Færsluflokkur: Bækur
7.2.2012 | 22:29
Jón Þorleifsson - VI
Ég held áfram að rifja upp sögur af rithöfundinum og verkamanninum Jóni Þorleifssyni. Fyrir neðan eru hlekkir á eldri sögur af Jóni. Það er eiginlega nauðsynlegt að lesa þær fyrst til að átta sig á þessum merka manni. Á gamals aldri fór hann að skrifa bækur. Þær bækur eru fjölbreyttar. Allt frá ljóðabókum til sjálfsævisöguminninga og skáldsagna.
Jón sótti um inngöngu í Rithöfundasambandið. Guðrún Helgadóttir, þingkona og vinsæll barnabókahöfundur, lagðist af þunga gegn félagsaðild Jóns. Hún taldi bækur hans vera hatursáróður gegn nafngreindum mönnum en ekki verðugar bókmenntir. Þess ber að geta að Guðrún kannaðist lítið við þetta í einkasamtölum við Jón. En hann hafði áreiðanlega heimildarmenn fyrir því hvernig þetta gekk fyrir sig. Þorgeir Þorgeirsson, rithöfundur, staðfesti í mín eyru að Jón færi rétt með framgöngu Guðrúnar í að hindra félagsaðild Jóns að Rithöfundasambandinu.
Umsókn Jóns var hafnað. Það er ljótur blettur á sögu Rithöfundasambandsins. Jón tók þetta nærri sér og var afar ósáttur.
Eitt sinn í jólaös var boðið upp á skemmtidagskrá í verslun Máls og Menningar á Laugarvegi. Þarna komu fram tónlistarmenn og lesið var upp úr bókum. Ég vissi ekki af þessu en átti leið hjá. Það var troðið út úr dyrum. Þegar ég kom að voru tónlistarmenn að ljúka sinni dagskrá. Kynnir gekk að hljóðnema og kynnti Guðrúnu Helgadóttur, sem var að senda frá sér bók. Kynnirinn endaði kynninguna á orðunum: "Við bjóðum Guðrúnu Helgadóttur velkomna á svið!"
Áheyrendur klöppuðu og Guðrún steig á svið. Þá heyrðist Jón - í þvögu áheyrenda - hrópa hátt og snjallt (hann myndaði "gjallarhorn" með lófunum): "Það bjóða ekki allir hana velkomna! Það bjóða ekki allir hana velkomna! Stattu fyrir máli þínu ef þú þorir!"
Það var eins og einhverjir hefðu átt von á þessu upphlaupi Jóns (kannski hafði eitthvað þessu gerst áður). Tveir stæðilegir menn stukku eldsnöggt að Jóni og hentu honum út á götu. Þar hitti ég Jón. Hann var ánægður og sagði sigri hrósandi: "Mér tókst að eyðileggja stemmninguna fyrir helvítis kellingunni!"
-------------------------------
Fyrri frásagnir:
Bækur | Breytt 9.2.2012 kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.2.2012 | 20:13
Smásaga um baráttu góðs og ills
Það er stóri dagurinn í Litla-Koti. Dagurinn er kallaður stóri dagurinn þegar kúnum er hleypt út úr fjósi í fyrsta sinn að vori. Bóndinn er taugaveiklaður og áhyggjufullur vegna þessa. Börnin sjö raða sér í kringum morgunverðarborðið. Bóndinn sest við innri enda borðsins. Frúin er á þönum á milli borðs og ísskáps, borðs og eldavélar, borðs og brauðskúffu.
Bækur | Breytt 24.3.2013 kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.1.2012 | 21:59
Jón Þorleifsson - V
Hér fyrir neðan eru hlekkir á fyrri frásagnir af Jóni Þorleifssyni, verkamanni og rithöfundi. Það er ástæða til að fletta upp á þeim í réttri röð fyrir þá sem ekki þekktu þennan merka mann áður en lengra er haldið. Og kannski líka fyrir þá sem þekktu hann.
Jón hafði andúð á stjórnmálastéttinni eins og hún lagði sig. Hann mætti jafnan á kjörstað og tók sér góðan tíma í að skrifa á kjörseðil skilaboð til stjórnmálastéttarinnar í bundnu formi. Þó brá svo við eitt sinn að hann greiddi atkvæði. Þegar Jón var að yfirgefa kjörstað hitti hann einn af frambjóðendum Alþýðubandalagsins. Ég man ekki hver það var. Mig hálf rámar í að það hafi verið Magnús Kjartansson. Samt er ég ekki viss. Sá kastaði kveðju á Jón og spurði hvort hann væri búinn að kjósa.
Jón játti því. Sagðist í fyrsta skipti í langan tíma hafa merkt við framboðslista. Viðmælandinn spurði hvort að Jón hefði kosið rétt. Jón svaraði: "Ég veit það ekki. Ég kaus Alþýðubandalagið."
Viðmælandinn tók í hönd Jóns og þakkaði honum fyrir atkvæðið. Jón svaraði: "Þetta var mér nauðung. Eina ástæðan fyrir því að ég kaus Alþýðubandalagið var að fá tækifæri til að strika yfir þitt nafn.
---------
Bækur | Breytt 29.1.2012 kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.12.2011 | 22:10
Tvær góðar en ólíkar
Fyrir nokkrum dögum birti ég sýnishorn af gamansögum Helga Seljan úr bókinni 1001 gamansaga. Það má fletta upp á því með því að smella á þennan hlekk: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1210651/ Fólk hefur svo gaman af sögunum hans Helga að ég bæti hér nokkrum við:
Sá litli þurfti að fara á klósettið og amma hans hjálpaði
honum, en svo vildi sá litli sitja rólegur á klósettinu og
sagði ömmu sinni að hann myndi kalla í hana þegar hann
væri búinn. Ja, þú verður þá að kalla hástöfum því ég heyri
orðið svo illa. Svo líður dálítil stund og þá heyrist kallað:
Hástöfum, hástöfum, hástöfum.
Faðirinn var að kenna lítilli sex ára undirstöðuatriði í
stærðfræði. Hann teiknaði tvo pizzuhelminga, setti þá svo
saman og spurði þá litlu hvað þetta væri nú. Hún var svo
sem ekki að taka mikið eftir en sagði: Pabbi, svo skal ég
teikna pepperóne.
Manni litli kom til Valborgar kennara og sagði: Ég ætla
ekkert að vera að hræða þig, Valborg, en pabbi sagði að ef
ég kæmi ekki heim með betri einkunnir næst þá yrði einhver
flengdur.
Danni litli neitaði að borða kartöflurnar í kvöldmatnum
hvernig sem um var vandað við hann, jafnvel var sagt að
Guð yrði reiður ef hann borðaði ekki kartöflurnar. Um
nóttina vaknar Danni við vonskuveður með þrumum og
eldingum og þegar mamma hans fer að vitja um hann segir
Danni: Skárri eru það nú lætin út af fáeinum kartöflum.
Ungur drengur af Héraði kom á Seyðisfjörð. Þá komu
að honum nokkrir strákar og einn spurði hvaðan hann væri.
Hann sagði bæjarnafnið. Þá spurði einn ansi merkilegur með
sig: Er það næsti bær við helvíti? Héraðsdrengur ansaði:
Nei, Seyðisfjörður er á milli.
Djöflanýlendan er bandarísk háspennusaga eftir metsölubókahöfundinn James Rollins. Það sem gerir bókina sérlega áhugaverða fyrir Íslendingar er að Ísland kemur við sögu. Lesið meira um það með því að fara á Fésbókina og slá nafni bókarinnar inn sem leitarorði.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.12.2011 | 00:11
1001 gamansaga
Bókmenntaáhugi Íslendinga er aðdáunarverður. Það hefur þó lengi háð þeim að þurfa að vinna á daginn og stunda heimilisstörf á kvöldin. Nú hefur verið bætt úr þessu vandamáli. Skilningsríkir verslunareigendur eru farnar að hafa búðirnar opnar um nætur. Menn geta því sinnt bókainnkaupum alla nóttina. Sem þeir eru einmitt duglegir við. Ég minni í leiðinni á háspennubókina Djöflanýlenduna sem gerist að hluta á Íslandi.
Í fyrra kom út bráðskemmtileg bók sem heitir 1001 gamansaga. Það er Helgi Seljan sem tók sögurnar saman. Þær eru flestar sannar. Reyndar vantar upp á hvað gaman er að hlusta á Helga Seljan segja sjálfan frá. Hann er einstaklega skemmtilegur sögumaður. Sögurnar lifna við þegar hann segir frá. Það er upplagt að lauma bókinni með í jólapakkana. Hér eru nokkrar sögur úr henni:
Ekkjan kom til listmálara og bað hann að mála mynd af
eiginmanninum sáluga. Hún átti bara gamla, óskýra mynd
af honum, en fór að lýsa honum eins vel og hún gat. Svo
var myndin máluð og konan kom til að líta á hana: Mikið
er þetta góð mynd af honum en mikil ósköp hefur hann
samt breyst.
Dýralæknir var kallaður til gamallar konu sem hafði
áhyggjur af hvítu kisunni sinni sem virtist eitthvað lasin.
Dýralæknirinn sagði henni að kisa væri komin að því
að gjóta, en sú aldraða sagði það ekki geta verið, kisu
hleypti hún aldrei út og enginn högni hefði komið nálægt
henni. Í sama bili gekk bröndóttur fress inn á gólfið og
dýralæknirinn sagði þarna komna skýringuna. Þá sagði
gamla konan: Nei, það getur ekki verið, þetta er bróðir
hennar.
Þeir komu að kistulagningu föður síns og kom saman
um að karl faðir þeirra þyrfti einhvern farareyri. Tveir
bræðranna lögðu hvor sinn þúsundkallinn í kistuna, en
sá þriðji sagðist bara vera með ávísanahefti, skrifaði
ávísun upp á þrjú þúsund, lagði í kistuna og gaf sér báða
þúsundkallana til baka.
Dómarinn: Þú ert sakaður um að hæðast að lögreglunni.
Hverju svararðu því? Jú, herra dómari, lögreglumaðurinn
hellti sér svoleiðis yfir mig með óbótaskömmum og
svívirðingum að mér fannst eins og konan mín væri að tala
við mig og þá sagði ég ósjálfrátt: Já, já, elskan.
Trúboðinn, fullorðin kona, kemur inn á fjölmennan
vinnustað með plastbox undir hendinni og spyr þann fyrsta
sem hún hittir: Þekkir þú Jesúm, vinur minn? Maðurinn
kallar inn í vinnusalinn. Er einhver Jesús sem vinnur hér?
Mamma hans er komin með nestisboxið hans.
Ég ítreka og minni í leiðinni á háspennubókina Djöflanýlenduna sem gerist að hluta á Íslandi.
Bækur seljast upp á nóttunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Breytt s.d. kl. 02:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.11.2011 | 23:49
Hvor lýgur?
Bækur | Breytt 15.11.2011 kl. 00:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (67)
10.11.2011 | 22:45
Ísland sögusvið í útlendri háspennubók
Allir kannast við bandaríska metsölubókahöfundinn James Rollins. Bækur hans hafa verið gefnar út á hátt á fjórða tug tungumála. Nú bætist eitt við á næstu dögum. Háspennusaga hans, Djöflanýlendan, er að koma út í bók á íslensku. Það sem gerir fréttina ennþá skemmtilegri er að sagan gerist að hluta á Íslandi.
Bókin hefur fengið einstaklega lofsamlega dóma í Bandaríkjunum. Þannig hljómar dæmigerð umsögn:
"Hræðileg leyndarmál, andblær sögunnar, sagnaskáldskapur af bestu gerð, stanslaus spenna ... Enginn og ég meina enginn gerir þetta betur en Rollins." Lee Child
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.10.2011 | 00:04
Jón Þorleifs III
Fyrir nokkrum dögum hóf ég að blogga um Jón Þorleifsson, verkamann og rithöfund. Hann féll frá fyrir nokkrum árum, þá 96 ára. Mig langar til að halda minningu þessa merka manns á lofti. Áður en lengra er haldið bið ég ykkur um að smella á http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1197159/ til að fá forsöguna.
Í ofur styttu máli slasaðist Jón við vinnu. Hann fór á örorkubætur. Honum mislíkaði það. Vildi halda áfram að vinna. Hann lét færa sig yfir á atvinnuleysisskrá og óskaði eftir að fá létta vinnu þar sem bakmeiðsli væru honum ekki fjötur um fót.
Einn daginn fékk hann boð um að Guðmundur Jaki væri búinn að útvega honum vinnu. Jóni kom það á óvart. Þeir höfðu eldað grátt silfur saman. Þegar Jón mætti til vinnu reyndist um að vera vinna á loftbor. Þá vinnu gat maður með skemmt bak ekki unnið. Þetta var óþokkalegur hrekkur af hálfu Gvendar Jaka.
Í kjölfar var Jón skilgreindur þannig að hann hefði hafnað vinnu. Hann var tekinn af atvinnuleysisskrá. Þá reyndi hann að fá sig aftur skráðan sem öryrkja en var hafnað. Hann hafði sjálfur tekið sig af þeirri skrá. Það var ekki hægt að skrá sig út og inn af öryrkjaskrá að eigin geðþótta. Jón var bótalaus til margra ára. Honum til lífs varð að hann átti gott og dýrmætt bókasafn. Fyrstu útgáfur af ýmsum verðmætum bókum, sumar með eiginhandaráritun og svo framvegis. Þessar bækur seldi Jón hægt og bítandi fyrir gott verð. Salan á þeim var Jóni verulega þungbær svo bókelskur sem hann var.
Sumir segja að Jón hafi sjálfur sett sig í stöðu píslarvotts vegna þrákelni og stolts. Sennilega var eitthvað til í því. Jón var ekki tilbúinn að krjúpa á hnjám með betlistaf í hendi. Smjaður var ekki hans samskiptamáti við embættismenn né aðra. Hann krafðist réttar síns og barði í borðið. Stutt viðtöl hans við embættismenn breyttust iðulega á skammri stundu í harkalegt rifrildi.
Jón var alltaf fínn til fara og snyrtilegur. Jakkafataklæddur í stífpressuðum buxum. Hann sagðist ekki vera áhugasamur um fín föt. Hinsvegar væri ekki tekið mark á manni í gallabuxum. Honum væri nauðugur einn kostur að koma vel fyrir í klæðnaði til að mark væri á sér tekið.
1976 fór Júlía systir mín í ferð til Írlands, ung stelpa. Hún lenti í flugsæti við hlið Jóns. Hinu megin við hana í 3ja sæta röð sat ritstjóri Þjóðviljans. Á flugleiðinni út til Írlands dundaði Jón sér við að yrkja níðvísur um ritstjórann. Vísurnar fór hann með hátt og snjallt en ritstjórinn lét þær sem vind um eyru þjóta. Júlíu þótti þetta fyndið. Ritstjórinn hafði skömmu áður skrifað dóm um ljóðabók eftir Jón. Fyrirsögnin var "Heiftarvísur". Það lagðist illa í Jón. Hann kannaðist ekki við neinar heiftarvísur. Hann hafði aðeins ort vísur um menn og málefni og taldi sig vera lausan við heift. Ein vísan var um gamlan vinnuveitanda Jóns:
Hornstrandar-Hallvarður,
heimskur og kjöftugur.
Frekur og fláráður.
Fari hann bölvaður.
Þegar ljóðabókin kom út gerði Jón sér langa gönguferð til Hallvarðar og færði honum að gjöf eintak af bókinni. Jón benti Hallvarði á að það væri vísa um hann í bókinni. Hallvarður svaraði: "Þakka þér fyrir það, Jón minn." Jón hló vel og lengi er hann sagði frá þessu og var þess fullviss að Hallvarði hefði brugðið illilega þegar hann fór að lesa bókina.
Júlíu þótti öryggi í því, unglingi, að vera samferða Jóni í Írlandsferðinni. Þó að Jón kynni ekkert erlent tungumál ferðaðist hann mikið og var sjálfbjarga í þeim ferðum. Talaði bara íslensku erlendis og þótti sem útlendingum væri ekki of gott að reyna að skilja þetta eitt af elstu varðveittum tungumálum heims, íslensku. Eitt sinn eftir utanlandsferð varð Jóni að orði: "Mikið er ég feginn að hafa fæðst á Íslandi því íslenska er eina tungumálið sem ég skil."
Bækur | Breytt 28.1.2012 kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.10.2011 | 22:48
Örstutt leikrit um skóbúð
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2011 | 12:37
Skilur þú konur?
Margir, þar á meðal karlmenn, hafa kvartað sáran undan því að eiga erfitt með að skilja konur. Þeir skilja ekki upp né niður í þeim. Maðurinn á ljósmyndinni hér fyrir neðan er einn af þeim ljónheppnu. Hann komst í þessa bók sem hefur að geyma upplýsingar um það hvernig skilja megi konur. Að vísu er þessi bók aðeins útdráttur úr raunverulegu bókinni. Eða öllu heldur bókaflokknum því samtals eru þetta 112 bækur. En útdrátturinn er fyrsta skrefið. Hann gefur vísbendingu.
Bækur | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)