Færsluflokkur: Spil og leikir

Hugljúf jólasaga

  Sveinn hét maður. Hann var stórskorinn, brúnaþungur en hokinn í herðum;  nefið breitt og eyru útstæð.  Hann var náfrændi fjarskylds ættingja síns vestur á fjörðum. Þeir þekktust ekkert og eru nú báðir úr sögunni.

  Víkur þá sögu að vinnufélögunum Kolla og Tóta. Að löngum vinnudegi loknum plataði Kolli Tóta til að skutla sér heim. Gulrótin sem hann notaði var að lofa Tóta að bjóða honum upp á kaffi og döðlu. Sem hann sveik þegar á reyndi. Hann átti ekki einu sinni döðlu. Komnir heim að hrörlegum tveggja hæða kofa Kolla sótti hann stiga sem lá við húshliðina og reisti hann upp við framhliðina.

  - Viltu styðja við stigann, Tóti minn? Hann á það til að renna út á stétt.

  - Ekkert mál. Tóti greip þéttingsfast um stigann.

  Kolli brá við skjótt og sparkaði í gegnum rúðu í kjallaraglugga. Hún mölbrotnaði. Hann gerði sig líklegan til að skríða inn um opið. Tóti kallaði:

  - Ertu ekki með lykil að útidyrunum?

  - Jú, en mér þykir skemmtilegra að fara svona inn í húsið. Reyndar eru útidyrnar ólæstar. Nú fæ ég nóg að gera við að setja nýja rúðu í kjallaragluggann. Alltaf gott að hafa eitthvað fyrir stafni. Vinna göfgar.

  - En hvað með stigann?

  - Það er ekkert með hann. Bara reisn yfir því að sjá myndarlegan mann styðja við stiga sem enginn er að nota.

  Í þeim töluðu orðum stakk Kolli sér inn um gluggann. Hann veinaði skrækum rómi er glerbrotin skáru í útlimi. Svo hlunkaðist hann blóðrisa á gólfið. Samstundis spratt hann upp eins og stálfjöður; stangaði vegg, rotaðist í tæpar tvær mínútur og stakk síðan ringluðu höfðinu út um gluggann. Þeir félagarnir brustu þegar í stað í kröftugan söng svo undir tók í fjöllunum: "Bráðum koma blessuð jólin..."

jólatré


Ennþá fleiri gullmolar úr "Ekki misskilja mig vitlaust!"

  "Þrír skór á verði tveggja."  Útvarpsauglýsing frá íþróttavöruversluninni Under Armour vorið 2018.

  "Komið þið sæl - ég verð því miður að afboða forföll á sambandsþingið - óska ykkur góðs gengis.  Kv. Vigdís."  Vigdís Hauksdóttir.

  "Það er hver höndin upp á móti annarri við að hjálpa hinni."  Þórarinn Kristjánsson frá Hólum í Geiradal að lýsa hjálpsemi sveitunga sinna.

  "Hann var frændi minn til fjölda ára,  flutti svo háaldraður til Reykjavíkur og lést þar á besta aldri."  Langi-Sveinn (Sveinn Sveinsson) vörubílstjóri á Selfossi.

  "Ég er í vandræðum með að fá föt á stelpuna því hún er svo ermalöng."  Ína frá Víðidalsá í Steingrímsfirði (Þorsteinsína Guðrún Gestsdóttir) að kaupa peysu á dóttur sína.

  "Þetta voru ekki góð mistök hjá Herði."  Bjarnólfur Lárusson í knattspyrnulýsingu á Stöð 2.

ekki misskilja mig vitlaust 


Fleiri sýnishorn úr bókinni "Ekki misskilja mig vitlaust!"

  Í síðustu færslu sagði ég frá nýútkominni bók,  "Ekki misskilja mig vitlaust!".  Hér eru nokkur sýnishorn úr henni:  

  "Í Kína eru mannréttindi brotin daglega á hverjum degi." Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, fréttakona hjá RÚV.

  "Það dregur úr vexti lambanna að slátra þeim of ungum."  Páll Zóphóníasson.

  "Hann hefur verið með meðfæddan galla frá fæðingu." Hörður Magnússon ,  íþróttafréttamaður Stöðvar 2.

   "Aðalverðlaunin eru ferð á páskamót sem Disney-garðurinn í París heldur í lok árs."  Karl Garðarsson,  fréttamaður á Stöð 2.

  "Ég get bara alveg sagt ykkur að hérna úti við vegamótin fórum við Reynir framhjá að minnsta kosti 100 manna hreindýrahópi."  Gugga Reynis á Vopnafirði.

  "Jæja,  þá erum við allir dánir, bræðurnir, nema ég og Gulla systir."  Árni á Brúnastöðum í Fljótum eftir jarðarför bróður síns á Siglufirði.

ekki misskilja mig vitlaust


Bráðskemmtileg bók

  Í vikunni kom út bókin "Ekki misskilja mig vitlaust!".  Hún inniheldur samantekt á spaugilegum mismælum og ambögum þjóðþekktra manna.  Einkum þeirra sem hafa mismælt sig í beinni útsendingu í ljósvakamiðlum. Líka er vitnað til annarra.  Til að mynda er titill bókarinnar sóttur í ummæli Guðbjarts Jónssonar.  Hann var löngum kenndur við veitinga- og skemmtistaðinn Vagninn á Flateyri.

  Allar tilvitnanir eru feðraðar.  Þær eru ekki uppdiktaður útúrsnúningur.  Það gefur textanum aukið vægi.  Fjölbreytni er meiri en halda mætti að óreyndu.  Margar tilvitnanir eru einnar línu setning.  Aðrar slaga upp í smásögur.  

  Þrátt fyrir að bókin sé aðeins um 80 blaðsíður þá er textinn það þéttur - án mynda - að lestur tekur töluverðan tíma.  Best er að lesa hana í áföngum.  Japla á textanum í smáum skömmtum.  Sum broslegustu mismælin eru þannig að maður áttar sig ekki á þeim við fyrsta lestur. Önnur er gaman að endurlesa og jafnvel brúka til gamans. 

  Höfundur bókarinnar er Guðjón Ingi Eiríksson.  Í formála segir hann meðal annars:  "Mismæli og ambögur ... og oft er útkoman algjör snilld!  Merkir jafnvel eitthvað allt annað en upp var lagt með og kitlar þá stundum hláturtaugarnar.  Tengist oft misheyrn og misskilningi og auðvitað öllu þar á milli."

  Sýnishorn:

  "Heilbrigðisráðherra tók ákvörðunina að höfðu samræði við lækna." Heimir Már Pétursson,  fréttamaður á Stöð 2.

  "Bíllinn er hálfur á hliðinni."  Telma Tómasson,  fréttakona á Stöð 2.

  "Nú eru allir forsetar þingsins konur í fyrsta sinn."  Páll Magnússon í fréttalestri í Ríkisútvarpinu.

ekki misskilja mig vitlaust

 

 


Talnaglögg kona

  Ég var að glugga í héraðsfréttablaðið Feyki.  Það er - eins og margt fleira - í eigu Kaupfélags Skagfirðinga.  Samt skemmtilegt og fróðlegt blað sem segir frá Skagfirðingum og Húnvetningum.  Þar á meðal Unu.  Ég skemmti mér vel við lestur á eftirfarandi.  Ekki kom annað til greina en leyfa fleirum að skemmta sér.

 

„Feykir, góðan daginn...“

„Já, góðan daginn, hvar sagðirðu að þetta væri?“

„Hjá Feyki. Get ég eitthvað gert fyrir þig?“

„Já, sæll. Ég ætlaði einmitt að hringja í Feyki.“

„Jæja.“

„Já, ég var að hugsa um að gerast áskrifandi. Hef reyndar lengi ætlað að gerast áskrifandi en betra er seint en aldrei, hehe...“

„Jáá, hvað segirðu, gerast áskrifandi, bíddu aðeins meðan ég næ mér í blað og blýant... hvað segirðu, hvert er nafnið?“

„Ég heiti nú Sigurveig Una Sólmundardóttir, fyrrum bókhaldari hjá...“

„Una segirðu... já, og kennitalan?“

„Kennitalan mín er einnmilljarður sexhundruðogellefumilljónir þrjúhundruðfimmtíuogáttaþúsund tvöhundruðfimmtíuogníu.“

„Ha? Hvað sagðirðu?!“

„Ég sagði einnmilljarður sexhundruðogellefumilljónir þrjúhundruðfimmtíuogáttaþúsund tvöhundruðfimmtíuogníu.“

„Já, hérna... kannski er best að fá bara hjá þér Visa-númerið. Ertu ekki annars með kreditkort Una?“

„Jú, það væri ljómandi gott væni, kreditkortanúmerið er fjórar trilljónir áttahundruðsextíuogsjöbilljarðar níuhundruðmilljarðar áttatíuogníumilljónir fimmhundruðþrjátíuogeittþúsund tvöhundruðfimmtíuogsex... Viltu fá endingartímann?“

„Nei, heyrðu Una, ég held ég biðji hana Siggu hérna í afgreiðslunni að hringja í þig í fyrramálið. Ég held það fari betur á því svo það verði enginn ruglingur. Hvað er símanúmerið hjá þér?“ „Jájá, ekkert mál væni minn. Númerið er... bíddu við... já, fyrst eru tvö núll og síðan er þetta bara þrírmilljarðar fimmhundruðtuttuguogáttamilljónir níuhundruðogfjórtánþú....“

„Takk, takk, Una. Við finnum þig á ja.is. Hún Sigga hringir í þig. Blessuð.“ 

 

una


Ný verslun, gamalt verð

  Í vikunni hafa stórar tveggja blaðsíðna auglýsingar birst í dagblöðum.  Þar er boðað að splunkuný verslun verði opnuð með stæl í dag (laugardaginn 1. september).  Gefin eru upp skapleg verð á skóm og fleiri vörum.  Svo skemmtilega vill til að einnig eru gefin upp önnur og hærri verð á sömu vörum.  Fyrir framan þau segir: Verð áður.  Hvernig getur búð vitnað í eldra verð sem gilti áður en hún var opnuð?  


Minningarorð um Kristínu Guðmundsdóttur

  Í dag er til moldar borin ástkær skólasystir,  Kristín Guðmundsdóttir í Grindavík.  Við vorum samferða í Héraðsskólanum á Laugarvatni á fyrri hluta áttunda áratugarins.

  Allir strákarnir í skólanum nema einn voru skotnir í Stínu.  Ekki aðeins vegna þess að hún var gullfalleg.  Líka vegna hennar geislandi persónuleika.  Hún var glaðvær,  jákvæð, hlý og afskaplega skemmtileg.

  Nemendum á Laugarvatni var mismunað gróflega eftir kynjum.  Drengjaheimavistir og stúlknaheimavistir.  Stranglega var bannað að flakka þar á milli.  Slík ósvífni kostaði brottrekstur úr skólanum.

  Stína bjó á heimavist sem hét Hlíð.  Nauðsyn braut lög.  Reglur viku fyrir ljúfum eftirmiðdögum um helgar.  Fátt var skemmtilegra en að heimsækja Stínu og vinkonur hennar síðdegis um helgar.  Bara að spjalla saman,  vel að merkja.  Ekkert annað.   Það var góð skemmtun.  Þarna varð til sterk lífstíðarvinátta.

  Fyrir nokkrum árum tókum við skólasystkini frá Laugarvatni upp á því að hittast af og til.  Meiriháttar gaman.  Skugga bar á síðasta endurfund er Stína var fjarri vegna baráttu við krabbamein.  Hennar er nú sárt saknað.  Ein skemmtilegasta og indælasta manneskja sem ég hef kynnst.  Ég er þakklátur fyrir frábær kynni.

 

KristínLaugarvatn


Örstutt smásaga um bílaverkstæði

  Stelpurnar á bílaverkstæðinu Þrjú hjól undir bílnum raða sér í kringum eldhúsborðið.  Það er kaffitími.  Sigga "litla" brestur í grát.  Hún grætur með hljóðum eins og kornabarn.  Hinar stelpurnar þykjast taka ekki eftir þessu.  Þetta gengur vonandi fljótt yfir.  Svo reynist ekki vera.  Hún gefur í.  Korteri síðar spyr Sigga "sprettur":  "Hvað er að?  Meiddir þú þig í tánni?"

  "Ég fékk uppsagnarbréf áðan,"  upplýsir Sigga "litla".  "Mér er gert að rýma skrifborðið mitt fyrir klukkan fimm."  Henni er eins og smávegis létt.  Nokkuð slær á grátinn.

  "En þú ert sú eina sem kannt á kaffivélina,"  mótmælir Sigga "stóra".  Hún fær þegar í stað kvíðakast.  Sigga "litla" róar hana:  "Þið getið notað hraðsuðuketilinn og skipt yfir í te."

  "Kakómjólk er líka góð," skýtur Sigga "sæta" að.  "Hún er sérlega góð með rjómatertu sem er skreytt með jarðaberjum og kíví.  Ég hef smakkað svoleiðis.  Ég hef líka smakkað plokkfisk."

  Kaffispjallið er truflað þegar inn þrammar stór, spikfeitur og tröllslegur maður.  Hann hefur rakað af sér vinstri augabrúnina.  Fyrir bragðið er léttara yfir þeim hluta andlitsins.  "Ég þarf að láta stilla bílinn minn," segir hann.

  "Stilla vélina?" spyr Sigga "litla" kjökrandi.

  "Nei, útvarpið.  Það er stillt á Rás 2.  Ég vil að það sé stillt á rás 1."

  "Ekkert mál.  Þú mátt sækja bílinn á föstudaginn í næstu viku."

  "Frábært!  Lánið þið manni bíl á meðan?"

  "Nei,  en við getum leigt þér reiðhjól.  Reyndar er það í barnastærð.  Á móti vegur að leigan er lág.  Aðeins 7000 kall dagurinn."

  "Ég hef prófað að setjast á reiðhjól.  Þá datt ég og fékk óó á olnbogann.  Kem ekki nálægt svoleiðis skaðræðisgrip aftur.  Ég kaupi mér frekar bíl á meðan þið dundið við að stilla á Rás 1." 

  "Þú getur líka keypt pylsuvagn.  Hérna neðar í götunni er einn til sölu."

  "Takk fyrir ábendinguna.  Þetta lýst mér vel á.  Ég skokka þangað léttfættur sem kiðlingur."  Hann kjagar umsvifalaust af stað.  Í vitlausa átt.

  Andrúmsloftið er léttara.  

  "Eigum við ekki að syngja kveðjusöng fyrir Siggu "litlu?",  stingur Sigga "sprettur" upp á.  Því er vel tekið.  Fyrr en varir hljómar fagurraddað  "Éttu úldinn hund kona,  éttu úldinn hund". 

  Þetta er svo fallegt að Siggu "litlu" vöknar enn og aftur um augu.  Hún hugsar með sér að úldið hundakjöt þurfi ekki endilega að vera síðra en þorramatur.  Kannski bara spurning um rétt meðlæti.

   Er síðustu söngraddirnar fjara út grípur Sigga "sprettur" tækifærið og biður Siggu "litlu" um að tala við sig undir fjögur augu.  Þær ganga út á mitt gólf. 

  "Hvað er málið með þennan brottrekstur?"

  "Ég fékk formlega viðvörun fyrir 3 mánuðum.  Mér var hótað brottrekstri ef ég bætti ekki mætinguna.  Þú veist að ég sef of oft yfir mig.  Vekjaraklukkan er til vandræða.  Hún gengur fyrir rafmagni.  Þegar rafmagni slær út þá fer klukkan í rugl."

  "Þú færð þér þá bara batterísklukku."

  "Ég get það ekki.  Ég á ekkert batterí."

  "Það er einhver skekkja í þessu.  Þú stofnaðir verkstæðið.  Þú ert eini eigandi þess og ræður öllu hérna.  Hvernig getur þú rekið sjálfa þig?"

  "Að sjálfsögðu hvarflar ekki að mér að mismuna fólki eftir því hvort að um eiganda eða óbreyttan launþega ræðir.  Annað væri spilling.  Svoleiðis gera Íslendingar ekki.  Hefur þú ekki lesið blöðin?  Ísland er óspilltasta land í heimi."

verkstæði 


Ljótur, ljótari...

  Á dögunum henti það í Norður-Karólínu í Bandaríkjum Norður-Ameríku að maður nokkur lýsti öðrum sem afar ljótum.  Ummælin bárust til viðkomandi.  Hann tók þau nærri sér.  Sameiginlegir kunningjar þeirra hvöttu orðhákinn til að lægja öldur með því að biðjast afsökunar á ummælunum.  Sá svaraði:  "Ef einhver ætti að biðjast afsökunar þá er það sá ljóti fyrir að vera svona ljótur!"

ljótur


Færeyskur húmor

  Færeyingar eru góðir húmoristar.  Þeir eiga auðvelt með að koma auga á eitthvað spaugilegt.  Þegar þeim dettur í hug eitthvað sprell þá framkvæma þeir það þrátt fyrir að stundum kalli það á mikla vinnu og fyrirhöfn.  Dæmi:

  Rétt utan við höfuðborgina,  Þórshöfn,  er risastór saltgeymsla eyjanna niður við sjó.  Þegar ekið er til eða frá Þórshöfn þá liggur þjóðvegurinn ofan við saltgeymsluna.  Þak hennar blasir við vegfarendum.  Einn mánudagsmorgun blasti við þeim að einhver eða einhverjir höfðu málað snyrtilega og fagmannlega stórum stöfum á þakið orðið PIPAR. 

  Þétt austur af Þórshöfn er Nólsey.  Hún tilheyrir sveitarfélaginu Þórshöfn.  Hún skýlir höfninni í Þórshöfn fyrir veðri og vindum.  Íbúar eru hátt í 300.  Margir þeirra vinna í Þórshöfn. 

  Í Færeyjum hefur til átta ára verið rekinn sumarskóli í kvikmyndagerð.  Í ár er hann starfræktur í Nólsey.  Af því tilefni brugðu tveir vinir á leik og settu í gær upp risastórt skilti á eyjunni með orðinu NÓLLYWOOD.  Framkvæmdin tók marga daga og var dýr.  En vinirnir segja að þetta sprell eigi að endast í mörg ár.

  Eins og glöggt má sjá á myndinni hér fyrir neðan þá er skiltið afrit af frægasta skilti í Los Angeles í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Neðst til vinstri á myndinni sést hús.  Af því má ráða hver stærð skiltisins er. 

Nólsoy

 

hollywood-sign


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband