Færsluflokkur: Lífstíll
14.1.2016 | 14:20
Blindfull
Um árámótin hlaut breskur barþjónn verðlaunin Wetherspoon Perfect Server. Það eru ekki fréttir út af fyrir sig. Einhver breskur barþjónn fær árlega þessi verðlaun. Ekki samt alltaf sá sami. Það sem er fréttnæmt nú er að verðlaunahafinn er blind kona. 54. ára amma í þokkabót.
Júlía Richards var hjúkrunarkona. Þegar hún blindaðist skipti hún um starf. Gerðist barþjónn. Hún er gleggri á gesti en aðrir barþjónar. Hún þekkir lyktina af þeim, skóhljóð þeirra, rödd og man hvaða drykk þeir vilja. Áður en þeir hafa lokið við að bjóða gott kvöld er hún búin að rétta þeim BLINDfullt bjórglas í lúkur. Afgreiðsla hennar gengur þess vegna mun hraðar fyrir sig en hjá öðrum.
Lífstíll | Breytt 18.1.2016 kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.1.2016 | 21:34
Belgískur rokkunnandi fjallar um íslenskt rokk
Wim Van Hooste heitir maður. Hann er frá Belgíu. Hefur verið búsettur á Íslandi síðustu ár. Hugfanginn af íslenskri rokkmúsík. Einkum pönkaðri senunni. Hann hefur meðal annars haldið upp á afmæli kvikmyndarinnar Rokk í Reykjavík.
Með því að smella á HÉR má finna umfjöllun hans um íslenska rokkmúsík síðustu ára. Mjög svo lofsamlegt og áhugavert dæmi.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2016 | 22:22
Hvert skal halda 2016?
Breska dagblaðið Daily Mail hefur tekið saman lista yfir heitustu staðina til að heimsækja 2016. Heitustu í merkingunni girnilegustu, ætla ég. Listinn spannar tíu staði. Hver um sig er kynntur með fögrum orðum. Sannfærandi rök eru færð fyrir veru þeirra á listanum. Það er ekki gert upp á milli áfangastaða í uppröðun í sæti.
Að sjálfsögðu trónir Ísland á listanum. Fyrirsögnin er Iceland´s Warm Front (Íslands heita framhlið). Landinu er lýst sem afar framandi undri. Þar megi finna staði sem gefi þá upplifun að maður sé staddur á tunglinu. Höfuðborgin, Reykjavík, sé umkringd töfrandi fossum, jöklum, eldfjöllum og norðurljósum.
Mælt er með því að ferðamenn tjaldi úti í íslenskri náttúru. Þeir skuli þó einnig gefa sér góðan tíma til að ræða við innfædda. Viðhorf Íslendinga til lífsins og tilverunnar séu "ja, öðruvísi" (well, different).
Vísað er á tilboðsferð til Íslands með Easy Jet. Flug og vikudvöl á 3ja stjörnu Bed & Breakfast kosti rösklega 77 þúsund kall (412 pund). Það er assgoti girnilegur pakki. Geta Wow og Icelandair ekki boðið betur?
Daily Mail klikkar á að nefna goshverina, álfabyggðir og Bláa lónið. Alveg á sama hátt og í annars ágætu myndbandi, Inspired by Iceland, vantar sárlega álfa og norðurljós.
Hinir staðirnir sem Daily Mail mæla með eru: Noregur, Þýskaland, Bali, Sri Lanka, Ibiza, Perú, Verona, Mozambik og Bequia. Enginn jafn spennandi og Ísland.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.1.2016 | 21:59
Fólskuleg árás
Sólin skein samviskusamlega upp á hvern dag í Alicante. Það var hlýtt og notalegt. Það var ljúft að sitja úti á gangstétt með einn til tvo kalda á kantinum. Njóta sólarinnar og hugsa til Íslands. Sjá fyrir sér íslenska snjóskafla, hrímaðar bílrúður og frostbarða Íslendinga.
Ég sat aldrei á sjálfri gangstéttinni heldur á stól. Síðdegis þrengdust kostir. Verslunum og veitingastöðum var lokað hverjum á fætur öðrum í tvo til þrjá klukkutíma í senn. Sumum klukkan eitt. Öðrum klukkan tvö. Þá voru Spánverjar að taka sinn reglubundna síðdegislúr. Svokallaðan "síesta". Mér varð að orði:
Spánverjar spígspora um götur
og spjalla um allt það besta
sem á dagana hefur drifið
og dorma svo í síesta.
Rannsóknir hafa sýnt að síðdegislúrinn sé hollur. Í honum hleður líkaminn batteríin svo munar um minna. Þetta vissu íslenskir bændur fyrr á tíð.
Fyrstu nóttina í Alicante varð ég fyrir fólskulegri árás. Ég varð þó ekki var við neitt fyrr en að morgni. Þá sá ég að moskítóflugur höfðu bitið mig. Fyrst voru bitsárin varla sýnileg. En þeim fylgdi kláði. Á næstu dögum urðu þau sýnilegri: Dökknuðu, stækkuðu, urðu dökkrauð og upphleypt. Kláðinn jókst og bitsárum fjölgaði á hverri nóttu.
Moskítóflugan er lúmsk. Hún felur sig. Bíður eftir ljósaskiptum og því að fórnarlambið sofni. Þá fer hún á stjá. Í svefnrofanum má heyra lágvært suð frá henni á flugi. Hún notar deyfiefni til að fórnarlambið verði einskis vart er hún sýgur úr því blóð.
Til að alhæfa ekki í óhófi þá er rétt að taka fram að karlflugan áreitir enga. Einungis kvenflugan.
Á heimleið var ég alsettur bitförum. Húðin líktist yfirborði pizzu. Það neyðarlega er að ég rek litla heildsölu og sel apótekum öfluga bitvörn í nettu úðaspreyi, Aloe Up Insect Repellent. Ég hafði enga rænu á að grípa hana með mér til Spánar. Í apótekum í Alicante fann ég "roll on" sem átti að gera sama gagn. Það gerði ekkert gagn. Nema síður sé. Sólvarnarkrem í þarlendum apótekum eru sömuleiðis algjört drasl.
Ég ráðlegg væntanlegum Alicante-förum að grípa með sér frá Íslandi góðar sólarvörur og bitvörn. Ekkert endilega Aloe Up, Banana Boat eða Fruit of the Earth. Eða jú.
Lífstíll | Breytt 9.1.2016 kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.1.2016 | 19:19
Ævintýri í Suðurhöfum
Fyrir jól var veðurspá kaldranaleg. Vetrarhörkur voru boðaðar; hörkufrost á fróni. Viðbrögð mín voru þau að flýja suður um höf. Veðurspá fyrir Alicante á Spáni var notaleg, 16-20°. Í þann mund er ég hélt upp á flugvöll ræddi ég við systir mína, búsetta á Spáni. Hún benti mér á að hitatalan segi aðeins hálfa sögu. Vegna loftraka sé kaldara en ætla megi. 16-20° hiti í Alicante bjóði ekki upp á stuttbuxur og hlýrabol.
Ég skellti þegar á mig hnausþykkri prjónahúfu, vafði trefli um háls, tróð mér í lopapeysu, föðurland og fóðraða leðurhanska. Kuldaúlpa með loðfóðraðri hettu tryggði að ekki myndi slá að mér.
Á flugvellinum í Alicante var ég best dúðaður af öllum. Enginn var léttklæddur. Enda gustur úti. Verra var að enginn talaði ensku. Hinsvegar hefur fólkið þarna náð tökum á spænsku. Sérlega var aðdáunarvert að heyra hvað ung börn tala góða og fumlausa spænsku. Það kom mér ekki að gagni. Ég kann ekki spænsku.
Vandræðalaust fann ég strætó sem samkvæmt korti átti leið að hlaðvarpa gistiheimilis míns. Þegar á reyndi stoppaði hann fjarri áfangastað. Allir farþegar yfirgáfu vagninn möglunarlaust. Nema ég. Bílstjórinn talaði ekki ensku fremur en aðrir. Hann brá sér í hlutverk ágæts látbragðsleikara þegar ég kvartaði undan því að vagninn væri ekki kominn á áfangastað. Um leið ýtti hann lauslega við mér til að koma mér út úr vagninum. Það gekk treglega framan af. Svo var eins og skepnan skildi. Ljóst var að vagninn færi ekki lengra. Kannski var þetta síðasti vagn leiðarinnar. Klukkan nálgaðist miðnætti.
Ég skimaði þegar í stað eftir stóru hóteli. Þar er yfirleitt hægt að finna leigubíl. Sem gekk eftir. Leigubíllinn kostaði 700 ísl. kr. Ég hefði alveg eins getað tekið leigubíl frá flugstöðinni. Strætóinn kostaði 540 ísl. kr.
Innritunarborð gistiheimilis míns lokar á miðnætti. Ég rétt slapp inn í tæka tíð. Fyrsta fólkið sem ég hitti á gistiheimilinu var ungt íslenskt par, Ásthildur og kólumbískur Íslendingur. Einu Íslendingarnir sem ég hitti á Alicante.
Meira á morgun.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.12.2015 | 18:53
Jóla- og nýggjársheilsan
Eg ynskir tær og tinum eini gleðilig og hugnalig jól og eitt vælsignað og eydnuberandið nýggjár, við tökk fyri tað brátt farna.
Lífstíll | Breytt 7.1.2016 kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.12.2015 | 10:07
Glútenfrí matvæli eru óþverri
Í huga margra er samasemmerki á milli glútenfrírra matvæla og hollustu. Ekkert er fjær sanni. Glútenfrí matvæli eru óhollur óþverri. Eina ástæðan fyrir því að einhver ætti að borða glútenfrí matvæli er þegar viðkomandi þjáist af glútenóþoli. Fylgikvillar þess að snæða glútenfrían mat eru margir. Þar á meðal hætta á krabbameini í meltingarvegi og hvítblæði. Margar glútenfríar vörur eru ekkert annað en næringarlaus sterkja án trefja og próteina.
Lífstíll | Breytt 9.11.2016 kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.12.2015 | 21:30
Hvar var hitt eista Hitlers?
Um það bil sem drengir verða kynþroska þá ganga eistu niður í pung. Það gerðist ekki í tilfelli Hitlers. Bestu þuklarar 3ja ríkisins fundu aldrei nema annað eista Hitlers. Gátan hefur aldrei verið leyst. Hvar var hitt eistað? Það fannst aldrei þrátt fyrir margskoðaða og mikla leit.
![]() |
Hitler var með eitt eista |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 8.11.2016 kl. 19:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
17.12.2015 | 13:10
Alþingismenn eru að reyna að taka sig á
Á síðustu árum hafa alþingismenn reynt að taka sig á. Þeir hafa reynt að draga úr áfengisneyslu á vinnustað. Það ber að virða. En þetta er erfitt. Freistingar kalla á hverju húshorni. Alþingi er umkringt vínveitingahúsum. Það er eðlilegt. Þar blómstra viðskiptin mest og best. Þetta er keðjuverkun.
Betur hefur gengið í baráttunni við sniffið. Við bankahrunið 2008 varð einnig hrun á því. Þar var um keðjuverkun að ræða. Framboð dróst saman. Banksterarnir í stuðningsmanna- og vinahópnum hættu að bjóða hægri vinstri. Einnig hafði uppstokkun í þingliði vorið 2009 töluvert að segja. En þetta er snúið. Venjuleg manneskja getur eiginlega ekki verið allsgáð í Alþingishúsinu.
![]() |
Svona áburður er óþolandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.12.2015 | 10:52
Þarf að endurskoða reglur MMA?
Áflog í MMA (mixed martial arts) eru góð skemmtun. Þar tuskast hraustir menn. Sjálfviljugir. Þeir eru valdir saman sem jafningjar. Eða því sem næst. Fyrir bragðið getur glíman orðið verulega spennandi. Það getur munað dagsforminu einu hvor nær yfirhönd í atinu áður en upp er staðið.
Eitt er pínulítið truflandi við MMA. Það er þessi árátta margra að berja keppinautinn í höfuðið. Aftur og aftur. Jafnvel yfir 140 sinnum í einum bardaga. Þó að ég hafi unnið í Sláturhúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar þá þykir mér óþægilegt að horfa á blóðugt andlit. Ekki síst þegar haldið er áfram að lemja í það í heilar þrjár lotur. Það er spurning hvort að ástæða sé til að endurskoða reglur í MMA. Einkum í þá átt að draga úr höfuðhöggum. Gott skref væri að leyfa keppendum að bera íslenska prjónahúfu til að verja heilasvæðið.
Öll þekkjum við einstaklinga sem stunduðu barsmíðar með hnúum og hnefum í götubardögum á unglingsárum. Eða öllu heldur kýldu og spörkuðu á skemmtistöðum. Á dansleikjum og hljómleikum. Þeir sem sóttu stífast í atið búa í dag við áberandi CTE heilabilun.
Einkennin eru hvimleið: Árásagjörn hegðun, stuttur kveikjuþráður, hvatvísi, dómgreindarskortur, rangar ákvarðanir, rugl, minnisgloppur, kvíði og þunglyndi.
![]() |
Heilabilun afleiðing höfuðhögga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 4.11.2016 kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)