllinn væri kominn í lag. Þetta hefði verið spurning um að afskrifa bílinn - henda honum ónýtum - eða gera hann upp með miklum kostnaði.
Verkstæðiseigandinn útlistaði þetta fyrir frú Þuríði. Sagði: "Öll viðvörunarljós lýstu í mælaborðinu. Þú hlýtur að vita að rautt ljós í mælaborði kallar á tafarlausa viðgerð á verkstæði. Annars skemmist eitthvað."
Frú Þuríður varð skömmustuleg. Hún svaraði með semingi: "Fyrstu ljósin kviknuðu í október. Þau voru appelsínugul. Svo fjölgaði ljósunum í nóvember. Þar bættust rauð við. Hámarki náðu þau í desember. Okkur Jóhanni þótti þetta vera í anda jólanna, hátíðar ljóss og friðar. Þetta var eins og jólasería. Við erum mikil jólabörn. Við ákváðum að leyfa þeim að lýsa upp mælaborðið fram á þrettándann að minnsta kosti. Blessaður bíllinn stóð sína plikt og rúmlega það. Ekki kom á óvart að hann reyndi sitt besta. Við gáfum honum nefnilega ilmspjald í jólagjöf."
Bækur | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.1.2019 | 05:54
Smásaga um ungt fólk
Hann hafði aldrei farið á dansleik áður. Frá 16 ára aldri hafði hann þó nokkrum sinnum farið á hljómleika. En nú var hann mættur á dansleik. Hann var rétt svo búinn að koma sér fyrir við barinn er að honum vék sér gullfalleg dama. Hún spurði hvort að hann væri til í dans. Hann var til í það. Tók samt fram að hann hefði aldrei dansað. Hún blés á það: "Ekki málið. Við reynum bara að samhæfa einhvern takt." Það gekk áfallalaust fyrir sig. Hann var nokkuð sáttur við frammistöðu sína. Hafði reyndar ekki samanburð.
Að dansi loknum spurði hún: "Ertu til í panta einhverja spennandi kokteila á meðan ég skrepp á salerni?" Hann var til í það. Hún yrði að velja. Hann þekkti enga kokteila. Hún stakk upp á því að hann léti barþjóninn velja. Hann tók vel í það.
Eftir nokkra framandi og bragðgóða kokteila lá beinast við að þau færu saman heim til hans. Þar fækkuðu þau fötum þegar í stað. Er hún skreið undir sængina til hans hvíslaði hún: "Nú er komið að fjármálunum. Semjum um greiðsluna." Honum dauðbrá. Varð afar vandræðalegur. Hikstandi og stamandi stundi hann upp með erfiðismunum: "Fjármál eru ekki mín sterkasta hlið. Púff! Ég þekki ekki taxtann. Ég hef aldrei lent í þessari stöðu. Segjum bara að þú borgir mér tíuþúsundkall og málið er dautt."
Bækur | Breytt 24.1.2019 kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.11.2018 | 23:04
Þegar Birgitta snéri mig niður
Nú standa öll spjót úti. Þau beinast að rithöfundinum og tónlistarkonunni Birgittu Haukdal. Hún hefur skrifað barnabækur um Láru. Hún leggur sig fram um að breyta eða leiðrétta staðalímynd telpna. Sem er gott mál. Ég ætla að gefa mínum barnabörnum þessar bækur. Nema hvað að í nýjustu bókinni kemur fyrir úrelt orð, hjúkrunarkona. Um það snýst fjaðrafokið. Hjúkrunarfræðingum þykir gróflega að sér vegið. Þeir eru miður sín.
Birgittu er eðlilega brugðið við hin hörðu viðbrögð. Hún harmar mistökin og lofar að þetta verði lagað í næstu prentun.
Ég þekki ekki Birgittu. Hef aldrei talað við hana né hitt hana. Hinsvegar varð mér á að blogga um hana skömmu fyrir jólin 2007, fyrir 11 árum. Hún kom fram í sjónvarpsþætti. Með vanþroskuðum galgopahætti reyndi ég að vera fyndinn á hennar kostnað; bullaði eitthvað um sjálfbrúnkukrem hennar.
Tveimur dögum síðar barst mér í hendur jólakort frá henni. Þar afvopnaði hún mig til lífstíðar. Steinrotaði mig með óvæntum viðbrögðum. Síðan hef ég ekki og mun aldrei segja né skrifa neitt neikvætt um hana. Það er mikið varið í manneskju sem tæklar ókurteisi í sinn garð svona glæsilega. Í kortinu stóð:
Bækur | Breytt 20.11.2018 kl. 03:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.10.2018 | 07:05
Hugljúf jólasaga
- Viltu styðja við stigann, Tóti minn? Hann á það til að renna út á stétt.
- Ekkert mál. Tóti greip þéttingsfast um stigann.
- Ertu ekki með lykil að útidyrunum?
Bækur | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)