Færsluflokkur: Spil og leikir

Kossaráð

  Kærustupör lenda iðulega í hremmingum þegar kossaárátta blossar upp hjá þeim.  Vandamálið er nefið.  Það er illa staðsett á miðju andlitinu.  Þar skagar það út í loftið eins og Snæfellsnes.  Við kossaflangsið rekast nefin venjulega harkalega saman.  Oft svo illa að á eftir liggur parið afvelta á bakinu með fossandi blóðnasir. Við það hverfur öll rómantík eins og dögg fyrir sólu.

  Þetta þarf ekki að vera svona.  Til er pottþétt kossaaðferð sem setur nefin ekki í neina hættu.  Hún er svona (smella á mynd til að stækka):

koss 


Hefur eignast lög sín eftir hálfrar aldar illindi og málaferli

  Forsagan er þessi:  Á sjöunda áratugnum haslaði bandarískur drengur,  Tom Fogerty,  sér völl sem söngvari.  Til undirleiks fékk hann "instrúmental" tríó yngri bróður síns,  Johns.  Samstarfið gekk svo vel að Tom og tríóið sameinuðust í nýrri hljómsveit sem hlaut nafnið Creedence Clearwater Revival. 

  Framan af spilaði hún gamla blússlagara í bland við frumsamin lög bræðranna.  Í ljós kom að John var betri lagahöfundur en stóri bróðir, betri söngvari og gítarleikari.  Að auki var hann með sterkar skoðanir á útsetningum og stjórnsamur.  Frábær söngvari og gítarleikari.  Frábær lagahöfundur.  Spilaði líka á hljómborð og saxafón.  

  Tom hrökklaðist úr því að vera aðalkall í að vera "aðeins" rythma gítarleikari á kantinum.  Ekki leið á löngu uns hann hætti í hljómsveitinni og hóf lítilfjörlegan sólóferil.  Á meðan dældi CCR út ofursmellum.  Að því kom að hryn-par (bassi, trommur) hennar bar sig aumlega undan ofurríki Johns og var með ólund.

  Hann bauð hryn-parinu að afgreiða sín eigin lög á næstu plötu CCR,  "Mardi Grass".  Það varð þeim til háðungar.  

  Í framhaldinu vildi John hefja sólóferil.  En hann var samningsbundinn plötufyrirtæki sem liðsmaður CCR.  Hann reyndi allra leiða til að rifta samningnum.  Án árangurs.  Hryn-parið og Tom stóðu þétt við bak plötufyrirtækisins.  Seint og síðar meir tókst John að öðlast frelsi með því að framselja til plötufyrirtækisins höfundarrétt vegna CCR katalógsins.  Þar með átti hann ekki lengur sín vinsælustu lög.  Allar götur síðan hefur hann barist fyrir því að eignast lögin sín.  Á dögunum upplýsti hann að loksins væri hann orðinn eigandi allra sinna laga eftir langar og strangar lagaflækjur.     

          


Drottning sveitasöngvanna hellir sér í rokkið

  Dolly Parton er stærsta nafn kántrý-kvenna.  Hún hefur sungið og samið fjölda sívinsælla laga.  Nægir að nefna "Jolene",  "9 to 5" og "I will always love you".  Síðast nefnda lagið er þekktara í flutningi Whitney Houston.  Fyrir bragðið vita ekki allir að höfundurinn er Dolly.

  Á dögunum fagnaði hún 77 ára fæðingardegi.  Að því tilefni datt henni í hug að söðla óvænt um og hella sér í rokkið.  Ekki seinna vænna.  Hún ætlar að vanda sig við umskiptin.  Gæta þess að verða ekki að athlægi eins og Pat Boone.  Sá sætabrauðskall reyndi um árið að endurheimta fyrri vinsældir með því að skella sér í þungarokk.  Útkoman varð hamfarapopp.

  Rokkplata Dollyar verður ekkert þungarokk.  Hún verður léttara rokk í bland við kraftballöður.  Þetta verða lög á borð við "Satisfaction" (Rolling Stones),  "Purple Rain" (Prince),  "Stairway to heaven" (Led Zeppelin) og "Free Bird" (Lynyrd Skynyrd). 

  Dolly dreifir ábyrgð yfir á gestasöngvara.  Þeir eru:  Paul McCartney, John Fogerty (Creedence Clearwater Revival),  Steven Tyler (Aerosmith),  Pink,  Steve Perry (Journey),  Stevie Nicks (Fleetwood Mac), Cher og Brandi Carlili. 

  Vinnuheiti plötunnar er "Rock star". 

 


Lisa Marie Presley

 Fyrir nokkrum árum var ég á flandri austur í Englandi.  Að mig minnir í Brighton.  Á sama gistiheimili bar að tvo unga menn.  Gott ef þeir voru ekki sænskir.  þeir voru að flakka þvers og kruss um England.  Á einni sveitakrá blasti við þeim kunnugleg bardama.  Þeir tóku hana tali og komust að því að hún væri Lisa Marie Presley,  dóttir Elvis Presley.

  Mér þótti sagan ótrúverðug.  Í fyrsta lagi var Lisa Marie bandarísk.  Allar slúðursögur af henni fjölluðu um hana í Bandaríkjunum með bandarísku fólki.

  Í öðru lagi var hún moldríkur erfingi föður síns.  Hún var auðmaður sem þurfti ekki að dýfa hendi í vatn.  Hvorki kalt né heitt. Hvers vegna ætti hún að strita á kvöldin við að afgreiða bjór á enskri krá?  Þetta passaði ekki.

  Drengirnir bökkuðu ekki með sína sögu.  Þeir sýndu mér ljósmyndir af sér með henni.  Ljósmyndir eru ekki pottþétt sönnunargagn.  Ég leitaði á náðir google.  Í ljós kom að dóttir rokkkóngsins var stödd á þessari sveitakrá.  Ensk vinhjón hennar ráku krána.  Lisu Marie þótti einfaldlega gaman að afgreiða á barnum. 

  Svo féll hún frá,  núna 12. jan,  aðeins 54 ára.

-----------------------

  Allt annað:  Í tilefni af Þorra: 

 

     


Ást í háloftunum

  Ég brá mér á pöbb.  Þar var ung kona.  Við erum málkunnug.  Við tókum spjall saman.  Hún var í flugnámi og ætlaði að taka próf daginn eftir.  Hún var með bullandi prófskrekk.  Sú var ástæðan fyrir pöbbarölti hennar.  Hún var að slá á skrekkinn.  

  Við höfðum ekki spjallað lengi er ungur maður settist við borðið hjá okkur.  Hann þekkti okkur ekki en var hress og kátur.  Hann sagðist vera nýskilinn að Vestan og það væri eitthvað eirðaleysi eða einmannleiki í sér. Tal beindist fljótlega að prófskrekknum.  Maðurinn sagði að prófið væri ekkert mál.  Hann væri flugmaður og gæti leiðbeint konunni daginn eftir.  Tók hún þá gleði sína og skrekkurinn fjaraði út.  Vel fór á með þeim og að lokum leiddust þau út í leigubíl.

  Nokkru síðar sagði bardaman mér að snurða hafi hlaupið á hjá skötuhjúunum.  Konan hafði komið grátandi á barinn og sagt farir sínar ekki sléttar.  Þau höfðu að vísu átt góða nótt.  En að lokinni heimaleikfimi um morguninn flýtti maðurinn að klæða sig.  Hann sagðist vera of seinn út á flugvöll.  Hann þyrfti að sækja konuna sína þangað.

  Bólvinkonan benti honum á að hann hefði sagst vera fráskilinn að Vestan.  "Ég var bara að vitna í dægurlag með Önnu Vilhjálms," svaraði hann hlæjandi.  "En hvað með flugprófið?"  spurði hún.  "Það var spaug,"  svaraði hann.  "Ég veit ekkert um flugvélar.  Ég er strætóbílstjóri!"    

flugvél


Sjaldan launar kálfur ofeldi.

  Ég þekki konu eina.  Við erum málkunnug.  Þegar ég rekst á hana tökum við spjall saman.  Hún er fátæk einstæð móðir 23ja ára manns.  Þrátt fyrir aldurinn býr hann enn heima hjá henni.  Hann er dekurbarn.  Konan er í vandræðum með að ná endum saman um hver mánaðarmót.  Eini lúxus hennar er að reka gamla bíldruslu.  Það er eiginlega í neyð.  Hún á erfitt með gang vegna astma og fótfúa.  Hún kemst ekki í búð án bílsins. 

  Núna um helgina varð hún á vegi mínum.  Hún sagði farir sínar ekki sléttar.  Kvöldið áður bað sonurinn um að fá bílinn lánaðan.  Honum var boðið í partý.  Konan tók vel í það.  Sjálf þurfti hún að fara einhverra erinda út í bæ.  Það passaði að sonurinn skutlaði henni þangað í leiðinni.  

  Er hún var komin á leiðarenda tilkynnti hún syninum að hann þyrfti að sækja sig um klukkan 11.  

  - Ekki séns,  svaraði kauði.

  - Hvað átt þú við?  Ég þarf að komast heim,  útskýrði konan.

  - Ég er að fara í partý.  Það verður nóg að drekka.  En það verður enginn ölvunarakstur.

  - Ég er að lána þér bílinn minn.  Þú skalt gjöra svo vel og sjá mér fyrir fari heim.

  - Þú verður að redda þér sjálf.  

  - Hvernig á ég að redda mér fari?  Ég get hvorki tekið strætó né gengið heim.

  - Hefur þú aldrei heyrt talað um taxa?  hrópaði sonurinn um leið og hann reykspólaði burt.  

taxi 


Rökföst

    Í gær ræddi ég við unga stúlku um jólin. 

  - Hvað verður í matinn hjá ykkur á aðfangadag?  spurði ég.

  - Það er alltaf tvíréttað;  lamb og svín,  svaraði hún.

  - En á jóladag?

  - Ég veit það ekki.  Enda er það ekkert merkilegur dagur!

  - Jú, jóladagurinn er eiginlega skilgreindur sem aðal jóladagurinn.

  - Í útlöndum,  já.  Á Íslandi er aðfangadagur aðal jóladagurinn.  Þá bjóðum við hvert öðru gleðileg jól; þá er mesta veislan og við opnum jólapakkana,  lesum á jólakort og leikum okkur.

  - Það er rétt hjá þér að þetta er misvísandi.  En orðið aðfangadagur þýðir að þetta sé dagurinn fyrir jóladag; aðdragandi jóla.

  - Hvers vegna heldur þú að í súkkulaðijóladagatalinu sé síðasti dagurinn 24. des?  25. des er ekki einu sinni í dagatalinu.

  Ég var mát!


mbl.is „Jólunum er aflýst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snúður og kjulli

  Börn, unglingar og fullorðnir hafa verulega ólík viðhorf til veislumatar.  Þegar ég fermdist - nálægt miðri síðustu öld - bauð mamma mér að velja hvaða veislubrauð yrði á boðstólum í fermingarveislunni.  Ég nefndi snúða með súkkulaðiglassúr.  Mamma mótmælti.  Eða svona.  Það var kurr í henni.  Hún sagði snúða ekki vera veislubrauð.  Svo taldi hún upp einhverja aðra kosti;  tertur af ýmsu tagi og einhverjar kökur.  Ég bakkaði ekki.  Sagði að snúður væri mitt uppáhald.  Mig langaði ekki í neitt annað.

  Leikar fóru þannig að mamma bakaði eitthvað að eigin vali.  Fyrir framan mig lagði hún hrúgu af snúðum úr bakaríi.  Ég gerði þeim góð skil og var alsæll.  Í dag þykir mér snúðar ómerkilegir og ólystugir.  Ég hef ekki bragðað þá í áratugi.

  Þetta rifjaðist upp þegar ég spjallaði í dag í síma við unglingsstelpu.  Hún á afmæli. Hún sagði mér frá afmælisgjöfum og hvernig dagskrá væri á afmælisdeginum.  Nefndi að um kvöldið yrði farið út að borða veislumat.  "Hvar?" spurði ég,  Svarið:  "KFC".  

snúðurkjuklingur 

 

 


Stysta heimsreisa sögunnar

  Miðaldra maður í Ammanford á Englandi átti sér draum um að fara í heimsreisu.  Í mörg ár undirbjó hann ferðalagið af kostgæfni.  Sparaði hvern aur og kom sér upp þokkalegum fjársjóði.  Er nær dró farardegi seldi hann hús sitt,  allt innbú og fleira og sagði upp í vinnunni.  Hann undirbjó nákvæma ferðaáætlun.  Endastöðin átt að vera New York.  Þar ætlaði hann að setjast á helgan stein í kjölfar 32.000 kílómetra vel skipulagðrar heimsreisu. 

  Síðustu daga fyrir brottför varði hann í að kveðja sína nánustu og vini.  Á lokakvöldinu sló hann upp kveðjuhófi.  Hann datt rækilega í það.  Skálaði ítrekað við gesti og gangandi.  Hver á fætur öðrum bað um orðið,  flutti honum mergjaðar kveðjuræður og óskuðu góðrar ferðar.  Sjálfur steig hann ítrekað í pontu og kastaði kveðju á viðstadda.  Samkoman stóð fram á nótt og menn voru farnir að bresta í söng.    

  Morguninn eftir lagði hann af stað í nýjum húsbíl.  Tveimur mínútum síðar - eftir að hafa ekið 1 og hálfan km - stöðvaði lögreglan hann.  Áfengi í blóði var þrefalt yfir leyfilegum mörkum.  Húsbíllinn var kyrrsettur.  Ferðalangurinn var sviptur ökuleyfi til hálfs þriðja árs.

 


Bestu hljómplötur allra tíma

  Bandaríski netmiðillinn Consequence hefur tekið saman og birt lista yfir bestu hljómplötur allra tíma.  Listinn ber þess að nokkru merki að vera tekinn saman af Bandaríkjamönnum.  Ég er alveg sáttur við valið á plötunum.  Aftur á móti er ég ekki eins sammála röðinni á þeim.  Til að mynda set ég "Abbey Road" í toppsætið. "London Calling" með The Clash set ég ofar "Rumours". Gaman væri að heyra álit ykkar.

  Svona er listinn:

1  Prince - Purple Rain 

2  Fleetwood Mac - Rumours

3  Bítlarnir - Abbey Road

4  The Clash - London Calling

5  Joni Mitchell - Blue

6  The Beach Boys - Pet Sounds

7  Kendrick Lamar - To Pimp a Butterfly

8  Radiohead - OK Computer

9  Marvin Gaye - What´s Going On

10 Nirvana - Nevermind

11 Lauryn Hill - The Miseducation of Lauryn Hill

12 Bob Dylan - Blonde on Blonde

13 The Velvet Underground - The Velvet Underground & Nico

14 Bítlarnir - Sgt, Pepper´s Lonely Hearts Club Band

15 David Bowie - The Rise and Fall of Ziggy Stardust

16 Bruce Springsteen - Born to Run

17 Patti Smith - Horses

18 Beyoncé - Lemonade

19 Talking Heads - Remain in Light

20 Kate Bush - Hounds of Love

21 Led Zeppelin - IV

22 Stevie Wonder - Songs in the Key of Life

23 Rolling Stones - Let it Bleed

24 Black Sabbath - Paranoid

25 Public Enemy - It takes a Nation of Millions to Hold Us Back


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband