Færsluflokkur: Bækur

Flott bókargagnrýni

gata_austurey_eivor_1223572.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

    Árni Helgason skrifar góða, vandaða, ítarlega og vel rökstudda gagnrýni í nýjasta tölublað vikublaðsins Reykjavík um bókina "Gata, Austurey,  Færeyjar, Eivör og færeysk tónlist".

  Gagnrýnin spannar næstum hálfa blaðsíðu (dagblaðsbrot).  Ég endurskrifa hér aðeins brot af gagnrýninni.  Um leið kvitta ég undir aðfinnslur Árna.  Þær eru réttmætar.  

  Fyrirsögnin er "Ég syng alltaf berfætt".

  Í meginmálstexta segir m.a.:  "Fyrir þá sem áhuga hafa á færeyskri tónlist á síðasta hluta 20. aldar og fyrstu árum hinnar 21. er fengur að þessari bók.  Aðdáendur Eivarar fá einnig gott yfirlit yfir þátttöku hennar í tónlist og afrek hennar um víða veröld sem eru umtalsverð eftir því sem frá greinir  í bókinni."

  Líka segir:  "Þessi bók er ekki ævisaga Eivarar í hefðbundnum skilningi og ekki er mikið fjallað um hana sjálfa nema að því er að tónlistinni lýtur en sú saga virðist tíunduð mjög nákvæmlega.  Fjöldi hljómsveita og tónlistarmanna sem hún hefur unnið með er nefndur og margir leggja bókinni til umsagnir sínar sem eru undantekningalaust jákvæðar."

  Síðan:  "Í lok bókar tekur höfundur saman mjög ítarlegt yfirlit yfir hljómplötur og mynddiska sem Eivör hefur gefið út eða verið þátttakandi í.  Er fengur að þeirri skrá sem og einni opnu sem höfundur kallar færeysk-íslenska orðabók en ég hygg að Íslendingar hafi gaman af því að sjá sum orðin og hugtökin svo sem að vera hundasjúkur sem getur hent eftir að menn hafa verið bakbundnir.  Innskotskaflar um Færeyjar eru einnig mjög fræðandi og kemur margt fram sem líklega er ekki á allra vitorði hér á landi."

  Svo:  "Umfjöllunin er að nokkru leyti í tímaröð en þar sem sumir kaflarnir eru laustengdir Eivöru þá er farið nokkuð fram og aftur í tíma.  Almennt er bókin lipurlega skrifuð...  Fjöldi skemmtilegra mynda prýðir bókina.

  Í heildina tekið er hér um fróðlega - og oft nokkuð hnyttna - bók um tónlistarmanninn Eivöru og tónlist í Færeyjum að ræða auk almenns fróðleiks um frændur okkar Færeyinga."

gata_-_utdrattur.jpg

  

       


Aðal fréttin í Færeyjum

  Það er gaman að fylgjast með færeyskum fjölmiðlum.  Hlusta á færeyskar útvarpsstöðvar,  horfa á færeyska sjónvarpið,  lesa færeyska dagblaðið Sosialin og lesa færeysku vefritin.  Það er svo gaman að hlusta á eða lesa útlent tungumál sem svipar svo mjög til íslensku að auðvelt er að skilja það. 

  Þessi frétt er til að mynda dáldið skemmtileg: 

       

Dagfinn Olsen 06.12.2013 (00:15)

Bók útkomin um Eivør

Íslendski føroyavinurin, tónleikaserfrøðingurin, bloggarin, og nú eisini rithøvundurin, Jens Guð, hevur givið út bók um Eivør, ið er sera kend í Íslandi.

Bókin er tó ikki bert um Eivør Pálsdóttir, men sum heitið á bókini sipar til, so fevnir bókin eisini eitt sindur meira víðfevnt um Føroyar og føroyskan tónleik.

Bókin hevur heitið Gata, Austurey, Færeyjar, EIVØR og færeysk tónlist.

Á føroyskum: Gøta, Eysturoy, Føroyar, Eivør og føroysk tónlist.

Jens Guð hevur verið nógv í Føroyum og hevur fylgt sera væl við seinnu árini í tí, sum er fyrfarist á føroyska tónleikapallinum.

Hann hevur eisini lagt til rættis savnsfløgur fyri Tutl.

Í Íslandi er hann m.a. kendur sum ummælari, bloggari, plátuvendari, tónleikari og lærari í fagurskrift.

Jens Guð sigur, at hann í hesum døgum hevur úr at gera. Hann var ikki meira enn liðugur at tosa um bókina á íslendsku Rás 2, og at signera bøkur har, fyrr enn Útvarpið Søgu vildi hava fatur á honum til upplestur úr nýggju bókini.

Bókin er á íslendskum, men áhugað hava møguleika at ogna sær bókina í handlinum hjá Tutl, har nøkur eintøk av bókini vera á hillini í næstum.

---------------------------------

Fréttina má sjá á in.fo með því að smella á þennan hlekk: http://www.in.fo/news-detail/news/bok-utkomin-um-eivoer/?fb_action_ids=10201907433479210&fb_action_types=og.likes&fb_source=aggregation&fb_aggregation_id=288381481237582

---------------------------------

  Þessu alveg óviðkomandi.  Ég sá á Fésbók Sæunnar systur minnar þessa áhugaverðu spurningu:  Ef róni hrósar manni er það þá alkahól? 


Bókin um færeysku álfadísina Eivöru

  Í gær kom í verslanir bókin "Gata,  Austurey,  Færeyjar,  Eivör og færeysk tónlist".  Bókin er bæði gefin út í mjúkri kápu og harðspjaldakápu.  Harðspjaldakápan er töluvert dýrari (um 5 þúsund kall en mjúka kápan um 3 þúsund kall). 

gata_austurey_eivor.jpg   Nafn bókarinnar segir töluvert mikið um innihaldið.  Í gær atti bókin kappi við tvær öflugar bækur í útvarpsþættinum frábæra Virkir morgnar.  Eins og allir vita (nema Eiður Guðnason) þá er þátturinn Virkir morgnar skemmtilegasti morgunþáttur í íslensku útvarpi.  Þó er samkeppnin hörð á þeim vettvangi.  Andri Freyr og Gunna Dís fara á kostum í þættinum.  Þau eru svooooo afgerandi skemmtileg að það hálfa væri hellingur.  

  Bókin með langa titlinum,  "Gata, Austurey, Færeyjar, Eivör og færeysk tónlist",  rúllaði upp samkeppninni.  Engu að síður voru hinar bækurnar meiriháttar flottar:  Annars vegar "Brosbörn" og hinsvegar "Strákar".  Bókin "Brosbörn" er mega vel heppnuð og ævintýraleg barnabók. Gargandi snilld út í eitt.  Bókin "Strákar" er virkilega snjöll fyrir unglingsstráka.  Fjölbreytt, skemmtileg og unglingsstrákum nauðsynlegt hjálpartæki.   Það var mér mikill heiður að kynna bókina um Eivöru um leið og þessar glæsilegu og eigulegu bækur,  "Brosbörn" og "Strákar".   

_virkum_morgnum.jpg

 


Tómt svindl og svínarí

 jens_og_randur_1222783.jpg  Hvernig stendur á því að búið er að tilnefna bækur í hinum ýmsu flokkum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2013?  Langt er til áramóta.  Fjöldi bóka kemur út í desember.  Jafnvel fleiri en allan hinn hluta ársins til samans.  Reyndar byrja bækur að streyma á markað í lok nóvember. 

  Samtals koma út rösklega 700 bækur í ár.  12 ágætar manneskjur lesa og velja og tilnefna 20 bækur til verðlauna.  Hvað les hver dómnefnd margar bækur á örfáum dögum í nóvember?  175?  

  Nei,  alveg rétt.  Flestar bækurnar koma ekki út fyrr en eftir að dómnefndir hafa komist að niðurstöðu.  Það léttir verulega á lestrarvinnunni.  

  Sennilega er það Félag íslenskra bókaútgefenda sem stendur fyrir þessu skemmtilega uppátæki.  Uppátækið er viðskiptalegs eðlis fremur en að allir sitji við sama borð.  Tilnefning á bókum til bókmenntaverðlauna er gott fréttaefni.  Hún kemur af stað umræðu um nýjar íslenskar bækur.  Beinir kastljósi að bókum og sparkar jólabókasölunni af stað.  Það er gott mál.

  Ég tek það fram að allar tilnefndar bækur eiga það áreiðanlega skilið.  Þetta eru gullmolar, að því er ég hef hlerað.  

  Í næstu viku koma á markað margar bækur.  Ein af þeim heitir  Gata, Austurey, Færeyjar, Eivör og færeysk tónlist.  Nafnið gefur sterka vísbendingu um hvað bókin fjallar.  Mér segir svo hugur að lesendur verði fróðari um margt við lestur á bókinni.  Sumt kemur skemmtilega á óvart.  Meira um það þegar bókin kemur út.  Myndin hér fyrir ofan sýnir frábæru styttuna af hinum merka og þvera Þrándi í Götu.  Myndin er ekki í bókinni.  En þær eru samt margar myndirnar í bókinni.  Þar á meðal af styttunni. 

gata-austurey-faereyjar-eivor.jpg


mbl.is 15 bækur tilnefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðskemmtileg bók

  Fyrir tæpum áratug kom út létt og fjörleg vísnabók eftir Akureyringinn Magnús Geir Guðmundsson.  Sú heitir Geiravísur.  Áður var Magnús Geir þekktur sem flottur blaðamaður hjá dagblöðunum Tímanum og Degi.  Þar skrifaði hann um dægurlagamúsík og hélt úti plötugagnrýni.  Ég keypti þessi blöð fyrst og fremst til að fylgjast með skrifum Magnúsar Geirs.   

