Færsluflokkur: Ferðalög
7.8.2019 | 00:01
Lúxusvandamál Færeyinga
Skemmtilegt er að fylgjast með uppganginum í Færeyjum síðustu árin. Íbúum fjölgar árlega um 3%. Nú eru þeir að nálgast 52000. Sífellt fækkar þeim sem flytja frá eyjunum. Að sama skapi fjölgar þeim sem flytja aftur heim eftir búsetu erlendis.
Til viðbótar eru Færeyingar frjósamasta þjóð í Evrópu. Að meðaltali eignast færeyskar konur 2,5 börn. Íslenskar konur eignast aðeins 1,7 börn. Það dugir ekki til að viðhalda stofninum. Tíðni hjónaskilnaða í Færeyjum er sú lægsta í Evrópu.
Ferðamönnum hefur fjölgað mjög að undanförnu. Ríkissjóður fitnar sem aldrei fyrr. Tekjur hans uxu um rúm 20% í fyrra. Útsvarstekjur sveitarfélaga jukust um rúm 15%. Fyrir bragðið geta bæði ríki og sveitarfélög kastað sér í allskonar framkvæmdir. Fjöldi gangna eru í smíðum og enn fleiri fyrirhuguð. Göng til Suðureyjar verða lengstu neðansávargöng í heimi. Ekki er frágengið hvaðan þau liggja. Kannski verða þau 26 kílómetrar. Kannski styttri. En samt þau lengstu.
Sífellt fjölgar fögum og námsbrautum á háskólastigi. Æ færri þurfa að sækja framhaldsnám til útlanda.
Útlánsvextir eru 1,7%.
Uppsveiflan í Færeyjum veldur ýmsum lúxusvandamálum. Til að mynda skorti á heimilislæknum, leikskólaplássum og húsnæði. Hvort heldur sem er íbúðum til kaups eða leigu, svo og hótelherbergjum. Sem dæmi um skortinn þá er í byggingu blokk í Klakksvík. Í henni eru 30 íbúðir. 350 sóttu um að fá að kaupa. Skorturinn hefur þrýst upp húsnæðisverði og leigu.
Allt stendur þetta til bóta. Hús af öllu tagi eru á byggingarstigi: Skólahús, hótel, íbúðahús, iðnaðarhúsnæði, landspítala, leikskóla og svo framvegis. Þetta hefur leitt til skorts á vinnuafli í byggingaiðnaði. Það er sótt til Austurevrópu. Í fyrra var 525 Rúmenum veitt atvinnuleyfi í Færeyjum.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
17.5.2019 | 00:07
Fullur þingmaður
Eitt sinn er ég brá mér á Ólafsvökuna í Færeyjum þá var íslenskur alþingismaður í sömu flugvél. Bæði á leiðinni út og á heimleiðinni. Hann var blindfullur. Hann átti að ávarpa færeyska lögþingið. Hvernig það gekk fyrir sig hef ég ekki hugmynd um. Ég sá hann ekki aftur fyrr en á heimleiðinni. Þá var hann blindfullur. Hann stillti sér upp framarlega í vélinni og hóf að raða farþegum í sæti: "Sest þú hérna, góði minn" og "Sest þú þarna, góða mín." Fólkið hlýddi. Flugfreyjan stökk að honum og öskraði: "Hvern djöfulinn heldurðu að þú sért að gera? Allir eru með sætanúmerið sitt prentað á flugmiðann!"
Þingmaðurinn svaraði hinn rólegasti: "Ég var nú bara að reyna að hjálpa til."
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
1.5.2019 | 01:20
Skemmtilegt verðlag í Munchen
Ég er enn með hugann við Munchen í Þýskalandi eftir að hafa dvalið þar um páskana. Ísland er dýrasta borg í heimi. Munchen hefur til margra ára dansað í kringum 100. sæti. Verðlag þar er nálægt þriðjungi lægra en í Reykjavík að meðaltali. Auðveldlega má finna dæmi þar sem munurinn er meiri.
Ég fer aldrei inn í verslanir í útlöndum. Nema stórmarkaði. Já, og plötubúðir. Helstu útgjöld snúa að mat og drykk. Í stórmarkaðskeðju sem heitir Rewe fann ég Beck´s bjór á 94 kr. (0,69 evrur). Hálfur lítri. 4,9%.
Á Íslandi er Beck´s örlítið dýrari, 389 kall í ÁTVR. Taka má tillit til þess að hérna er hann 5%. Það telur.
1,5 lítra vatnsflaska kostar 41 kr. (0,30 evrur).
Glæsilegt morgunverðarhlaðborð kostar 667 kr (4,9 evrur).
Á gistiheimilinu sem hýsti mig kostar hálfur lítri af bjór úr krana á 340 kr. (2,5 evrur) fram á kvöld. Síðar um kvöldið hækkar verðið í 476 kr. (3,5 evrur).
Ég hef engan áhuga á fínum veitingastöðum. Nenni ekki að sitja og bíða eftir að matur sé eldaður. Kýs frekar mat sem þegar er eldaður. Ég gerði þó undantekningu er ég sá að á asískum veitingastað var boðið upp á stökka önd (crispy) með grænmeti og núðlum. Sá veislumatur kostar 803 kr. (5,9 evrur). Enginn málsverður kostaði mig 1000 kall. Sá dýrasti var á 952 kr. Það var lambakjöt í karrý.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.4.2019 | 20:55
Tilviljun?
Listafræðikennarinn minn í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á áttunda áratugnum var Björn Th. Björnsson. Hann var afskaplega skemmtilegur. Hann hafði sérstæðar kenningar um hitt og þetta og fylgdi þeim eftir af rökfestu. Ein var sú að ekki væri til neitt sem heiti tilviljun. Einhverjir mölduðu í móinn og tefldu fram sögur af meintum tilviljunum. Björn fór yfir dæmið lið fyrir lið. Ætíð tókst honum að greina fyrirbærið þannig að í raun hefði frekar verið tilviljun að þetta hefði ekki gerst.
Mér varð hugsað til Björns er ég var í Munchen um páskana. Þá sat ég á gistiheimilinu á spjalli við tvo aðra gesti; unga dömu frá Indlandi og ungan mann frá Afganistan. Hann er búsettur í Eistlandi. Þau höfðu aldrei áður hitts.
Fljótlega kom í ljós að bæði voru á leið til Írlands með haustinu. Norður-Írlands eða lýðveldisins? Dublin. Hvers vegna Dublin? Til að fara í skóla þar. Hvaða skóla? Þau reyndust vera á leið í sama skóla. Bæði göptu af undrun áður en þau ákváðu að verða Fésbókarvinir og halda hópinn. Til að byrja með myndu þau ekki þekkja neina aðra samnemendur skólans.
Tilviljun? Björn Th. hefði farið létt með að hrekja þá kenningu. Samt. Af 7,5 milljörðum jarðarbúa eru tveir unglingar - sem ekki þekktust - frá sitthvoru landinu á leið til Dublin í haust. Þeir voru samtímis á litlu gistiheimili í Munchen í Þýskalandi í örfáa daga. Þeir tóku tal saman. Ég giska á að hvorugur hafi lent á spjalli við fleiri en kannski 10 aðra gesti gistiheimilisins.
Ferðalög | Breytt 28.4.2019 kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
26.4.2019 | 07:03
Furðuleg lög
Ég fagnaði frjósemishátíðinni - kenndri við frjósemisgyðjuna Easter (Oester) - úti í Munchen í Þýskalandi. Næstum aldarfjórðungur er síðan ég kom þangað síðast. Margt hefur breyst. Á þeim tíma var fátítt að hitta einhvern enskumælandi. Allt sjónvarpsefni var á þýsku. Hvergi var hægt að kaupa tímarit, dagblöð eða annað lesefni á ensku. Í dag tala allir ensku. Í fjölvarpinu nást enskar sjónvarpsstöðvar. Í blaðabúðum fást ensk og bandarísk tímarit og dagblöð.
Á meðan rigndi í Reykjavík var steikjandi sólskin í Munchen alla daga. Það var notalegt. Ég var vel staðsettur mitt í miðbænum, við hliðina á umferðamiðstöðinni (central station). Þar inni sem og fyrir utan er ekki þverfótað fyrir veitingastöðum og allrahanda verslunum. Ég átti ekki erindi inn í eina einustu verslun, ef frá eru taldir stórmarkaðir og blaðsölustaðir.
Fyrsta daginn rölti ég um nágrennið; reyndi að átta mig á því og kortleggja það. Að því kom að ég þreyttist á röltinu og hitanum. Hvergi var sæti að sjá nema við veitingastaði. Ég tyllti mér á tröppur fyrir utan DHL póstþjónustu. Lét sólina skína á andlit og handleggi. Hún býr til D-vítamín á húðinni. Það kemur af stað kalkupptöku sem þéttir bein og styrkir hár, húð og tennur.
Ég var varla fyrr sestur en að mér snaraðist lögreglumaður. Hann tilkynnti mér að stranglega væri bannað að sitja á gangstéttum. Ég benti honum á að ég sæti á tröppum en ekki gangstétt. Hann hélt því fram að tröppurnar væru skilgreindar sem hluti af gangstétt. Ég stóð upp og spurði hver væri ástæðan fyrir svona banni. "Af því að þetta eru lög," útskýrði laganna vörður ábúðafullur á svip.
Þetta olli mér vangaveltum. Helst dettur mér í hug að lögunum sé beint gegn betlurum, útigangsmönnum og rónum. Að minnsta kosti sáust engir slíkir þarna. Það er sérstakt í miðbæ stórborgar (hálf önnur milljón íbúa). Reyndar varð einn betlari á vegi mínum. Hann var fótalaus en á stöðugu vappi. Rölti um á höndunum.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.3.2019 | 06:01
Furðulegur matur
Ég hef nokkrum sinnum sótt Svíþjóð heim. Reyndar aðeins Stokkhólm. Skemmtileg borg. Góðar plötubúðir. Góður matur. Víkur þá sögu að sænsku búðinni Ikea í Garðabæ. Henni er stýrt af röggsemi og útjónarsemi af Skagfirðingi. Fyrir bragðið er veitingastaður Ikea í Garðabæ sá vinsælasti í heiminum. Meðal snjallra trompa er að bjóða upp á fjölbreytta rétti mánaðarins. Jafnan eitthvað gott, ódýrt og spennandi.
Í þessum mánuði er boðið upp á furðulegan sænskan rétt, kartöflubollur, svokallaðar kroppkakor. Mér virtist sem þær samanstandi af hveiti og kartöflum. Kannski smá salti. Inni í hverri bollu er smávegis af svínakjöti. Þær eru löðrandi í bræddu smjöri og rjómaskvettu. Títuberjasulta bjargar því sem bjarga má. Þetta er furðulegur matur. Allir fyrri tilboðsréttir Ikea hafa bragðast betur. Undarlegt að Svíar sæki í þennan rétt. Kannski er hann hollur.
Samt. Það er alltaf gaman að prófa framandi mat.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.1.2019 | 00:02
Álit ferðamanns
Oft er gaman að heyra eða lesa hvernig útlendir ferðamenn upplifa Ísland. Á netmiðlinum quora.com spyr ung kona frá Singapore í fyrirsögn: "Hve dýrt er Ísland?" Hún svarar sér: "Stutta svarið er mjög."
Hún fór í 8 daga hringferð um Ísland. Kíkti á Vestfirði í leiðinni. Hún var í 5 manna hópi sem tók jeppa á leigu. Leigan var 134.200 kall. Hún hvetur aðra túrhesta á Íslandi til að ferðast saman í hópi til að halda kostnaði niðri. Jafnframt hvetur hún til þess að keypt sé bílatrygging. Framrúðan í bílnum sprakk vegna steinkasts.
Bensínkostnaður var 48.800 kr. Á veitingastöðum kostar aðalréttur um 3660 kr. Á móti vegur að bensínsjoppur selja heitt ruslfæði á borð við pylsur, hamborgara og franskar. Kostnaður er á bilinu 976 til 1220 kall. Mín athugasemd: Hið rétta er að pylsa kostar víðast á bilinu 400 - 450 kall. Kannski þarf 2 pylsur til að teljast vera máltíð?
Daman bendir á að hægt að kaupa samlokur í Bónus-verslunum. Sumar álíka verslanir selji líka heitan mat. Sennilega er hún að vísa til Krónunnar sem selur heitan kjúkling, sviðakjamma og þurusteik.
Gistikostnaður hverja nótt á mann var 9760 kall á mann. Notið greiðslukort, segir hún. Íslenskar krónur eru verðlausar utan Íslands.
Niðurstaða hennar: Já, Ísland er dýrt. En hverrar krónu virði!
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.1.2019 | 00:28
Fátæklegt jólaskraut
Gistiheimili sem ég dvaldi á í Toronto yfir jólin er staðsett í 2ja kílómetra fjarlægð frá miðborginni. Engu að síður gat ég ekki þverfótað fyrir spennandi veitingastöðum og óspennandi verslunum af öllu tagi. Ég tel mig lánsaman að hafa engan áhuga á verslunum - ef frá eru taldar matvöruverslanir sem selja vatn og dagblöð, svo og búðir sem selja bjór.
Í Toronto er bjór seldur í the Beer Store. Viðskiptavinurinn fær ekki að sjá neinn bjór þegar mætt er á svæðið. Hann gengur að afgreiðsluborði og tilkynnir afgreiðslumanneskju hátt og skýrt hvaða bjór hann vill kaupa. Afgreiðslumanneskjan bregður sér þá bak við luktar dyr. Nokkru síðar birtist hún aftur með bjórkippur í gráum plastpoka.
Mér skilst að aðrar verslanir selji annarsvegar léttvín og hinsvegar sterkt vín. Ég átti ekki erindi í þær. Sannreyndi ekki dæmið.
Í miðbæ Toronto var mikill og stórfenglegur jólamarkaður. Yfirgengilegar jólaskreytingar í ýktasta stíl. Þeim mun merkilegra er að þar fyrir utan fór lítið fyrir jólaskreytingum. Á gistiheimilinu sem ég dvaldi á var í setustofu plastjólatré. Um 1,5 metri á hæð. Um 30 cm þar sem það var breiðast. Ekkert skraut.
Á rölti mínu um nágrennið sá ég inn um glugga að sami stíll var í öðrum gistiheimilum og hótelum. Óskreytt jólatré og engar aðrar jólaskreytingar. Gengt gistiheimili mínu er vegleg verslunarmiðstöð (mall) með tilheyrandi matsölustöðum og verslunum. Hvergi örlaði á jólaskreytingum.
Í Toronto máttu íbúar henda jólatrénu út á stétt 7. janúar. Um leið máttu þeir henda út á stétt allskonar húsgögnum og tölvum. Sorphirðan er til fyrirmyndar.
Ferðalög | Breytt 11.1.2019 kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
4.1.2019 | 00:02
Gleðilegt nýtt ár!
Ég var í útlandinu. Eins og jafnan áður þá fagna ég sigri ljóssins yfir myrkrinu í útlöndum. Að þessu sinni hélt ég upp á hátíð ljóss og friðar í Toronto í Kanada. Toronto er alvöru stórborg, sú fjórða fjölmennasta í Norður-Ameríku. Telur 6 milljónir íbúa. Nokkuð vænn hópur. Íbúar Kanada eru 37 milljónir.
Toronto er friðsamasta og öruggasta borg í Ameríku. Sem er merkilegt vegna þess að hún liggur upp við New York. Þar kalla menn ekki allt ömmu sína þegar kemur að glæpatíðni.
Þetta var mín fyrsta heimsókn til Kanada. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hvað bresk áhrif eru mikil þarna. Munar þar einhverju um að æðsti þjóðhöfðingi Kanada er breska drottningin. Mynd af henni "prýðir" 20 dollara seðilinn. Fleiri Breta má finna á öðrum dollaraseðlum.
26 desember er stór dagur í Bretlandi. Hann heitir "Boxing Day". Þá ganga Bretar af göflunum. Breskar verslanir losa sig við afgangslager; kýla niður verð til að geta byrjað með hreint borð á nýju ári. Viðskiptavinir slást um girnilegustu kaup. Þaðan dregur dagurinn nafn sitt.
Í Kanada heitir 26. desember líka "Boxing Day". Í Toronto er hamagangurinn ekki eins svakalegur og í Bretlandi. Í og með vegna þess að fjöldi kanadískra verslana auglýsir og eru merktar stórum stöfum "Boxing Week". Lagerhreinsunin varir til og með 1. janúar.
Margir veitingastaðir bjóða upp á enskan morgunverð. Það er svo sem ekki bundið við Kanada. Hérlendis og víða erlendis má finna veitingastaði sem bjóða upp á enskan morgunverð. En það er bresk stemmning að snæða í Kanada enskan morgunverð og fletta í leiðinni dagblaðinu Toronto Sun. Það er ómerkilegt dagblað sem tekur mið af ennþá ómerkilegra dagblaði, breska The Sun. Þetta eru óvönduð falsfrétta slúðurblöð. Kanadíska Sun reynir pínulítið að fela stælinguna á breska Sun. Breska Sun er þekkt fyrir "blaðsíðu 3". Þar er ljósmynd og kynning á léttklæddum stelpum. Oft bara á G-streng einum fata. Í Toronto Sun er léttklædda stelpan kynnt í öftustu opnu.
Meira og mjög áhugavert varðandi kanadísk dagblöð í bloggi helgarinnar.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
25.9.2018 | 04:00
Auglýst eftir konu
Eftirfarandi frásögn svipar til brandara sem fór eins og eldur í sinu á níunda áratug síðustu aldar.
Færeyskur piltur, Klakksvíkingurinn John Petersen, fékk sér far með Dúgvuni, farþegabáti sem siglir á milli Klakksvíkur og Leirvíkur. Um borð keypti hann lakkrís og súkkulaðistykki. Sætaskipan er þannig að allir sitja til borðs með öllum. Ókunnug stúlka settist við sama borð og John. Skyndilega tekur hún sig til og brýtur vænan bita af súkkulaðinu. Honum þótti þetta "ódönnuð" framkoma. Lét samt eins og ekkert væri og fékk sér sjálfur vænan súkkulaðibita. Hún braut sér annan bita. Þá fór að síga í John. Til að tapa ekki restinni upp í stúlkuna gerði hann sér lítið fyrir og sporðrenndi henni með látum eins og langsoltinn hundur.
Kominn á land í Leirvík varð John á að fálma í úlpuvasa sinn. Þar fann hann súkkulaðið ósnert. Rann þá upp fyrir honum að hann væri dóninn. Ekki stúlkan. Hann hafði étið súkkulaði hennar. Hún var horfin úr sjónmáli. Þess vegna hefur hann nú tekið til bragðs að auglýsa eftir henni. Honum er í mun að biðjast afsökunar og útskýra hvað fór úrskeiðis.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 06:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)