  Nú var Magnús Geir að senda frá sér aðra vísnabók,  Limrurokk.  Nafnið bendir til þess að hún innihaldi limrur.  Vísbendingin er rétt.  

   Eins og algengt er með limrur þá ræður kímni víða för í limrum Magnúsar.  Þær eru flestar ortar í tilefni einhverrar fréttar eða einhvers atburðar.  Þar á meðal er ort um fjölda nafngreindra íslenskra og erlendra stjórnmálamanna,  tónlistarmanna,  boltasparkara og fjölda annarra.  Samtals eru limrurnar hátt á annað hundrað.  Hverri limru fylgir frásögn af tilurð hennar.  Frásögnin hefur mikið að segja.  Hún útskýrir margt og gefur limrunni dýpt.  

  Þannig rifjar Magnús Geir upp þegar höfundur þessa bloggs vakti 2007 athygli á einelti sem átti sér stað á Veðurstofunni.  Sýndist þar sitt hverjum og upphófst heilmikið þref.  Þá varð Magnúsi að orði:

  Jens minn, þú stendur í ströngu,

  ert stöðugt í baráttugöngu.

  Með kjafti og klóm

  og kraftmiklum róm,

  að greina hið rétta frá röngu!

limrurokk.jpg 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Vert er að geta skemmtilegrar hönnunar á bókakápu.  Höfundur hennar er Jakob Jóhannsson.   

  Það er óhætt að mæla með Limrurokki,  hvort heldur sem er til jólagjafa eða til eigin brúks.  Limrurnar laða fram bros.  Það er upplagt að hafa bókina á náttborðinu og renna yfir nokkrar blaðsíður fyrir svefninn.  Þá svífur maður með bros á vör inn í draumaheim. 


Smásaga um ofbeldi

 Maður á fertugsaldri var í morgun dæmdur í níu mánaða fangelsisvist.  Þar af átta skilorðsbundna.  Um var að ræða afar gróft og hrottalegt ofbeldi án tilefnis.  Eða öllu heldur vegna neyðarlegs misskilnings.  Árásarmaðurinn réðist fyrirvaralaust á fórnarlambið er þeir mættust á gangstétt.  Sló hann í andlitið með þeim afleiðingum að hann rotaðist.  Þá stappaði árásármaðurinn á höfði hans og sparkaði víðsvegar í líkamann.  Afleiðingarnar urðu höfuðkúpubrot,  nefbrot,  brotinn kjálki,  brotin rifbein,  varanlegar sjóntruflanir,  þrálátur höfuðverkur og skemmt bak. 
domari.jpg  Dómarinn er elsti starfandi dómari landsins.  Hann er 72ja ára.  Það voru gerð við hann starfslok fyrir 12 árum.  Hann hélt þó áfram að mæta til vinnu á hverjum virkum degi.  Líka þegar frídaga ber upp á virka daga.  Þá mætir hann á slaginu klukkan 10.  Hann bankar fyrst lengi á dyr og hamast á dyrahúninum.  Þegar líður á dag byrjar hann að sparka í dyrnar.  Undir lok dags fer hann að góla formælingar ætlaðar meintu starfsfólki innan dyra.  Á slaginu klukkan 15.00 snýr hann heim á leið og heldur áfram formælingum.
  Dómshald vegna líkamsárásarinnar gekk hratt og vel fyrir sig.  Það voru lögð fram læknisvottorð og öllum bar saman um atburðarrás.  Hrólfur hrotti kvaðst iðrast gjörða sinna sárlega og lofaði að gera þetta ekki aftur. Hann hafði tekið feil á Palla pylsu og systur sinni.  Þau eru nefnilega bæði ljóshærð.  Eini munurinn er sá að systirin er með sítt krullað hár en Palli pylsa krúnurakaður.  Hrólfur gat ekki vitað nema systirin hefði farið í klippingu.  Þar fyrir utan var Palli pylsa í svipuðum jakka og systirin.  Bara smá litamunur.  Jakkinn hans Palla var stuttur og bleikur en jakki systurinnar hvítur frakki. 
  Hrólfur taldi sig eiga óuppgerðar sakir við systur sína.  Hún hafði reynt að sannfæra kærustu Hrólfs um að hann væri rangeygur og með stór útstæð eyru.  Þar fyrir utan skuldaði hún honum tvær sígarettur.  Hann taldi brýnt að kæfa endurgreiðslufælni hennar á sígarettum niður áður en hún yrði kækur.  Dómarinn hafði skilning á þessu sjónarmiði.  Hann gætir þess vandlega sjálfur að láta engan skulda sér neitt.  Hann rifjaði upp fyrir dómsal þegar skólabróðir hans í barnaskóla skilaði honum ekki snjóbolta sem hann lánaði honum einn daginn.  Skólabróðirinn bar því við að allur snjór hefði horfið af jörðu nóttina eftir lánið.  Þess vegna væru ekki hægt að endurgjalda snjóboltann.  Dómarinn tók fram og lagði þunga áherslu á að skilvísi ætti að ganga fyrir öllu.  Að skýla sér á bak við afsakanir væri ódrengilegt.  Hann hefði neyðst til þess að beita skólabróðir sinn dagsektum.  Þær fólust í því að borða nestið hans á hverjum skóladegi.  Skólabróðirinn var ósáttur við þetta.  Innheimta dagsekta kostaði fyrir vikið fantaleg slagsmál alla dagana.  En undan henni var ekki komist.  Það hjálpaði að aldursmunur var á drengjunum.  Sá skuldugi var 3 árum yngri.  Það munar um 3 ár þegar annar er 9 ára og hinn 6 ára.  Þetta var eldri drengnum engin skemmtun.  Fjarri því.  Ekki nema fyrstu tvær vikurnar.  Eftir það fékk hann leiða á einhæfu nesti stráksins.  Alltaf rúgbrauð með kæfu.  Hann gaf stráknum ströng fyrirmæli um að fá foreldrana til að hafa nestið fjölbreyttara.  Fyrirmælin voru virt að vettugi.  
  Á meðan dómarinn rifjaði söguna samviskusamlega upp eftir bestu vitund myndaðist kurr í salnum.          lemstra_ur.jpgFrammíköll og annar hávaði setti dómarann út af laginu.  Hann komst í uppnám og tapaði andlegu jafnvægi.  Snöfurlega kvað hann upp dóminn:  "Palli pylsa er dæmdur í níu mánaða fangelsi.  Þar af átta skilorðsbundna.  Hann skal borga allan útlagðan kostnað við dóm þennan."  Dómarinn sló hamrinum í borðið og hljóp þegar í stað út úr dómssalnum.  Hávaðinn og köllin í viðstöddum mögnuðust.  Allt rann saman í einn klið.  Þetta var eins og fuglabjarg.  Dómarann langaði til að kaupa sér pylsu í Bæjarins bestu og hlakkaði til.  Þess vegna var asi á honum.
  Áður en hann slapp úr húsi náðu saksóknari,  lögfræðingur,  og dómvörður að króa hann af.  Saksóknarinn henti sér á gólfið,  hékk í hempu dómarans og hrópaði:  "Þú dæmdir vitlausan man til fangelsisvistar!"
  "Hann er ekkert svo vitlaus," mótmælti dómarinn.  "Ég var miklu vitlausari á hans aldri."
  "Palli pylsa er fórnarlambið.  Þú áttir að dæma Hrólf hrotta í fangelsi!"  staglaðist saksóknarinn á og aðrir tóku undir.
  "Við getum ekkert hringlað með dóma," útskýrði dómarinn og baðaði út höndum í æsingi.  "Það myndi rýra traust almennings á dómstólum landsins. Trúverðugleiki embættisins er í húfi."
  Viðstaddir sáu í hendi sér að þetta var rétt.  Skoðanakannanir sýndu að traust almennings á dómstólum stóð höllum fæti.  Eins og staðan var kom ekki annað til greina en reyna að gera gott úr þessu.  
  "Við sjáumst þá bara á Frímúrarafundinum klukkan átta í kvöld,"  sagði saksóknarinn,  snérist á hæl og fór að blístra lagið um hamingjusamasta hund í heimi..    
----------------------------------------
Fleiri smásögur og leikrit:
 - Hvalkjöt
  - Bílasaga

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1303801/

 - Barátta góðs og ills
- Skóbúð
- Rómantísk helgarferð
- Álfar
.
- Bóndi og hestur
.
.
 - Gömul hjón
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1098829/
.
 - Hnefaleikakeppni aldarinnar:
.
 - Peysuklúbburinn
.
 - Vinalegur náungi:
.
 - Gamall einbúi
.
- Saga af systrum
.
 - Jólasaga
.
- Á rjúpnaveiðum:
.
- Ólétta nunnan:
.
- Gullfiskur:
.
- Flugvélamódel:
.
- Miðaldra maður:
.
- Leyndarmál stráks:
.
- Matarboð í sveitinni:

Smásaga um súran hval

súr hvalur 

  Það var fyrir hálfri öld.  Íslensk alþýðuheimili voru fátæk.  Það þurfti að spara hverja krónu.  Engu var eytt í óþarfa.  Þvert á móti þurfti að beita ýtrustu útsjónarsemi til að endar næðu saman.  Það mátti ekkert út af bregða til að heimilið stæði skil á sínum gjöldum.  Heimilisfaðirinn fagnaði hverri aukavinnu sem bauðst.  Húsmóðirin framlengdi endingu á slitnum fötum heimilisfólksins með því að staga í og sauma bætur yfir slitnustu fleti.  Það var sjaldan svigrúm til að gera sér dagamun.  Þó var það reynt á stórhátíðum.

  "Gunni minn,  þú þarft að skjótast fyrir mig í búðina,"  kallaði húsmóðirin á átta ára drenginn,  elstan þriggja barna.  "Af því að sumardagurinn fyrsti er á morgun þá ætla ég að hafa súran hval í eftirrétt á morgun.  Taktu þennan hundrað króna seðil og keyptu 250 grömm af súrum hval."

  Gunni lét ekki segja sér það tvisvar.  Honum þótti gaman að fara í búðina.  Það var svo gaman að horfa á allt góðgætið sem þar fékkst.  Hann var vanur að heita sjálfum sér því að þegar hann yrði fullorðinn þá myndi hann kaupa nammi.  Hann var viss um að það væri bragðgott. 

  Gunni var ekkert að flýta sér í búðinni.  Hann gaf sér góðan tíma til að skoða margt.  Lyktin var góð.  Eftir langan tíma gekk hann að kjötborðinu,  veifaði 100 króna seðlinum og bað um súran hval.  Kaupmaðurinn tók við seðlinum og troðfyllti þrjá innkaupapoka af súrum hval. 

  "Það verður aldeilis veisla heima hjá þér,"  kallaði kaupmaðurinn glaður í bragði þegar hann horfði á eftir Gunna kjaga um búðina með hvalinn. 

  "Já,  það er sumardagurinn fyrsti á morgun,"  útskýrði Gunni um leið og hann rogaðist með pokana út úr búðinni. 

  Á heimleiðinni varð Gunni hvað eftir annað að setjast niður og hvíla sig.  Hvalkjötið var svo þungt.  Hann hlakkaði til að fá hrósið frá mömmu sinni fyrir dugnaðinn og eljuna.  Viðbrögðin urðu önnur.  Mamman hrópaði í geðshræringu:  "Keyptir þú hval fyrir allan peninginn?  Ertu búinn að missa vitið?"

  Hún beið ekki eftir svari.  Það var hárrétt ákvörðun.  Það kom ekkert svar.  Hún settist niður,  fól andlitið í höndum sér og fór að hágráta.  Hún grét af reiði.  Grét af vonbrigðum.  Grét í ráðaleysi og örvinglan.

  Gunni horfði undrandi á þessi viðbrögð.  Að honum læddist grunur um að hann hefði klúðrað einhverju við innkaupin.  Hann vissi ekki hverju.  Hann mat stöðuna þannig að betra væri að læðast í burtu í stað þess að leita skýringar.  Hann læddist hljóðlega inn í litla herbergi systkinanna,  klifraði upp í efri kojuna og beið þess að pabbi kæmi heim úr vinnunni.  Það var alltaf léttara yfir mömmu þegar pabbi var heima.

  Gunni spratt fram þegar hann heyrði pabba koma inn úr dyrunum.  Sem betur fer var mamma hætt að gráta.  Hún var samt eins og niðurdregin,  ef vel var að gáð.  En ekki reiðileg.

  "Gunni minn,  leggðu á borð.  Við fáum okkur að borða,"  sagði hún.  Gunni hlýddi.  Mamma bar á borð skál með súrum hval. 

  Það hýrnaði yfir pabba.  "Það er bara veisla,"  sagði hann fagnandi.  "Já, það er sumardagurinn fyrsti á morgun,"  upplýsti mamma.

  Öllum þótti hvalurinn góður.  Líka morguninn eftir þegar hvalur var á borðum í stað hafragrautar.  Hvalurinn vakti ekki alveg sömu kæti þegar hann var hádegisverðurinn.  Yfir kvöldmatnum spurði pabbi:  "Væri ekki ráð að hafa soðnar kartöflur með hvalnum?  Hann er dálítið einhæfur svona einn og sér í hvert mál."

  "Nei," mótmælti mamma.  "Ef við förum að drýgja hvalinn með kartöflum eða brauði eða öðru þá sitjum við uppi með hvalinn í allt sumar.  Það væri annað ef við ættum ísskáp.  Þá væri hægt að hafa hvalinn í annað hvert mál.  En eins og þetta er verðum við að hafa hvalinn í öll mál þangað til hann er búinn."

  Allir andvörpuðu og vissu að þetta var rétt.  Eftir því sem dögunum fjölgaði varð hvalurinn ólystugri.  Öllum bauð meira og meira við hvalnum.  Kjötið tapaði þéttleika.  Það varð slepjulegra og hlaupkenndara með hverjum deginum sem leið.  Allir minnkuðu skammtinn sinn við hverja máltíð.  Allir kúguðust.  Kannski var það ekki einungis vegna þess hvað súr hvalur í öll mál dag eftir dag eftir dag er einhæf fæða.  Kannski tapaði hvalurinn bragðgæðum við að standa sólarhringum saman í hlýju eldhúsi.  Kannski var þetta samverkandi.  Enginn hafði áhuga á að komast að hinu sanna í því.  Það var aldrei minnst á hval eftir þetta á heimilinu.  Aldrei. 

---------------------------------

Fleiri smásögur og leikrit:

 - Bílasaga

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1303801/

 - Barátta góðs og ills
- Skóbúð
- Rómantísk helgarferð
- Álfar
.
- Bóndi og hestur
.
.
 - Gömul hjón
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1098829/
.
 - Hnefaleikakeppni aldarinnar:
.
 - Peysuklúbburinn
.
 - Vinalegur náungi:
.
 - Gamall einbúi
.
- Saga af systrum
.
 - Jólasaga
.
- Á rjúpnaveiðum:
.
- Ólétta nunnan:
.
- Gullfiskur:
.
- Flugvélamódel:
.
- Miðaldra maður:
.
- Leyndarmál stráks:
.
- Matarboð í sveitinni:

Smásaga um rómantíska helgarferð til Parísar

    Myrkur grúfði yfir djúpunum og andi súrrealisma sveif um draumaheima.  Vekjaraklukka rauf þögnina assgoti harkalega.  Jói á skóflunni spratt á fætur,  greip eldsnöggt til hamars á náttborðinu og mölbraut vekjaraklukkuna með hnitmiðuðu hamarshöggi. 
  "Verði ljós," hugsaði Jói um leið og hann ýtti á slökkvarann.  "Það er skrítið að kveikja ljós með því að ýta á slökkvara," hugsaði Jói og var dálítið rangeygur á því augnabliki.
  Svo leit hann í kringum sig.  Hann kom auga á ókunnuga konu sem svaf við hlið hans.  Hún var vöknuð og horfði undrandi á Jóa. 
  "Ðaðaðaðaðaðaða," sagði konan ákveðin.  Svo bætti hún við ennþá ákveðnari:  "Ða ða."
  Jói á skóflunni hugsaði með sér:  "Það getur verið gott að kunna þennan frasa ef að ég lendi í því að kveðast á við einhvern."  Í keppni í kveðskap þarf staka að byrja á sama staf og staka keppinautarins endar á.  Yfirleitt tapar sá sem fær framan í sig eins og blauta tusku stöku sem endar á stafnum ð.  Upphátt spurði Jói á skóflunni:
  "Af hverju talar þú svona einkennilega?"
  Konan svaraði samviskulaus:  "Vegna þess að tungan á mér er föst við góminn.  Ég talaði svo mikið í gær að tungan á mér bræddi úr sér.  Þá klauf ég hana.  Eftir það fór ég að tala tungum tveim.  Til að laga þetta ætlaði ég að kaupa gel sem heitir Tungutak.  Í ógáti keypti ég gel sem heitir Tonnatak. Það límdi tunguna við góminn."
  Jói á skóflunni hafði engan skilning á þessu.  Hann heyrði ekki einu sinni hverju konan svaraði.  Hann hófst þegar handa við að klæða sig í spariföt. 
  "Hvað er klukkan?" spurði konan.  Hún var forvitna týpan.
  "Hvernig á ég að vita það?" ansaði Jói. 
  "Kanntu ekki á klukku?" spurði konan forvitnari en áður.
  "Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að kunna á klukku þegar ég á ekki einu sinni úr?" spurði Jói á móti. 
  Jói hafði aldrei séð þessa konu áður.  Hann hugsaði:  "Hvernig komst þessi kona inn til mín?" 
  Samstundis fékk hann bakþanka sem jöðruðu við þunglyndi.  Hvað var hann að hnýsast í einkamál ókunnugrar konu?  Hann velti samt fyrir sér möguleikum:  Skreið hún inn um glugga?  Hafði hún skotist inn til hans þegar hann skrapp út til að sækja póstinn sinn?
  Jói lauk við að klæða sig í jakkaföt úr íslenskri kjötsúpu (besta sem ég fæ).  Hann setti á sig bindi;  sparibindi.  Flott dömubindi.  Hann sýndi á sér fararsnið.
  "Hvert ertu að fara?" spurði forvitna konan. 
  "Í vinnuna," svaraði Jói undanbragðalaust.  "Ég vinn á flugvellinum hérna rétt hjá," útskýrði hann til að enginn misskilningur kæmi upp.
  "Það er enginn flugvöllur hérna," fullyrti konan.
  "Jú," svaraði Jói.  "Hann er neðanjarðar og fáir vita af honum.  Þetta er leynilegur njósnaflugvöllur."
  Jói gekk út í nóttina.  Hann ætlaði út á strætóstoppistöð en villtist.  Á vegi hans varð gömul kona í hjólastól.  Hún gerði sér dælt við Jóa. 
  "Vilt þú giftast mér," spurði gamla konan.
  "Ertu viss um að við séum ekki þegar gift?" spurði Jói og taldi áríðandi að það kæmist á hreint.
  "Já,  ég hef aldrei gifst," svaraði sú gamla. 
  "Ég kannast samt svakalega vel við þig," svaraði Jói.
  "Það gæti verið vegna þess að ég bjó heima hjá þér frá því að þú fæddist og leigi ennþá í kjallaranum heima hjá foreldrum þínum," útskýrði konan. 
  "Það getur svo sem verið," játaði Jói á skóflunni og hélt áfram för.  Á næsta götuhorni hitti hann fallegustu konu sem hann hafði augum litið.  Nei,  það var reyndar á þar næsta götuhorni.
  Jói á skóflunni var dolfallinn af hrifningu.  Hann spurði konuna hvort að hann mætti bjóða henni út að borða.  Hún tók vel í það.  Hann leiddi hana að pylsuvagninum Bæjarins bestu og bauð henni upp á pylsu með öllu.  Fjárhagurinn leyfði ekki að hann spanderaði í gosdrykk með.  Það var í góðu lagi.  Pylsan var safarík. 
  "Má ég bjóða þér í rómantíska helgarferð til Parísar um næstu helgi?"  spurði Jói. 
  Fallega konan samþykkti það.  Þau bundust fastmælum um að hittast á Flugstöðinni í Keflavík klukkan 3 næsta föstudag og verja rómantískri helgi í París fram til mánudags.
  Jói mætti tímanlega á Flugstöðina í Keflavík.  Tíminn leið.  Ekkert bólaði á fallegu konunni.  Nöfn þeirra voru kölluð upp í hátalarakerfi Flugstöðvarinnar.  Síðasta útkall.  Þá birtist gamall maður í göngugrind.  Hann gekk rakleiðis til Jóa.  Heilsaði honum og kynnti sig sem afa fallegu konunnar.  Hann útskýrði málið.  Fallega konan hafði dottið.  Afinn lá undir grun um að hafa hrint henni niður stiga.  Það kom fram síðar.  Fallega konan var fótbrotin og handleggsbrotin.  Hún lá á spítala.  Afinn vildi ekki láta helgarferðina til Parísar ónýtast.  Þess vegna mætti hann í staðinn fyrir fallegu konuna.
  Jói á skóflunni var ekki sáttur.  Hann ákvað þó að gera gott úr þessu.  "Ég týni kallinum bara á flugvellinum í París," hugsaði hann.  Það gerði hann.  Síðan hefur ekkert til afans spurst.
.
.
Fleiri smásögur og leikrit:
.
 - Barátta góðs og ills
- Skóbúð
 - Álfar
.
- Bóndi og hestur
.
.
 - Gömul hjón
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1098829/
.
 - Hnefaleikakeppni aldarinnar:
.
 - Peysuklúbburinn
.
 - Vinalegur náungi:
.
 - Gamall einbúi
.
- Saga af systrum
.
 - Jólasaga
.
- Á rjúpnaveiðum:
.
- Ólétta nunnan:
.
- Gullfiskur:
.
- Flugvélamódel:
.
- Miðaldra maður:
.
- Leyndarmál stráks:
.

Fágætar bækur til sölu

  Ég hef verið beðinn um að láta sérlega bókaunnendur vita af nokkrum fágætum bókum úr dánarbúi Jóns Þorleifssonar,  rithöfundar og verkamanns.  Þessar bækur eru til sölu:

Sögur og sagnir úr BreiðafirðiBergsveinn Skúlason1950
Hlynir og hreggviðir, þættir úr Húnaþingi  1950
Á Hvalveiðastöðvum, minningar Magnúsar Gíslasonar 1949
Þjóðhættir og ævisögur frá 19 öldFinnur Jónsson á Kjörseyri1945
Úr byggðum Borgarfjarðar IIIKristleifur Þorsteinsson1960
Æskustöðvar  Jósef Björnsson frá Svarfhóli1954
Skriftamál uppgjafaprest,ritgerðirs  1962
Opinberar aðgerðir og atvinnulífið 1950-1970  1974
Þjóðlífsmyndir Gils Guðmundsson1949
Minningarbók, Þorvaldur Thoroddsen  1922
Fagrar heyrði ég raddirnar Einar Ól. Sveinsson1942
Frá hugsjónum til hermdarverkaGunnar Benediktsson1937
Það brýtur á boðum Gunnar Benediktsson1941
Íslenskar þjóðsögur III Einar Guðmundsson 
Íslensk endurreisn Vilhjámur Þ. Gíslason1923
Saga Natans Ketilssonar og Skáld RósuBrynjúlfur Jónsson1912
 

Jón Þorleifsson VII - Hrellir nýjan ráðherra

eðvarð sigurðssonJón ÞorleifsMagnús Kjartansson, ráðherra

  Jón Þorleifsson,  verkamaður og rithöfundur,  tók upp á því á gamals aldri að setja saman vísur.  Iðulega voru það kveðjur til samferðamanna.   Oftar kaldar en hlýjar kveðjur.  Jón gætti þess vandlega að kveðjurnar kæmust til skila.  Það gerði hann með því að ganga heim til viðkomandi og afhenda honum nýútkomna bók eftir sig með vísunni.  Jón gekk flestra sinna ferða innan Reykjavíkur.  Jafnvel mjög langar leiðir.

  Verkalýðsforingjar voru lágt skrifaðir hjá Jóni - svo vægt sé til orða tekið.  Hann hafði í raun megnustu óbeit á þeim.  Taldi þá vera upp til hópa glæpamenn,  mútuþega,  lygara,  svikara og að auki hina verstu menn.

  Þannig orti Jón um Eðvarð Sigurðsson,  verkalýðsforingja og alþingismann:

  Eðvarð,  þú ert óþverri,

iðinn lygaslefberi,

  mannorðsspjallameistari,

magnað eiturkvikindi.

 

  Jón talaði ekki rósamál.  Hann sagði hlutina eins og þeir komu honum fyrir sjónir.  En hann átti til milda og sérkennilega takta í þeirri uppreisn sem hann var stöðugt í gegn mönnum og málefnum. 

  Meðal þeirra sem Jón fyrirleit var Magnús Kjartansson,  ritstjóri Þjóðviljans.   Þegar Magnús var settur í embætti iðnaðarmálaráðherra var Jón snöggur að panta viðtal hjá ráðherranum.  Honum var úthlutað viðtali fljótlega upp úr hádegi.  Jón mætti stundvíslega og var vísað til skrifstofu ráðherrans.  Magnús tók vel á móti Jóni,  bauð honum sæti og spurði hvað hægt væri að gera fyrir hann.

  Jón fékk sér sæti og sagði:  "Það er fullreynt að þú hvorki vilt né getur neitt fyrir mig gert."

  Er Jón sagði frá þessu síðar sagðist hann hafa lagt sig í líma við að vera afar kurteis í þetta skiptið.  Hann dauðlangaði að lesa Magnúsi pistilinn en hélt aftur af sér.

  Magnús spurði hvert erindið væri.  Jón sagði það ekki vera neitt.  Hann ætli bara að sitja þarna.  Hann hafi fullan rétt á því eins og hver annar Íslendingur.  Magnús spurði hvort hann eigi að kalla eftir kaffi handa honum.  Nei,  Jón sagðist ekki vera kominn til að sníkja kaffi eða annað.  Þvert á móti sagði hann Magnúsi að láta veru sína ekki trufla hann frá störfum.  "Sinntu þínum störfum.  Láttu mig ekki trufla þig.  Ég ætla bara að sitja hérna á meðan."

  Magnús fór að blaða í möppum og reyndi að leiða Jón hjá sér.  Jón sat beint fyrir framan hann og horfði stíft á hann.  Tvisvar eða þrisvar reyndi Magnús að hefja spjall við Jón.  Jón endurtók þá fyrri setningar.  "Sinntu þínum störfum.  Láttu mig ekki trufla þig."

  Jón sagði Magnús hafa orðið lítið úr verki.  Hann hafi gjóað til sín augum af og til og orðið taugaveiklaðri og aumari með hverjum klukkutíma sem leið.  Að lokum tilkynnti Magnús að vinnudegi sínum væri lokið.  Jón stóð þá upp,  opnaði dyrnar og kvaddi hátt og kurteislega til að aðrir heyrðu. 

  Rúsínan í pylsuendanum, að sögn Jóns,  var er hann gekk framhjá konunni í afgreisðlunni.  Hann kvaddi hana í leiðinni.  Hún leit á úr sitt og varð að orði:  "Þið hafið greinilega haft um margt að spjalla."

---------------------------------------

Fyrri frásagnir af Jóni Þorleifssyni: 

Afmælishóf Dagsbrúnar

Kastaði kveðju á forsætisráðherra
Illa leikinn af verkalýðsforingja
Verkalýðsforingi hrekktur 1. maí
Á kosningadag
Kveðju kastað á Guðrúnu Helgadóttur

 

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.